Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Thomas kaupmaður í Verzlunarfjelagi Árneshrepps.
Thomas kaupmaður í Verzlunarfjelagi Árneshrepps.
Mynd / Úr skýrslu Verslun í heimabyggð
Líf og starf 24. mars 2021

Reynt að finna leiðir til að smáverslanir á landsbyggðinni geti snúið vörn í sókn

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Verslanir í litlum byggðalögum á Íslandi eru til umfjöllunar í nýrri rannsóknaskýrslu Emils B. Karlssonar, en rann­sóknin styrkt var af Byggðarannsóknasjóði.

Í skýrslunni er lýst vanda þessara verslana, sem meðal annars felst í óhagstæðum innkaupum, háum flutningskostnaði og áhættu þeirra einstaklinga sem reka þessar verslanir. Einnig eru lagðar fram tillögur að skilvirkum aðgerðum sem ætlað er að styðja þessar verslanir til lengri tíma litið.

Dreifbýlisverslanir um allt land gegna veigamiklu hlutverki í að viðhalda byggð á fámennum svæðum, bæði með því að íbúar geti keypt nauðsynjar og ekki síður sem samfélagsmiðstöðvar. Um leið eiga þessar verslanir erfitt með að lifa af vegna fárra viðskiptavina og erfiðra ytri skilyrða.

Mest óánægja með verð og þjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum

Í könnun sem dr. Vífill Karlsson gerði árið 2018 kom í ljós að ­óánægja íbúa með verð og vöruframboð eykst almennt eftir því sem búsetan er fjær höfuðborgarsvæðinu eða öðrum þéttbýliskjörnum þar sem lágvöruverðsverslanir eru. Á meðan íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum eru hvað óánægðastir með vöruverð eru íbúar þeirra staða sem hafa lágvöruverðsverslanir, eins og á Akranesi og í Borgarnesi, hvað ánægðastir með vöruverð. Mögulega gæti þessi afstaða breyst eitthvað ef könnun yrði gerð næsta haust þegar áhrifa af opnun Dýrafjarðarganga fer að gæta meira en orðið er. Talsvert er nefnilega orðið um að íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum nýti sér opnun ganganna og vetraropnun milli norðan- og sunnanverða Vestfjarða til að gera innkaup í Bónusversluninni á Ísafirði og í Nettó.

Reynt að finna leiðir til úrbóta

Tilgangur rannsóknarinnar var að finna leiðir til að eigendur þessara verslana geti snúið vörn í sókn, bæði með skilvirkum stuðningsaðgerðum stjórnvalda og með því að skjóta fleiri stoðum undir reksturinn. Höfundur skýrslunnar er Emil B. Karlsson, fyrrum forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Þegar rennt er í gegnum skýrsluna blasir við frekra döpur mynd af þróun verslunar í dreifðari byggðum landsins. Þó má sjá vonarglætu á nokkrum stöðum þar sem verið er að endurreisa verslanir eða hugur í fólki að fara þá leið. Skoðuð var staða hjá 22 verslunum um land allt og greining gerð á reynslu þeirra. Í skýrslunni kemur fram að vandi þeirra er margháttaður.

Óhagkvæm innkaup

Vandi við innkaup lítilla verslana á landsbyggðinni felst í því að þær geta ekki nýtt sér stærðarhagkvæmi og afsláttarkjör eins og verslunar­keðjurnar. Þessar verslanir kaupa oft vörur sem hafa þegar farið í gegnum fleiri stig virðiskeðjunnar. Þá er álagning eftir, sem þarf að vera hærri en í stórum verslunum til að standa undir rekstrarkostnaði, auk áhrifa flutningskostnaðar.

Samkeppni við lágvöruverðsverslanir

Stærstu verslunarkeðjurnar vilja ekki reka of litlar einingar með tapi. Íbúar á landsbyggðinni versla í lágvöruverðsverslunum þó ferðast þurfi tugi kílómetra.

Reksturinn hefur í för með sér áhættufórn eigenda verslana

Reksturinn er oft nánast sjálfboðavinna áhugasamra heimamanna og velunnara á meðan aðrir íbúar hafa fastar tekjur.

Vítahringur verslunarinnar

Reksturinn stendur ekki undir sér vegna fámennis og fámennið eykst ef ekki er til verslun á staðnum.
Þá segir í skýrslunni að margar þeirra dreifbýlisverslana sem hér er fjallað um hafi orðið gjaldþrota og skipt oft um eigendur og rekstraraðila. Reglulega birtast fréttir af því að eina búðin í byggðalaginu hafi verið lögð niður, eða reist við fyrir tilstuðlan sveitarfélagsins eða samtakamáttar íbúa. Ýmissa leiða hefur verið leitað í því sambandi, meðal annars stofnun hlutafélaga með aðkomu heimamanna og utan­aðkomandi velunnara, sem hafa lagt búðinni til rekstrarfé til einhvers tíma. Þetta sýnir samstöðu fólks um að gefa litlum byggðum tækifæri til að lifa af.

