Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Áskorun tuttugustu og fyrstu aldarinnar
Fréttaskýring 20. nóvember 2017

Áskorun tuttugustu og fyrstu aldarinnar

Höfundur: Vilmundur Hansen

Rannsóknir benda til að maðurinn hafi fyrst farið að hafa teljandi áhrif á umhverfi sitt og vistkerfi fyrir um tólf þúsund árum með veiðum, söfnun og ræktun. Í öðrum kafla skýrslu Sameinuðu þjóðanna um ástand jarðvegs og landnytja í heiminum, Global Land Outlook, er fjallað um sögu landnytja í heiminum.

 

Smám saman breytast samfélög manna úr hirðingjasamfélögum í samfélög með fasta búsetu og stöðugra fæðuframboð. Sums staðar leiddi föst búseta til skógareyðingar, aukinnar eldhættu, eyðingar gróðursvæða og breytinga á vistkerfum vegna tilkomu nýrra tegunda og uppblásturs.

Fyrir átta öldum jókst ræktun og landbúnaður hratt á nokkrum stöðum á Jörðinni um svipað leyti. Í Mesapótamíu, Frjósama hálfmánanum, sem nær frá Persaflóa meðfram ánum Efrat og Tíkris að botni Miðjarðarhafsins, í Indusdalnum, við Yangtze-ána í Kína, hluta Afríku og í Andesfjöllum Suður-Ameríku.

Landbúnaðarbyltingin, eins og þessi þróun er kölluð, leiddi til borgarmyndunar og flóknari samfélagsgerðar og frjósamt land til aukinnar ræktunar og kynbóta á villiplöntum

Fyrir um það bil sex þúsund árum hafði landbúnaður náð fótfestu í flestum heimsálfum og leitt til breytinga á gróðursvæðum vegna ræktunar og fækkunar villtra dýra vegna veiða og aukins fjölda búfjár.

Hluti náttúrulegs vistkerfis var skipt út fyrir ræktun nytjagróðurs og búfjár í samræmi við aukinn fólksfjölda. Mikil aukning varð á eftirspurn eftir landi fyrir landbúnað um miðja átjándu öld og hefur sú eftirspurn vaxið gríðarlega síðan þá.

Nútíminn

Við upphaf okkar tímatals var um 60% af öllu landi í Evrópu nytjað. Sveiflur í landnýtingu voru miklar og sum svæði ónýtt í langan tíma vegna styrjalda, plága eða hungursneyða sem höfðu áhrif á fólksfjölda. Á miðöldum, fjórtándu og fimmtándu öld, jókst landnotkun til muna í Evrópu og Asíu vegna útþenslu borga og bæja. Á sama tíma fækkaði frumbyggjum í Suður- og Norður-Ameríku um 90% vegna slátrunar og sjúkdóma sem leiddi til mikillar náttúrulegrar endurheimtar lands á Amasónsvæðinu, Andesfjöllum, Mið- og Norður-Ameríku.

Breytingar á landnýtingu fyrir miðja átjándu öld voru að mestu staðbundnar og minna afgerandi en þær sem á eftir fylgdu. Þrátt fyrir það voru skógar ruddir, jarðvegi umbylt og stór landsvæði brennd til að auðvelda nytjar á því og á sama tíma dró úr líffræðilegri fjölbreytni þess. Á liðnum þrjú þúsund árum hafði þannig tiltölulega fámennur hópur fólks mikil áhrif umhverfi sitt.

Landakortið sem breytti heiminum

Árið 1564 teiknaði kortagerðar­maðurinn Abraham Ortelius fyrsta landakortið sem sagt er marktækt. Kortið, sem kallast Theatrum Orbis Terrarum, er ekki óskeikult en óneitanlega líkt heimskortinu eins og við þekkjum það í dag. Á kortið vantar Ástralíu en Evrópubúar voru ekki búnir að uppgötva álfuna þegar það var teiknað.

