Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lauk. Stríð geisar í Evrópu, sem hæglega gæti farið úr böndunum og breiðst út. Líkurnar á umfangsmiklum alþjóðlegum deilum fara vaxandi.
Úkraína berst fyrir lífi sínu. Ríki Evrópu styrkja varnir sínar og Bandaríkin og ýmis önnur ríki senda vopn til Evrópu sem aldrei fyrr. Ísland er herlaus og fámenn þjóð í Norður-Atlantshafi sem leggur sitt af mörkum við að styðja við úkraínsku þjóðina á erfiðum tímum. Við höfum staðið fyrir margvíslegri aðstoð við Úkraínu og tekið á móti fjölmörgum flóttamönnum sem flýja stríðsátökin. Þar með talið rúmlega 100 heyrnarlausum einstaklingum og er Ísland þar í sérstöðu meðal norrænu þjóðanna.
Móttaka heyrnarlausra er krefjandi og má nefna að Danmörk treysti
sér ekki til að taka við nema 20 heyrnarlausum einstaklingum frá Úkraínu. Núna síðast samþykkti Alþingi að færa Úkraínu færanlegt sjúkrahús að andvirði einum og hálfum milljarði króna. Við Íslendingar getum því verið stolt af verkum okkar í þessum efnum.
Innflutningur á kjúklingakjöti farinn að hafa neikvæð áhrif
Fyrir ári síðan samþykkti Alþingi lög sem heimila tollfrjálsan innflutning frá Úkraínu. Heildartollverð innfluttra vara til landsins frá Úkraínu árið 2022 nam 827 milljónum króna. Innflutningur á kjúklingakjöti frá Úkraínu nam um 80 tonnum. Það sem af er þessu ári er hann kominn í nær 300 tonn og eykst jafnt og þétt. Nú er svo komið að innflutningurinn er farinn að hafa neikvæð áhrif á innlenda alifuglaframleiðslu og er það áhyggjuefni. Innlend framleiðsla er okkur mikilvæg m.a. út frá fæðuöryggi. Auk þess veitir greinin hátt í 500 manns atvinnu.
Allar þjóðir standa vörð um sína landbúnaðarframleiðslu. Evrópusambandið fer þar fremst í flokki. Pólland og Ungverjaland, nágrannaríki Úkraínu, banna innflutning á landbúnaðarvörum frá Úkraínu vegna neikvæðra áhrifa á þeirra eigin landbúnað. Kjúklingurinn sem er fluttur út frá Úkraínu m.a. til Íslands fer að stórum hluta í gegnum Pólland. Frystigámar eru innsiglaðir á landamærum og strangt eftirlit er haft með því að varan fari ekki á pólskan markað. Pólverjar hafa staðið vel við bakið á Úkraínu í stríðinu, en gæta þess þegar kemur að landbúnaði að standa vörð um eigin framleiðslu.
Gleymum ekki mikilvægi okkar eigin landbúnaðar
Aðstoð okkar við Úkraínu stendur ekki og fellur með innflutningi á kjúklingi. Ég hef farið tvisvar sinnum til Úkraínu eftir að stríðið hófst með hjálpargögn og þekki það af eigin raun að við getum stutt við bakið á Úkraínumönnum með margvíslegum hætti án þess að stefna okkar eigin landbúnaðarframleiðslu í vanda. Við gætum til að mynda keypt af þeim korn og hveiti, ávexti eins og epli, en mikil eplaframleiðsla er í landinu svo fátt eitt sé nefnt. Förum að fordæmi Pólverja og styðjum við bakið á Úkraínu á stríðstímum en gleymum ekki mikilvægi okkar eigin landbúnaðar.