Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Tullis Matson, Kate Ashmore, Skýr frá Skálakoti, Guðmundur Viðarsson, Katrin Wagner, Helga Björt Bjarnadóttir og kúturinn sem geymir djúpfryst sæði.
Tullis Matson, Kate Ashmore, Skýr frá Skálakoti, Guðmundur Viðarsson, Katrin Wagner, Helga Björt Bjarnadóttir og kúturinn sem geymir djúpfryst sæði.
Mynd / hf
Viðtal 17. maí 2024

Frysta hrossasæði til notkunar hérlendis og til útflutnings

Höfundur: Hulda Finnsdóttir

Guðmundur Viðarsson og Jóhanna Þórhallsdóttir, hrossa- og ferðaþjónustubændur í Skálakoti, eru að reisa einangrunar- og sæðingastöð á jörðinni Efra-Holti í Vestur-Eyjafjallahreppi.

Starfsemi stöðvarinnar hefst á næsta ári en þar mun m.a. vera í boði að frysta hrossasæði til notkunar hérlendis og til útflutnings.

Guðmundur og Jóhanna rækta hross kennd við Skálakot og reka þar ferðaþjónustufyrirtæki þar sem þau bjóða upp á gistingu og dagshestaferðir. Vantaði þau orðið meira land undir starfsemina og festu kaup á jörðinni Efra-Holt sem er í næsta nágrenni. Á jörðinni var gott íbúðarhús og gömul fjárhús og þar mun sæðinga- og einangrunarstöðin vera staðsett.

„Við kaupum Efra-Holt aðallega með það í huga að við gætum komið þar upp góðri aðstöðu fyrir starfsfólkið okkar. Það hefur hins vegar lengi verið draumur hjá mér að opna alhliða einangrunar- og sæðingastöð til að geta boðið upp á frystingu á hrossasæði en það hefur ekki tíðkast hér á landi. Hugmyndin er að geta boðið íslenskum ræktendum upp á að geyma djúpfryst hrossasæði úr stóðhestum þeirra, bæði til að nota hér heima en einnig til útflutnings.

Ein krafan til að geta flutt út hrossasæði er sú að stóðhestarnir þurfa að vera ákveðið lengi í einangrun áður en tekið er úr þeim, því er Efra-Holt kjörinn staður fyrir stöðina en þar eru engin hross og munu aldrei vera, nema þá bara stóðhestarnir sem verða á stöðinni,“ segir Guðmundur.

Sæðingastöðin er enn á byggingarstigi og stefnir Guðmundur á að hún verði klár fyrir næsta sumar. Byggði hann tengibyggingu á milli fjárhúsanna tveggja sem voru á jörðinni. Í öðru fjárhúsinu verður stóðhestahúsið með stíum fyrir fimm stóðhesta og í hinu verða tvær stíur fyrir hryssur og aðstaða til að taka sæði úr stóðhestunum. Í tengibyggingunni er síðan aðstaða til að vinna sæðið til að m.a. djúpfrysta það, undirbúa fyrir útflutning og geymsla fyrir djúpfryst sæði.

Einangrunar- og sæðingastöðin í Efri-Holtum er langt á veg komin. Byggð var tengibygging á milli tveggja gamalla fjárhúsa sem voru á jörðinni.

Frumkvöðlastarf í nafni Skýs

Guðmundur er ræktandi og eigandi stóðhestsins Skýs frá Skálakoti ásamt Jakobi Svavari Sigurðssyni. Skýr er Sleipnisbikarhafi og hefur notið mikilla vinsælda sem kynbótahestur. Hann hefur undanfarin ár verið í sæðingum en þar kviknar áhugi Guðmundar á frystingu á hrossasæði.

„Ef stóðhestur slær í gegn hér á landi hefur eigandinn um tvennt að velja; annaðhvort selja hestinn út eða eiga hann áfram og nota hann til ræktunar hér heima sem takmarkast við þann fjölda hryssna sem verið er að halda hér á landi á ári. Með því að geta boðið upp á útflutning á frosnu sæði opnum við fyrir risastórum markaði, eða heiminn allan. Við erum þó ekki bara að hugsa um þetta upp á útflutning heldur líka til að geta geymt fryst sæði fyrir stóðhestaeigendur sem hægt væri að nota seinna meir.“

Nú þegar hafa þau Jóhanna og Guðmundur fjárfest bæði í byggingu á húsakosti sem og í tækjabúnað og segir Guðmundur tekjur af stóðhestinum Ský spila stórt hlutverk í að geta látið þennan draum rætast.

