Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Brunavarnir í gróðri
Fréttir 27. júní 2018

Brunavarnir í gróðri

Höfundur: Björn Bjarndal Jónsson

Stýrihópur um mótun vinnureglna í brunavörum í gróðri hefur verið að störfum frá árinu 2011 með stuttum hléum. Í greinargerð stýrihópsins er góð lýsing á niðurstöðum og tillögum sem lúta að forvörnum og viðbrögðum ýmissa aðila vegna gróðurelda.

Auk stýrihópsins störfuðu vinnuhópar við mótun einstakra þátta brunavarna í gróðri. Hluti af niðurstöðum stýrihópsins er útgáfa á bæklingi með leiðbeiningum til landeigenda og sumarhúsaeigenda, sem og veggspjöld í sama tilgangi.

Opnuð hefur verið  heimasíðan www.grodureldar.is þar sem fyrrnefndur bæklingur er hýstur, auk veggspjaldsins og ítarefnis sem nýtist þeim sem vilja gera áætlanir um brunavarnir í gróðri, hvort sem er fyrir skóg eða önnur gróðursvæði svo sem sumarhúsalönd.

Gróðureldar og varnir

Gróðurbrunar á Íslandi hafa fram að þessu einskorðast við sinubruna, en með aukinni skógrækt um land allt eru skógarbrunar og kjarreldar nýr veruleiki sem takast þarf á við.

Stórir skógarbrunar, eins og fréttist af erlendis frá, verða ekki á Íslandi þar sem aðstæður til að skapa slíka bruna eru ekki fyrir hendi. Þó hefur hætta á gróðureldum margfaldast á undanförnum áratugum þar sem kröfur til skipulags varna og viðbúnaðar hafa ekki haldist í hendur við breytt veðurfar og aukna áherslu á landvernd og skógrækt. Mikil hætta, sem bregðast þarf við, getur því skapast vegna gróðurelda á fjölmörgum svæðum. Mörg þessara svæða eru vinsæl útivistar og sumarhúsasvæði og eru þar því mikil verðmæti til staðar bæði í formi skógræktar og sumarhúsabyggða.

Skráningar á gróðureldum undanfarinna ára hafa sýnt að helstu orsakir þeirra eru eldingar, atvinnustarfsemi, frístundaiðkun og íkveikja. Langflestir gróðureldar kvikna af mannavöldum og flestir af völdum íkveikju.

Gróðureldar

Mosa-, lyng- og sinubrunar eru vel þekktir á Íslandi, en þeim hefur fækkað mikið eftir að bann var lagt við þeim nema með sérstöku leyfi. Trjágróður er misjafnlega eldfimur og brenna lauftré verr en barrtré. Gróðureldar eru einnig mjög háðir landslaginu. Í bröttum hlíðum getur útbreiðsluhraði tvöfaldast við 20% halla. Einnig er munur á því hvort um grunnan eða djúpan jarðveg er að ræða, en meiri eldhætta er ef jarðvegur er grunnur. Mest hætta á gróðureldi er við eftirfarandi aðstæður:

• Í langvarandi þurrkum
• Við hátt hitastig
• Við lágt rakastig
• Í hvassviðri
• Í þrumuveðri

Stórir gróðureldar verða yfirleitt í langvarandi þurrkum og hvassviðri. Við slíkar aðstæður geta eldar orðið útbreiddir í öllum gerðum gróðurs og skóga, líka þar sem jarðvegur er djúpur. Því geta þurr sumur með háum hita og miklu sólskini leitt til gróðurelda, sem og þurr vor með vindasömum og björtum dögum. Stuttar skúrir bæta ástandið ekki mikið. Þannig getur verið hætta á gróðureldum eftir tímabil þar sem hefur rignt í stuttum skúrum. Einnig hefur frost í jörðu þau áhrif að kviknað getur í mýrum á þurrum vorum og komið hefur fyrir að eldur í fjöðrum stórra fugla, sem fljúga á raflínur, hafi valdið gróðureldi.

Trjágróður er mjög mismunandi eldfimur. Mest er um birki eða gulvíði í kjarrlendi og náttúrulegu skóglendi á Íslandi, en einnig er nokkuð um reynivið og blæösp. Algengustu trjátegundirnar í skógrækt á Íslandi eru birki, sitkagreni, rússa- og síberíulerki, stafafura og alaskaösp. Íslendingar eru því betur settir en nágrannaþjóðirnar þar sem um útbreidda einsleita greni- og furuskóga er að ræða.

Víða erlendis er notast við reiknilíkan til að átta sig á brunahættu t.d. „Fire Weather Index FWI“ (CFA, 2018). Gefnar eru þá út aðvaranir til almennings á stigunum 1 til 5, um mjög litla til mjög mikla brunaáhættu og leiðbeiningar um eldvarnir eða bönn við því að kveikja elda, til dæmis, í Ástralíu „total fire ban“.

