Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Einfeldningsskapur
Skoðun 8. nóvember 2019

Einfeldningsskapur

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Íslendingar hafa alla tíð staðið frammi fyrir fjölmörgum áskorunum sem þjóð. Í eigin vesöld hefur þjóðin á tímum glatað eigin tilverugrunni í hendur erlends valds sem sá tækifæri til að efnast á kostnað þessarar ósjálfbjarga örþjóðar. 
 
Stöðugt er vegið að sjálfstæði Íslendinga með margvíslegum hætti. Þar nýta erlendir fjármagnseigendur sér óspart, eins og oft áður, einfeldningsskap og vesæld þessarar eyþjóðar, sem af heimóttarskap þorir ekki alltaf að standa í eigin lappir þegar á reynir. Þjóð sem kiknar í hjáliðunum þegar erlendir valdsmenn og auðjöfrar í fínum fötum stíga þóttafullir út úr sínum einkaþotum á íslenskri grund. Veifa seðlum með loforðum sem oft er ekkert byggjandi á. 
 
Ef litið er yfir söguna mætti halda að á þessari eyju í miðju Atlantshafi hafi alla tíð búið fólk sem hefur unun af sjálfspíningu og bakkar hvað annað upp í endalausri meðvirkni og heimóttarskap. Allavega hefur þjóðin hvað eftir annað glatað fjárhagslegu sjálfstæði sínu í hendur Norðmanna, Hansakaupmanna, Englendinga og Dana. Kannski má segja að þjóðin hafi ekki átt annað skilið því ekki hafði hún mátt, þekkingu eða getu til að nýta þá kosti landsins sem aðrir töldu sig geta nýtt. Frekar drápust menn t.d. úr sulti en að nýta sér síldina sem fyllti hér flóa og firði, af því að hún var ekki talin mannamatur eins og þorskur eða ýsa. Það var ekki fyrr en Norðmenn komu og fóru að veiða þetta silfur hafsins um aldamótin 1900 að Íslendingar kveiktu loks á perunni. Hvalalýsi var líka nýtt á nítjándu öld og fram á þá tuttugustu með gengdarlausum hvalveiðum hér við land og þá auðvitað af erlendum peningamönnum sem græddu vel. Englendingar, Þjóðverjar, Belgar, Frakkar, Spánverjar, Portúgalir, Rússar og fleiri þjóðir nýttu hér fiskimið upp í landsteina langt fram á tuttugustu öld og Íslendingar horfðu máttvana á úr landi.
 
Í dag horfa menn á erlenda auðmenn kaupa hér upp jarðir í tugatali án þess að stjórnvöld hafi fram að þessu haft rænu á því fyrir hönd þjóðarinnar að spyrna við fótum. Gildir þá einu þótt bent hafi verið á að frændþjóð okkar og fyrrum drottnarar í Danaveldi láti ekki sína meintu vini vaða svo yfir sig á skítugum skónum.
 
Bújarðir og eyðijarðir með dýrmætum vatnsréttindum hafa verið keyptar upp undir því yfirskini að það sé til að vernda lax. Þegar þeim peningamönnum þótti gagnrýn umræða orðin óþægileg var peningadúsu stungið upp í fólk hér og þar sem og ríkisstofnanir, með fagurgala um falleg áform. 
 
Fjármálaviðskipti snjallra peningamanna snúast hins vegar alltaf um að hámarka afrakstur. Þegar gróðasjónarmiðin verða ofan á, þá er fagurgala og fögrum loforðum þráfaldlega sturtað niður í klósettið. 
 
Nú hafa Íslendingar lagst marflatir fyrir fjármálaséníum í orkumálum og galopnað allar dyr fyrir slíkum snillingum. Enda agendar þeirra víða með áhrif í kerfinu. Íslendingar eru svo plataðir til að taka þátt í subbulegum blekkingum með sölu aflátsbréfa til að gera erlendum orkusóðum kleift að halda áfram að menga andrúmsloftið. Á sama tíma látum við plata okkur til að borga kolefnisskatt til að kaupa rándýrt „lífeldsneyti“ af erlendum olíufurstum samkvæmt opinberu regluverki um íblöndun sem samið var af hagsmunaaðilum. Það gerir svo ekki annað en að auka eyðslu ökutækja svo þeir græði enn meira.   
Þannig er stanslaust vaðið yfir þessa þjóð á skítugum bomsum manna sem stikað hafa yfir heimsbyggðina og nýtt sér einfeldni og eymd annarra. Það er samt ekki við þetta fólk að sakast að við látum slíkt viðgangast, heldur getum við engu öðru um kennt en okkar eigin heimsku. 
Náttúrulegir óvinir meindýra – Hetjur skógarins?
Skoðun 3. október 2025

Náttúrulegir óvinir meindýra – Hetjur skógarins?

Náttúrulegir óvinir meindýra eru hópur lífvera sem eiga það sameiginlegt að næra...

 Kregðubólusetningar - val eða vitleysa
Skoðun 3. október 2025

Kregðubólusetningar - val eða vitleysa

Kregða þýðir sá sem étur lítið.  Kregðusýkillinn telst til s.k. berfryminga (Myc...

Ósýnilegi burðarásinn í öryggismálum þjóðarinnar
Skoðun 3. október 2025

Ósýnilegi burðarásinn í öryggismálum þjóðarinnar

Við hugsum oft um almannavarnir sem viðbragð við náttúruhamförum, farsóttum eða ...

Varðveisla erfðaauðlinda
Skoðun 2. október 2025

Varðveisla erfðaauðlinda

Búfé og plöntur hafa fylgt manninum í um 10.000 ár eða frá þeim tíma sem maðurin...

Sterkir innviðir — sterkt samfélag
Skoðun 2. október 2025

Sterkir innviðir — sterkt samfélag

Í nýliðnum ágúst átti ég milliliðalaust samtal við íbúa og sveitarstjórnarfólk á...

Hernaðurinn gegn Hamarsdal
Skoðun 2. október 2025

Hernaðurinn gegn Hamarsdal

Góðir lesendur. Heggur sá er hlífa skyldi.  Ég fordæmi ákvörðun umhverfisráðherr...

Íslensk skógrækt í alþjóðlegu samhengi
Skoðun 1. október 2025

Íslensk skógrækt í alþjóðlegu samhengi

Dagana 9.–11. september fóru tveir fulltrúar Skógardeildar Bændasamtaka Íslands ...

Gætum að geðheilsunni
Skoðun 29. september 2025

Gætum að geðheilsunni