Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Illa farið land á Tjörnesi.
Illa farið land á Tjörnesi.
Mynd / Ólafur Arnalda
Fréttaskýring 2. júní 2021

Ástand lands og ákvarðanir um beit

Höfundur: Ólafur Arnalds

Þann 12. maí birti Bændablaðið grein eftir Ágústu Ágústsdóttur. Í greininni er andmælt ýmsu sem komið hefur fram er varðar land í slæmu ástandi og beitarnýtingu þess. Greinarhöfundur fer vítt um völl með umtalsverðu hnútukasti. Rétt er að skýra nánar nokkur atriði í tengslum við þessi skrif hennar.

Á hverju ári styrkja landsmenn framleiðslu dilkakjöts með yfir 5 milljarða króna framlagi, eða um 14 þúsund kr. á hvern Íslending á ári. Fyrir því liggja margar ástæður, m.a. annars byggðasjónarmið og söguleg þróun landbúnaðarstyrkja. Það er ekki óeðlilegt að gerð sé rík krafa um að nýting sem svo myndarlega er styrkt fari ekki fram á vistkerfum í lélegu ástandi, að hún valdi ekki hnignun vistkerfa, eða stuðli ekki að losun gróðurhúsalofttegunda. Kerfið sem þróaðist upp úr aldamótum til að tryggja sjálfbæra landnýtingu (landnýtingarþáttur gæðastýringar) misheppnaðist og það hefur verið rækilega skjalfest (1,2,3). Á þessu verður að gera bragarbót.

Illa farið land í örri hnignun á Öxarfjarðarheiði.

Afneitun vandans virðist vera ein þeirra leiða sem ætlunin er að notast við til að koma í veg fyrir að breytingar verði gerðar á kerfinu. Ágústa skrifar: „Hættum að tala um að land sé í hnignun. Það er einfaldlega ekki þannig“. Skýrari dæmi um afneitun á umhverfisvanda finnast varla. Rétt er að benda henni á að skreppa upp á Öxarfjarðarheiði eða út á Tjörnes, beggja handa sveitar hennar – þar eru að finna ljót rofsvæði og land í afturför (sjá myndir sem fylgja greininni). Svo er víðar á landinu, því miður. En ekki er síður mikilvægt að hafa í huga að nýting á landi í mjög slæmu ástandi – þar sem mesta hnignunin er um garð gengin – getur engan veginn talist sjálfbær. Enda bendir hún sjálf á að: „Um það er ekki deilt að á Íslandi finnast enn viðkvæm og illa gróin svæði og sum hver þyrftu meiri beitarfriðunar við.“ Það er einmitt málið!

Orðræðan sem birtist í skrifum Ágústu á sér hliðstæðu í baráttu hagsmunahópa og pólitíkusa sem afneita loftslagsbreytingum og berjast gegn umskiptum yfir í endurnýjanlega orkugjafa í stað kola og olíu, iðulega af miklum ofsa. Það er dæmigerð rangfærsla („ávaxtatínsla“ – „cherry picking“) í anda afneitunarfræða að halda því fram að stöðumat GróLindar sé fyrst og fremst byggt á gamalli rofkortlagningu. Rofkortlagningin er aðeins einn af fimm þáttum sem notaðir eru í mati GróLindar. Flestir þættirnir eiga rætur að rekja til mun nýrri kortlagningar á vistgerðum á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þau gögn gefa góða mynd af útjörð landsins – og saman mynda þessir gagnagrunnar bestu mögulegu gögnin nú um stundir. Enda þótt það finnist einhverjir tilteknir blettir sem eru í betra ástandi nú en áður á tilteknum afréttum eins og vitnað er til í áðurnefndri grein, breytir það engu um heildarniðurstöðu fyrir viðkomandi svæði ef það er almennt illa gróið. Slík „ávaxtatínsla“ er einmitt í anda klassískra afneitunarfræða.

Fallegt beitiland í framför í Kelduhverfi.

Gögnin um ástand lands eru vissulega ekki fullkomin. Sem dæmi hefur rof minnkað sums staðar frá því kortlagt var fyrir 25-30 árum síðan. Á víðfeðmum svæðunum, t.d. auðnasvæðum á afréttum, hafa ekki orðið miklar breytingar. Þá hefur ástand versnað til muna á sumum svæðum. Gögn Náttúrufræðistofnunar eru heldur ekki fullkomin, þar finnast dæmi um ofmat og vanmat á gæðum landsins – sem er ákaflega eðlilegt og niðurstöður GróLindar endurspegla það.