Lausnin felst ekki í tímabundnum björgunaraðgerðum

Hluti af stuðningsaðgerðum stjórnvalda til svæða sem skilgreindar hafa verið „Brothættar byggðir“ felast meðal annars í að styðja við rekstur verslunar á staðnum. Vandinn er sá að stuðningur við „Brothættar byggðir“ er tímabundinn og óljóst hvað tekur við eftir að fjárhagsaðstoð lýkur ef grundvöllurinn hefur ekki verið tryggður að einhverju leyti. Lausnin felst ekki í tímabundnum björgunaraðgerðum til að mæta rekstrartapi, heldur þarf að leita leiða til að auka fyrirsjáanleika rekstrarins og sem mestrar sjálfbærni.

Afar mikilvægt er að skjóta fleiri stoðum undir reksturinn með viðbótarþjónustu, hvort sem er á sviði ferðaþjónustu, samstarfs við sveitarfélag um innkaup, veitingaþjónustu, annast póstþjónustu, bensínafgreiðslu o.s.frv.

Í Byggðaáætlun 2018–2024 er í tveimur liðum, í aðgerðaáætlun, fjallað um stuðningsaðgerðir til handa verslunum í strjálbýli. Annars vegar í lið A.08. Jöfnun flutningskostnaðar vegna verslunar og hins vegar í lið A.09. Verslun í strjálbýli.

Tillögur til úrbóta

Í niðurstöðum skýrslunnar tekur höfundur saman fjölmargar tillögur til úrbóta. Ein tillagan er að verslanir á landsbyggðinni reyni að koma á samstarfi við stærri verslanir í því augnamiði að lækka vöruverð. Staðan sé sú að verslanir, sem starfræktar eru í minnstu byggðalögunum, eiga í mjög ójafnri samkeppni við stóru verslunarkeðjurnar á dagvörumarkaði hvað varðar innkaupaverð. Þetta leiðir til ójafnra skilyrða fyrir íbúa eftir því hvar þeir búa og hvetur íbúa til að gera innkaup utan heimabyggðar þó óskir þeirra standi til þess að viðhalda verslun í heimabyggð.

Skýrsluhöfundur segir að ástæða sé til að koma á samtali um nánara samstarf við stóru verslunarkeðjurnar með það fyrir augum að heimamenn í litlum byggðum reki sínar verslanir en hafi aðgang að innkaupum á sama eða svipuðu verði og lágvöruverðsverslanirnar.

„Þannig er ábyrgð á rekstri verslunarinnar í höndum eiganda verslunar í heimabyggð og verslunarkeðjan nýtur góðs af aukinni sölu. Þetta fyrirkomulag hefur um langt skeið verið viðhaft í nágrannalöndum okkar og gefist vel. Í Noregi og Svíþjóð eru þessar verslanir reknar sem eins konar sérleyfisverslanir undir merkjum viðkomandi verslunarkeðju. Eigendur greiða veltubundna þóknun og fá í staðinn ýmsa tæknilega og faglega þjónustu.“

Jóhann Magnússon í versluninni Albínu á Patreksfirði. Mynd / Úr skýrslu Verslun í heimabyggð

Mismunandi viðhorf eftir búsetu
  • Íbúar í byggðalögum í mestri fjarlægð frá lágvöruverðsverslunum eru óánægðir með vöruverð.
  • Íbúar sunnanverðra Vestfjarða telja hátt verðlag eina helstu ástæðu þess að landshlutinn sé ekki eins heppilegur til búsetu og önnur landsvæði.
  • Íbúar sunnanverðra Vestfjarða versla helst í lágvöruverðsverslun í Reykjavík í 390 km fjarlægð.
  • Ætla má að útgjöld heimila í litlum byggðalögum til matarinnkaupa sé mun hærra en þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Skylt efni: verslun | smáverslanir

Áframhaldandi búseta talin möguleg
Líf og starf 13. mars 2024

Áframhaldandi búseta talin möguleg

Við Langanesströnd sem liggur að botni Bakkaflóa stendur Bakkafjörður ásamt bæði...

Kirkjugarðsklúbburinn
Líf og starf 12. mars 2024

Kirkjugarðsklúbburinn

Halaleikhópurinn víðfrægi tók að sér verkið Kirkjugarðsklúbbinn eftir Ivan Mench...

Bændamótmæli á Íslandi?
Líf og starf 11. mars 2024

Bændamótmæli á Íslandi?

Mótmæli bænda í Evrópu hafa verið í fréttum undanfarin misseri þar sem þeir vald...

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars
Líf og starf 8. mars 2024

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars

Vatnsberinn hefur alla burði til þess að koma í framkvæmd þeim hugmyndum sem eru...

Lundi
Líf og starf 6. mars 2024

Lundi

Lundi er algengasti fuglinn okkar og jafnframt einn af okkar einkennisfuglum. Ha...

„... ég heyrði fnasað og krafsað í hálfrökkrinu ...“
Líf og starf 5. mars 2024

„... ég heyrði fnasað og krafsað í hálfrökkrinu ...“

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Svövu Jakobsdóttur.

Auðugri framtíðarsýn Dalabyggðar
Líf og starf 1. mars 2024

Auðugri framtíðarsýn Dalabyggðar

Eins og áður hefur verið kynnt hafa alls 14 byggðarlög hérlendis tekið þátt í ve...

Fagleg og fræðandi afmælissýning
Líf og starf 26. febrúar 2024

Fagleg og fræðandi afmælissýning

Hálfrar aldar afmæli Félags tamningamanna var haldið hátíðlegt þann 17. febrúar ...