Hluti af hinum 12 hekturum búsins með hinum snotru ólífutrjám.
Hluti af hinum 12 hekturum búsins með hinum snotru ólífutrjám.
Mynd / Michael Pavlović.
Á faglegum nótum 4. júlí 2025

Með ólífur í bakgarðinum

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Notkun og neysla á ólífum hefur fylgt mannkyninu í tugþúsundir ára og er talið að búskap með ólífur megi rekja nokkur þúsund ár aftur í tímann. Í dag er framleiðsla á ólífum, bæði til átu og sem hráefni í ólífuolíu, gríðarlega umfangsmikill landbúnaður sem nær til tuga landa. Mest af heimsframleiðslunni, sem nemur árlega um 2–3 milljónum tonna, kemur frá Spáni en önnur stór framleiðslulönd eru Ítalía, Grikkland, Tyrkland, Túnis og Egyptaland. Þessi lönd er með um 70% heimsframleiðslunnar. Króatía flokkast ekki sem stórt framleiðsluland á ólífum, með um 1% heimsframleiðslunnar, en þar í landi skiptir þó ólífubúskapur miklu máli.

3,7 milljónir ólífutrjáa

Í Króatíu eru tugþúsundir býla með ólífutrjáakra og er talið að heildarfjöldi ólífutrjáa landsins sé um 3,7 milljónir! Langumfangsmest er framleiðslan í suðurhluta landsins við Adríahafið en í norðvesturhluta landsins, á svæði sem kallast Istria, eru einnig þúsundir býla í ólífuframleiðslu. Mörg króatísku búanna sem eru í ólífuframleiðslu eru í því fyrst og fremst til einkanota og er talið að ekki nema um þriðjungur framleiðslunnar endi á markaði þar sem meirihluti hennar nýtist heima við.

Lífræn ólífuframleiðsla

Eitt króatíska ólífubúið kallast Farma Jola og er rekið af hinum hálf-króatíska Michael Pavlović og móður hans. Búið stendur skammt frá þorpinu Savudrija við norðvestur odda Króatíu og er einkar áhugavert bú enda er það í lífrænt vottaðri ólífuframleiðslu, en slík vottun í ólífuframleiðslu er ekki algeng á heimsvísu og var búið þeirra það fyrsta sem hlaut svona vottun í Króatíu. Þau framleiða á búinu ólífur til olíuframleiðslu og nýta auk þess lauf trjánna til framleiðslu á tei.

Með 12 hektara lands

Foreldrar Michael keyptu landið sem búið stendur á fyrir 25 árum en faðir hans, sem nú er látinn, var frá Króatíu en móðirin hálf þýsk og hálf pólsk. Eftir þau höfðu búið í Þýskalandi alla sína tíð, tóku þau sig til og keyptu landskikann og ákváðu að eyða ævikvöldinu þar. Þau hófu ræktun á ólífutrjám, í upphafi sem hálfgert áhugamál, sem svo vatt upp á sig hægt og rólega og í dag eru þau með 2.350 tré á landinu sínu sem telur 12 hektara alls. Michael bjó áfram í Þýskalandi, eftir að foreldrar hans fluttust til Króatíu, en svo fór að hann ákvað að flytja einnig til Króatíu fyrir 17 árum og fara út í búskapinn með þeim. Nú sinna þau búinu tvö mæðginin, en fá svo til sín verkafólk í lausamennsku á álagstímum.

Margar tegundir ólífutrjáa

Í heiminum eru til ótal tegundir ólífutrjáa sem gefa af sér mismunandi ólífur, bragðgæði o.s.frv. Þannig gefa sumar tegundir af sér ólífur sem henta best til átu og aðrar til olíugerðar. Á þeirra búi notast þau mæðginin við þrjár tegundir sem þekktar eru fyrir bragðgæði í ólífuolíuframleiðslu. Í þeirra tilfelli er um að ræða tvær ítalskar tegundir, Leccino og Pendolino, og svo eina króatíska tegund. Þau blanda svo saman ólífum af þessum þremur tegundum eftir eigin leynilegu uppskrift, til að fá ólífuolíu sem er sérstaklega bragðmikil. Michael sagði að oft séu ólífurnar ekki sérstaklega valdar svona heldur öllu blandað saman og verður þá úr einhvers konar meðalblanda, sem hentar ekki fyrir sérframleiðslu eins og þau stunda.

Elsta tréð um 300 ára gamalt!

Þrátt fyrir að ólífutrén á búinu séu nú flest hartnær 25 ára þá teljast þau ekki gömul, enda eru til heimildir um ólífutré sem eru allt að 1.500 ára gömul og er talið að meðalending ólífutrjáa séu 500 ár! Eftir fyrstu plöntun ná trén fullri framleiðslu á um 10 árum og byrjar uppskeran svo að dala á ný eftir um 150 ár. Michael sagði einmitt frá því að á búinu væri eitt tré sem væri talið um 300 ára gamalt og stæði sig enn vel, þó svo að uppskeran af því væri minni en af yngri trjám á búgarðinum.

