Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Eldsneyti framtíðarinnar – íslenskar orkujurtir
Skoðun 3. júlí 2019

Eldsneyti framtíðarinnar – íslenskar orkujurtir

Höfundur: Silja Dögg Gunnarsdóttir
Framleiðsla jarðefnaeldsneytis mun innan nokkurra áratuga dragast verulega saman. Í þeirri staðreynd felst sú áskorun að framleiða nýja orkugjafa hér á landi sem eru bæði endurnýjanlegir og umhverfisvænir. Rannsóknir sýna að bíódísill úr repjuolíu geti komið í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti. 
 
Repjuræktun og framleiðsla á eldsneyti úr repjuolíu er sjálfbær leið til að sjá fiskiskipaflotanum fyrir eldsneyti sem ekki veldur koltvísýringsútblæstri. Möguleikar á því að framleiða eigið eldsneyti í stað þess að flytja það inn til landsins eiga að kalla á umfangsmikla greiningu á þeim hagræna ávinningi sem mun skapast fyrir þjóðarbúið, bændur og framleiðendur og ekki síst út frá umhverfislegum markmiðum.
 
Aðgerðir og ívilnanir til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis
 
Í samgönguáætlun íslenskra stjórnvalda eru sett fram markmið um að dregið verði úr neikvæðum umhverfisáhrifum samgangna. Stefnt verði að því að losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna á Íslandi verði undir 750 þúsund tonnum árið 2020 sem er í samræmi við aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Til að ná þessum markmiðum er lögð áhersla á að auknar verði rannsóknir á umhverfisvænum orkugjöfum til að þróa og framleiða vistvænt eldsneyti. Einnig að markvissar aðgerðir og ívilnanir miði að minni notkun jarðefnaeldsneytis og að samgöngutæki nýti orku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Sérstök áhersla er lögð á að auka notkun lífeldsneytis á fiskiskipaflotann. Þessi stefna íslenskra stjórnvalda er í takt við það sem er að gerast í kringum okkur. Evrópusambandið hefur sett reglur um framleiðslu og notkun umhverfisvænna orkugjafa og hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) hafa verið lagðar fram hugmyndir um aukna notkun á umhverfisvænum orkugjöfum í skipum sem þáttur í aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. 
 
Ræktun á repju er kolefnisjöfnun 
 
Bíódísill úr repjuolíu er lífræn dísilolía og endurnýjanlegur orkugjafi og telst einn umhverfishlutlausasti orkugjafinn sem getur komið í stað jarðdísilolíu á bíla, skip og flugvélar. Við brennslu á bíódísil, sem framleiddur hefur verið úr repjuolíu, er talið að um rúmlega 70% minni mengun sé að ræða en þegar jarðdísill er notaður. Repjuræktun felur í sér tvöfalda kolefnisjöfnun með tilliti til útblásturs á koltvísýringi þar sem ræktunin tekur til sín tvöfalt meira af koltvísýringi en brennsla olíunnar gefur frá sér við útblástur. Einn repjuhektari fullnægir vel meðalþörf fólksbíls á einu ári, þ.e. rúmlega 1000 lítrar af 100% lífdísil. Bíódísil má nota í olíubrennurum og á allar dísilvélar farartækja og varla þarf að breyta vélunum ef skipta skal yfir á bíódísil. Bíódísill virkar eins og dísilolía nema hvað hann er óeitraður, veldur lágmarks mengun og hefur einnig meiri hreinsunar- og smureiginleika. 
 
Ræktunarland er til staðar
 
Með ofangreint í huga fellur repjuræktun sem orkuöflun sérstaklega vel að hugtakinu umhverfisleg sjálfbærni sem innlend og endurnýjanleg orka því ræktunina má endurtaka án þess að ganga á auðlindaforða náttúrunnar. Að auki sparar íslensk framleiðsla á bíódísil og repjuolíu innflutningi á þessum afurðum. Vinnsla þeirra hérlendis skapar atvinnu og eykur þar með þjóðartekjur sem og orkuöryggi þjóðarinnar. Ísland hefur þá sérstöðu að ekki þarf að taka undir ræktunina land sem almennt er í ræktun fyrir matjurtir. Nauðsynlegt er því að nýta það landsvæði sem almennt er ekki í ræktun hjá bændum til að rækta orkujurtir eins og repju. Samkvæmt upplýsingum frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins er gott ræktunarland hér á Íslandi um 600.000 hektarar eða einungis 6% af flatarmáli landsins. Þar af eru þegar í ræktun um 120.000 hektarar og tiltækt ræktunarland er því um 480.000 hektarar. Með sérstöku átaki mætti framleiða alla þá olíu sem íslenski skipaflotinn notar á nú ónýttu landi.
 