Ný landakort leiddu til nýrra uppgötvana, nýrra lenda og nýrra viðskipta með vörur og að lokum nýlendustefnunnar og aukinnar nýtingar náttúruauðlinda um allan heim.

Árið 1564 teiknaði kortagerðar­maðurinn Abraham Ortelius fyrsta landakortið sem sagt er marktækt. 

Mæling heimsins og kortagerð hafði mikil áhrif á sjálfsmynd mannsins og viðhorf hans til náttúrunnar. Áður hafði maðurinn verið hluti af náttúrunni en nú varð hann henni aðskilinn og æðri. Náttúran var metin eftir gagnsemi hennar fyrir manninn og slíkt leiddi til endurmats á samskiptum landa og samfélaga víða um heim.

Vísindabyltingin á sautjándu öld ruddi sér til rúms með það sem Francis Bacon og René Descartes kölluðu sigra og leikni mannsins til að stjórna náttúrunni að leiðarljósi. Trúin á að tækniframfarir gætu sigrast á öllum fyrirstöðum varð alls ráðandi og kennisetning í pólitískri og efnahagslegri hugmyndafræði.

Í upphafi voru einungis útlínur landa þekktar og lítið vitað hvað lá utan strandlengju þeirra og í óbyggðum Afríku, Ameríku og Ástralíu. Áætlað er að íbúafjöldi heimsins alls á sautjándu öld hafi verið um 500 milljón. Átta manns á ferkílómetra miðað við 57 í dag.

Landbúnaður og námuvinnsla var takmörkuð, skógar hitabeltisins voru víðast ósnortnir. Um leið og nýjar lendur opnuðust til nytja var það á kostnað þjóðfélagslegrar uppbyggingar samfélagsins og umhverfisins og þótti slíkt sjálfsagður fórnarkostnaður.

Það er ekki fyrr en í seinni tíð að mönnum hefur skilist hversu alvarlegar þessar breytingar á samskiptum, umhverfinu og fæðukerfum, hafa verið og hversu stuttan tíma þær hafa tekið.

Nýr efnahagslegur skilningur

Öflum vísinda og hagfræði tókst á stuttum tíma að breyta hugmyndum manna um náttúruna og hugmyndin um fullkominn manngerðan heim varð allsráðandi og styrkt með landafundum og landvinningum Evrópumanna. Nýlendurnar virtust vera endalausar uppsprettur auðlinda og ríkidæmis án tillits til afleiðinga rányrkjunnar.

Á sama tíma umbreyttist efnahagsleg hugmyndafræði í átt að heimspeki frjálsra viðskipta og verslunar og hámarksgróða einstaklingsins. Land sem var áður uppspretta auðs samkvæmt klassískri hagfræði var skipt út og í staðinn kom hugmyndin um framleiðni og takmarkaða gagnsemi. Munur var gerður á auði og gildi og gildi nytja og gengisverð lands endurskoðað. Víðtækar breytingar urðu á umhverfinu á tímabilinu milli 1700 til 2000 í átt frá náttúrulegu lífríki til manngerðs.

Út frá hugmyndafræði kapítalistanna er land ókeypis gjöf náttúrunnar manninum til handa og oft vísað til ókeypis gæða náttúrunnar í nútíma hagfræði. Slík hugmyndafræði leiddi til arðrásar alþýðunnar og umhverfislegrar hnignunar. Saga siðmenningarinnar er vörðuð dæmum um slæma landnýtingu, skógar- og jarðvegseyðingu og hruns samfélaga. Þrátt fyrir það voru ný viðskiptasambönd, endurúthlutun auðs og iðnvæddur landbúnaður það sem ruddu brautina til aukinnar landnýtingar.

Skógar ruddir í Brasilíu. Útþensla landbúnaðarlands hefur leitt til gríðarlegra umhverfisspjalla bæði á afmörkuðum stöðum og í alþjóðlegu tilliti.

