Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Allis-Chalmers á gúmmí­túttum með blöðrum
Á faglegum nótum 16. júní 2016

Allis-Chalmers á gúmmí­túttum með blöðrum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Framleiðsla á Allis-Chalmers dráttarvélum hófst 1913. Til að byrja með var framleiðslan lítil en á fjórða áratug síðustu aldar voru vélarnar í hópi tíu mest seldu traktora í Bandaríkjunum og stóðu öðrum dráttarvélum fyllilega jafnfætis.

Traktorarnir frá Allis-Chalmers þóttu frá upphafi vandaðir og framleiðandinn var fljótur að tileinka sér nýjungar í tækni og uppfæra vélarnar í samræmi við þær. Vélarnar uxu smám saman í áliti og vinsældir þeirra jukust hægt og bítandi.

Fall og upprisa

Upphaf fyrirtækisins, sem síðar fékk heitið Allis-Chalmers, má rekja til ársins 1860 þegar Edward P. Allis yfirtók gjaldþrota fyrirtæki sem framleiddi búnað til að mala hveiti í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum.

Allis beið ekki boðanna og breytti framleiðslunni þannig að auk mölunarvéla framleiddi fyrirtækið gufuvélar og búnað fyrir sögunarmyllur. Fyrirtækið varð aftur gjaldþrota í kreppunni 1873 en herra Allis reis aftur eins og fuglinn Fönix og stofnaði annað vélaframleiðslufyrirtæki ári seinna. Hann lést 1889.

Synir hans tóku við rekstrinum og undir þeirra stjórn óx velgengni þess undir heitinu Allis-Chalmers Company. Nafnið Chalmers var bætt við eftir samruna við annan vélaframleiðanda sem hét Fraser og Chalmers.

Reksturinn blómstrar

Fyrstu dráttarvélarnar frá Allis-Chalmers voru hannaðar og komu á markað á árunum 1914 og 1919 og kölluðust Model 6-12, 10-18, 15-30 og Model U.

Meðal starfsmanna þess á árunum 1919 til 1922 var hönnuðurinn og fútúristinn Nikola Tesla.

Uppgangur fyrirtækisins var talsverður á þriðja, fjórða og fimmta áratug síðustu aldar og það annaðhvort keypti eða yfirtók fjölda annarra minni og stærri fyrirtækja.

Fyrirtækið hélt áfram að dafna og eftirspurn jókst. Framleiðsla þess óx og ekki síst á árum seinni heimsstyrjaldarinnar þegar fyrirtækið framleiddi meðal annars bátavélar og jarðýtur.

Gúmmítúttur með blöðrum

Árið 1932 hóf Allis-Chalmers samstarf við Firestone og setti á markað eina af fyrstu dráttarvélum á gúmmíhjólum með uppblásinni slöngu. Nýjungin sló í gegn og á fimm árum voru slík dekk komin undir nánast allar dráttarvélar á markaði.

Ári síðar setti fyrirtæki á markað traktor sem kallaðist Model WC. Dráttarvélin var létt, lipur og ódýr og sló öll sölumet hjá fyrirtækinu. Um 150 þúsund Model WC voru framleiddir áður en framleiðslu þeirrar var hætt 1948.

Ellefu mánaða verkfall

Fljótlega eftir að seinni styrjöldinni lauk hófst löng og ströng launadeila yfirstjórnar Allis-Chalmers og annarra starfsmanna fyrirtækisins. Framleiðslan lamaðist og samkeppnisaðilar fyrirtækisins nýttu tímann vel og náðu að söðla undir sig stórum hluta markaðarins.

Árið 1957 komu á markað traktorar frá Allis-Chalmers sem gengu undir heitinu D-serían. Velgengni þessara véla var talsverð á sjötta áratugnum enda þóttu þær svara kalli tímans um kraftmeiri og tæknivæddari dráttarvélar vel.

Verðsamráð

Árið 1960 voru þrettán stór fyrirtæki í Bandaríkjunum sökuð um verðsamráð og markaðsmisnotkun. Þar á meðal voru Westinghouse, General Electric og Allis-Chalmers. Allis-Chalmers viðurkenndi sinn hlut í samráðinu.

Snemma á áttunda áratugnum eignaðist Fiat 65% í Allis-Chalmers og breytti nafninu í Fiat-Allis og lokaði verksmiðju þess í Pittsburg með skelfilegum afleiðingum fyrir efnahag borgarinnar. Fyrirtækið átti í gríðarlegum fjárhagserfiðleikum á níunda áratugnum og í dag er það hluti af AGCO-samsteypunni sem meðal annars er móðurfyrirtæki Fendt, Massey Ferguson og Valtra.

Allis-Chalmers á Íslandi

Lýðveldisárið 1944 flutti Samband íslenskra sveitarfélaga inn þrettán dráttarvélar af gerðinni Allis-Chalmers og með þeim hófst það sem hefur verið kallaður tími heimilisdráttarvéla á Íslandi. Vélarnar voru léttar, á gúmmíhjólum og notagildi þeirra fjölþætt. Ein þessara véla er varðveitt á Búvélasafninu á Hvanneyri.

Áfellisdómur um eftirlit MAST með dýravelferð
Fréttir 11. desember 2023

Áfellisdómur um eftirlit MAST með dýravelferð

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluúttekt á eftirliti Matvælastofnunar (MA...

Ungmenni berjast gegn stöðnun í dreifbýli
Fréttir 11. desember 2023

Ungmenni berjast gegn stöðnun í dreifbýli

Norrænt ráð 25 ungmenna frá öllum Norðurlöndum sat nýlega fund með norrænum ráðh...

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...