Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Talið er að milliríkjaviðskipti geti aukist verulega við gerð fríverslunarsamninga, en deilt er um þjóðfélagsleg áhrif.
Talið er að milliríkjaviðskipti geti aukist verulega við gerð fríverslunarsamninga, en deilt er um þjóðfélagsleg áhrif.
Fréttaskýring 3. nóvember 2015

„Þeir verða að vera reiðubúnir að kyngja dauðum rottum“

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Nær öll ríki heims beita einhvers konar verndarstefnu til að verja eigin iðnað, landbúnað og sjávarútveg þar sem það á við. Oftast eru þær varnir í formi tolla á innfluttar vörur af sama toga. Mikil tregða hefur því verið við að beita tollaeftirgjöfum líkt og gera á í nýjum samningum Íslands og ESB. 
 
Eitt skýrasta dæmið um átök í slíkum málum er nýr umdeildur milliríkjasamningur, svokallaður Trans-Pacific Partnership (TPP), sem var undirritaður mánudaginn 5. október sl. í Atlanta í Bandaríkjunum. Samningurinn var undirritaður og samþykktur með fyrirvara af 12 ríkjum sem kölluð hafa verið „Pacific Rim countries“ og liggja öll að Kyrrahafinu. Þessi ríki standa fyrir um 40% af efnahag heimsbyggðarinnar. Undirbúningur að þessum samningi hefur staðið í fimm ár. Ríkin 12 sem undirrituðu samninginn með fyrirvara um samþykki heima fyrir eru Ástralía, Brunei, Kanada, Chile, Japan, Malasía, Mexíkó, Nýja-Sjáland, Perú, Singapúr, Bandaríkin og Víetnam. Rætt er um að fleiri ríki gerist aðilar að samningnum síðar, eins og Suður-Kórea, Taíland og Filippseyjar.
 
Ótti við yfirþjóðlegan rétt stórfyrirtækja 
 
Fullyrt hefur verið að samningurinn veiti m.a. stórfyrirtækjum aukinn rétt til að verja sína heimild til að yfirkeyra lög í aðildarríkjum samningsins. Mörg hundruð sérfræðingar (lobbyists), sumir segja um 600, eru sagðir hafa verið á vegum stórfyrirtækja inni á fundum við samningagerðina. Þar hafi þeir unnið hart við að koma sjónarmiðum sinna fyrirtækja inn í samningana. Fyrirtæki geti m.a. farið í mál við samningsríki ef regluverk þess eða aðgerðir hindra mögulegan hagnað.
 
Einn texti samningamanna í TPP-málinu lak t.d. út árið 2013. Þar kom m.a. fram að takmörk yrðu sett á með hvaða hætti bandarísk yfirvöld gætu sett reglur sem hindruðu umsvif erlendra fyrirtækja í landinu. Einnig að Bandaríkin fengju heimild til að koma upp starfsemi í láglaunalöndum án þess að um það giltu bandarísk lög um lágmarkslaun. Einnig að erlend fyrirtæki gætu lögsótt bandarísk stjórnvöld ef lög um heilsufar, umhverfismál, landnýtingu og annað stönguðust á við rétt þeirra samkvæmt TPP-samningnum. Þá var ákvæði um að erlend fyrirtæki gætu krafið ríki um að greiða kostnað sem hlytist af því að undirgangast fjármálalegt eða umhverfislegt regluverk í Bandaríkjunum. Sem sagt fjölþjóðafyrirtækin áttu að fá viðurkenndan rétt sem yfirkeyrði lög viðkomandi landa.
 
Um 100 lögfræðingar víða um heim skrifuðu opið bréf þar sem þessi áform voru fordæmd. Hvað nákvæmlega hefur síðan hafnað í samningnum hefur ekki verið upplýst. 
 
