Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Mynd / smh
Fréttir 3. desember 2019

Fjölmörg vannýtt tækifæri í nýtingu auðlinda á Íslandi

Höfundur: smh
Matvælalandið Ísland og Land­búnaðar­klasinn stóðu fyrir ráðstefnu á Hótel Sögu þriðjudaginn 5. nóvember um þær neyslubreytingar sem eiga sér stað í samfélaginu og möguleg áhrif þeirra á matvælaframleiðsluna í landinu. Upptökur af ráðstefnunni eru aðgengilegar á vef Bændasamtakanna þar sem hægt er að hlýða á hvert erindi fyrir sig og skoða glærur.
 
Á undanförnum árum hefur umræða um tískustrauma í mataræði, sem hafa gengið yfir hinn velmegandi heim, verið talsvert ofarlega á baugi. Gjarnan er þessi umræða á forsendum lífsstílsbreytinga og heilsufars, en siðferðileg álitamál eru einnig mikilvægur þáttur hennar þar sem áhersla er á umhverfis- og loftslagsmál, auk dýravelferðar. Það hafa orðið neyslu- og lífsstílsbreytingar í takti við þessa umræðu og þær munu líklega verða enn meiri með tímanum. 
 
Matvælaframleiðendur þurfa að taka mið af þessum tíðaranda enda mun framtíð landbúnaðar, land- og sjávarnytjar mótast af honum ásamt fyrirsjáanlegum tækniframförum í matvælaframleiðslu.+
 
Friðrik Björnsson er viðskiptastjóri hjá Gallup.
 
Um 0,9 prósent eru vegan
 
Friðrik Björnsson, viðskiptastjóri hjá Gallup, greindi frá nýlegri neyslu- og lífsstílskönnun í fyrirlestri sínum þar sem hann upplýsti um stöðu mála varðandi neysluvenjur Íslendinga. Þar kom fram að 0,9 prósent landsmanna, 18 ára og eldri, segjast vera vegan (neyta engra dýraafurða), sem mörgum kann að koma á óvart miðað við hversu fyrirferðarmikil sú umræða getur verið í samfélaginu. Reyndar sögðust 33 prósent svarenda hafa keypt matvöru vegna þess að hún var merkt „vegan“. Fólk virðist skipta sér jafnt í lið, með og á móti vegan-vörum því þrjátíu prósent fólks í könnuninni sagðist almennt ólíklegra til að kaupa matvöru ef hún væri merkt „vegan“. Keto-mataræðið hefur einnig verið talsvert til umræðu í samfélaginu nú um nokkra hríð, en það felst í því að kolvetni er að mestu skorið niður en í þess stað er fita aðallega notuð sem orkugjafi og síðan prótein. Samkvæmt könnuninni segjast þó einungis 4,2 prósent vera á slíku mataræði.
 
Friðrik segir að hlutfall Íslendinga sem borðar aldrei kjöt hafi lítillega vaxið á síðustu tíu árum. Ungar konur, á aldrinum 18–24 ára, er þar stærsti hópurinn og hefur hann stækkað mjög á síðustu fimm árum. 
Þegar svarendur könnunar Gallup voru spurðir hvort þeir hefðu breytt neysluvenjum sínum í daglegum innkaupum á einhvern hátt gagngert til að minnka umhverfisáhrifin hjá viðkomandi, svöruðu 52 prósent því til að þeir hefðu gert það mikið eða nokkuð. Um þriðjungur sagðist lítið hafa breytt innkaupum í þeim tilgangi og 17 prósent ekkert. Þeim sem vilja borga meira fyrir umhverfisvænar vörur fjölgar mjög frá árinu 2010; frá 54 prósentum aðspurðra til um 80 prósenta sem svöruðu á þessu ári.
 
Sigurður Markússon, verkefnisstjóri hjá Landsvirkjun.
 