Slíkt kerfi hefur ekki verið tekið upp hér á landi, en við sérstakar aðstæður hafa verið gefnar út viðvaranir til almennings svo sem um áramót vegna hættu af völdum flugelda og blysa þegar langvarandi frost hefur verið, þurrt í veðri og auð jörð.

Varnir

Meðferð elds. Ávallt skal fara varlega með eld og þá sérstaklega á gróðursvæðum. Aldrei skal kveikja í brennu nema með leyfi og ekki kveikja eld nema í eldstæðum eða á til þess ætluðum stöðum. Bann er við sinueldum nema að fengnu sérstöku leyfi.

Skipulag svæða. Mikilvægt er að skipuleggja skógarsvæði með tilliti til eldvarna. Sérstaklega á þetta við um svæði þar sem umferð fólks er mikil, svo sem fjölsótt útivistarsvæði og sumarhúsasvæði. Ekki eru í skipulagslögum reglur um eldvarnir skógarsvæða, en mikilvægt er að hugað sé meðal annars að aðgengi slökkviliðs, flóttaleiðum, uppbyggingu vega og slóða, varnarlínum og brunahólfun, sem og vatnstökustöðum og vatnsbólum.

Við rekstur slíkra svæða er mikilvægt að takmarka eldsmat, eiga viðbragðsbúnað og viðbragðsáætlun, og að kynna almenningi á svæðinu hættu á gróðureldum og viðbrögð við þeim.

Brunavarnir sumarhúsa

Flest sumarhúsasvæði á Íslandi eru skipulögð á bersvæði, en síðan hefur orðið mikil breyting á gróðri og mörg sumarhúsasvæði eru nú í þéttvöxnum skógi eða kjarri. Lítið hefur verið hugað að flóttaleiðum, vatnsöflun eða uppbyggingu vega innan svæða til að bregðast við þessari vá.

Með til vísan til ástands á mörgum eldri sumarhúsasvæðum getur skapast mikil hætta ef kviknar í þurrum gróðri. Því er mikilvægt að eigendur sumarhúsasvæða, félög sumarhúsaeigenda og sumarhúsaeigendur geri sér grein fyrir þeirri eldhættu sem fylgir auknum gróðri á sumarhúsasvæðum og bregðist við með viðeigandi aðgerðum.

Eldvarnir í og við sumarhús felast bæði í aðgerðum utan- og innanhúss. Inni á heimasíðunni www.grodureldar.is eru upplýsingar sem einstaklingar og félagasamtök geta nýtt sér við skipulagningu eldvarna. Fjallað er um öryggissvæði við hýbýli, viðbragðsbúnað innan og utandyra, viðbragðs- og björgunaráætlun og leiðbeiningar vegna grunnviðbragða. Einnig er vísað í bæklinginn „Gróðureldar. Varnir og viðbrögð,“ sem dreift verður til félag í Landssambandi sumarhúsaeigenda.

Landupplýsingar

Eitt af verkefnum stýrihópsins var að þróa gagnagrunn, samræma nýtingu landupplýsingagagna í viðbrögðum og að koma upplýsingum um brunavarnir í gróðri inn í landupplýsingakerfi Neyðarlínu þannig að greiður aðgangur yrði að þeim upplýsingum fyrir viðbragðsaðila.

Þróaður var landfræðilegur gagnagrunnur sem innifelur allar landupplýsingaskráningar er varða gróðurelda á Íslandi. unnið er að því að gera gagnagrunninn aðgengilegan fyrir Neyðarlínuna.

Hvað svo? 

Í framhaldi af þeirri vinnu sem fráfarandi stýrihópur um eldvarnir í gróðri skilar af sér þá mun nýr vinnuhópur verða skipaður sem Félag slökkviliðsstjóra á Íslandi mun leiða. Lögð verðu áhersla að viðhalda góðri heimasíðu, skipuleggja fræðslu og þróa áfram árangursríkar leiðir til brunavarna í gróðri.
Rétt er að geta þess að hægt er að nálgast bæklinginn „Gróðureldar, forvarnir og fyrstu viðbrögð“ hjá Landssamtökum skógareigenda og Skógræktarfélagi Íslands.

Víðtækur stýrihópur

Þátttakendur í stýrihópnum voru frá Skógræktinni, Skógræktarfélagi Íslands sem fulltrúi skógræktarfélaganna, Landssamtökum skógareigenda, Mannvirkjastofnun, Félags slökkviliðsstjóra/Brunavörnum Árnessýslu, Landssambandi sumarhúsaeigenda og Verkfræðistofunni Verkís.

Fulltrúi Skógræktarinnar leiddi stýrihópinn. Hönnun bæklings og veggspjalds var í höndum Forstofunnar, en ritun greinargerðar á grundvelli framlagðra upplýsinga var í höndum Verkís.

Skylt efni: brunavarnir

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...