Mál af svipuðum toga sem hafa komið upp m.a. í El Salvador, í tengslum við „Central American Free Trade Agreement“. Þessi Mið-Ameríku-viðskiptasamningur er m.a. sagður hafa verið að hluta fyrirmynd við TPP-samningagerðina. Í El Salvador var t.d. mál þar sem almenningur krafðist þess að hætt yrði við námusamning við stórfyrirtæki vegna mengunar á grunnvatni. Í kjölfarið fór fyrirtækið í mál við ríkið og krafðist bóta  um á 315 milljónir dollara samkvæmt ákvæðum fríverslunarsamningsins. Annað dæmi hefur verið nefnt af stórfyrirtækinu Bechtel sem stefndi Bólivíu vegna áætlaðs 50 milljóna dollara taps á framtíðarhagnaði. Þá var fyrirtækið aðeins búið að fjárfesta fyrir 1 milljón dollara þegar einkavæða átti vatnsveitur í landinu. Tugir mála af svipuðum toga hafa sprottið upp út af þessum fríverslunarsamningi og hafa fréttaveitur á borð við Bloomberg  m.a. fjallað um slík mál.   
 
Snýst um niðurfellingu eða lækkun á 18 þúsund tollflokkum
 
TPP-samningurinn er í 30 köflum og inniheldur afnám og lækkun tolla á um 18 þúsund tollflokkum í iðnaði og landbúnaði, þar á meðal á textílvörum og fatnaði. Nákvæm útlistun samningsins hefur enn ekki verið gefin út en hann tekur m.a. á þjónustu og afurðum fjármálastofnana. Þá eru einnig ákvæði um frjálst flæði netupplýsinga og stafrænna gagna. Sömuleiðis er gert samkomulag um vörumerki, einkaleyfi og aðrar huglægar eignir á samningssvæðinu. Þar fellur líka undir sérstakar leyfisveitingar í lyfjaiðnaði og skilgreiningar varðandi vinnuafl og aðbúnaðarreglur. Ágreiningur var þó uppi um viðskipti með mjólkurvörur, bíla og lyf allt fram á síðasta dag samningaviðræðnanna. 
 
Væntingar um verulega aukna framleiðslu og viðskipti
 
Haft er eftir Alan Bollard, forstjóra Asia-Pacific Economic Cooperation group, á sjónvarpsstöðinni Fox News, að þessi fríverslunarsamningur gæti orðið virkur jafnvel þótt hann yrði ekki samþykktur í öllum 12 löndunum. Spáð er að samningurinn muni leiða til aukinnar framleiðslu að virði 285 milljarða dollara árið 2025 og aukins útflutnings aðildarríkjanna upp á 440 milljarða dollara. Er því spáð að Víetnam muni njóta mestrar hlutfallslegrar aukningar í  vergri þjóðarframleiðslu (GDP) en mestan hag af þessum samningi hafi þó Japan. Talið er að samningurinn muni leiða til þess að Kína, sem er utan við samkomulagið, tapi nokkru af sínum viðskiptum.
 
Allt er þetta klætt í fallega umgjörð mannréttinda og frelsis, eins og Shinzo Abe,  forsætisráðherra Japans, fjallaði um í lofgjörð sinni um samninginn.  
 
Fjöldi félagasamtaka hafa mótmælt þessum samningum. Þar eru m.a. um að ræða verkalýðsfélög, hópa sem fjalla um réttindamál innflytjenda og umhverfisverndarsinna. Hafa menn gagnrýnt að samningaferlið hafi að mestu farið fram á bak við luktar dyr þar sem stórfyrirtæki hafi haft mikil tækifæri til að koma sínum hagsmunum á framfæri.   
 
Rottusamningur fyrir Nýja-Sjáland
 
Ekki eru allir hrifnir af TPP-samningnum á Nýja-Sjálandi. Undir lok samningslotunnar áður en skrifað var undir með fyrirvara sagði forsætisráðherra Nýja-Sjálands að hvert aðildarríki samningsins gæti þurft að gera „ljótar málamiðlanir“ til að koma samningnum í gegn. 
 
Nýsjálendingurinn Tim Groser, sem er skoskur að uppruna og talinn leiðandi sérfræðingur í alþjóðaviðskiptum og fulltrúi Nýja-Sjálands hjá Alþjóða viðskiptasamtökunum (WTO), lét eftirminnileg orð falla um það hvað samningamenn sem komu að gerð TPP-samningsins þyrftu að kokgleypa: „Þeir verða að vera reiðubúnir til að kyngja dauðum rottum.“ 
 
Mjólkuriðnaðurinn á Nýja-Sjálandi er mjög stór og eru Nýsjálendingar stærstu mjólkurvöruútflytjendur í heimi. Útflutningurinn samsvarar um 2% af heimsframleiðslunni. Þeir gerðu sér vonir um að fá aðgengi að mjög lokuðum mjólkurvörumörkuðum í Bandaríkjunum og Kanada. Þeir fá afléttingu tolla á þurrmjólk en ekki að fullu fyrr en eftir 25 ár. Í staðinn eru engir tollaafslættir á kíví sem er mikilvæg útflutningsvara á Nýja-Sjálandi.
 
