Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Ólík yrki sólróta. Til er fjöldi yrkja og afbrigða af sólrót sem hafa aðlagast aðstæðum við ólíkar umhverfisaðstæður og verið ræktuð með tilliti til stærðar, lögunar, lits og bragðs.
Ólík yrki sólróta. Til er fjöldi yrkja og afbrigða af sólrót sem hafa aðlagast aðstæðum við ólíkar umhverfisaðstæður og verið ræktuð með tilliti til stærðar, lögunar, lits og bragðs.
Fréttaskýring 7. febrúar 2020

Sólrót er ævaforn nytjajurt

Höfundur: Vilmundur Hansen

Innfæddir í Norður-Ameríku og Kanada ræktuðu sólrætur löngu áður en evrópskir landnemar fluttu til álfunnar og er plantan ein af fáum plöntum sem vitað er að indíánar ræktuðu. Plantan náði mikilli útbreiðslu í Evrópu eftir aldamótin 1600 en vinsældir hennar hafa dalað mikið síðan þá.

Þrátt fyrir að ekki fyndust upplýsingar um áætlaða heimsframleiðslu á sólrót er framleiðsla hennar mest í Kína og Kóreu, auk þess er plantan talsvert ræktuð í Mið-Evrópu, Ástralíu, Egyptalandi, Nýja-Sjálandi og Norður-Ameríku. Mest er ræktunin á milli 40° og 55° gráðu beggja megin miðbaugs.

Ekki fundust upplýsingar um innflutning á sólrót á vef Hagstofu Íslands.

Sólrót er ein af fáum plöntum sem vitað er fyrir víst að voru ræktaðar af innfæddum í Norður-Ameríku á fornsögulegum tíma þar sem ræktun þeirra hófst.

Ættkvíslin Helianthus og tegundin tuberosus

Um sjötíu tegundir plantna tilheyra ættkvíslinni Helianthus og af þremur tegundum sem eru upprunnar í Suður-Afríku koma þær alla frá Mið- og Norður-Ameríku. Þær eru flestar einærar og vaxa hratt og ná  sumar þeirra góðum þremur metrum að hæð. Stöngullinn grófur og stundum hærður. Blöðin ljósgræn, stór, stakstæð, hjarta- eða egglaga og fíntennt og hærð. Blómin eitt eða fleiri, stór og yfirleitt gul.

Sú planta sem flestir þekkja innan ættkvíslarinnar er án efa sólblóm, H. annuus, en að þessu sinni er fjallað um sólrót sem einnig er þekkt undir heitinu ætifífill og erlendu heitunum jarðskokka eða Jerusalem artichoke.

Sólrót er upprunin í austurhluta  Norður-Ameríku og suðurhluta Kanada. Plantan er fjölær, sterkleg og hraðvaxta. Myndar rótarhnýði sem er 7 til 10 sentímetrar að lengd og 3 til 5 að ummáli og ljósbrún, hvít, rauð eða bleikleit að lit. Stöngullinn sem yfirleitt er einn er 1,5 til 3 metrar að hæð, grófgerður og grófhærður. Laufblöðin hjarta- eða egglaga gagnstæð ofarlega á stönglinum og stakstæð neðan til, hærð og geta náð 30 sentímetrum að lengd. Blómin 5 til 10 sentímetrar í þvermál, nokkur saman efst á greindum stönglinum, gul með 10 til 20 krónublöðum en geta verið talsvert fleiri á smærri blómum. Fræin flöt og 5 til 7 millimetra löng, brún með svörtum rákum og smáhærð.

Til er fjöldi yrkja og afbrigða af sólrót sem hafa aðlagast aðstæðum við ólíkar umhverfisaðstæður og verið ræktuð með tilliti til stærðar, lögunar, lits og bragðs. Má þar á meðal nefna rauð yrki eins og ‘'Red Fuseau', 'Waldspine', 'Red Rover' og hvítu yrkin 'White Fuseau', 'Flowering Helianthus Tuberosus', 'Stampede' og 'Clearwater' sem öll eru frá Norður-Ameríku.

Fræin flöt og 5 til 7 millimetra löng, brún með svörtum rákum og smáhærð.

Planta er svo dugleg að fjölga sér að hún hefur víða náð rótarfestu í Norður-Ameríku og Evrópu þar sem hún hefur sáð sér meðfram árbökkum, vegum og járnbrautarteinum.

