Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Matjurtirnar í heimilisgarðinum
Á faglegum nótum 2. júlí 2021

Matjurtirnar í heimilisgarðinum

Höfundur: Ingólfur Guðnason

Þótt vorkoman og byrjun sum­ars hafi verið heldur hæg víðast hvar á landinu eru garðeigendur bjartsýnir á að enn geti komið ágætis vaxtar­skeið fyrir matjurtirnar sem settar voru niður eða sáð til þeirra í heimilisgarðinn.

Margar þeirra eiga enn eftir talsverðan hluta vaxtartímans og hægt er að búast við góðri uppskeru, ef plöntunum er vel sinnt.

Flestir kaupa kálplöntur, gulrófnaplöntur og margar aðrar matjurtategundir í garðplöntustöðvum sem hafa þær til sölu í miklu úrvali víða um land. Algengast er að miða við gróðursetningu um mánaðamótin maí-júní, eðað jafnvel nokkru fyrr. Hins vegar er vel hægt að gróðursetja flestar tegundir þótt komið sé fram undir júnílok. Þá er garðurinn orðinn hlýr og nægur tími hefur gefist til að vinna jarðveginn, stinga niður grunnáburði og útbúa beð.

Þeir sem hafa lent í því að gróðursettar plöntur hafi skaðast eða jafnvel drepist í vorfrostum hafa enn kost á að gróðursetja hreinlega nýjar plöntur í þeirra stað.

Næringargjöf skiptir máli fram eftir sumri

Á vaxtartíma matjurtanna þarf að fylgjast með þrifum þeirra og meta þörf á áburðargjöf. Hafi verið gefinn áburður fyrir gróðursetningu má búast við að hann dugi plöntunum í a.m.k. einn mánuð. Að þeim tíma liðnum ætti að huga að viðbótaráburði. Þá eru plönturnar farnar að stálpast og ræturnar farnar að vaxa verulega. Lífrænn áburður, t.d. safnhaugamold, er afbragðs næringarauki. Safnhaugamoldinni er dreift í þunnu lagi, td. 3-5 sentimetra yfir beðið á milli plantnanna. Þá er hún klóruð lauslega niður í efsta lag jarðvegsins og vökvað að því loknu. Í stað safnhaugamoldar er hægt að nota gamlan húsdýraáburð eða þunnt lag af hænsnaskít. Tilbúinn áburður kemur líka til greina, þá er hægt að gefa um það bil hálft kíló af niturríkum áburði á hverja 10 fermetra í matjurtagarðinum um þetta leyti, til að tryggja nægilegan aðgang að helstu næringarefnum. Almennt er ekki talin þörf á að gefa aukagjöf af áburði eftir að kemur fram í ágústmánuð. Þá ættu ræturnar að taka upp þá næringu sem fyrir er í jarðveginum. Káltegundir og gulrófur eru næringarfrekari en t.d. gulrætur og margar salattegundir.

Enn er hægt að gróðursetja og sá

Nokkrar ágætar matjurtir eru fljótsprottnar og ætti að vera hægt að sá til þeirra beint í garðinn þótt komið sé fram yfir Jónsmessu. Fljótvöxnustu salattegundirnar, radísur, næpur og spínat, ná ágætum þroska fyrir haustið. Hentar t.d. ágætlega að sá til spínats um þetta leyti, þegar daglengdin hættir að hafa áhrif til ótímabærrar blómmyndunar. Sama gildir um kínakál, klettasalat, kóríander og mizunakál, í góðum garði ætti það að ná ágætum þroska. Fljótvaxin yrki káltegunda og sömuleiðis gulrófur geta líka náð þroska þótt þær séu gróðursettar þetta seint.

Kálmaðkurinn

Kálflugan er komin á kreik um þetta leyti. Til að koma í veg fyrir skaða af hennar völdum er gott ráð að gróðursetja aðeins vel þroskaðar ungplöntur sem hafa innbyggðar varnir gegn ágangi kálmaðksins og ætti að vera vandalaust að nálgast þær í garðplöntustöðvunum enn þá. Ágætt er að setja nýjan gróðurdúk yfir kál- og rófnabeð fyrstu vikurnar til að halda aftur af kálflugunni. Þá er gengið þannig frá jöðrunum að flugan finni hvergi leið að plöntunum. Dreifing safnhaugamoldar eða annars lífræns áburðar við stofn matjurtanna ásamt tilheyrandi moldarlosun getur líka truflað varp hennar.

Huga þarf að illgresinu

Þegar ræktað er í smáum stíl eins og venjan er í matjurtahorni heimilisgarðsins er langbesta ráðið að reyta allt illgresi um leið og til þess sést. Það tekur til sín næringu sem ætluð er grænmetinu og getur kæft smáar plöntur. Þegar notaður er búfjáráburður má alltaf búast við að með honum berist talsvert illgresisfræ. Þegar það er nýspírað er gott ráð að fara út í garð á sólríkum, hlýjum og þurrum sumardegi og hræra í allra efsta jarðvegslaginu þar sem fræið er að spíra. Þá drepast plönturnar af hita sólargeislanna og minnkar það vöxt illgresis verulega og auðveldar hreinsunina. Öðru máli gegnir um fjölært illgresi með djúpstætt rótarkerfi eins og húsapunt, skriðsóley og þess háttar. Það þarf að taka upp með rótum, helst áður en ræktun hefst að vori.

Vökvun og önnur umhirða

Yfir hásumarið getur þurft að vökva plönturnar, og eins að lokinni gróðursetningu og sáningu, ekki þarf að fjölyrða um það. Sérstaklega mætti huga að vökvun eftir að gefinn hefur verið viðbótaráburður til að hann nái fyrr til rótanna þar sem hans er mest þörf. Gróðurdúk ætti að taka af ekki síðar en um miðjan júlí því það getur hitnað verulega undir honum og jafnvel valdið skaða. Ágætt er að hreykja mold að plöntunum og losa um jarðveginn öðru hvoru til að auka loftstreymi í jarðveginn.

Uppskera

Í sólreitum með plast- eða glerloki gerast hlutirnir hratt. Nú þegar eru sumir ræktendur farnir að gæða sér á fyrstu grænmetisuppskerunni þaðan og síðan tekur hvað við af öðru sem verðlaunar þá sem sinna matjurtaræktinni, langt fram á haust.

Skylt efni: Garðrækt matjurtir

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...