 Setja millistærðarrottu á matseðilinn
 
Andrew Hoggart, formaður Bændasamtaka Nýja-Sjálands, sagði að þessi samningur væri eins og að setja „millistærðarrottu“ á matseðilinn fyrir mjólkuriðnaðinn.
 
„Við fengum sannarlega ekki allt sem við vildum og urðum að svolgra samninginn í okkur vegna þjóðarhags.“
 
Hoggart segir að landið hafi ekki haft neina valkosti og vill því ekki skella skuldinni á samningamenn Nýja-Sjálands fyrir lélega útkomu fyrir mjólkuriðnaðinn.
 
„Við erum agnarlítið land og getum ekki ógnað neinum, nema kannski á rugby-vellinum.“ Telur Hoggart að samningurinn geti þrátt fyrir allt orðið landinu hagstæður. Hann segist vonast til að neytendur og skattgreiðendur víða um lönd muni standa með sínum bændum og hvetja þá til að þrauka. 
 
Skiptar skoðanir um ágæti samningsins í Kanada
 
Samkvæmt fréttum frá Kanada hefur ekki tekist að sannfæra alla landsmenn um ágæti TPP-samningsins. Þetta sýnir m.a. skoðanakönnun Postmedia Network. Þar töldu 33% samninginn góðan fyrir kanadískan efnahag. Þá töldu 24% samninginn slæman, en 16% töldu hann ekki skipta neinu máli og 26% voru ekki vissir. 
 
Kalkúnaræktendur svartsýnir
 
Kanadískir kalkúnaframleiðendur óttast um sinn hag og telja að samningurinn muni kosta þá vinnuna. Það eru um 500 kalkúnabú í Kanada og bara á Ontario-svæðinu eru 176 bú með 3.000 starfsmönnum sem framleiða um 40% af öllum kalkúnum í Kanada. Kanadískur kalkúnaiðnaður veltir 388 milljónum Kanadadollara. 
 
Svínabændur bjartsýnir
 
Á móti neikvæðum áhrifum á kalkúnaræktina fullyrtu samtök svínabænda að samningurinn muni verða hvatning fyrir 7.000 svínabændur í Kanada til að auka sína framleiðslu. Þá eru eggjaframleiðendur nokkuð bjartsýnir og fagna samningsgerðinni og telja hana geta orðið til góðs fyrir greinina. 
 
Kúabændur óttast áhrifin
 
Kanadískir mjólkurframleiðendur eru ekki eins bjartsýnir og óttast að missa viðskipti til annarra þjóða, einkum til Bandaríkjanna. Hin 34 ára gamla Jess Campell, kúabóndi með 50 Holstein-kýr í sunnanverðu Ontario fylki, sagði í viðtali við The Salt Lake Tribune, að tapast gæti sala á 250 milljón lítrum af mjólk. 
Leiðtogi vinstrimanna í Kanada Thomas Molcaire sem er í forystu NDP finnur þessum Kyrrahafssamningi flest til hnjóðs. Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, mælir hins vegar með samningnum og bendir á ýmsa varnagla sem í honum eru. Hann boðar 15 milljarða dollara aðlögunargjald sem muni standa kanadískum bændum og iðnfyrirtækjum til boða næstu 15 árin. Efasemdarmenn spyrja hins vegar – hvað svo?
 
Bandarískir mjólkurframleiðendur hafa sótt fast að komast inn á kanadíska markaðinn, en með nýja TPP-samningnum mun væntanlega opnast leið til þess. Þeir vildu fá samning um kvóta fyrir 10% markaðshlutdeild með mjólkurafurðir, en það mun hafa verið lækkað í 3,25%. Sem sagt markaðurinn verður opnaður en þó alls ekki upp á gátt. Á móti munu yfirvöld í Kanada bjóða bændum sem verða fyrir neikvæðum áhrifum samningsins bætur upp á um 4,3 milljarða Kanadadollar (um 3,3 milljarða Bandaríkjadollara) á 15 árum. Það mun tryggja meðal mjólkurframleiðanda 165.000 Kanadadollar innkomu, eða sem svarar tæplega 2,1 dollara á kú.  
 