Gömul ræktunarjurt

Sólrót eru ein af fáum plöntum sem vitað er fyrir víst að var ræktuð af innfæddum í Norður-Ameríku á fornsögulegum tíma þar sem ræktun plöntunnar hófst. Innfæddir söfnuðu hnýðunum einnig villtum og geymdu þau sem vetrarforða. Landnemar í Nýja heiminum lærðu fljótlega að nýta plöntuna af innfæddum og reyndist hún mörgum lífbjörg þegar vetur voru harðir.

Franski landkönnuðurinn Samuel de Champlain, uppi 1567 til 1635, var í tíðum ferðum yfir Atlantshafið og segir sagan að hann hafi siglt allt að 29 sinnum  milli Gamla og Nýja heimsins. Hann er einnig sagður stofnandi Quebec-borgar í Kanada þar sem hann lést. Champlain var gríðarlega áhugsamur um Nýja heiminn og íbúa þess og ferðaðist víða um norðurhluta hans.

Á ferðum sínum heimsótti Champlain meðal annars innfædda við Nauset í Massachusetts-ríki. Þar kynntist hann rót sem innfæddir ræktuðu og að hans sögn bragðaðist líkt og þistilhjarta. Ári síðar var hann á ferð á svipuðum slóðum og bragðaði á svipðri rót en að þessu sinni sagði hann það bragðast eins og beðju. Árið 1605 hafði kappinn með sér rót heim til Frakklands og þannig hófst landnám sólrótarinnar í Evrópu.

Blómin 5 til 10 sentímetrar í þver­mál, nokk­­ur saman efst á greind­um stöngl­inum, gul með 10 til 20 krónu­blöðum.

Skömmu síðar komst hollenski grasafræðingurinn og kennarinn Petrus Hondius, uppi 1578 til 1621, yfir skorpnað sólrót sem hann setti niður í garði sínum sunnarlega í Hollandi. Hondius til mikillar furðu náði plantan sér á strik og dafnaði vel. Loftslagið í Mið-Evrópu hentaði plöntunni vel og um miðja sautjándu öld var hún algeng í ræktun sem matjurt og fóður fyrir búfé víða í álfunni og einnig meðal evrópskra landnema í Norður-Ameríku. Vinsældir hnýðisins voru miklar í Frakklandi og náðu þær hámarki um aldamótin 1900 en hafa dalað talsvert síðan þá. Neysla sólrótar í Frakklandi jókst aftur vegna matarskorts við hersetu Þjóðverja í landinu í seinni heimsstyrjöldinni og tengja margir hana í dag við skort þrátt fyrir að hún njóti enn vinsælda sem súpujurt.

Annar franskur landkönnuður sem ferðaðist um Nýja heiminn og skrifaði meðal annars bók um Acadia-skaga í Nýju Brunswick í Kanada og hét Marc Lescarbot, uppi 1570 til 1641, kynntist einnig sólrót á ferðalögum sínum. Lascarbot lýsti sólrót þannig að hún væri eins stór og rófa eða truffla og að hún væri vel hæf til átu. Bragðaðist svipað og beðja en væri betri.

Sú trú að neysla á rótum gæti valdið holdsveiki eða Hansen-sjúkdómi, eins og limfallssýki kallast í dag, var landlæg víða í Evrópu um það leyti sem sólrót barst yfir Atlantshafsála. Trúin yfirfærðist um tíma á sólrætur enda þótti yfirborð þeirra minna á húð holdsveikra. Neysla á rótinni varð samt fljótlega almenn og hjátrúin vék fyrir hungrinu.

Þrátt fyrir að nafnið Hansen-sjúkdómur sé í höfuðið á norska vísindamanninum Gerhard Henrik Armauer Hansen, sem uppgötvaði bakteríuna sem veldur líkþrá, er náttúrlega með öllu ólíðandi að kenna alla Hansena þessa heims við þennan hræðilega sjúkdóm. Því er hér með komið til skila.

Stöngullinn er 1,5 til 3 metrar að hæð, grófgerður og grófhærður.

