Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Bóndi á lífrænu fjárbúi í Eistlandi.
Bóndi á lífrænu fjárbúi í Eistlandi.
Mynd / ÓRD
Á faglegum nótum 22. nóvember 2017

Eftir hverju bíða Íslendingar

Höfundur: Ólafur R. Dýrmundsson
Það eru fleiri en íslenskir sauðfjárbændur sem hafa tapað útflutningsmörkuðum í Rússlandi vegna refsiaðgerða ESB í tengslum við Úkraínumálið. Eistlendingar hafa t.d. misst markaði í Rússlandi fyrir alifugla- og svínaafurðir svo og mjólk og mjólkurafurðir. Kúabændur þar hafa snúið sér í vaxandi mæli að nautakjötsframleiðslu af beitargripum og sauðfé hefur einnig fjölgað á seinni árum.
 
Lífræni geirinn vex hratt
 
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson.
Þegar ég kom fyrst til Eystrasalts­ríkjanna Eistlands, Lettlands og Litháen, upp úr aldamótunum, fannst mér athyglisvert hve lífræni geirinn hafði tekið vel við sér eftir að þjóðirnar losnuðu undan oki Moskvuvaldsins og öðluðust sjálfstæði að nýju um 1990. Aðild að ESB hefur stuðlað að þessari þróun en þó er ljóst að stefna stjórnvalda í hverju landi fyrir sig skiptir megin máli. Þetta á sérstaklega við um Eistland þar sem lífræni geirinn vex ört, bæði hvað varðar vottað land og fjölda bænda í vottuðum lífrænum búskap. Nær þessi þróun til allra búgreina; jarðræktar, búfjárræktar, garð- og gróðurhúsaframleiðslu og býflugnaræktar. Því eru lífrænt vottaðar vörur orðnar mjög fjölbreyttar. Mest af þeim er selt á innanlandsmarkaði. Helsta útflutningsafurðin til annarra ESB landa er korn, einkum hafrar, en einnig hveiti, rúgur og bygg, í þeirri röð. Einnig er flutt inn mikið af lífrænt vottuðum vörum.
 
Lífræn sauðfjárrækt orðin útbreidd
 
Helstu búgreinar í lífræna geiranum í Eistlandi eru nautakjötsframleiðsla og sauðfjárrækt, sem mest byggt á nýtingu beitilanda á víðáttumiklum sléttum inni á milli skóganna sem þekja um 50% landsins. Þau lífrænu sauðfjárbú sem ég hef komið á í Eistlandi nota gjarnan gamlar, stórar byggingar samyrkjubúa Sovéttímabilsins, gera þær upp og laga að sauðfjárbúskapnum. Auk þurrheys og votheys er gefið nokkuð af korni yfir vetrarmánuðina en hálmur er notaður til undirburðar. Töluvert er af smára og öðrum belgjurtum í graslendinu sem auðvelda lífræna aðlögun.
 
Í Eistlandi er hvítt, kollótt, innlent fjárkyn algengast en blendingslömb eru framleidd með innfluttum kynjum á borð við Texel frá Hollandi og Dorset frá Bretlandi. Ærnar eru látnar bera í mars og fram í apríl. Frjósemi er heldur minni en hjá íslenska fénu. Dilkar eru sendir beint í slátrun eða seldir á fæti til bötunar í september og október. Eftir því sem ég hef komist næst vaxa þessi lömb hægar en þau íslensku. Verð til bænda fyrir lömb með lífræna vottun sem eru um 35 kg á fæti að meðaltali er á bilinu 135-250 evrur (16.000-31.000 íslenskar krónur), jafnvel heldur hærra ef farið er með dilkana beint í sláturhús um fimm mánaða gamla.  Þar við bætast stuðningsgreiðslur, bæði á land og gripi. Hvergi í Evrópu er hærra hlutfall sauðfjárstofnsins í lífrænum búskap, um 50%, þ.e.a.s. 48.000 fjár með fulla vottun og 4.000 fjár í aðlögun árið 2016. Ljóst er að opinber stefna og stuðningur stjórnvalda skipta þarna megin máli. Þess ber að geta að meðal fjárfjöldi á lífrænum búum er 166 kindur, oftast í blönduðum búskap, og algengt er að bændur og fjölskyldur þeirra sinni hlutastörfum utan bús til að drýgja tekjurnar.
 