Þess má geta að hlutabréf í Saputo Inc., stærsta ostaframleiðslufyrirtæki Kanada, hækkaði um 3% við tíðindin af samningnum.  
 
Bandaríkjaforsetanum liggur á
 
Þessi samningur er alls ekki endanlega í höfn því víða í þessum löndum hafa menn miklar áhyggjur á félagsleg og fjárhagsleg áhrif samningsins.
 
Ekki er t.d. talið auðvelt fyrir Obama, forseta Bandaríkjanna, að koma þessum samningi hljóðalaust í gegnum þingið, en hann snertir verulega utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Demókratar í hans eigin stuðningsmannaröðum hafa lýst yfir efasemdum með ágæti samningsins. Óttast menn að þetta muni skaða innlenda framleiðslu og fækka störfum í Bandaríkjunum. Þingið hefur 90 daga til að skoða samninginn áður en forsetinn fær heimild til að undirrita hann. Segir Obama samninginn góðan fyrir bandarískt verkafólk og nauðsynlegan til að spyrna við kínverskum áhrifum og auka áhrif Bandaríkjanna í Asíu.
 
Fjölgar ekki störfum í Bandaríkjunum en gróði af erlendu verkafólki
 
Peter Petri, prófessor í alþjóðaviðskiptum við Brandeis-háskóla, segist þó ekki telja að samningurinn leiði til þess að störfum fjölgi í Bandaríkjunum. Eigi að síður muni hann styrkja efnahag Bandaríkjanna og skapa aukatekjur upp á 77 milljarða dollara á ári eða um 0,4% þegar kemur fram á árið 2025. Það verði að mestu vegna vöruframleiðslu sem unnin verði af erlendu verkafólki. Gróðinn af því muni vega upp töpuð störf í Bandaríkjunum. 
 
Lyfjafyrirtækin fá tryggingu sem hækkar lyfjaverð
 
Bandarísku lyfjafyrirtækin munu fá um 8 ára tryggingu gegn samkeppni í lífefnageiranum, en ekki þau 12 ár sem þau kröfðust. Talið er að þessi hindrun muni hækka verulega lyfjaverð þannig að mörg lyf verði of dýr fyrir fólk í fátækum ríkjum.  
 
Judit Rius Sanjuan, lögfræðilegur ráðgjafi Lækna án landamæra, segir að TPP-samningurinn muni komast í sögubækur fyrir að vera versta viðskiptasamkomulag hvað  varðar aðgengi þróunarríkja að lyfjum. 
 
Obama kallar eftir flýtimeðferð
 
Obama leggur áherslu á flýtimeðferð í atkvæðagreiðslu þingsins, þannig að aðeins verði hægt að segja já eða nei við samningnum, í heild, en ekki tefja málið með umræðum eða atkvæðagreiðslum um einstaka liði hans. Forsetanum liggur bersýnilega talsvert á því hann verður að vera búinn að ganga frá öllum lausum endum við samninginn fyrir þingkosningar í nóvember 2016 en áður en hann hverfur úr embætti í janúar 2017. 
 
Hvíta húsið hefur upplýst að samningurinn þýði niðurfellingu tolla við útflutning á 70% af bandarískum bílum, vélum, kjúklingum, sojabaunum og ávöxtum. Það á þá væntanlega einnig við um innflutning á sömu vörum. Eigi að síður hefur Obama lagt málið þannig upp að samningurinn opni nýja markaði fyrir bandarískar vörur. 
 
 „Á meðan 95% af okkar helstu viðskiptavinum búa utan okkar landamæra, þá getum við ekki leyft ríkjum eins og Kína að skrifa reglurnar í alþjóðaviðskiptum,“ sagði Obama. „Við eigum sjálf að skrifa þessar reglur, opna nýja markaði fyrir amerískar vörur og setja um leið háar kröfur til að vernda verkamenn og okkar umhverfi.“
 
Verkalýðssamtök í Banda­ríkjunum lýsa yfir andstöðu
 
Samtök hópa verkamanna í Bandaríkjunum, eru þessu alls ekki sammála og hafa lýst vonbrigðum með samninginn og segja að hann muni valda vandræðum. 
 