Jarðvarminn vannýttur
 
Sigurður Markússon, verkefnisstjóri hjá Landsvirkjun, kynnti hluta af meistaraprófsverkefni sem hann vann við Cambridge University og fjallar um sjálfbærnivæðingu matvælakerfisins og tækifæri Íslands. Hann sagði að ýmis vannýtt tækifæri væru í nýtingu orkuauðlinda Íslands, ekki síst varðandi jarðvarmann. Hann sagði að við stæðum á krossgötum varðandi alla atvinnuuppbyggingu og því hafi hann ákveðið að skoða hvers konar tækifæri liggja í samspili jarðvarma og matvælaframleiðslu. Komið væri að ákveðnum þolmörkum vaxtar í helstu þremur atvinnuvegum þjóðarinnar; stóriðju, sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Komin væri upp mjög sterk krafa um sjálfbærnivæðingu hagkerfisins og þar eigi Íslendingar talsverða möguleika inni varðandi matvælaframleiðslu með aukinni nýtingu jarðvarmans til að mynda og betri nýtingu annarra náttúruauðlinda. Íslendingar séu meðal þeirra þjóða heiminum sem eru allra best settar til matvælaframleiðslu í stýrðu sjálfbæru umhverfi, sem ýmislegt bendi til að sé framtíðin.
 
Sigurður sagði að jarðvarminn væri tiltölulega óskilvirkur til raforkuframleiðslu ef orkan sem fellur til samhliða í formi hita er ekki nýtt. Verðmætasköpunin í matvælaframleiðslu á Íslandi gæti þannig meðal annars falist í framleiðslu á verðmætum tegundum grænmetis og ávaxta í gróðurhúsum, auk fiskeldis á landi, þörungarræktunar og alls kyns hávirðis vara sem framleiddar væru með hátækniaðferðum.
 
Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, byrjaði á að tala um matvæli á Íslandi í sögulegu samhengi – bæði vöruþróun og -verð. Hún telur að lambakjötsiðnaðurinn hafi dregist talsvert aftur úr hvað varðar vöruþróun, verðmætasköpun og nýtingu hráefnis – til að mynda í samanburði við fiskúrvinnsluna. 
 
Hún segir að það þurfi að móta alveg nýja stefnu og framtíðarsýn fyrir sauðfjárræktina og stjórnun hennar því það gangi ekki að bændur þurfi jafnvel að greiða með framleiðslunni. 
 
Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands.
 
Ræða þarf fæðuöryggi af fullri alvöru
 
Hvað framtíðina snertir telur Ragnheiður að afar mikilvægt sé að ræða af fullri alvöru um fæðuöryggi; það sé eðlilegt að umræðan snúist um það hvað gerist ef tiltekin aðföng berast ekki til landsins, eins og olía, áburður, fóðurhráefni, fóður og matvæli. 
 
Hún leggur til að sett verði upp framleiðslukerfi nálægt þéttbýli þar sem sameldi eigi sér stað; plönturæktun í lóðréttu hringrásarkerfi með fiskeldi. Tækifæri væru í framleiðslu á mjólk með gersveppum, próteinríkum skordýrum og þörungum til að mynda. Sækja megi um stuðning til Evrópusambandsins fyrir slík verkefni. 
 
Þá nefndi Ragnheiður möguleika á stórskala ylrækt og þörungaræktun á Íslandi þar sem víða væru góð skilyrði til slíkra verkefna.  
 
Að lokum nefndi hún nokkur atriði sem Íslendingar mættu huga að varðandi það að auka samkeppnishæfni sína; nýta tæknilausnir, huga að stærðarhagkvæmni, nýta betur innviðina og auðlindir eins og jarðvarma, hreint vatn og hreint umhverfi. Auka þverfaglega samvinnu, blása til sóknar og nýta tækifærin sem eru til staðar og fjölga stórum rannsókna- og nýsköpunarverkefnum – ekki síst Evrópuverkefnum til að fá aukna tækniþekkingu og fjármagn.
 
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.
 