Hvert tré með um 20 kg af ólífum

Þó svo að það hljómi mikið, að fá um 20 kíló af ólífum af hverju tré eins og segir í millifyrirsögninni, þá er það í raun harla lítið sé miðað við ólífutré sem ekki eru í lífrænni framleiðslu. Slík tré geta gefið af sér í kringum 40–50 kíló af ólífum og þau sem mest framleiða skila af sér um 100 kílóum! Felst þessi mikli munur í því að ekki má nota tilbúinn áburð, né eiturefni í lífrænt vottaðri framleiðslu. Alls konar flugur, sníkjudýr, og vírusar svo dæmi sé tekið, herja nefnilega á ólífutré og því þarf að nota heilmikið af eiturefnum til þess að koma í veg fyrir skaða af þeirra völdum. Michael má hvorki né vill nota slík efni og kemur það beint niður á framleiðslumagninu þar sem umtalsverður hluti ólífanna skemmist og nýtist ekki til framleiðslu.

Extra virgin ólífuolía

Þegar ólífurnar eru tilbúnar, oftast í október, eru þær „hristar“ niður með sérstökum rafdrifnum tækjum sem verkafólk keyrir upp í trén svo ólífurnar falla niður á segl sem er lagt undir það tré sem er verið að tína af. Ólífurnar eru svo settar í kassa sem fara jafnharðan beint í framleiðslustöð búsins. Rétt eins og þorri króatískrar ólífuolíu þá framleiða þau mæðgin eingöngu svokallaða extra virgin ólífuolíu en talið er að um 95% allrar ólífuolíu í Króatíu sé einmitt þeirrar gerðar. Extra virgin ólífuolía merkir í raun að olían er af mestu gæðum en matið á því hvernig ólífuolía er flokkuð byggist á vinnsluaðferðinni að mestu. Extra virgin ólífuolía er minna unnin ólífuolía samanborið við venjulega ólífuolíu og framleidd án þess að hita ólífurnar mikið né með notkun efna, svokölluð köld skiljun. Önnur ólífuolía er aftur á móti blanda af olíu sem kemur úr ólífum við hefðbundna skiljun og svo hreinsaðri olíu sem er unnin úr hratinu með því að hita það og meðhöndla með leysiefnum, enda er töluverð olía eftir í hratinu sem má sem sagt nálgast með framangreindum aðferðum.

Ekki köldpressuð olía í raun

Margir lesendur Bændablaðsins kannast líklega við að oft stendur á ólífuolíuflöskum „Cold pressed“ sem má þýða beint sem köld pressun en það er ekki aðferð sem er mikið stunduð í dag heldur er um skilvinduaðferð að ræða hjá Michael. Í vinnslustöð þeirra, sem er raunar staðsett í kjallara íbúðarhússins sem vel að merkja er hraustlega stórt, eru ólífurnar fyrst hakkaðar niður í mauk og svo er það sett í sérstaka potta þar sem maukið er látið standa og hitna upp undir 27 °C. Síðan er það sett í skilvindu og olían þannig unnin úr maukinu. Með því að hita maukið ekki meira varðveitist meira af náttúrulegu bragði, ilmi og næringarefnum en sé hitinn meiri, að sögn Michael. Á móti kemur að heldur minna næst af olíu með þessari aðferð. Hratið tekur hann svo og notar sem áburð á trén. Hratið mætti í raun nýta til að ná úr enn meiri olíu, með áðurnefndum aðferðum við hitun og leysiefnum, en sé slíkum aðferðum beitt er hægt að ná um 2% meiri olíu út úr ólífunum.

Michael við ólífutréð sem er líklega í kringum 300 ára gamalt! Mynd: Snorri Sigurðsson.

Selja allt beint frá býli

Þrátt fyrir að framleiðsla búsins sé í raun afar tæknivædd sagði Michael að þar sem framleiðslan væri í raun smá í sniðum, þau með sín 2.350 tré en flest bú með vel yfir 10.000 tré, þá hefðu þau mæðginin farið þá leið að eingöngu selja beint frá býli. Það hafi í raun byrjað með því að þegar trén voru ung að árum, og uppskeran lítil, þá hafi móðir hans búið til olíu úr því sem landið gaf og þar sem framleiðslan var takmörkuð seldi hún það til gestkomandi. Þannig byrjaði salan og þau hafi síðan haldið því ferli áfram. Allt er nú selt annaðhvort beint í verslun búsins á staðnum eða með netsölu undir sérstöku merki búsins sem á sér þann skemmtilega bakgrunn að vera sameinað heiti ömmu hans og móður. Amma Michaels var þýsk og á þýsku eru ömmur „Oma“ og svo heitir móðir hans Jolanta svo þá lá beint við að búa til vörumerkið OmaJola‘s.