 

Land sem náttúruleg auðlind

Aukin framleiðsla leiddi til aukinnar neyslu og þess að litið var á hagvöxt sem grundvallarmarkmið og verga landsframleiðslu sem eina raunhæfa mælikvarða árangurs.

Hörðustu stuðningsmenn núverandi kerfis neita öllum hugmyndum um endimörk vaxtar þrátt fyrir rök Rómarklúbbsins frá 1970. Það var ekki fyrr en á tuttugustu öld sem almennir hagfræðingar fóru að tala um náttúrulegar auðlindir sem jafngildi manngerðrar hagfræði og nauðsyn þess að skilja gildi auðlindanna og afleiðingar hnignunar þeirra fyrir velferð manna. Samhliða því að skoða kostnað landeyðingar út frá hagfræðilegu tilliti.

Þessi þróun er til merkis um spor í rétta átt en á sama tíma fylgir henni mikil hætta á að aukin áhersla verði lögð á nýtingu þeirra náttúruauðlinda sem eftir eru. Upphaflega var hugmyndin við nálgunina að styðja við fyrirtæki til að auka náttúruvernd og í átt til sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda og er enn í fullu gildi. Í sumum tilfellum hefur hugmyndin þróast í þá átt að greitt er sérstaklega fyrir verndun vistkerfa í þeirri trú að greiðslurnar muni tryggja varðveislu þeirra.

Sprengjur og dráttarvélar

Þróun iðnaðar síðustu þrjár aldir hefur verið áhrifamikill drifkraftur í átt til manngerðra breytinga á heimsvísu, þar með talið landnýtingar og breytinga á vistkerfum. Frá upphafi nítjándu aldar tók ekki nema hundrað ár fyrir mannfjöldann að tvöfaldast og eftirspurn eftir timbri, orku, málmum og dýrmætum steinefnum margfaldaðist. Iðnbyltingin var upphafið og hún átti eftir að breyta heiminum. Við erum nú að takast á við afleiðingar hennar og munum gera það áfram langt fram eftir tuttugustu og fyrstu öldinni.

Þrátt fyrir að vinnsla á dýrmætum málum hæfist í Egyptalandi 3000 árum fyrir Kristburð var vinnslan í takmörkuðum mæli og háð handafli. Gríðarleg aukning var í námuvinnslu snemma á sautjándu öld. Árið 1627 var sprengiefni kynnt til sögunnar og varð til að námuvinnsla jókst til muna. Tilkoma gufuvélarinnar nokkrum árum seinna leiddi svo til gríðarlegrar aukningar í eftirspurn eftir eldsneyti, kolum og járni.

Iðnbyltingin samhliða auknum fólksfjölda leiddi til betri lífsgæða og krafðist breytinga á landnýtingu og vinnslu auðlinda. Steinefni eins og gull og gimsteinar jukust að verðgildi og urðu mikilvægir gjaldmiðlar þrátt fyrir að hafa lítið raunverulegt gildi.

Árið 2007 varð sú breyting á að í fyrsta sinn í sögunni voru íbúar í þéttbýli fleiri en íbúar dreifbýlisins.

Þó að hægt sé að rekja fyrstu merki um landbúnað rúm tíu þúsund ár aftur í tímann var það iðnaður, með auknum fólksfjölda, hærri launum og aukinni eftirspurn eftir ódýrum matvælum og orku, sem jók umfang landbúnaðar á sautjándu og átjándu öld.

Gríðarlegar breytingar urðu á landbúnaði á þeim tíma og má þar benda á síaukna jarðvinnslu, kynbætur á dýrum og plöntum, auknar girðingar, vélvæðingu og iðnvæðingu matvælaframleiðslunnar.