Matvælaframleiðendur þurfa að vera á tánum
 
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, flutti erindi undir yfirskriftinni Hvað vilja viðskiptavinirnir á morgun? Hún sagði það mjög mikilvægt fyrir matvælaframleiðendur að huga reglulega að nýjungum til að verða ekki undir í samkeppninni. Hún sagði það að minnka matarsóun væri gríðarlega mikilvægt málefni, bæði fyrir matvælaframleiðendur og seljendur matvæla. Krónan hafi einnig í áherslum sínum tekið mið af kröfum um valkosti fyrir þann sístækkandi hóp sem vill hafa minna fyrir innkaupum og eldamennsku; með því til dæmis að bjóða upp á vandaðri tilbúna rétti og auðvelt aðgengi að hráefni sem sé sniðið að fyrirframgefnum matseðlum. Þarna væru tækifæri fyrir framleiðendur því jafnframt væru þetta möguleikar til virðisauka. 
 
Gréta sagði að mál málanna væru umhverfisvernd, lýðheilsa og upplýst val og þess vegna ætlaði Krónan að leita sífellt leiða við að sýna samfélagslega ábyrgð í verki með þessi mál að leiðarljósi.
 
Tískubylgjur í mataræði munu, að sögn Grétu, koma og fara – en framleiðendur og verslanirnar þurfi að vera ávallt tilbúin til að bregðast við þeim.
 
Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði. 
 
Varnarleysi barna og ungmenna gagnvart áróðri
 
Matarvitund og þekking var yfirskrift erindis Önnu Sigríðar Ólafsdóttur, prófessors í næringarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þar velti hún því fyrir sér meðal annars hvort það væri hinn upplýsti neytandi eða áhrifavaldar sem réðu för í mataræði fólks. Samfélagsmiðlar sem fólk fylgdist með gæfi því gjarnan ranghugmyndir um hvað væri í raun og veru í gangi varðandi tískustrauma í mataræði. Áhrif nærsamfélags fólks á þessum miðlum – sem hefði svipaðar lífsskoðanir og það sjálft – væru það sterk að erfitt væri að líta hlutlægt á málin.
 
Hún sagði að börn og ungmenni væru sérstaklega varnarlaus gagnvart vel fram settum áróðri. En það væru tækifæri til að sporna við slíkum áhrifum, meðal annars í gegnum tiltekin Evrópuverkefni (eins og We Value Food) sem miða að því að vekja unga neytendur til vitundar um val sitt. Þar sé hráefnisþekking, hollusta og sjálfbærni höfð að leiðarljósi. Matís hefði tekið þátt í þessu verkefni í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
 
Árni Bragason landgræðslustjóri.
 
Landnýting og breytt framtíð
 
Árni Bragason landgræðslustjóri flutti erindi um landnýtingu og breytta framtíð. Hann sagði að erfðaauðlindir, jarðvegur og vatn væru undirstaða fæðuframleiðslu á jörðinni. Íslendingar geti bætt sig heilmikið í umhverfismálum, þeir eigi til að mynda heimsmet í stærð sótspora á hvern íbúa. Hann gerði fyrirsjáanleg vandamál við að fæða jarðarbúa í framtíðinni að umtalsefni, bæði sé fjölgunin gríðarlega ör og auk þess hækkar meðalaldurinn. Segir Árni að spár geri ráð fyrir að árið 2050 þurfi að framleiða um 70 prósent meiri mat en gert sé í dag; á minna landi, við verri aðstæður og með minna af vatni, eiturefnum og áburði. 
 
Hann bendir á að endurskoða þurfi algjörlega nýtingu á áburðarefnum á Íslandi og segir að í gegnum holræsakerfi höfuðborgarsvæðisins streymi ónýttur áburður sem að magni til sé meiri en allur sá áburður sem notaður er á landinu. Nýting á verðmætum efnum og landsvæðum þurfi að vera betri og áherslur í landbúnaði þurfi að breytast. Til að mynda sé hægt að metta fleiri munna með því að leggja aukna áherslu á kornrækt til manneldis í stað þess að fóðra búpeninginn með korninu – og síðan borða skepnuna. Kröfur um slíkar áherslubreytingar séu þegar komnar fram og eru áberandi meðal ungs fólks, að sögn Árna – ekki síst í tengslum við loftslagsumræðuna.
 