„Við höfum verið svo heppin að okkur hefur gengið vel fjárhagslega með Ský og erum við Jóhanna svolítið að eyða ágóðanum af honum í þetta verkefni. Mér finnst við geta gefið af okkur til íslenskrar hrossaræktar og sé fyrir mér að svona sé Skýr að auka framlag sitt til hrossaræktarinnar. Þetta er ákveðið frumkvöðlastarf í hans nafni.“

Leyfisvinnan eftir

Útflutningur á hrossasæði hefur ekki tíðkast á Íslandi en er alþekktur víðs vegar í heiminum. Guðmundur hefur enn ekki sótt um leyfi en sér ekkert því til fyrirstöðu að geta ekki flutt hrossasæði úr landi.

„Það er í rauninni alveg absúrd ef ég mætti ekki flytja fimm skammta úr hesti úr landi en ég má flytja út hestinn með ótakmarkað magn af hrossasæði.

Ég hef fengið bréf með staðfestingu á því að ég megi flytja út hrossasæði en ég mun þurfa að fá leyfi inn í Evrópubandalagið og Bandaríkin. Það eru þessi stærstu Íslandshestasvæði en það er ekkert til fyrirstöðu að senda líka t.d. til Ástralíu ef áhugi væri fyrir því.

Ég kem til með að sækja um leyfin þegar ég get sýnt fram á starfsemi í Efri-Holtum, ég hef ekki viljað kallað yfir mig alla pappírsvinnuna meðan starfsemin er enn á byggingarstigi.“

Dýralæknarnir Helga Björt Bjarnadóttir og Katrin Wagner munu starfa á sæðingastöðinni í Efri-Holtum næsta sumar.
Byrjuð að frysta sæði

Undirbúningur er þó hafinn að fullu og í lok apríl var byrjað á að frysta og þíða sæði í Skálakoti með það að markmiði að fylja hryssur í sumar til að sýna fram á að þetta virki.

„Það mun flýta fyrir mér í sölunni næsta vor en ég veit að fyrsta spurning sem ég mun fá er hvort sé hægt að búa til folöld úr djúpfrystu sæði. Það er rosalega gott að geta svarað þeirri spurningu játandi,“ bætir Mummi við.

Dýralæknarnir Helga Björt Bjarnadóttir og Katrin Wagner munu starfa á sæðingastöðinni í Efri-Holtum næsta sumar. Þær reka saman dýralæknafyrirtækið Dýralæknar Katrin og Helga ehf. og voru m.a. með Ský frá Skálakoti í sæðingum í Hemlu II sl. sumar. Vorið 2023 ákvað Helga Björt að fara til Englands á námskeið hjá Tullis Matson og fyrirtæki hans, Stallion AI, sem hefur verið leiðandi fyrirtæki við sæðingar og frystingu á sæði í yfir 30 ár. „Að námskeiði loknu byggðum við upp mjög gott vinnusamband við Tullis og hans teymi hjá Stallion AI. Síðan þá höfum við verið í góðu sambandi við þau, fengið ráðleggingar varðandi vinnslu á fersku og kældu sæði, ásamt því að ræða framtíðarmöguleika á frystingu sæðis hér á landi,“ segir Katrin.

Krefjandi og fræðandi

Tullis Matson kom fyrst til Íslands í ágúst á síðasta ári og hélt fyrirlestur fyrir dýralækna á Dýralæknaþinginu. „Eftir fyrirlesturinn kynntum við Tullis fyrir Guðmundi í Skálakoti, og Guðmundur bauð í kjölfarið Tullis í heimsókn í Skálakot. Það var þá sem var ákveðið að hittast aftur í apríl á þessu ári til að frysta sæði og koma þessu verkefni af stað. Síðan þá hefur farið mikill tími og vinna í undirbúning,“ segir Helga Björt.

Undirbúningurinn segir Katrin hafa legið bæði í samskiptum við teymið úti hjá Stallion AI og erlend fyrirtæki vegna pantana á þeim tækjum og tólum sem nauðsynleg eru til að geta unnið og fryst sæði. Einnig hafi þurft að undirbúa þá stóðhesta sem taka átti sæði úr til frystingar.

„Til að geta tekið sæði úr hestunum var nauðsynlegt að hafa aðgang að merum í látum, en það er ekki sjálfgefið svo snemma vors, því byrja þurfti að taka sæði úr hestunum í lok mars, byrjun apríl. Með hjálp og góðri kunnáttu frá Tullis, Kate og Pam hjá Stallion AI og góðum aðbúnaði Guðmundar í Skálakoti, höfum við nú fryst sæði úr fimm stóðhestum sl. þrjá daga,“ segir Helga Björt.