Aukin eftirspurn eftir ódýrum matvælum, orku og vatni leiddi til breytinga í landnýtingu og landbúnaði. Framfarir í vélbúnaði gerðu þessar breytingar mögulegar og hvöttu til aukinnar framleiðslu. Fyrsta vélknúna dráttarvélin var kynnt til sögunnar 1901 og smám saman tók hún við af dráttardýrum og tími orkufreks búskapar hófst.

Undanfarin hundrað ár hefur vísindum verið beitt í síauknum mæli í landbúnaði til að bregðast við aukinni þörf fyrir matvælum. Græna byltingin snemma á áttunda áratug síðustu aldar leiddi til verulegrar aukningar í uppskeru og leysti þá aðsteðjandi fæðuskort. Á sama tíma leiddi aukin framleiðsla óæskilegra umhverfisáhrifa með aukinni landnotkun til búfjárhalds og ræktunar og aukinni notkun tilbúins áburðar og eiturefna í landbúnaði.

Ekki er dregið í efa að nútíma landbúnaður hefur náð miklum árangri í að auka matvælaframleiðslu í heiminum. Öfugt við kenningu Thomas Malthus hefur matvæla­framleiðsla aukist jafnhliða fólksfjölgun og jafnvel farið fram úr henni. Samhliða þessu hefur um það bil helmingur þurrlendis á jörðinni verið tekið undir landbúnað, til ræktunar nytjaplantna og beitar fyrir búfé. Þessi útþensla landbúnaðarlands hefur leitt til gríðarlegra umhverfisspjalla bæði á afmörkuðum stöðum og í alþjóðlegu tilliti.

Til dæmis hefur um helmingur allra frumskóga í heiminum verið felldur vegna þessa.

Öld landnýtingar og breytinga

Margir og ólíkir þættir hafa valdið því að fólk hefur flutt úr dreifbýli til þéttbýlis og aukinnar þéttbýlismyndunar. Aðstæður í borgum eru fjölbreyttar og þjónusta þar og möguleikar til starfa meiri en í dreifbýli. Þrátt fyrir það þrífast borgir og þéttbýli og starfsemi í þeim, flutningar, verslun og fjármálaþjónusta, á umframframleiðslu í landbúnaði. Borgir hafa alltaf haft tilhneigingu til að myndast miðsvæðis, nálægt góðu landbúnaðarlandi, þar sem verslun er möguleg og þaðan sem hægt er að koma við stjórnsýslu og vörnum.

Stærð, hraði og eðli þéttbýlismyndunar hefur verið skilgreint sem helsta einkenni tuttugustu og tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Þrátt fyrir að hraði þéttbýlismyndunar á síðustu öld hafi verið mikill og einungis 3% af yfirborði jarðar skilgreint sem þéttbýli hafa áhrif þéttbýlismyndunar verið mikil í alþjóðlegu tilliti. Um 78% af losun koltvísýrings, 60% af vatnsnotkun til heimila og 76% af viði sem brenndur er vegna iðnaðar má rekja til þéttbýlis. Áætlanir gera ráð fyrir að um miðja nítjándu öld hafi 4 til 7% íbúa heimsins búið í borgum eða bæjum. Í fyrstu var útþensla borga lárétt og áætlað að á sama tíma og íbúum borga eins og London og París fjölgaði tuttugufalt jókst landfótspor þeirra tvö hundruð sinnum.

Breytingar á landnýtingu til að byggja borgir og styðja við sívaxandi fjölda íbúa í þéttbýli hefur einnig annars konar áhrif á umhverfið. Árið 2007 varð sú breyting á að í fyrsta sinn í sögunni voru íbúar í þéttbýli fleiri en íbúar dreifbýlisins. Íbúar þéttbýlis eru háðir framleiðslugetu vistkerfa utan þéttbýlisins.