Í erindi Árna kom fram að matvælaframleiðsla heimsins byggði einungis á fimm tegundum dýra og 12 korntegundum – brýn þörf væri á að breikka þetta svið og til þess væri hægt að nýta 35 dýrategundir og þúsundir plöntutegunda. Gríðarlegir möguleikar væru til staðar í margs konar ræktun. Efla þurfi rannsóknarstarf til að gera þetta mögulegt – til að mynda hér á Íslandi – en Landbúnaðarháskóli Íslands hafi lengið búið við fjárskort til að geta haldið úti fullnægjandi rannsóknarstarfi. Til marks um það nefndi Árni að ekki væri lengur stundað kynbótastarf með byggyrki. Bændaforystan þurfi að hafa það sem aðaláherslu, varðandi stefnumótun, að efla landbúnaðarrannsóknir og stuðning við nýsköpun í landbúnaði. 
 
Þörf á plöntukynbótum
 
Árni sagði að plöntukynbætur á Norðurlöndum væru nokkuð öflugar og margt spennandi að gerast þar en það virtist vera bannorð hér á Íslandi að ríkisstyrkja slíkar rannsóknir. Þó væru þær meira og minna styrktar af ríkinu bæði í Finnlandi og Noregi. Hann sagði að kynbætur á grænmeti væru hér engar – og ekki heldur á öðrum Norðurlöndum. Hollendingar ættu hreinlega það svið. 
 
Árni ræddi aðeins um Grólind, sem er samstarfsverkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Landgræðslunnar, Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sauðfjárbænda um mat á gróður- og jarðvegsauðlindum Íslands. Þar gæfi fyrsta stöðumat til kynna að ástand beitilanda á vissum svæðum væri langt í frá að vera í lagi – og sums taðar óásættanlegt að sauðfé gengi á þeim svæðum. Rétt væri þó að halda því til að haga að meirihluti svæðanna væri í lagi. Þörf væri hins vegar á því að horfast í augu við að ástandið sé ekki alls staðar í lagi og úr því þyrfti að bæta.
 
Auk áðurnefndra erinda fluttu erindi á ráðstefnunni þær Marit Sommerfelt Valseth, ráðgjafi hjá Innovasjon Norge, um áskoranir og tækifæri í framleiðslu matvæla í landbúnaði (AgriFood Sector), Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri hjá Eflu verkfræðistofu, fjallaði um Matarsporið – kolefnisreikni fyrir máltíðir og Elín M. Stefánsdóttir, stjórnarformaður Mjólkursamsölunnar, flutti erindið Má bjóða þér kakkalakkamjólk.  Þá fjallaði hún meðal annars um framtíðarmöguleika í kúabúskap og mjólkurvinnslu með ýmsum tæknilausnum og hvernig mæta mætti auknum kröfum neytenda  til að mynda í umhverfis- og lýðheilsumálum
 
 
Ráðstefnan var vel sótt, en um 100 ráðstefnugestir komu í Bændahöllina til að hlusta á umræðurnar.
 
Ráðstefnan var vel sótt, en um 100 ráðstefnugestir komu í Bændahöllina til að hlusta á umræðurnar. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á vef Bændasamtaka Íslands (bondi.is) og þar eru upptökur aðgengilegar af erindum hennar.
 
Landbúnaðarklasinn er samstarfsnet þeirra sem starfa í landbúnaði og tengdum greinum. Matvælalandið Ísland er samstarfsvettvangur aðila sem starfa í matvælageiranum og innan þess eru Samtök iðnaðarins, Bændasamtök Íslands, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Íslandsstofa, Matís, Samtök ferðaþjónustunnar, Háskóli Íslands og Matarauður Íslands.
Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...