Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Íslenskar hamptrefjar
Íslenskar hamptrefjar
Fréttir 27. maí 2021

Fimmföldun í ræktun iðnaðarhamps

Höfundur: Vilmundur Hansen

Ræktun á iðnaðarhampi hér á landi mun fimmfaldast á þessu ári miðað við ræktun síðasta árs. Selbakki ehf., dótturfélag Skinneyjar-Þinganess, ætlar að gera tilraunir með ræktun hamps á Mýrunum í sumar.

Selbakki ehf., sem er að stórum hluta í eigu Skinneyjar-Þinganess, ætlar í sumar að gera tilraun með ræktun iðnaðarhamps á Mýrunum í Austur-Skaftafellssýslu.

Garðar Garðarsson, lögmaður hjá Landslögum og stjórnarmaður Selbakka, segir að ræktunin sé eingöngu í tilraunaskyni. Sáð hafi verið í mismunandi jarðveg til að athuga hvort hampur geti vaxið á Söndunum og hvort áframhaldandi ræktun hans til iðnaðarframleiðslu þar sé fýsileg. Yrkið sem verið er að prófa kemur frá Finnlandi og kallast ‘Finola’.

Hann hafði ekki handbærar upplýsingar um á hve stóru svæði sáð var í. Garðar segir ekki tímabært að gefa upp í hvað ætti að nota hampafurðirnar. „Það verður að koma í ljós og færi eftir ræktunarhæfni plantnanna. Ekki verður fjárfest í einhverjum varanlegum búnaði nema ræktunartilraunir gæfu tilefni til og þá að vel athuguðu máli.“

Umfang ræktunarinnar ekki gefið upp

Erfiðlega hefur reynst að fá uppgefið hjá Selbakka á hversu stóru svæði búið er að sá eða á hversu stóru svæði stendur til að að rækta hampinn, en heyrst hefur að það sé á bilinu 4 og upp í 20 hektara. Ólíklegt verður að teljast að ræktunin verði á 20 hekturum þar sem um tilraunaræktun er að ræða. Telja verður líklegt að verði farið út í framleiðslu afurða úr hampinum tengist hún umbúðum, til dæmis fyrir fiskvinnslu Skinneyjar-Þinganess.

Fimmföld aukning í ræktun

Sigurður H. Jóhannesson, for­maður Hampfélagsins, segir að síðasta sumar hafi verið ræktaður iðnaðarhampur á um 30 hekturum en að reiknað sé með að ræktunin muni fimmfaldast́ í sumar og að hampur verði ræktaður á um 150 hekturum.

„Stærstu ræktendur eru með allt að 20 hektara undir en í flestum tilfellum er fólk að prófa sig áfram og rækta á hálfum til einum hektara og upp í fjóra.
Meðaltalsuppskera á hektara eru um 8 tonn fyrir þurrkun og miðað við það var uppskeran síðasta sumar um 240 tonn og gæti orðið 1.200 tonn og ég hef fulla trú á að það sé markaður fyrir þá framleiðslu. Þróunin í ræktun hér á landi virðist ætla að verða svipuð og í Svíþjóð. Fyrstu árin jókst ræktunin hratt en með tímanum náði hún jafnvægi.“

Sigurður segir að það sem standi íslenskri hamprækt helst fyrir þrifum sé að hér á landi skorti tæki til vinnslu á afurðum og að slíkar vélar sem vinna hamp séu dýrar.

„Í fyrra seldist allur hampur upp hér á landi um áramótin og nokkrir fluttu út hamp til Bretlands á ágætu verði, sem var um þúsund krónur fyrir kílóið af þurrum stilkum. Það er skortur á hampi víða um heim og ég hef enga trú á að ræktendur séu að fara að sitja uppi með hann.“

Hamptrefjar í steypu

„Eftirspurnin eftir iðnaðarhampi er mikil og ég veit að fyrirtæki í byggingariðnaði eru að skoða notkun á hamptrefjum í hampsteypu og svo er einnig verið að þróa framleiðslu á lífplasti og sú framleiðsla þarf rosalega mikið magn,“ segir Sigurður.

Lífplast úr hampi

Robert Francis hjá Hemp Pack, sem vinnur að þróun lífplasts úr hampi, segir að þeir ætli að rækt hamp á tveimur hekturum í sumar til áframhaldandi þróunarvinnu.

„Þróun plastsins er flókið ferli sem tekur tíma og við viljum vera komnir með góða vöru áður en farið er út í framleiðsluna sjálfa. Við eigum í samtali við nokkur rótgróin íslensk fyrirtæki um framleiðsluna en of snemmt er að greina frá gangi þeirra viðræðna á þessu stigi.“

Skylt efni: iðnaðarhampur