Gott tíðarfar 2025
Sumarið 2024 var óvenju kalt og erfitt fyrir ræktendur, enda varð uppskera víða svo léleg að stjórnvöld sáu ástæðu til að greiða sérstakar bætur vegna uppskerubrests. Þrátt fyrir þetta létu bændur ekki bugast, og samkvæmt ræktunarskráningum fyrir árið 2025 var heildarflatarmál í ræktun á kartöflum og grænmeti um 550 hektarar sem er um 10 hekturum meira en 2024.
Ræktunarárið 2025 reyndist síðan eitt það besta í manna minnum, veðurfar var mjög hagstætt, ef frá er talinn kaldur kafli fyrri hluta júnímánaðar. Kartöflur sem ræktaðar höfðu verið undir plasti voru óvenju vel sprottnar en urðu fyrir frostskemmdum í þessum kuldakafla og seinkaði það uppskeru í einhverjum tilvikum. Það sem var óvenjulegt en líka ánægjulegt við þetta góða ræktunarsumar var að enginn landshluti var skilinn útundan, langt og hlýtt sumar í öllum landshlutum.
Kartöflumygla
Undanfarin 5–6 ár hafa kartöflubændur þurft að verjast kartöflumyglu sem virðist ágengari en áður vegna hlýnandi loftslags. Þessu fylgir álag og kostnaður en bændur vita að ef myglan nær að breiðast út getur tjónið orðið mjög mikið auk þess sem hætta er á að smitið berist áfram með útsæðinu á næsta ræktunarár. RML hefur nú í nokkur ár starfrækt mygluspárkerfi sem hjálpar bændum að meta hættu á myglu og þörf fyrir varnir. Veðurstöðvar í Þykkvabæ, Eyjafirði og Hornafirði senda veðurgögn í Euroblight mygluspárkerfið sem reiknar út líkur á myglusmiti frá degi til dags. Það sem var óvenjulegt við mygluvöktunina í sumar var að Eyfirðingar upplifðu óvenju mikla mygluhættu. Í venjulegu árferði fer saman hlýtt og þurrt veður fyrir norðan en í seinni hluta júlímánaðar var töluverð mygluhætta á svæðinu með hlýju veðri en háu rakastigi í næturþoku og svo aftur í lok ágúst. Sjá mynd.
Á öðrum ræktunarsvæðum var mygluhættan minni, en þó þurftu bændur af og til að beita fyrirbyggjandi aðgerðum. Engin myglutilfelli sáust í sumar, og er þetta þá þriðja sumarið í röð án tjóns af völdum kartöflumyglu hér á landi.
Baráttan við illgresi
Í útiræktun er illgresið ein stærsta áskorunin í ræktun. Ef illgresið nær yfirhöndinni verður uppskeran lítil sem engin með tilheyrandi tjóni. Algengt er að bændur noti illgresiseyða í ræktuninni. Auknar kröfur í umhverfismálum og minna framboð efna á markaði hefur hraðað þróun á öðrum aðferðum við illgresiseyðingu. Má þar nefna bruna með gasi, raðhreinsun með herfum ofl. RML tekur þátt í Evrópuverkefninu AGROSUS sem miðar að því að draga úr notkun hefðbundinna illgresiseyða og þróa aðrar vistvænni aðferðir við illgresiseyðingu. Á vegum þessa verkefnis voru framkvæmdar tilraunir í ræktun á grænmeti og kartöflum í sumar þar sem bornar voru saman mismunandi aðferðir við illgresiseyðingu. Gert er ráð fyrir framhaldi á þeim tilraunum næsta sumar. Vonandi verður þetta verkefni til þess að þróa nýjar og umhverfisvænni aðferðir í baráttunni við illgresið.
Uppskeran 2025
Bændur skrá ræktun og uppskeru í skýrsluhaldskerfinu jörð.is og er þetta skýrsluhald forsenda fyrir jarðræktarstyrkjum. Uppskeruskráning miðast við uppskeru að hausti beint upp úr görðum, en búast má við rýrnun við geymslu og flokkun áður en varan kemst á markað.
Uppskerutölur sumarsins endurspegla gott tíðarfar og má því reikna með að geymslur bænda séu meira og minna fullar af góðri vöru. Tölurnar sýna að mikið magn er til af rótarávöxtum, þ.e. kartöflum, gulrófum og gulrótum. Ef vel tekst til með geymslu má því búast við að þessar vörur verði á markaði fram að uppskeru næsta sumars.

