Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Vibeke Fladkær Nielsen hélt erindi á fagþinginu, en hún mun halda námskeið á Íslandi með RML í apríl.
Vibeke Fladkær Nielsen hélt erindi á fagþinginu, en hún mun halda námskeið á Íslandi með RML í apríl.
Fréttir 1. apríl 2016

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku 2016 − annar hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Nýverið var haldið hið árlega fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku en þingið, sem kallast Kvægkongres, var að vanda haldið í bænum Herning á Jótlandi.
 
Hér á eftir fer annar hluti umfjöllunar um fagþingið en fyrsti hlutinn birtist í 5. tbl. Bændablaðsins 10. mars sl.
 
4. Bústjórn
 
Samhliða stækkandi kúabúum í Danmörku, en meðalkúabúið er um 180 árskýr núna, hefur starfssvið kúabænda landsins breyst mikið frá því sem áður var og úr því að vera hálfgerðir einyrkjar í það að vera framkvæmdastjórar. Vegna þessa hefur á undanförnum árum verið lögð mikil áhersla á þætti sem snúa að því hvernig er best að stjórna stórum búum sem hafa starfsmann eða starfsmenn. Það hlutskipti hentar eðlilega ekki öllum en í þessari málstofu fengu áheyrendur möguleikann á því að hlusta á sex erindi sem öll sneru að þessum verkþætti með einum eða öðrum hætti.
 
Af annars mörgum fínum erindum er ástæða til þess að nefna sérstaklega erindi Vibeke Fladkær Nielsen. Hún er sérfræðingur SEGES í bústjórn og mun nú í apríl halda námskeið RML um leiðir til bættrar bústjórnar og er full ástæða til þess að hvetja alla áhugasama til þess að sækja þessi námskeið hennar. Í fyrirlestrinum gerði hún að umfjöllunarefni ýmis vandamál sem koma upp á búum við stjórnun á fólki, sérstaklega þegar það vantar frumkvæði hjá starfsfólki. Fór hún m.a. yfir þann mikla persónulega mun sem er á okkur öllum. Sumir eru einfaldlega að eðlisfari með mikið frumkvæði en öðrum er það hreint ekki gefið. Þetta má þó virkja með þekktum stjórnunaraðferðum. Þá er frumskilyrði að bóndinn þekki þær aðferðir sem beita þarf á ólíkar persónuleikagerðir. 
 
Fór hún m.a. yfir það hvað það er mikill munur á því hvernig fólk lærir. Sumir gera það að mestu með heyrninni og sé maður með slíkan einstakling í vinnu er mikilvægt að útskýra vel með orðum um hvað verkefnið snýst. Aðrir læra mest með sjóninni þ.e. að sjá verkið unnið og læra þannig af öðrum. Þriðji hópurinn, sem reyndar er ekki stór, lærir best með því snerta á hlutum og í slíkum tilvikum þarf bóndinn að reyna að setja verkefnið þannig fram að viðkomandi tengi kennsluna við snertingu t.d. við efni, hvernig áferð á að vera og svo framvegis. Síðasti hópurinn lærir með því að hreyfa sig og dregur til sín þekkingu mest út frá reynslu. Það getur verið nokkuð þungt verkefni að kenna fólki í þessum hópi enda oft mjög virkir einstaklingar. Sé maður með svona fólk í vinnu er best að kenna þeim og leiðbeina með því að gera verkþáttinn með viðkomandi frá A-Ö.
 
Önnur erindi í þessari málstofu voru einnig afar góð en sérstaklega má nefna að nokkur þeirra snéru að streitu við búskap en á streitu hefur borið í auknum mæli undanfarin ár, sérstaklega ef fjárhagsörðugleikar eru til staðar. 
 
Fengu áheyrendur að heyra um orsakir vinnustreitu og hvað væri til ráða og var erindi Lisbeth Holt Lenskjold einkar gagnlegt en hún er vinnusálfræðingur. 
 
Í mjög stuttu máli má draga niðurstöðurnar sama í það að með bættu vinnuskipulagi og fyrirsjáanleika við dagleg störf er hægt að draga verulega úr hættunni á streitu auk þess sem það er gríðarlega mikilvægt að þekkja einkenni streitu sem geta verið líkamleg, andleg og/eða hegðunarleg. 
 
Líklegt er talið að töluvert margir þjáist af streitu án þess að vita af því og má því nefna hér að dæmi um líkamleg streitueinkenni eru t.d. eymsli í vöðvum, hár blóðþrýstingur, brjóstsviði, hand- og fótkuldi, minni kynlífslöngun, tíð veikindi af umgangspestum og breytt neysluhegðun.
 