Útihús frá Sovéttímanum sem breytt hefur verið í fjárhús.  Mynd / ÓRD
 
Góður stuðningur við lífræna geirann
 
Lífræna hreyfingin í Eistlandi á sér ekki langa sögu því að fyrstu félögin voru stofnuð fyrir tæplega 30 árum þegar landið varð aftur sjálfstætt ríki. Fyrstu árin notuðu bændur reglur um lífræna ræktun sem byggðust á stöðlum IFOAM, Alþjóðasamtaka lífrænna landbúnaðarhreyfinga. Þáttaskil urðu 1997 þegar lög um lífrænan landbúnað tóku gildi og 2001 var tekið upp ríkisrekið vottunarkerfi líkt og í Danmörku. Þannig hefur Landbúnaðarráðuneyti Eistlands umsjón með vottuninni og hefur þetta opinberra vottunarkerfi reynst vel. Eftir inngöngu í Evrópusambandið 2004 hefur löggjöf þess um lífræna framleiðslu gilt  eins og hér á landi. Einnig er opinber stuðningur við rannsóknir og námskeiðahald  í þágu lífræns búskapar verulegur.  Öllum bændum sem fara með bú sín í lífræna aðlögun er skylt að sækja nokkur stutt námskeið um þau efni sem haldin eru reglulega í hinum ýmsu landshlutum. 
 
Þyngst vega þó beinar stuðningsgreiðslur til lífrænna bænda, bæði á aðlögunartímanum og og síðar, bæði fyrir land og gripi.  Við upphaf aðlögunar þarf bóndinn að  gangast undir skuldbindingar um  að stunda lífrænan landbúnað í a.m.k. fimm ár. Þótt hér hafi verið vikið sérstaklega að sauðfjárræktinni nær þessi stuðningur til allra búgreina, landgreiðslur á hektara og gripagreiðslur einnig, þar sem t.d. mjólkurkýr telst 3.0 búfjáreiningar en ær  0.3 búfjáreiningar. Fyrstu tvö ár aðlögunar er greiddur 10% hærri styrkur en árin þar á eftir og greiðslur halda áfram eftir að aðlögun lýkur með fullri vottun. Þessi góði aðlögunarstuðningur við lífræna geirann í Eistlandi er til fyrirmyndar og með allt öðrum hætti en gerist hér á landi. Á tiltölulega stuttum tíma hefur Eistland skipað sér í hóp þeirra landa í Evrópu sem mest hafa eflt lífræna ræktun á meðan Ísland er í hópi þeirra sem reka lestina. Þó var staðan mjög svipuð í báðum löndunum fyrir 20 árum.
 
Meingallaðar íslenskar reglur um aðlögunarstuðning
 
Til að fyrirbyggja misskilning tel ég rétt að taka það skýrt fram að Ísland þarf ekki að ganga í ESB til að feta í fótspor Eistlands við þróun lífrænna búskaparhátta. Þótt hvorki núgildandi ESB reglugerð um lífræna landbúnaðarframleiðslu, né sú nýja, sem væntanlega tekur gildi 2020, séu okkur ekki nægilega hagstæðar vegna ýmissar sérstöðu, tel ég það gersamlega óviðunandi að íslenskur landbúnaður skuli reka lestina í þessari nútímaþróun í eflingu lífrænna búskaparhátta. Það tómlæti og sú tregða sem hér ríkir gagnvart sjálfbærri þróun lífræns landbúnaðar er að mínum dómi fremur manngert vandamál en vísindalegt og tæknilegt. Því er hugarfarsbreytingar þörf. Hún kostar ekki neitt.
 
Hér hefur verið vikið sérstaklega að stefnumótun og stuðningi við lífrænan landbúnað í Eistlandi og  hinni glæsilegu þróun þar. Í því samhengi ætla ég að taka dæmi úr íslenskum raunveruleika um manngerðan vandræðagang sem er að skaða framþróunina hér á landi. Hann endurspeglast m.a. vel í fyrirsögn greinar í Bændablaðinu 21. september í haust, efst á bls. 12 t.h.:
 
Einungis tvær umsóknir bárust í lífræna aðlögunarstyrki – Nálægt 30 af 35 milljónum ekki ráðstafað að þessu sinni. 
 
Blaðamaður Bbl. ræðir þarna við Jón Baldur Lorange, framkvæmdastjóra Búnaðarstofu Matvælastofnunar, og vísað er í nýjan búvörusamning sem hafi tífaldað stuðning til aðlögunar að lífrænum landbúnaði. Jón Baldur lýsir yfir vonbrigðum með viðbrögðin og telur að þennan styrkjaflokk verði að kynna betur. Nú verði 30 milljónum króna óráðstafað á þessu ári sem framkvæmdanefnd búvörusamninga þurfi að taka afstöðu til hvað gera eigi við.
 
Ég er hræddur um að betri kynning á ákvæðum um lífræna framleiðslu í 5.kafla reglugerðar nr. 1240/2016 um almennan stuðning við landbúnað komi ekki að gagni því að ég tel þær reglur meingallaðar og alls ekki til þess fallnar að hvetja til lífrænnar aðlögunar búskaparhátta. Því tel ég að endurskoða þurfi þessi reglugerðarákvæði á tafar, þ.e.a.s. 20.-24. greinar reglugerðarinnar. Þarna er að mínum dómi verið að gera óraunhæfar kröfur til umsækjenda og jafnvel meiri en gerðar eru til umsókna um aðrar stuðningsgreiðslur í reglugerðinni. Ég legg því til að Bændasamtök Íslands, sem við samningu búvörusamningsins lögðu til að opinber framlög til aðlögunar að lífrænum landbúnaði yrðu tífölduð, beiti sér fyrir endurskoðun 5. kaflans. Við það verði höfð hliðsjón af eldri reglum sem reyndust vel enda í samræmi við slíkar reglur um aðlögun í nágrannalöndunum, einkum í Noregi. Vert er að geta þess að eldri reglurnar voru samdar af fólki sem hefur þekkingu og reynslu auk skilnings á málefnum lífræna geirans hér á landi.  
 
Eftir hverju er verið að bíða?
 
Hér að framan hef ég gert stuttlega grein fyrir glæsilegri þróun lífræns landbúnaðar í Eistlandi, einkum í sauðfjárræktinni. Hér hefur þróunin orðið allt önnur og er m.a. bent á manngerðar tálmanir, nú síðast í formi meingallaðra reglugerðarákvæða um stuðning  við aðlögun að lífrænum búskaparháttum. Markaður fyrir lífrænt vottaðar vörur fer stöðugt vaxandi, mikið er flutt inn en ekki er verið að nýta þau sóknarfæri sem blasa við í innlendri framleiðslu. Þessi mál þarf að taka fastari tökum, opinberrar stefnumótunar er þörf og hinar ýmsu stofnanir sem stuðla að íslenskri landbúnaðarframleiðslu með ýmsum hætti geta að mínum dómi gert miklu betur til að efla hina sjálfbæru búskaparhætti sem byggja á lífrænni ræktun. Því spyr ég sömu spurningar og ég spurði í grein í 17. tbl. Bændablaðsins 1995: Eftir hverju er verið að bíða?
 
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson 
Höfundur, er sjálfstætt starfandi búvísindamaður og hefur verið fulltrúi Íslandsdeildar Evrópuhóps lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM EU Group) síðan 2004. Hann mun væntanlega fjalla um það samstarf í næsta blaði.
Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...