Árið 1613 var Tupinambá-indíána frá Brasilíu boðið í heimsókn til Gamla heimsins og ferðaðist hann víða um álfuna. Árið 1615 heimsótti Louis Henri, eins og indíáninn var kallaður, Vatíkanið. Á sama tíma var til sýnis sólrót frá Kanada í Páfaríki og sagt að hún væri grundvallarfæða og stuðlaði að því að evrópskir landnemar í Norður-Ameríku lifðu veturinn af. Heimsókn Louis Henri varð til þess að heitið topinambur festist við rótina og er enn notað sem eitt af heitum rótarinnar á ýmsum Evrópumálum.

Sir Walter Raleigh kynntist innfæddum í Norður-Ameríku sem ræktuðu sólrætur árið 1585 en plantan barst ekki til Englands fyrr en árið 1617. Í fyrstu  voru ræturnar sagðar ljúfmeti og sælgæti sem hæfði drottningunni. Árið 1629 skrifaði breski grasafræðingurinn og herbalistinn John Parkinson hins vegar að sólrætur væru svo mikið ræktaðar, auðfáanlegar og ódýrar á mörkuðum í London að mörgum klígjaði við þeim.

Lewis og Clark voru fyrstu mennirnir sem fóru milli austur- og vesturstrandar Norður-Ameríku. Ferðalagið tók tvö ár, 1804 til 1806, og segja þeir frá því í dagbókarfærslu að þeir hafi fengið rótarhnýði að borða hjá indíánakonu í Norður-Dakota. Mjög líklegt er að um sólrót hafi verið að ræða.

Heimildir eru til um ræktun á sólrót í Danmörku um aldamótin 1700.

Nafnaspeki

Latneska ættkvíslarheitið Helianthus  þýðir bókstaflega sólblóm og  er komið úr grísku. Helios þýðir sól og anthos blóm. Tegundarheitið tuberosum er algengt heiti á rótarhnýðum.

Á ensku kallast plantan ýmsum heitum eins og Jerusalem artichoke, sunroot, sunchoke, earth apple, topinambour, lambchoke, Canada potato, fusichoke, girasole og tuberous sunflower.

Heitið Jerusalem artichoke hefur lengi valdið áhugamönnum um plöntunöfn hugarangri. Í fyrsta lagi hefur plantan ekkert með Jerúsalem að gera og ekki líkist hún ætiþistli  þrátt fyrir að báðar tegundir séu af körfublómaætt. Ein skýringin er sú að heitið tengist kristnum Púrítönum sem fluttu til Nýja heimsins og kölluðu lendur sínar, þar sem plantan óx, Nýju Jerúsalem. Þistilheitið er mögulega sagt tengjast ítölskum innflytjendum til Norður-Ameríku sem kalla sólblóm girasole og hafi tekið upp á því að kalla sólrót girasole articiocco, eða sólblómaþistil, og síðar hafi heitið breyst í Jerusalem artichoke.

Á spænsku kallast plantan castaña de tierra, pataca, pataca de caña og tupinambo. Frakkar segja artichaut de Jérusalem, hélianthe tubéreux, navet de Jérusalem eða topinambour, Ítalir carciofo di Gerusalemme, girasole articiocco, Girasole di Canadá eða Tartufo di Canna, topinambur og Portúgalar batata-tupinambá, girasol-de-batata, topinambo og tupinambor. Á rússnesku kallast planta zemljanaja grusu og podsolnecnik klubenosnij en á arabísku taffahh el ard og tartuf. Japanir segja kikuimo, Víetnamar cúc vu og quyf doji, Taílendingar thantawan-hua og Tyrkir yerelmasi. Hollendingar nota heitin aardpeer, aardpeer, Jeruzalemartisjok, knolzonnebloem og topinamboer, Þjóðverjar knollensonnenblume og topinambur, Svíar jordaertskocka og Danir jordskok.

Plantan gengur undir heitunum  ætifífill og sólrót á íslensku auk þess sem nafnaskrípi eins og jarðskokkar eða bein þýðing á enska heitinu í Jerúsalem ætiþirslar heyrast og sjást á prenti.

Nytjar

Indíánar Norður-Ameríku nýttu sólrót til matar löngu fyrir komu hvíta mannsins til álfunnar. Rótin er fjölær bæði í ræktun og villt sé hún nýtt hæfilega og getur því verið forði til margra ára. Um tíma var rótarinnar mikið neytt í Kanada og norðurríkjum Bandaríkjanna en neysla hennar þar hefur dregist mikið saman sem víða annars staðar.

