Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Grænlenska féð er mjög „íslenskt“ enda lítt blandað öðrum fjárkynjum. Litafjölbreytni er mikil, en þar er hvorki til ferhyrnt fé né forystufé.
Grænlenska féð er mjög „íslenskt“ enda lítt blandað öðrum fjárkynjum. Litafjölbreytni er mikil, en þar er hvorki til ferhyrnt fé né forystufé.
Mynd / Merete Rabølle
Á faglegum nótum 30. desember 2015

100 ár síðan íslenskt sauðfé var flutt til Grænlands

Höfundur: Ólafur R. Dýrmundsson

Haustið 2015 var liðin öld frá því að fé af Norðurlandi var flutt til Grænlands. Með innflutningi þessa íslenska stofns, og hrúta tvisvar síðar, urðu þáttaskil í grænlenskri sauðfjárrækt.  

Hún varð að búgrein sem flestir bændur þar starfa við í dag. Margir þeirra hafa dvalist við verknám á fjárbúum hér á landi, nokkrir hafa numið við bændaskólana og fjölmargir Íslendingar hafa dvalist á Grænlandi um lengri eða skemmri tíma við leiðbeiningar og rannsóknir í þágu fjárræktarinnar.

Sauðfjárræktin átti erfitt uppdráttar

Eflaust hafa íslensku bændurnir sem fylgdu fordæmi Eiríks rauða og fluttu til Grænlands í lok 10. aldar tekið með sér fé héðan. Því má ætla að íslenskt fé hafi gengið í grænlenskum högum fram undir lok 15. aldar þegar búskapur þar hvarf ásamt fólkinu sem hann stundaði.  Löngu síðar var reynt að endurvekja landbúnað á Grænlandi en það gekk erfiðlega. Þannig var flutt inn fé frá Færeyjum og Skotlandi upp úr aldamótunum 1900 en sauðfjárrækt átti erfitt uppdráttar.  Þáttaskil urðu þegar Lindemand Walsöe bauðst til að byggja upp sauðfjárrækt á Grænlandi. Hann hafði ferðast til Ástralíu og víðar og kom fyrst til Íslands árið 1913, þá 33 ára gamall, dvaldist hér um skeið og kynnti sér sauðfjárbúskapinn.  Fullvíst má telja að hann hafi þekkt mörg fjárkyn en miðað við landshætti á Grænlandi taldi hann íslenska féð henta best og þar reyndist hann sannspár.  Því kom hann aftur árið 1915 til fjárkaupa.

Fjárkaup á Norðurlandi

Walsöe naut góðrar fyrirgreiðslu Sigurðar Sigurðssonar, fv. búnaðarmálastjóra, við allan undirbúning fjárkaupanna en á þessum árum var Sigurður skólastjóri Bændaskólans á Hólum í Hjaltadal (1902–1920).  Ærnar, flestar veturgamlar, voru frá Hólum og úr Svarfaðardal, sagðar stór og hraustleg ærefni. Hrútarnir voru aftur á móti keyptir á Sveinsstöðum í Þingi í Austur-Húnavatnssýslu en þar var sauðfjárkynbótabú sem naut stuðnings Búnaðarfélags Íslands frá 1911–1919. 

Féð var rekið til Reykjavíkur upp úr réttum  haustið 1915, hrútarnir trúlega sameinaðir ærhópnum í Þingi eða Vatnsdal. Þótt þetta væri langur rekstur,  með samtals 175 kindur, og síðan flutningur með skipinu Hans Egede frá Reykjavíkurhöfn til Julianehåb (Qaqortoq) í Eystribyggð, fórust aðeins tvær kindanna á leiðinni.  Því urðu  173 íslenskar kindur stofn nýs sauðfjárræktarbús í Julianehåb sem Walsöe veitti forstöðu um árabil. Það myndaði grunninn að landbúnaðarmiðstöðinni í Upernaviarsuk. 

Aftur voru keyptir hrútar frá Sveinsstöðum haustið 1921 og frá  Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi í Árnessýslu haustið 1934 en þar naut sauðfjárræktarbúið stuðnings frá Búnaðarfélagi Íslands  um fjölda ára, allt frá 1923. Grænlendingar fengu því harðgeran og hentugan stofn, ræktaðan í takt við beitarbúskap þeirra tíma, sem hefur reynst þeim vel í blíðu og stríðu.

