Ársfundi LSB frestað aftur
Í sumar hefur þurft að fresta ársfundi Lífeyrissjóðs bænda tvisvar.
Upphaflega stóð til að fundurinn yrði haldinn þann 11. júní síðastliðinn, en stjórn lífeyrissjóðsins frestaði fundinum fyrr þann dag. Var því auglýst ný tímasetning þann 27. júní, enda tekið fram í starfsreglum sjóðsins að ársfund skuli halda í júní.
Tveimur dögum fyrir áætlaðan fund ákvað stjórn lífeyrissjóðsins að fresta fundinum aftur og hefur ný tímasetning verið auglýst, eða 22. júlí klukkan 11:00. Á dagskrá verða venjuleg ársfundarstörf og verður farið yfir niðurstöður rafræns stjórnarkjörs.
Eins og greint var frá í síðasta Bændablaði var talin ástæða til að senda skýrslu um framkvæmd rafræna stjórnarkjörsins til Fjármálaeftirlitsins. Þar sem rík þagnarskylda hvílir á starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins og öllum aðilum hjá lífeyrissjóðnum hafa ekki fengist upplýsingar um efni og innihald skýrslunnar.
