Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Alifuglakjöt er langvinsælasta kjötafurðin með 9.530 tonna sölu 2017
Fréttir 8. júní 2018

Alifuglakjöt er langvinsælasta kjötafurðin með 9.530 tonna sölu 2017

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Könnun Gallup á neysluvenjum erlendra ferðamanna á Íslandi sem birt var í síðasta Bændablaði vakti mikla athygli. Komið hefur fram hörð gagnrýni á að í tölunum er ekki tekið tillit til neyslu á alifuglakjöti sem hefði mögulega getað breytt myndinni.

Þegar rýnt er í Hagstofutölur sést að innanlandssala á kindakjöti 2017 var 6.976 tonn, en 9.530 tonn af alifuglum og þar af nam innflutningur 1.398 tonnum.

Engin leið er að segja nákvæmlega til um hver neysla erlendra ferðamanna hefur verið á innlendu alifuglakjöti vegna þess að 11% af heildarsölunni er innflutt kjöt. Ekki frekar en hver neyslan hefur verið á innlendu nautakjöti eða svínakjöti.

Könnun Gallup sýndi að 57% erlendra ferðamanna hafi smakkað lambakjöt, en 41,7% nautakjöt og 25,3% svínakjöt. Alifuglakjöt var hins vegar ekki inni í dæminu. Könnunin gefur samt ágætar vísbendingar um hvað ferðamenn vilja upplifa.

Í könnuninni má greina hvað ferðamenn vilja helst smakka, en hún segir samt ekkert um magnið sem neytt er. Þá er heldur ekki sjálfgefið að alifuglakjöt hefði endilega skorað hátt miðað við spurninguna sem lögð var fram, jafnvel þótt alifuglakjöt gæti verið oftast á diski ferðamanna. Ástæðan er einfaldlega sú staðreynd að alifuglakjöt er orðið algengasti hversdagsmaturinn um allan heim. Ferðamenn nefna því líklega fremur í svona könnun upplifun sína af því að prófa eitthvað nýtt, heldur en að lýsa magni þess sem neytt er. 

Gjörbreytt neyslumynstur

Neysla Íslendinga á kjötafurðum hefur gjörbreyst á undanförnum áratugum samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands. Árið 1983 neyttu landsmenn t.d. 45,3 kg af kindakjöti að meðaltali á hvert mannsbarn á ári. Sú tala var komin niður í 19,5 kg árið 2015. Á sama tíma stökk neysla á alifuglakjöti  úr 4,3 kg í 27,6 kg á mann á ári og á svínakjöti úr 4,3 kg í 21 kg á mann. Þá fór nautakjötsneyslan úr 8,8 kg í 14,1 kg. Hrossakjötsneyslan dróst hins vegar saman úr 3,2 kg á mann í 1,6 kg.

Miðað við neysluþróun undanfarna áratugi á Íslandi með stóraukinni neyslu á alifugla- og svínakjöti, má leiða líkum að því að neysla erlendra ferðamanna sé í samræmi við það. Þannig að erlendir ferðamenn sem á annað borð borða lambakjöt gætu mögulega verið að neyta um 40% meira af alifuglakjöti en lambakjöti meðan þeir dvelja hér og um 8% meira af svínakjöti. Slík tölfræðinálgun er þó æði varasöm.

Samantekt um kjötneyslu á íbúa hætt 2015

Tölur um kjötneyslu á hvern íslenskan ríkisborgara nær ekki lengra en til 2015. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu sáu menn engan tilgang í að halda slíkri samantekt áfram þar sem ferðamenn sem hingað streymdu voru þá farnir að hafa mikil áhrif á neyslutölurnar hér innanlands. Ekki var því mögulegt að greina hvort neytendurnir voru íslenskir eða erlendir ríkisborgarar. Væntanlega hlýtur það sama að gilda um neyslu á öðrum vörum eins og áfengi. Heildarsala á áfengi á Íslandi í dag gefur þannig alls ekki rétta mynd af neyslu alkóhóls á hvern íbúa landsins.

Sundurgreining á neyslu erfið vegna innflutnings

Þótt auðvelt væri að greina með slembiúrtakskönnun hversu margir erlendir ferðamenn neyttu íslensks lambakjöts, þar sem nær enginn innflutningur hefur verið á lambakjöti, þá er ekki sömu sögu að segja af öðrum kjöttegundum. Vaxandi innflutningur hefur verið á alifuglakjöti, svínakjöti og nautakjöti undanfarin ár.