Féð laust við riðu

Á árunum þegar féð var flutt til Grænlands var riða orðin þekkt víða á vestanverðu Norðurlandi en hún mun hafa borist með Oxford Down hrút sem fluttur var til landsins að Veðramóti í Gönguskörðum í Skagafirði árið 1878. Veikin var komin í Svarfaðardal árið 1912 og nokkru áður í Vatnsdal í fé sem gekk með fé úr Þinginu í sumarhögum þannig að mikil mildi var að riðan barst ekki til Grænlands með þessum kindum. Ekkert fé hefur verið flutt inn síðan hrútarnir frá Hrafnkelsstöðum komu þangað árið 1934 nema tveir Spælsau hrútar frá Noregi árið 1957. Talið er að eftir að íslenska féð kom haustið 1915 hafi íslensku hrútarnir verið notaðir nær eingöngu og færeysku og skosku áhrifin hafi verið orðin lítil árið 1938. Þetta var síðan staðfest með sameindaerfðafræðilegum rannsóknum (DNA) upp úr síðustu aldamótum þannig að grænlenski stofninn er  nú nær hreinræktað íslenskt fé. Þess má geta að flest er féð hyrnt, þó ekkert ferhyrnt, og þar er heldur ekki til forystufé. Grænlenska féð er laust við ýmsa sauðfjársjúkdóma og er að jafnaði hraust.

Búskaparhættir líkir þeim íslensku

Lengi vel háði fóðurskortur fjárbúskapnum á Grænlandi og á liðinni öld  féll fé í stórum stíl í hörðum árum. Mikil vetrarbeit án teljandi gjafar hélst mun lengur en hér á landi. Mesti fjárfellirinn var veturinn og vorið 1967 þegar fjárstofninn var stærstur, 45.000 vetrarfóðraðar kindur. Þá féll helmingurinn og síðan hefur fjártalan oftast verið á bilinu 15.000–25.000, nú um 19.000 vetrarfóðraðar kindur á 38 bæjum þar sem búa 44 fjölskyldur. Húsakostur hefur verið bættur mikið síðustu áratugina, og sömuleiðis  fóðuröflun og fóðrun. Féð er rúið í lok mars –byrjun apríl, ærnar eru látnar bera heldur fyrr en hér og þeim er sleppt fyrr í úthaga á vorin en nú er algengast hér á landi. Lömbin eru eyrnamörkuð með sams konar norrænum mörkum og við notum og þau eru líka plötumerkt eins og hér.  Markskráin er frábrugðin að því leyti að birtar eru myndir af mörkunum fyrir hvern bæ, nú rúmlega 50 að tölu. Frjósemi ánna er nokkru minni en hér, öllu er slátrað í einu sláturhúsi með ESB-vottun í bænum Narsaq, beint af úthagabeit í seinni hluta september, og er fallþungi dilka svipaður og hér á landi. Haustið 2014 var slátrað rúmlega 20.000 dilkum sem gerði tæp 300 tonn. Kjötið er mest nýtt innanlands en tilraunir hafa verið gerðar með útflutning í smáum stíl, m.a. til Danmerkur. Ullarnýting er léleg og nema tekjur af henni eingöngu 2% af tekjum sauðfjárbænda. Sú ull sem tekst að safna saman er send til þvottar í Bradford í Englandi. Nú er vaxandi áhugi á að efla ullarvinnslu heima fyrir, þó mest handverk í smáum stíl. Ólíkt því sem hér gerist eru allir bændurnir leiguliðar með afnotarétt af landi í opinberri eigu.

Ræktum vel tengslin við Grænland

Íslenska sauðkindin hefur reynst grænlenskum bændum vel á þeim 100 árum sem hún hefur verið hornsteinn fjárbúskapar þar í landi. Þeir hafa tileinkað sér ýmsar nýjungar tengdar fjárræktinni og m.a. hafa tíu bú nú þegar tekið upp tölvuvætt sauðfjárskýrsluhald  frá Bændasamtökum Íslands (Fjárvís). Þá hafa þeir nýtt margs konar ráðgjöf frá íslenskum búvísindamönnum um túnrækt, kynbætur, fóðrun,beitarnýtingu, landgræðslu o.fl. sem  hefur skilað verulegum árangri. Kynni mín af Grænlendingum, bæði fjárbændum og  starfsfólki við landbúnaðinn þar um áratuga skeið, hafa verið mjög ánægjuleg, og ég tel að við eigum að rækta vel tengslin við Grænland. Óhætt er að mæla með kynnisferð þangað.

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson

oldyrm@gmail.com

5 myndir:

Mikill áhugi á íbúðum
Fréttir 7. október 2024

Mikill áhugi á íbúðum

Þrettán umsóknir um sex íbúðir á Kirkjubæjarklaustri bárust íbúðarfélagi Brákar.

Þrjár efstu frá sama bæ
Fréttir 7. október 2024

Þrjár efstu frá sama bæ

Fjórtán hryssur hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi í ár. Þrjár efstu hryssurna...

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...