„Einnig sæddum við fyrstu hryssuna, hana Klukku, með frystu sæði. Til að geta sætt meri með frystu sæði þarf að fylgjast grannt með egglosi því þú vilt sæða merina eins nálægt egglosi og hægt er.“

Sónarskoðun fer fram á átta tíma fresti. „Þetta eru búnir að vera mjög krefjandi en ótrúlega fræðandi og skemmtilegir dagar. Það er mjög gaman að vinna með Tullis og erum við ótrúlega þakklátar að fá að taka þátt í þessu verkefni með Guðmundi. Í sumar munum við síðan halda áfram að frysta sæði og síðan sæða merar með frystu sæði í von um að það fæðist einhver folöld næsta sumar eða vor,“ segir Katrin.

Áhersla lögð á að bæta fyljunarhlutfallið

Sæðingar með frystu sæði hafa ekki verið stundaðar hér á landi í mörg ár. Einhverjar tilraunir voru gerðar, en var árangurinn ekki talinn nægilega góður til þess að aðferðin fengi mikinn hljómgrunn.

Tullis Matson ásamt samstarfskonu sinni, Kate Ashmore, kom hingað til lands til að leiðbeina þeim Katrínu og Helgu Björt. Tullis stofnaði Stallion AI Services Ltd. í Bretlandi fyrir 30 árum og er það ein farsælasta sæðingastöð stóðhesta í Evrópu. Fá þau um 120 stóðhesta á hverju ári, dressúrhesta, kappreiðarhesta, hindrunarstökkhesta og einstaka íslenska stóðhestinn.

„Síðustu árin höfum við verið að fullkomna tækni okkar við að frysta sæði og vinna í að bæta fyljunarhlutfallið. Við höfum einstakt lag á að frysta hrossasæði og teljum að með tækninni okkar sé hægt að fá gæða sæði hvar sem er. Okkur var sagt að ekki væri hægt að frysta sæði úr íslenskum hesti og fylja hryssur en við teljum að það sé ekki rétt,“ segir Tullis og bætir við: „Síðustu daga höfum við verið að sýna þeim Helgu Björt og Katrinu hvernig við gerum þetta og nú þegar höfum við sýnt fram á það að þetta er vel hægt. Þeir sæðisskammtar sem við höfum fryst og afþítt hafa litið frábærlega út.“

Tullis leggur áherslu á að til að fyljunarhlutfallið sé sem best þurfi að hugsa út í öll smáatriði og það þarf lítið út af að bregða til að árangurinn verði lakari.

„Það þarf að horfa á allt ferlið. Hvernig er hugsað um stóðhestinn, hvað er hann að borða, hvernig er heilsufar hans? Hvernig er sæðið tekið? Er stóðhestinum þvegið um skaufann? Hvaða íblöndunarefni er notað? Tímasetning sæðingarinnar er líka mjög mikilvægur partur. Dýralæknirinn sem síðan sæðir með frosna sæðinu þarf líka að vita hvað hann er að gera. Allt eru þetta mjög mikilvægir hlutir af ferlinu en mikilvægast er kannski hvernig sæðið er fryst og þar hefur tæknin okkar skilað góðum árangri.

Við höfum verið að gera þetta í yfir 30 ár og er þetta stór hluti af starfsemi okkar. Við höfum fengið mjög góðar niðurstöður og oft jafngóðar og þegar sætt er með kældu sæði. Auðvitað er ferskt sæði alltaf frjósamasta leiðin en ef ekki er hægt að nota stóðhestinn eða spurning um að flytja út sæði eða vernda ákveðið erfðaefni þá þarf ekkert að ræða mikilvægi þessarar aðferðar.“

Til að fyljunarhlutfallið sé sem best þarf að hugsa út í öll smáatriði og það þarf lítið út af að bregða til að árangurinn verði lakari. Hér er tekið sæði úr stóðhestinum Ellert frá Baldurshaga.

Mikilvægt fyrir ræktendur íslenska hestsins

Að ná góðum tökum á sæðingum með frystu sæði segir Tullis vera mjög mikilvægt fyrir íslensku hrossaræktina. Hægt sé að dreifa erfðaefninu án þess að flytja hestinn úr landi og einnig með frystingu á sæði sé hægt að geyma dýrmætt erfðaefni í jafnvel 1.000 ár.

„Þessi aðferð hefur verið mjög vinsæl erlendis í mörg ár. Dýralæknar á Íslandi hafa helst úr lestinni en áhuginn er að vakna sem gleður mig. Það er mikil synd að þessi aðferð hafi ekki verið meira notuð á Íslandi, sérstaklega fyrir ræktendur.

Hér ertu með bestu hestana og ef þú flytur þá úr landi þá fá þeir aldrei snúið aftur. Með þessari tækni er hægt að flytja út erfðaefni þeirra án þess að flytja þá sjálfa úr landi og einnig er hægt að varðveita erfðaefni hjá hestum löngu eftir að þeir eru dauðir,“ segir Tullis.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt