Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Þröstur Heiðar Erlingsson og Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir, bændur í Birkihlíð, úrbeina læri.
Þröstur Heiðar Erlingsson og Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir, bændur í Birkihlíð, úrbeina læri.
Mynd / Birkihlíð
Fréttir 14. júlí 2023

Engin fjölgun bæja með leyfi fyrir næstu sláturtíð

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Á vormánuðum 2021 var heimaslátrun á sauðfé og geitum í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum til markaðssetningar heimiluð, með tilskildum leyfum.

Fyrir sláturtíð það ár fengu þrír bæir sláturleyfi; Grímsstaðir í Reykholtsdal í Borgarfirði, Lindarbrekka í Berufirði og Birkihlíð í Skagafirði – og er staðan nær óbreytt í ár.

Samkvæmt upplýsingum frá Freydísi Dönu Sigurðardóttur, fagsviðsstjóra eftirlits búfjárafurða hjá Matvælastofnun, var Lindar­ brekka með skilyrt, tímabundið leyfi sem hefur ekki verið endurnýjað. Engar fleiri umsóknir hafa borist stofnuninni. „Lindarbrekka myndi þurfa að biðja um endurúttekt fyrir slátrun. Það er mjög misjafnt hvað við vitum um hugsanlegar umsóknir. Það er allavega lítið um fyrirspurnir eða óskir um leiðbeiningar. Kannski ein á sex mánaða fresti,“ segir Freydís.

Í Birkihlíð er nú unnið að því að bæta sláturaðstöðuna. Hér má sjá Þröst í rými sem er bak við kjötvinnsluna og þar munu lambaskrokkarnir koma inn og verða settir á bekk og gæran tekin af með talíu. Þá er unnið að því að breyta súrheysgryfjum í innangenga frystiklefa, sem verða tæplega þrjátíu fermetrar að stærð.

Hefur trú á því að þetta komi smám saman

Talsverð undiralda hafði verið í þessum málum í aðdraganda þess að reglugerð var gefin út sem heimilar rekstur lítilla sláturhúsa á lögbýlum. Ákall var meðal sauðfjárbænda um að leyfi fengist til að slátra heima – og vinna afurðir sínar til markaðssetningar – í því skyni að auka möguleika þeirra til frekari verðmætasköpunar. Í fararbroddi þeirra voru Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir og Þröstur Heiðar Erlingsson, bændur í Birkihlíð. Þau fengu stuðning fyrir rúmu ári síðan úr Markaðssjóði sauðfjárafurða til að halda ókeypis námskeið fyrir þá bændur, sem hefðu hug á því að sækja um að reka slík sláturhús.

Að sögn Ragnheiðar Láru voru viðtökurnar betri en þau bjuggust við og voru bæir úr öllum landshornum með sem þeim fannst skipta miklu máli. „Bændurnir á námskeiðunum voru ekki allir ákveðnir í að fara út í þetta en fannst mjög spennandi að vera með og vita hvað þarf að gera til að fá leyfið. Sumir reyndar ætla í þetta og eru að vinna í því en ætla alveg að taka sér tíma í það. En við vitum um tvo bæi sem eru komnir vel á veg og eru að stefna á þetta. Við höfum samt fulla trú á að þetta komi smám saman. Þegar þú ert farinn að selja sjálfur þína vöru á miklu hærra verði en þú færð fyrir hana í sláturhúsinu ertu kominn í allt annað hagkerfi. Vinna í þinni eigin kjötvinnslu getur þá komið í staðinn fyrir vinnu utan heimilis.

Það vantar líka alveg að forystu­menn bænda sýni þessu einhvern áhuga, en það hefur eiginlega aldrei verið, þrátt fyrir samþykktir frá aðalfundum um að lyfta þessum málum. Fyrrum stjórnir Lands­samtaka sauðfjárbænda og Bænda­samtaka Íslands voru algjörlega gagnslausar á þessum tíma sem við vorum að brasa við þetta, þeir formenn sem störfuðu þá sýndu þessu þó aðeins áhuga,“ segir hún.

Hræðsla við Matvælastofnun

„Maður heyrir það alltaf að fólk er bara skíthrætt við samskiptin við Matvælastofnun og gerir í raun allt sem það getur til að komast hjá því – hvað þá að fyrra bragði. En eins og við höfum sagt að þá er þarna gott starfsfólk líka sem hefur reynst okkur ágætlega.

Nú erum við að koma okkur upp betri aðstöðu til að slátra og þá horfum við mjög mikið til að í framtíðinni munum við fá leyfi til að slátra stórgripum heima. Enda trúum við því ekki að það ætti að vera langsótt. Spendýr á fjórum fótum, bara aðeins stærra. Ætli það verði ekki bara næsti slagur,“ segir Ragnheiður.

„Við fengum langtímaleyfi í október í fyrra til að slátra sauðfé og ætlum að reyna að byrja að slátra í ágúst núna. Við erum alveg að verða búin með okkar lambakjöt en í fyrra, eins og undanfarin fimm ár þar á undan, höfum við selt allt okkar lambakjöt sjálf. Í fyrrahaust vorum við með rétt tæplega þrjú hundruð sláturlömb og því erum við mjög ánægð með hvernig staðan er hjá okkur núna.

Matarferðamennska kemur sterk inn

Ragnheiður Lára telur að mörgum vaxi það í augum að fara að selja kjötið sitt sjálfir en það sé mikil vakning í sölu beint frá býli og matarferðamennska hafi komið mjög sterkt inn að undanförnu.

„Við finnum það mjög vel að það eru fleiri sem vilja koma til okkar og versla og við erum líka að taka á móti alls konar hópum sem vilja kynna sér heimavinnslur sem og heimaslátrun. Og í þessu ferli okkar öllu, að berjast fyrir heimaslátrun, verður maður að hafa valdið með sér, það er að segja Alþingi. Reglugerðarfarganið er bókstaflega allt að drepa og þá er ég ekki bara að tala um heimavinnslur og bændur.

Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi landbúnðarráðherra, skildi þörfina mjög vel að koma sauðfjárbændum út úr þeim klafa að geta aðeins farið með lömbin sín á sláturhús og fá engu ráðið með verðið og eiga sauðfjárbændur honum miklar þakkir skildar fyrir sinn stóra þátt í útgáfu reglugerðarinnar sem heimilaði þetta. Íslendingar sem hafa ferðast um heiminn tala mikið um það að það sé svo gaman að keyra um sveitirnar úti í heimi og geta keypt til dæmis jarðarber á einum bæ, plómur á þeim næsta, heimagerðan ost á þeim þriðja og mjólk á þeim fjórða.

Alltaf eru fleiri og fleiri bændur hérna á Íslandi að opna litla búð heima á sínum bæjum þar sem þeir bjóða upp á sínar afurðir. Það er gaman að segja frá því að hér í Skagafirði er hægt að keyra heim á bæi og versla nauta­, kvígu­, lamba­ og geitakjöt, lífrænt ræktað grænmeti, kál, gúrkur og tómata sem og geitaost. Fólki finnst þetta æðislegt. Ekki drepa íslenskan landbúnað, þið sem stjórnið. Leyfum nýsköpuninni að blómstra áfram í allri sinni dýrð og minnkum reglugerðafarganið, öllum til hagsbóta. Ábyrgð þingmanna er gríðarlega mikil.“

Skylt efni: heimaslátrun

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...