Innflutningur 0% af kindakjötssölunni

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands var flutt inn 1 tonn af kindakjöti á árunum 2012, 2013 og 2016. Á árinu 2017 var enginn innflutningur á kindakjöti. Það ár var kindakjötsframleiðslan rúm 10.619 tonn samkvæmt tölum Búnaðarstofu MAST. Innanlandssalan nam 6.976 tonnum og flutt voru út 3.162 tonn. Birgðir í árslok námu 5.751 tonni. 

Innflutningur 11% af alifuglasölunni

Af alifuglakjöti var innan­landsframleiðslan 9.697 tonn árið 2017, en flutt voru inn 1.398 tonn. Heildarsalan var 9.530 tonn og þar af nam innflutningur líklega um 11%. Er þá miðað við að 754 tonna birgðir í árslok skiptist jafn á milli innlendrar framleiðslu og innflutnings.

Innflutningur 23% af svínakjötssölunni

Af svínakjöti var innanlands­framleiðslan 6.265 tonn árið 2017, en flutt voru inn 1.449 tonn. Heildarsalan var 6.269 tonn og þar af var innflutningur rúm 23%.  Flutt voru út 5 tonn og birgðir í árslok voru því engar. 

Innflutningur 18% af nautakjötssölunni

Af nautakjöti voru framleidd 4. 614 tonn á árinu 2017, en flutt voru inn 853 tonn. Heildarsala var 4.603 tonn og þar af var innflutningur um 18%. Birgðir í árslok voru 33 tonn.

Innflutningur 0% af hrossakjötssölunni

Af hrossakjöti voru framleidd 1.061 tonn á árinu 2017. Innflutningur var enginn en heildarsala 641 tonn. Þá voru flutt út 414 tonn af hrossakjöti og birgðir í árslok voru 64 tonn. 

Skylt efni: alifuglar | Kjötneysla

Fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum
Fréttir 27. nóvember 2023

Fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum

Nýtt fagstaðlaráð hefur verið stofnað undir hatti Staðlaráðs Íslands. Það verður...

Rauðþörungar í fóðri gætu dregið mjög úr metanlosun nautgripa
Fréttir 24. nóvember 2023

Rauðþörungar í fóðri gætu dregið mjög úr metanlosun nautgripa

Iðragerjun nautgripa er aðalástæðan fyrir illu orðspori nautgriparæktar í loftsl...

Verðmæti hrossakjöts
Fréttir 24. nóvember 2023

Verðmæti hrossakjöts

Útflutningsverðmæti hrossakjöts á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 eru orðin hærri...

Of mikið framboð var af innlendu blómkáli yfir of stuttan tíma
Fréttir 23. nóvember 2023

Of mikið framboð var af innlendu blómkáli yfir of stuttan tíma

Að undanförnu hafa heyrst raddir garðyrkjubænda sem ýmist ætla að hætta blómkáls...

Heimilt að hlífa gripum með verndandi arfgerðir og mögulega verndandi arfgerðir
Fréttir 22. nóvember 2023

Heimilt að hlífa gripum með verndandi arfgerðir og mögulega verndandi arfgerðir

Í nýrri skýrslu sérfræðingahóps eru lagðar til útfærslur á aðgerðum gegn riðuvei...

Verður í sögulegu hámarki á næsta ári
Fréttir 22. nóvember 2023

Verður í sögulegu hámarki á næsta ári

Heildargreiðslumark mjólkur verður í sögulegu hámarki á næsta ári samkvæmt nýleg...

Áskorun frá Skagfirðingum
Fréttir 22. nóvember 2023

Áskorun frá Skagfirðingum

Byggðarráð og Búnaðar­samband Skagfirðinga fagna nýskipuðum starfs­hópi um fjárh...

Arfhreinn ARR-hrútur í fyrsta sinn á sæðingastöð
Fréttir 21. nóvember 2023

Arfhreinn ARR-hrútur í fyrsta sinn á sæðingastöð

Hrútaskrá 2023-­2024 er komin út á stafrænu formi. Hún er aðgengileg á vef Ráðgj...