„Að flýta sér til að gera slæman samning mun ekki koma á stöðugleika í efnahag okkar verkafólks. Þetta mun ekki heldur sannfæra okkur um að við munum njóta forgangs hjá fjölþjóðlegum fyrirtækjasamsteypum,“ segir Richard Trumka, forstjóri AFL (American Federation of Labor and Congress of Industrial Organizations). Það eru samtök sem hafa innan sinna vébanda um 12,5 milljónir manna og eru stærstu samtök verkafólks í Bandaríkjunum. Þessi samtök og fleiri hafa bent á að reynslan af fríverslunarsamningi NAFTA sýni að fjöldi starfa hafi glatast í Bandaríkjunum. 
 
Áhugavert verður í þessu ljósi að fylgjast með hvernig íslensk verkalýðsforysta bregst við fyrirliggjandi samningi  Íslands og ESB og mögulegum öðrum nýjum fjölþjóðlegum tollasamningum. 
 
250.000 mótmæltu TTIP-samningi Evrópu og Bandaríkjanna
 
Evrópusambandið hefur átt í viðræðum við Bandaríkin um fríverslunarsamning sem kallaður er Transatlantic Trade and Investment Partnership (TTIP). Talið er að hann hafi enn meiri áhrif en Trans-Pacific Partnership (TPP).
 
Þetta snýst um að opna aðgengi fyrirtækja að 800 milljóna manna markaði með tollalækkunum og tollaafnámi. Samningaviðræður hófust 2013 og ráðgert er að þeim ljúki 2016. Þá hangir líka á spýtunni ýmsar reglur um eins konar friðhelgi fyrirtækja til að sinna starfsemi sinni jafnvel þó hún gangi þvert á núgildandi landslög í viðskiptaríkjunum. Fyrirtækjasamsteypur vonast til að nýr fríverslunarsamningur geti skilað 100 milljörðum dollara í auknum viðskiptum beggja vegna Atlantsála. 
 
Í þessum samningaviðræðum keyra bandarísk stórfyrirtæki á borð við Monsanto hart fram sína stefnu. Það þýðir að ESB yrði m.a. að slá verulega af andstöðu sinni við erfðabreytta landbúnaðarframleiðslu. 
Talið er að allt að 250 þúsund manns hafi mótmælt þessu samningaferli í Berlín laugardaginn 17. október sl. og mikill fjöldi í öðrum borgum Þýskalands og víðar. „Þetta eru mestu mótmæli sem þetta land hefur séð í mörg, mörg ár,“ sagði Christoph Bautz, stjórnandi „Campact“-hreyfingar fólksins. 
 
Í frétt Reuters um mótmælin í Berlín kemur m.a. fram að fólk óttast að verið sé að útþynna alla löggjöf sem hugsuð var til að vernda almenning fyrir misbeitingu stórfyrirtækjanna á landbúnaði. Andstaða hefur verið að vaxa gegn þessum áformum undanfarið ár og fólk er hrætt við að drottnunarvald stórfyrirtækjanna verði innleitt í löggjöf. 
 
Mótmælin munu hafa komið Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í opna skjöldu. Sigmar Gabriel efnahagsráðherra lét birta heilsíðuauglýsingar í fjölda þýskra dagblaða sama dag og mótmælin fóru fram, þar sem hann varaði við óttavæðingu gegn samningnum. 

Allt að 250 þúsund manns mótmæltu áformum um TTIP fríverslunarsamning Evrópu og Bandaríkjanna á mótmælafundi í Berlín um fyrri helgi. Mynd / EurActiv

13 myndir:

Áfellisdómur um eftirlit MAST með dýravelferð
Fréttir 11. desember 2023

Áfellisdómur um eftirlit MAST með dýravelferð

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluúttekt á eftirliti Matvælastofnunar (MA...

Ungmenni berjast gegn stöðnun í dreifbýli
Fréttir 11. desember 2023

Ungmenni berjast gegn stöðnun í dreifbýli

Norrænt ráð 25 ungmenna frá öllum Norðurlöndum sat nýlega fund með norrænum ráðh...

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...