Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Íslenski sauðfjárstofninn er erfðafræðilega einstaklega fjölbreyttur.
Íslenski sauðfjárstofninn er erfðafræðilega einstaklega fjölbreyttur.
Mynd / ke
Á faglegum nótum 15. febrúar 2024

Útrýmum riðuveiki, ræktum 18 verndandi arfgerðir!

Höfundur: Karólína Elísabetardóttir.

Lengi héldu margir að ARR væri ekki til í sauðfjárstofninum – einangrunin átti að hafa takmarkað fjölbreytileikann, sem mér fannst reyndar aldrei sannfærandi rök. Fyrir tveimur árum fannst það samt. Þá héldu margir að Þernunes væri kannski eini bærinn með „upprunalegt“ ARR í landinu. Núna kom í ljós að þeir eru að minnsta kosti tveir, meira að segja hvor sínum megin í landinu – Vífilsdalur bættist við. Stórglæsilegar fréttir!

Karólína Elísabetardóttir.

En þetta kemur í rauninni ekki alveg á óvart: Grænlenska féð – sem byggir að langmestu leyti á gömlum íslenskum stofni fyrir mæðiveikiniðurskurði – er með nákvæmlega sömu breytileikana og íslenski stofninn (plús T112 í mjög litlum mæli sem hefur ekki fundist hér á landi), en ARR ( = R171) og T137 eru miklu algengari á Grænlandi. Þess vegna er ég að vona að ARR sé eðlilegur hluti upphaflega íslenska stofnsins líka.

Stofninn er einstaklega fjölbreyttur varðandi liti, hornafjölda og annað sem er útlitstengt, en hann býr einnig yfir að minnsta kosti 28 mismunandi arfgerðum príongensins. Ekki nóg með það, 18 þeirra teljast verndandi eða „mögulega verndandi“ og 2 lítið næmar fyrir riðusmiti! Þar með verður auðvelt að útrýma riðuveiki á Íslandi – og varðveita samt fjölbreytileikann í stofninum, ef allir taka í sama streng.

Þetta mat byggir á umfangsmiklum lykilrannsóknum með aðkomu reyndustu riðusérfræðinga á alþjóðavísu. Skýrsla með niðurstöðum þeirra má finna ásamt útskýringum á RML-heimasíðunni: HÉR 

Af hverju ekki bara nota eingöngu ARR?

ARR eða R171 er þekktasti verndandi breytileikinn. Af hverju ekki nota eingöngu hann – eins og hefur verið gert í öðrum löndum með góðum árangri?

  • Langflest sauðfjárkyn voru strax í upphafi með talsvert hlutfall ARR-gripa. Svo er hins vegar ekki á Íslandi – þótt það leynist greinilega víðar en gert var ráð fyrir, er ólíklegt að hlutfallið í stofninum sé meira en 1%.
  • Hins vegar sýna ofangreindu rannsóknirnar fram á að fleiri breytileikar og arfgerðir stofnsins búa yfir mikilli vernd gegn íslensku riðusmiti: T137, C151 og H154 ( = AHQ) eru sterkastir og núna kallaðir „mögulega verndandi“; en líka N138 er talsvert betra en villigerð ARQ (áður kölluð „hlutlaus“) eða auðvitað V136 ( = VRQ eða áhættugerð).
  • Smitefnið eða mismunandi riðustofnar („scrapie strains“) geta með tímanum aðlagast breytileikum/arfgerðum; margt bendir til þess að á Íslandi séu að minnsta kosti tveir ólíkir stofnar virkir – annar þeirra á auðvelt með að smita ARQ/ARQ en erfitt með að smita VRQ/VRQ (sem telst t.d. í Englandi langnæmast). Ástæðan gæti verið að ARQ/ARQ hefur verið í langan tíma langalgengasta arfgerðin á Íslandi. Ekki er útilokað að riðustofn aðlagist einhvern tímann ARR/ARR ef lítið annað er eftir. Hins vegar er svo gott sem útilokað að riðustofn sigri á sama tíma ARR, T137, C151 og H154 í öllum hugsanlegum samsetningum. Því fjölbreyttara sem „arfgerðalandslagið“ er, því ólíklegra er að smitefnið aðlagast.
  • Og eins og ég nefndi í upphafi: Í erfðafræðilegum fjölbreytileika felast ómetanleg verðmæti sem önnur lönd öfunda okkur af og sem má ekki stefna í voða að óþörfu.
Á hringferð. Vincent Béringue fylgdist spenntur með forystufé í Sandfellshaga í haust.
Vincent: „Mistök að ESB einblíni eingöngu á ARR“

Dr. Vincent Béringue, einn helsti riðusérfræðingur heims með sérstaka þekkingu á sviði næmismats, kallaði það „mistök“ að önnur lönd hafi einblínt á ARR eingöngu og benti á Ítalíu þar sem T137 hefur reynst eins verndandi. Á fræðsluhringferð sl. haust kynnti hann bæði niðurstöður úr lykilrannsókninni sinni fyrir bændum og tók skýra afstöðu varðandi nýju möguleikana á grunni hennar.

