Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Teikning úr bókinni
Teikning úr bókinni
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Mynd af forsíðu Hrafnkötlu

Hrafnkels saga Freysgoða, einnig oft nefnd Hrafnkatla, er hluti Íslendingasagna og þekktust sagna Austfirðinga.

Hrafnkell Hallfreðarson kom fimmtán ára gamall með foreldrum sínum á skipi frá Noregi og tók skipið land undan Breiðdal. Var það á 10. öld. Hrafnkell nam land á Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Hann átti dýrgrip mikinn, hestinn Freyfaxa og nefndi hestinn að hálfu til goðsins Freys sem hann dýrkaði mjög. Strengdi Hrafnkell þess heit að hann skyldi þeim manni að bana verða sem riði Freyfaxa í leyfisleysi.

Einar Þorbjörnsson á Hóli í Hrafnkelsdal fékk tvö misseri vist hjá Hrafnkeli sökum fátæktar heima fyrir og hlaut það verkefni að „reka heim fimm tigi ásauðar í seli og viða heim öllum sumarviði“, líkt og Hrafnkell útskýrði fyrir honum um leið og hann tók honum vara fyrir að ríða Freyfaxa sem gengi ásamt tólf hrossum öðrum laus í dalnum.

„Einar fer nú heim eftir klæðum sínum og flytur heim á Aðalból. Síðan var fært í sel fram á Hrafnkelsdal, þar sem heitir að Grjótteigsseli.

Einari fer allvel að um sumarið, svo að aldrei verður sauðvant allt til miðsumars; en þá varð vant nær þrjá tigi ásauðar eina nótt. Leitar Einar um alla haga og finnur eigi; honum var vant fjárins nær viku. Það var einn morgun, að Einar gekk út snemma, og er þá birt af allri sunnanþokunni og úðinni.

Hann tekur staf í hönd sér, beizli og þófa; gengur hann þá fram yfir Grjótteigsá; hún fellur fyrir framan selið; en þar á eyrunum lá fé það, er heima hafði verið um kvöldið. Hann stökkti því heim að selinu, en fer að leita hins, er vant var áður. Hann sér nú stóðhrossin frammi á eyrunum og hugsar að höndla sér hross nokkurt til reiðar, og þóttist vita, að hann myndi fljótara yfir bera, ef hann riði en gengi.Og er hann kom til hrossanna, þá elti hann þau, og voru þau nú skjör, er aldrei voru vön að ganga undan manni, nema Freyfaxi einn; hann var svo kyrr sem hann væri grafinn niður. Einar veit að líður á morguninn, og hyggur, að Hrafnkell myndi eigi vita, þótt hann riði hestinum. Nú tekur hann hestinn og slær við beizli, lætur þófa á bak hestinum undir sig og ríður upp hjá Grjótárgili, svo upp til jökla og vestur með jöklinum, þar sem Jökulsá fellur undir, svo ofan með ánni til Reykjasels. Hann spurði alla sauðamenn að seljum, ef nokkur hefði séð þetta fé, og kvaðst enginn séð hafa. Einar reið Freyfaxa allt frá eldingu og til miðs aftans; hesturinn bar hann skjótt yfir og víða, því að hann var góður af sér. Einari kom þá í hug, að honum mundi mál heim að reka það fé fyrst, er heima var, þótt hann fyndi hitt eigi; reið hann þá austur yfir hálsa í Hrafnkelsdal. En er hann kemur ofan að Grjótteigi, heyrir hann sauðajarm fram með gilinu, þangað sem hann hafði fram um riðið áður; snýr hann þangað til og sér renna á móti sér þrjá tigi ásauðar, það sa ma, sem vantað hafði áður viku, og stökkti hann því heim fénu. Hesturinn var votur allur af svita, svo að draup úr hverju hári; hann var mjög leirstokkinn og móður ákaflega; hann veltist um tólf sinnum, og eftir það setur hann upp gnegg mikið; síðan tekur hann á mikilli rás ofan eftir götunum. Einar snýr eftir honum og vill komast fyrir hestinn og vildi höndla hann og færa hann aftur til hrossanna. En hann var þá svo styggur, að Einar komst hvergi í nánd honum. Hesturinn hleypur ofan eftir dalnum, og nemur eigi staðar fyrr en hann kemur heim á Aðalból.“

Þeir sem ekki þekkja Hrafnkelssögu ættu nú að verða sér úti um hana og lesa hvernig sögunni lyktaði, hún er æsispennandi.

Gallabuxnafár, grátið við skákborðið og brúðkaup MC
Líf og starf 20. janúar 2025

Gallabuxnafár, grátið við skákborðið og brúðkaup MC

Það ríkti engin lognmolla í skákheiminum á milli jóla og nýárs. Heimsmeistaramót...

Janúar er mánuður briddsins
Líf og starf 17. janúar 2025

Janúar er mánuður briddsins

Fjölmörg briddsmót fóru fram um jólin hér og þar um landið. Sums staðar þóttu br...

Kría – barnapeysa
Líf og starf 17. janúar 2025

Kría – barnapeysa

Peysan er prjónuð úr einföldum Þingborgarlopa og einum þræði af LoveStory saman....

Bústörf yfir hávetur
Líf og starf 15. janúar 2025

Bústörf yfir hávetur

Verkefni bænda halda áfram þrátt fyrir hátíðarhöld og lögbundna frídaga. Hér eru...

Heimabakað brauð
Líf og starf 15. janúar 2025

Heimabakað brauð

Brauðbakstur er merkilega einföld iðja en um leið afskaplega flókin. Hveiti, vat...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 13. janúar 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn stígur gætilega til jarðar þessi fyrstu skref ársins, uppfullur forv...

Stiklað á stóru
Líf og starf 9. janúar 2025

Stiklað á stóru

Bændablaðið kom tuttugu og þrisvar sinnum út árið 2024. Hér eru endurbirtar sjö ...

Álft
Líf og starf 8. janúar 2025

Álft

Álft er stærsti fuglinn okkar. Fullorðin álft getur orðið 10 kg og vænghafið 2,2...