Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Dönsk egg voru til sölu í verslun
Fréttir 9. júní 2022

Dönsk egg voru til sölu í verslun

Lífræn dönsk egg voru til sölu í verslun hér á landi nýverið. Til þessa hefur einungis verið leyfður innflutningur á gerilsneyddum eggjamassa en ekki hráum eggjum.

Halldóra K. Hauksdóttir, eggjabóndi hjá Grænegg á Svalbarðsströnd.

„Satt best að segja brá mér þegar ég fékk upplýsingar um að hægt væri aðkaupa lífræn egg frá Danmörk hér á landi,“ segir Halldóra Kristín Hauksdóttir, eggjabóndi hjá Grænegg á Svalbarðsstönd og stjórnarmaður í Bændasamtökum Íslands. Halldóra segist líta það alvarlegum augum út frá sjúkdómavörnum að hægt sé að kaupa innflutt hrá egg á Íslandi.

Halldóra bendir á að íslenski varpfuglastofninn sé laus við sjókdóma og að íslenskir eggjaframleiðendur fylgi ýtrustu heilbrigðiskröfum, bæði á búum sínum og við innflutning á eggjum til kynbóta. Hún bendir einnig á að einungis er leyfilegt að flytja inn frjó egg í gegnum einangrunarstöð Stofnunga á Hvanneyri.

„Það hlýtur að skjóta skökku við að nú sé hægt að kaupa innflutt hrá lífræn egg,“ segir hún.

Halldóra veltir því fyrir sér hvort ekki sé eitthvað athugavert við regluverkið. Vernd í íslenskum landbúnaði, þar á meðal í eggja- framleiðslu, er annars vegar í formi tolla og hins vegar á grundvelli sjúkdómavarna.

„Það er alveg ljóst að ef þessi vernd væri ekki til staðar þá værum við ekki með íslenska eggjaframleiðslu. Svo að mínu mati er mikilvægt að vera á verði gagnvart þessu.“

Kanna hvort eftirliti sé ábótavant

Auknar kröfur voru nýlega settar á innflutning á eggjum og þarf sem dæmi að fylgja heilbrigðisvottorð um að eggin séu laus við salmonellu. Halldóra segir stöðu eggjaframleiðenda, til þessa, hafa verið nokkuð góða enda séu egg vinsæl og góð matvara og seljist vel. Sumarið í ferðaþjónustu fari vel af stað, en hótel og veitingastaðir eru stórkaupendur eggja.

„Útlitið er að því leyti til ágætt, þrátt fyrir að ákveðnar áhyggjur af stöðunni séu til staðar. Hækkanir á aðföngum undanfarið eru miklar, m.a. á fóðri, sem er stór liður í okkar rekstri,“ segir hún.

Fjárfest fyrir milljarða

Eggjaframleiðendur hafa síðastliðin ár fjárfest fyrir marga milljarða króna vegna reglugerðarbreytinga sem snúa að aðbúnaði alifugla.

Að sögn Halldóru er um það bil tíu eggjabú eru í rekstri hér á landi um þessar mundir fyrir utan þá sem halda hænur til heimilisins. Halldóra hefur spurnir af því að rekstri verði hætt á tveimur minni búum, m.a. vegna nýrra reglugerðarbreytinga.

„Það er margt sem hefur verið okkur andsnúið undanfarið, heimsfaraldurinn hafði vissulega slæm áhrif og ofan í hann bætist svo stríð í Úkraínu sem bætir gráu ofan á svart.“