Árleg framleiðsla er svolítið breytileg frá ári til árs eins og fram hefur komið, en Michael tók sem dæmi að síðasta ár, sem var gott ár fyrir ólífuolíuframleiðslu á búinu, hafi þau framleitt 12.000 flöskur, auk þess sem þau framleiddu þónokkuð magn af telaufi. Það ár hafi skilað búinu 240 þúsund evrum í heildarveltu, eða um 34,5 milljónum íslenskra króna. Helmingur veltunnar hafi svo farið í það að greiða kostnað svo afrakstur ársins nam því rétt rúmlega 17 milljónum króna sem hljómar vissulega allgott, og sér í lagi miðað við almenn laun í Króatíu, en þá er rétt að muna að tekjuháu árin þurfa einnig að dekka þau ár þegar verður uppskerubrestur.

Erfitt að eiga við ólífufluguna

Eins og áður hefur komið fram er búið í lífrænt vottaðri framleiðslu og sagði Michael það hafa verið þeirra leið til þess að geta verið smá í sniðum, en samt haft af framleiðslunni nægar tekjur. Þau selja allt beint frá býli, bæði á staðnum og í gegnum netverslun og ná þannig að hækka tekjur sínar miðað við mörg önnur bú. Það sé þó hreint ekki einfalt mál að vera í lífrænni framleiðslu, enda hafa komið ár þar sem verður algjör uppskerubrestur, raunar komið þrjú ár á síðustu tíu árum þar sem búið hefur verið nánast tekjulaust. Michael sagði því mikilvægt að gera ráð fyrir slíkum áföllum sem m.a. gerast vegna þess að þau geta ekki notað eitur til að berjast við ýmiss konar vágesti sem herja á ólífutrén og þá sérstaklega hina svokölluðu ólífuflugu. Hún er „sérhæfð“ í því að verpa í ólífurnar og klekjast lirfur flugunnar út í ólífunum og éta þær upp. Hann gerir þó ýmislegt til þess að berjast gegn flugunum og ein árangursríkasta aðferðin er að nota flugnagildrur sem hann bjó til sjálfur úr gosflöskum! Í þessar gildrur setur hann smá víndreitil og sykur og virðist þessi blanda laða flugurnar í gildrurnar! Þá sprautar hann trén einnig með kaólíni, en kaólín eru örsmáar leirflögur úr kvarsi og aluminum oxíði. Kaólínið leggst utan á ólífurnar og gerir þær óaðlaðandi fyrir ólífufluguna. Þessar leirflögur skolast svo einfaldlega af ólífunum í rigningu og hefur engin skaðleg áhrif á þær, að sögn Michaels.

Fær styrki til framleiðslunnar

Aðspurður um það hvort bændur í ólífuframleiðslu fái styrki sagði Michael að svo væri, rétt eins og með aðra landeigendur í löndum innan Evrópusambandsins. Hvert bú gæti sótt um landstuðning og færi stuðningurinn eftir því hvað væri framleitt á viðkomandi landi. Í hans tilfelli fengi hann einna hæsta stuðninginn sem er í boði og fær hann árlega um 10.000 evrur, um 1,4 milljónir íslenskra króna, í heildarstuðning fyrir sína framleiðslu. Þá á hann einnig rétt á stuðningi vegna ákveðinnar vinnu á búinu, svo sem vegna viðhalds á gömlum grjóthleðslum (sem eru hálfgert einkenni á búum í Króatíu), vegna aðgerða til að koma í veg fyrir smitsjúkdóma í ólífutrjám o.fl. Heildarstyrkirnir eru þó ekki miklir í heildina í tilfelli Michaels og að hans sögn um 5% af ársveltu búsins. Hann bætti við að bændum stæði einnig til boða að fá fjárfestingarstuðning við uppsetningu á heimavinnslustöðvum fyrir ólífuolíugerð, til vélakaupa o.fl. Hann sagðist þó ekki einu sinni hafa sótt um þá styrki þegar hann setti upp sína eigin framleiðslu, þar sem skrifræðið og eftirlitið væri svo mikið í kringum þær umsóknir og allan ferilinn að hann ákvað einfaldlega að sleppa því!

Aðspurður um framtíðina fyrir búið sagði Michael að búið væri nærri byggð sem væri í mikilli uppbyggingu og líklega kæmi að því fyrr en síðar að bæjaryfirvöld myndu óska eftir að fá landið undir hinn stækkandi bæ. Hann tekur því með stóískri ró og sagði að það væri eðlileg þróun sem hann ætlaði ekki að berjast gegn, allt ætti sinn tíma og líka bú eins og hans.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...