Dæmi um andleg streitueinkenni eru t.d. pirringur og viðkomandi verður æst(ur) án mikils áreitis, gleymska, svartsýni, skortur á dómgreind, tómleikatilfinning, tíðar martraðir og biturleiki.
 
Dæmi um hegðunarleg streitueinkenni eru t.d. skortur á forgangsröðun og yfirsýn, einbeitingarleysi, erfiðleikar við að hefja verkefni, óreglulegur svefn, félagsleg einangrun, aukinn flumbrugangur og skortur á frumkvæði.
 
5. Kjötframleiðsla
 
Í raun voru tvær málstofur sem snéru að kjötframleiðslu en í Danmörku er skilið á milli þeirra sem eru í kjötframleiðslu með naut af mjólkurkúakynjunum og þeirra sem eru í holdanautabúskap. 
 
Sér málstofa var um holdanautabúskap og verður fjallað um hana síðar. Í málstofunni um kjötframleiðslu voru flutt fjögur erindi en öll snéru þau að efni sem snerti þá sem eru sérhæfðir í nautaeldi en nánast undantekningarlaust er það svo í Danmörku að sé bóndi í mjólkurframleiðslu þá er hann ekki í nautaeldi heldur selur nautkálfana til bænda sem eru sérhæfðir í slíkri framleiðslu.
 
Eitt erindið var flutt af tveimur ungum bændum, þeim Daniel Tølle og Svend Amstrup, sem greindu frá reynslu sinni við það að hefja búskap með nautaeldi. Svend hefur búið frá árinu 2007 og er í dag með 1.400 naut í eldi ásamt því að framleiða árlega 39 þúsund sláturgrísi. Hann er með sex starfsmenn og er með 10 jarðir undir starfsemina, þar af leigir hann sex þeirra. Hann kaupir eingöngu Holstein nautkálfa og nær feiknarlega góðum árangri með þá en að jafnaði vaxa þeir 1.246 grömm á dag en þeir fá 17% af daglegu fóðri sem kjarnfóður auk þess sem þeir fá valsað korn, maísvothey og hálm.
 
Daniel hóf hins vegar búskap árið 2014 og er í dag með 600 naut í eldi. Hann greindi frá því hve erfitt það var að hefja búskapinn en fyrsta kostnaðaráætlunin hljóðaði upp á fjárfestingu sem nam um 40 milljónum króna en bankinn hafnaði því með öllu. Þá var skorið niður í skipulaginu og enn fékk hann höfnun. Að endingu leysti hann málið með því að gera fastan framleiðslusamning við sláturhús. Auk þess sem fóðurfyrirtæki kom að fjármögnuninni með honum og þá gat hann hafist handa og bankinn lánaði honum sem nam um 5 milljónum íslenskra króna. Þá uppfylla 85% sláturgripa hans sérstakar danskar kröfur sem kallast „Dansk kalv“ en til þess þarf aðbúnaður, uppeldi og umhverfi allt að uppfylla mun strangari kröfur en hið opinbera gerir til framangreindra þátta. Kjötið er enda selt og markaðssett sem slíkt í harðri samkeppni við innflutt kjöt. Ástæðan fyrir því að hann getur ekki selt öll nautin undir merkjum „Dansk kalv“ er aðstöðuleysi en mikið rými þarf til þess að uppfylla kröfurnar og Daniel hefur því miður ekki nægt rými. Annars hefur hann náð undraverðum árangri á stuttum tíma og t.d. er daglegur vöxtur nautanna hjá honum 1.300 grömm og rétt er að geta þess að þetta eru naut af mjólkurkúakyni! Í „Dansk kalv“ kerfinu þarf að slátra nautunum 8–10 mánaða gömlum og er fallþungi þeirra þá um 200 kíló.
 
6. Kynbætur
 
Sjötta málstofan fjallaði um kynbætur og voru að þessu sinni einungis flutt tvö erindi. Annað um kynbætur með því að nota sæði úr öðru mjólkurkúakyni og ná þannig fram blendingsþrótti.
 
Hitt erindið snéri að mjaltaeiginleikum og hvernig best sé að standa að því að mjólka kýr í dag. Tilfellið er að mun einfaldara er að breyta tækninni en kúnum og snéri umfjöllunin því að því hvort búið væri að ná þeim árangri sem ætla mætti með þætti eins og júgurlagi, spenastærð, spenalögun og staðsetningu spena ásamt atriðum eins og júgurfestu og -bandi.
 