Minnkum innflutning  – aukum orkuöryggi
 
Íslenski fiskiskipaflotinn notar að meðaltali um 160 þúsund tonn af skipagasolíu á ári. Þegar Þegar svartolía og skipaolía, sem keypt hefur verið erlendis, er meðtalin fer notkunin í um 200 þúsund tonn. Gert er ráð fyrir að á næstu 10 árum muni olíunotkun íslenskra fiskiskipa verða svipuð og í dag eða árlega í kringum 160 til 200 þúsund tonn af jarðolíu. 
 
Tæknilega væri unnt að minnka losun margra gróðurhúsalofttegunda um allt að 70% á tiltölulega auðveldan hátt með því að breyta eldsneytisnotkun skipa þannig að þau noti jurtaolíu, bíódísil eða annað lífrænt eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis. Útgerðirnar gætu ræktað repju og breytt henni í bíódísil fyrir skip sín. 
 
Næstu skref
 
Undirbúa þarf sem fyrst og með kostgæfni notkun bíódísils á aðalvélar íslenskra skipa með hagkvæmni og umhverfislegan ávinning að leiðarljósi. Byrja mætti í minni skipum og síðan auka sviðið jafnt og þétt. Einnig mætti byrja á lágu íblöndunarhlutfalli bíódísils í jarðdísil eins og til dæmis 5% og hækka síðan hlutfallið jafnt og þétt með aukinni repjuræktun og framleiðslu á bíódísil. 
 
Undirrituð hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til samgönguráðherra varðandi ræktun og nýtingu íslenskra orkujurta fyrir fiskiskipaflotann. Það verður áhugavert að sjá hver næstu skref verða í þeim efnum, þar sem stórkostleg tækifæri felast í aukinni nýtingu íslenskra orkujurta, ekki síst fyrir umhverfið og orkuöryggi þjóðarinnar.
 
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Skylt efni: repja orkujurtir | orkumál

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum
Fréttir 1. júní 2023

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum

Nýstárleg tilraun var gerð við ósa Haffjarðarár síðasta sumar, þegar fuglavarnar...

Fjölgun nema í kjötiðn
Fréttir 1. júní 2023

Fjölgun nema í kjötiðn

Rúnar Ingi Guðjónsson segist finna fyrir mjög miklum áhuga hjá ungu fólki að lær...

Ferðamenn sækja í skóga
Fréttir 1. júní 2023

Ferðamenn sækja í skóga

Stjórn Félags skógarbænda á Suðurlandi harmar framkomnar órökstuddar fullyrðinga...

Ártangi til sölu
Fréttir 31. maí 2023

Ártangi til sölu

Hjónin Gunnar Þorgeirsson og Sigurdís Edda Jóhannesdóttir hafa sett garðyrkjustö...

Skýr afstaða í könnun
Fréttir 31. maí 2023

Skýr afstaða í könnun

Meirihluti þjóðarinnar er sammála því að íslenska ríkið eigi að leggja aukið fjá...

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun
Fréttir 31. maí 2023

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun

Ágúst Sigurðsson á Kirkjubæ á Rangárvöllum hefur nýlega tekið við starfi fagstjó...

Erlendir sérhæfðir garðyrkjuráðunautar á Íslandi
Fréttir 31. maí 2023

Erlendir sérhæfðir garðyrkjuráðunautar á Íslandi

Matvælaráðherra úthlutaði nýlega styrkjum til þróunarverkefna búgreina, um 93 mi...

Afhending eftir sauðburð
Fréttir 30. maí 2023

Afhending eftir sauðburð

Matvælastofnun hefur náð samkomulagi við sauðfjárbændur á nokkrum bæjum í Miðfja...