Í hundrað grömmum af sólrót eru um 73 kaloríur, 17,4 grömm af kolvetni, 9,6 grömm af sykri, 1,6 grömm af trefjum, 0,01 gramm af fitu og 2 grömm af próteini. Rótin er rík af fjölliða sykru sem kallast inulin, auk járns og kalíum.

Sólrót pækluð í sykurvatni til geymslu.

Hægt er að nota sólrót á svipaðan hátt og kartöflur og er áferð þeirra svipuð. Sólrót er aftur á móti sætari og það má nota hana hráa og smátt skorna í salat.

Vindgangur og jafnvel iðra­verkir geta fylgt mikilli neyslu á sólrót. Enski sautjándu aldar grasafræðingurinn John Goodyer, uppi 1592 til 1664, var ekki par hrifinn af neyslu sólrótar. Haft er eftir honum í Gerard´s Herbal sem kom út 1621 að það væri alveg sama hvernig rótin væri matreidd eða borðuð, hún leiddi alltaf af sé þembu, vindgang og megnan óþef og að hún væri fremur svínafóður en mannamatur.

Ofanjarðarhluti plöntunnar þykir ágætt þurrfóður fyrir húsdýr eftir að búið er að mylja hálminn en svín geta gengið um sólrótagarða og grafið ræturnar upp og étið.
Í Baden-Württemberg í Þýska­landi er unninn vínandi úr rótinni og kallast hann Topinambur, Topi eða Rossler og undir lok 19. aldar voru í Baden í Þýskalandi  notaðar sólrætur til að brugga sætt Jerusalem Artichoke Brandy með ávaxtakeim og fleiri göruga drykki.

Rótin þykir í dag álitleg til framleiðslu á ethanoli sem orku­gjafa.

Líkt og fjöldi annarra plantna er sólrót í þjóðtrú og alþýðulækningum sögð vera losandi, ástarörvandi, þvagörvandi, auka sæðisframleiðslu og örva matarlyst.

Ræktun

Sólrætur þrífast best þar sem meðalhiti er á milli 6,3° og 26,6° á Celsíus og meðalúrkoma 310 til 2800 millimetrar. Plantan dafnar ágætlega í jarðvegi með pH frá 4,5 til 8 og gerir því ekki miklar kröfur til sýrustigs jarðvegarins en hún kýs vel framræsta moldar- og sandblandaðan jarðveg.

Reyndar eru sólrætur svo auðveldar í ræktun að þar sem skilyrði fyrir þær eru þokkalegar eiga þær til að breiða mikið úr sér, bæði með rótum og fræjum, og erfitt getur reynst að losna við þær. Plantan er því draumamatjurt lata garðyrkjumannsins.

Ofanjarðarhlutinn þolir ekki frost en ræturnar geta lifað áfram eftir frost sé ekki mikið um umhleypinga.

Plantan er þokkalega vind­þolin, hún kýs bjartan og sólríkan stað og þarf ekki mikinn áburð og allra síst köfnunarefni/nitur sem einungis nýtist til ofanjarðarvaxtar. Í stór­ræktun þykja 16 til 20 tonn á hektara góð uppskera af rótum. 

Best er að geyma sólrót  á köldum, dimm­um, þurrum og vel loftræst­um stað eða við sömu skilyrði og best er að geyma kartöflur.

Sólrót á Íslandi

Eitthvað er um að sólrót sé flutt inn frá Danmörku og þá seld undir heitinu jarðskokkar. Í seinni tíð hafa veitingahús einnig boðið upp á rótina enda um spennandi valkost að ræða.

Ræktun á sólrót hefur ekki verið almenn hér á landi þrátt fyrir að ýmsir hafi reynt fyrir sér. Utandyra eru sumrin of stutt til að hnýðin nái að þroskast að nokkru ráði. Þetta mun stafa af því að rótin byrjar ekki að tútna út fyrr en sólargangur er þannig að dimmt sé í að minnsta kosti fjórar eða fimm klukkustundir á sólarhring og þegar svo er komið er hætta á næturfrostum sem ofanjarðarhlutinn þolir ekki. Vel er samt hugsanlegt að rækta megi sólrótarhnýði í gróðurhúsi sér til skemmtunar. 

Sólrót þykir góð súpujurt.

 

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...