Erindið var flutt af fimm ólíkum fyrirlesurum og var komið inn á bæði hefðbundna mjaltatækni sem og mjaltaþjóna og hvort tæknibúnaðurinn í dag væri nógu heppilegur fyrir kýrnar.
 
Það þarf ekki að koma á óvart að tæknibúnaðurinn sem er notaður í dag hentar kúm ágætlega en allt of oft er hann ekki notaður rétt. Nefnd voru dæmi þessu til stuðnings en þáttur eins og mismjaltir er t.d. mjög bústengdur þ.e. bú með samskonar gripi geta verið með mikinn breytileika á þessum mjaltaeiginleika.
Skýringin felst fyrst og fremst í því hvernig mjaltatæknin er notuð á viðkomandi búum. Þá er töluverður munur á milli búa þegar atriði eins og spenagúmmístærð er skoðuð, lögun mjaltakrossins, notkun hjálpararma við að halda uppi mjaltatækjum og/eða notkun á slöngustýringu og við hvaða flæði mjaltatækin eru tekin af kúnum. Enn fremur var athyglisvert að sjá niðurstöður á rannsókn þar sem skoðaðar voru margs konar mjaltaupplýsingar og þær bornar saman við útlitsmat 1.800 Holstein kúa á fyrsta mjaltaskeiði fyrir ofangreinda mjaltaeiginleika. Þar kom í ljós, og kemur svo sem ekki á óvart, að þeir þættir sem hafa mest áhrif á slök afköst mjaltaþjóna eru of nástæðir afturspenar, of framþung júgur og of mikil júgurdýpt.
 
Af þessum þremur þáttum skipti júgurdýptin langmestu máli og tafði mest fyrir því að mjaltaþjónarnir gætu sett hratt á spenana. Atriði eins og spenastærð og spenalengd hafði mun minni áhrif en margur skyldi ætla en þó kom fram að séu spenar of grannir eiga mjaltaþjónarnir erfiðara með að „sjá“ þá en séu þeir breiðari. Mjög breiðir spenar eru reyndar ekki heldur góðir og voru mjaltaþjónar að jafnaði fljótastir að setja á kýr sem voru með 24–25 mm breiða og 45–50 mm langa spena.
 
Í næsta Bændablaði verður fjallað um síðustu málstofur fagþingsins. Þeir sem ekki geta beðið þeirrar umfjöllunar má benda sérstaklega á að bæði útdrættir og flest erindi, þ.e. afrit af glærum fyrirlesara, má hlaða niður af heimasíðunni www.kvaegkongres.dk, en rétt er að geta þess að mest allt efni er á dönsku en þó er hluti þess á ensku.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafi hjá SEGES P/S
Danmörku

4 myndir:

Heitt vatn finnst á Ströndum
Fréttir 1. desember 2023

Heitt vatn finnst á Ströndum

Heitt vatn fannst nýlega við borun á Drangsnesi á Ströndum.

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki
Fréttir 1. desember 2023

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki

Tímamót eru í baráttunni gegn riðuveiki í sauðfé með nýrri nálgun stjórnvalda þa...

Birgðir kindakjöts aldrei minni
Fréttir 1. desember 2023

Birgðir kindakjöts aldrei minni

Birgðir kindakjöts í lok ágústmánaðar hafa aldrei verið minni en á þessu ári.

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið
Fréttir 30. nóvember 2023

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið

Í umræðum á Alþingi á mánudaginn um riðuveiki í sauðfé og bætur vegna niðurskurð...

Sala sýklalyfja dregst saman
Fréttir 30. nóvember 2023

Sala sýklalyfja dregst saman

Sala sýklalyfja fyrir búfé og eldisfiska í Evrópu dróst saman um 12,7% milli ára...

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið
Fréttir 30. nóvember 2023

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið

Í nýlegri skýrslu Ráðgjafar­miðstöðvar land­búnaðarins um rekstrarafkomu nautakj...

Kortlagning ræktunarlands
Fréttir 30. nóvember 2023

Kortlagning ræktunarlands

Gert er ráð fyrir að þings­ályktunar­tillaga um nýja lands­skipulagsstefnu til 1...

Fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum
Fréttir 27. nóvember 2023

Fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum

Nýtt fagstaðlaráð hefur verið stofnað undir hatti Staðlaráðs Íslands. Það verður...