Slæmt ástand margra afréttar­svæða hefur legið fyrir lengi. Það fer beinlínis gegn náttúruverndarlögum að bíða sífellt eftir betri gögnum – en það er sú leið sem ítrekað hefur verið valin þegar reyna á að laga sauðfjárbeit að landkostum. Það var beðið með aðgerðir þar til rofkortlagningu lauk árið 1997, sem gaf afgerandi niðurstöður. Síðan tók við löng þróun og aðlögun að landnýtingarþætti gæðastýringar (orðin virk um 2008), sem lítið hald reyndist í þegar á hólminn var komið. Síðan var beðið eftir GróLind (fyrstu niðurstöður 2020 – sambærileg útkoma og af rofkortlagningu), sem nú á að hafna og bíða enn eftir ítarlegri gögnum, ef marka má áðurgreind skrif. Er þetta ekki orðið ansi skýrt mynstur?Sauðfjárframleiðsla stæði margfalt sterkari nú hefði gæðastýringin ekki farið í þann óheillavænlega farveg að taka ekki á ástandi landsins með hliðsjón af rofkortlagningu upp úr aldamótunum. Á meðan illa gróin afréttarsvæði í eigu almennings á borð við Biskupstungnaafrétt, Landmannaafrétt, Rangárvallaafrétt eða rofsvæðin á myndunum sem hér fylgja eru nýtt til beitar og nýtingin bæði vottuð og styrkt af almannafé, er kerfið ekki trúverðugt.

Á Íslandi er algengt að verið sé að beita á gott beitiland, t.d. í Kelduhverfi og á grasgefnum algrónum svæðum, t.d. víða á Norðvesturlandi, svo dæmi séu tekin. Bændur sem nýta slíkt land hafa hvatt undirritaðan til að draga það fram í umræðunni – sem ég geri reyndar yfirleitt. Þeir bændur sem beita á gott land tapa mest á þeirri neikvæðu umræðu sem skapast við kröfuna um að nýta allt land til beitar, líka það „slæma“. Sífelldar efasemdir um faglegt mat á slæmu ástandi lands eru sömuleiðis ekki til þess fallnar að efla ímynd sauðfjárræktar. Þessir framleiðendur mættu að ósekju láta meira til sín taka.

Það eru miklar ýkjur að sauðkindin sé mikil landgræðsluvél eins og haldið er fram í grein sauðfjárbóndans. Þegar þessi „vél“ er fjarlægð af illa förnu landi lagast ástandið iðulega með tímanum að sjálfu sér, en ekki við áframhaldandi beit. Og þegar fé fækkar taka gróin vistkerfi oftast vel við sér. Hins vegar getur hófleg beit á vel gróið land aukið grósku og kolefnisbindingu – t.d. þar sem viðhaldið er grasmiklum sverði. En það á ekki við á illa förnu landi. Sauðkindin átti og drjúgan þátt í hruni íslenskra vistkerfa – kerfi sem eru ákaflega viðkvæm fyrir vegna annarra áfalla sem geta dunið yfir á borð við tímabundið kalt árferði og öskufall. Ágústu verður tíðrætt um merkilegar rannsóknir Sigurðar Magnússonar á Hrunamannafrétti. Þar hefur fjárfjöldi minnkað mikið á svæði sem áður var ofbeitt. Sigurður hefur bent á að traðk búfjár á moldum á annars hóflega beittu landi þar sem einnig eru til staðar vel gróin svæði getur í sumum tilfellum hjálpað landnámi plantna. Moldir eru almennt ekki útbreiddar á afréttum sem er þó misjafnt á milli svæða. Þessu er ekki fyrir að fara þar sem land er almennt illa gróið, því við þær aðstæður bítur sauðfé nýgræðing og heldur niðri landnámi. Beitarálag verður mikið á stórum illa grónum svæðum enda þótt fé sé jafnvel fátt.

Það er sérkennileg tilhneiging að nota GróLindar-verkefnið sem eins konar tryggingu fyrir „réttri“ afstöðu Landgræðslunnar og annarra. Á því örlar í grein Ágústu, en frægasta dæmið var hótun sauðfjárbænda um að draga sig út úr og jafnvel loka verkefninu þegar landgræðslustjóri impraði á því að taka þarf á lausagöngu búfjár á Íslandi. Það er þó almenningur sem borgar kostnaðinn við verkefnið þegar upp er staðið og ekki annað í boði en að tryggja faglega vinnu við verkefnið. Það eru ekki útgerðarmenn sem ákvarða aflamagn fiskistofna í sameiginlegri eigu þjóðarinnar – sem betur fer. Það sama ætti að eiga við um ákvörðun á ástandi og nýtingu afréttarlanda, ekki síst þeirra þjóðlenda sem eru í eigu þjóðarinnar.

Það er fyrir löngu orðið tímabært að takmarka framleiðslu sauðfjárafurða við land í góðu ástandi. Við það verður að nota bestu fáanlegu þekkingu sem til er hverju sinni, sem er m.a. í samræmi við náttúruverndarlög og lög um landgræðslu. Afneitun á slæmu ástandi lands – þar sem það land er til staðar – er ekki leiðin til að tryggja framtíð sauðfjárræktar á Íslandi.

Heimildir:
Á röngunni. Alvarlegir hnökrar á framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárrækt. Ólafur Arnalds 2019. Rit LbhÍ nr. 118. https://www.moldin.net/aacute-roumlngunni.html

Connecting sustainable land use and quality management in sheep farming: effective stakeholder participation or unwanted obligation? Jónína Sigríður Þorláksdóttir 2015. MS ritgerð, Umhverfis- og náttúruvísindasvið HÍ.

Of sheep and men. Analysis of the agri-environmental cross-compliance policies of the Icelandic sheep grazing regime. Jóhann Helgi Stefánsson 2018. MA ritgerð, Félagsvísindasvið, Háskóli Íslands, Reykjavík.

Ólafur Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...