Ísland gæti að hans mati verið brautryðjandi með nýju ræktunarstefnuna sína að stóla á mismunandi verndandi breytileika og alls konar samsetningar þeirra.

Yfirdýralæknir er nú þegar búinn að taka tillit til þessarar nýju þekkingar og í fyrsta skipti fengu kindur að lifa sem eru með verndandi og mögulega verndandi arfgerðir þegar skorið var niður á Stórhól. Með árunum mun koma meiri reynsla á „nýju“ arfgerðirnar og rannsóknir halda áfram allan þennan tíma. Náttúran býður aldrei upp á 100 prósent öryggi, hún krefst alltaf sveigjanleika og vilja til að aðlagast nýjum aðstæðum – og þekkingu. Á þennan hátt getum við stöðugt aðlagað ræktun og reglugerðir og náð hámarks árangri.

Staða í janúar 2024. Tafla yfir allar verndandi, mögulega verndandi og lítið næmar arfgerðir.
Uppsprettur „mögulega verndandi“ arfgerða

Kortið sýnir hvar breytileikarnir T137 og R171 (ARR) fundust upphaflega. Allar þessar uppsprettur eru ótengdar hver annari – nema í Miðfjarðarhólfinu.

C151 var til dæmis að finna í sæðingahrútunum Húni frá Hesti (fæddur 1992), Bolla frá Miðdalsgröf (greinilega komið frá Bollu, mömmu hans), sem var kollóttur, og Máv frá Mávahlíð, sem var hyrndur. Langflestar núlifandi kindur með þennan breytileika rekja ættir til þessara hrúta, en það virðast fleiri uppsprettur til. Það borgar sig að arfgerðagreina afkomendur þeirra.

H154 (eða AHQ), áður fyrr kallað „verndandi“, þá kallað „lítið næmt“, í dag kallað „mögulega verndandi“, er útbreiddastur af öllum verndandi/mögulega verndandi breytileikum. Þónokkrir bændur fóru að rækta hann, ekki síst í Skagafirði – frægasta búið er örugglega Ytra-Vallholt þar sem stofninn samanstendur nærri eingöngu af kindum sem bera þennan breytileika, sem er einsdæmi. N138 var og er að finna í u.þ.b. 10% stofnsins. Þessi breytileiki er blár í dag, „lítið næmur“, það þýðir að hann er talsvert betri en villigerðin ARQ þótt ekki sé hægt að kalla hann (mögulega) „verndandi“.

Umfangsmiklar rannsóknir í Hollandi hafa sýnt fram á að riða getur ekki breiðst út lengur þegar stofninn er kominn með 70% verndandi arfgerðir – og verndandi þýðir í þessu tilfelli ARR/ARQ. Ég er heilt yfir séð alveg sammála ræktunarmarkmiðum fagráðs í sauðfjárrækt eins og þau voru kynnt í haust; þau byggja á þessum tölum. Stefnt skuli að því að allur stofninn beri lítið næmar eða verndandi arfgerðir eftir 20 ár í síðasta lagi og þar af að lágmarki 75% beri verndandi arfgerðir. Mig langar að bæta við að helst ætti ekki að vera neitt gult (villigerðin ARQ) eða rautt (V136 eða VRQ) eftir í stofninum – nema kannski örfáar kindur í hólfunum fjórum þar sem aldrei hefur komið upp riða – þótt arfgerðir samansettar úr grænni og gulri genasamsætu geti verið verndandi. Betra er að hafa blátt í staðinn ef grænt er ekki í boði.

Þegar við erum komin það langt, ætti riðuveiki að vera úr sögunni, alveg sama hversu mikið af smitefninu leynist í umhverfinu. Og á sama tíma er stofninn þá eins fjölbreyttur og hann er í dag, bara með örlítið öðruvísi áherslur.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...