Það sem kallað er vistspor byggir á framleiðslu, magni og flæði vöru og þjónustu sem þarf til að viðhalda góðum lífsgæðum manna. Vistspor íbúa í þéttbýli er tíu til hundrað sinnum stærra en landið sem þéttbýlissvæðið stendur á. Lausnin á þessu hefur falist í að nýta frjósamasta og afkastamesta landið til landbúnaðar samkvæmt reglum iðnvæðingarinnar og auknum vöruskiptum. Þrátt fyrir að íbúar þéttbýlissvæða hafi alla tíð treyst á umframleiðslu í landbúnaði sér til framdráttar hefur þörfin aldrei verið meiri en í dag. Þörfin fyrir auknar landbúnaðarafurðir hefur því verið helsti drifkrafturinn til breytinga á landnýtingu.

Land án markaðsvirðis

Gildi lands er mun meira en bara efnahags- og fjárhagslegt. Víða er að finna fólk sem skilgreinir sig og menningu sína út frá landinu sem það býr á. Frumbyggjar hafa söguleg og oft náin tengsl við landið. Auk þess sem land hefur víða ómetanlegt andlegt, trúarlegt, fagurfræðilegt gildi eða gildi til afþreyingar og útivistar. Fólk metur því oft land án tillits til markaðsgildis þess.

Nánast allar þjóðir heims hafa í einhverjum mæli afmarkað landsvæði heima fyrir og friðað þau til varðveislu um ókomna framtíð. Tilgangur verndunarinnar er að varðveita lönd og vötn fyrir komandi kynslóðir. Elstu þjóðgarðar heims, í Afríku, Indlandi, Ástralíu og Bandaríkjunum, voru settir á stofn undir lok nítjándu aldar. Í heildina eru þjóðgarðar og náttúruverndarsvæði um 15% af heildaryfirborði þurrlendis og vatnasvæða á Jörðinni. Þetta sýnir áhuga á verndun vistkerfa og líffræðilegs fjölbreytileika og virðingu fyrir fegurð náttúrunnar.

Vaxandi fjöldi verndarsvæða njóta alþjóðlegra viðurkenningar. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst því yfir að sum svæði feli í sér mikilvægt gildi umfram það sem telst fjárhagslegt. Heimsminjaskrá Mennta-, vísinda- og menningar­málastofnunar Sameinuðu þjóðanna, heimsminjaskrá Unesco, hefur viðurkennt yfir 1000 staði sem hafa menningarlegt, náttúrufræðilegt, félagslegt, andlegt eða trúarlegt gildi. Ríflega 200 af þessum svæðum njóta verndar vegna framúrskarandi náttúrufegurðar eða líffræðilegrar fjölbreytni.

Niðurstaða

Skilningur á að náttúruauðlindir eru takmörkuð auðlind er nauðsynlegur eigi mannkynið að halda áfram að vaxa og dafna. Einnig er mikilvægt að auka vitund fólks á því hversu hratt gengur á auðlindirnar og breyta því hvernig þær eru nýttar í dag.

Hugmyndafræði sjálfbærrar nýtingar vex fiskur um hrygg og nýtur sívaxandi viðurkenningar þekkingarsamfélagsins. Loftslags­breytingar undafarinna áratuga eru stór hvati í átt til betri landnýtingar manninum til heilla.

Mannkynið nálgast hratt þá stund sem það verður að gera upp við sig hvernig það ætlar að nýta og stjórna nýtingu þeirra auðlinda sem Jörðin hefur upp á að bjóða.

Eftirspurnin á aðeins eftir að aukast. Sjálfbær nýting lands er ekki bara nauðsynleg til að tryggja félagsleg og efnahagsleg tækifæri í dag heldur einnig til að tryggja komandi kynslóðum tækifæri til góðra lífskjara. Að leita jafnvægis er áskorun tuttugustu og fyrstu aldarinnar.

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...

Réttalistinn 2024
29. ágúst 2024

Réttalistinn 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Göngur og góður reiðtúr
13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Bændur selja Búsæld
13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Gerum okkur dagamun
13. september 2024

Gerum okkur dagamun