Verð á mjólkurdufti stjórnar í raun afurðastöðaverði til bænda í mörgum löndum.
Verð á mjólkurdufti stjórnar í raun afurðastöðaverði til bænda í mörgum löndum.
Mynd / Revala
Á faglegum nótum 23. desember 2025

Komandi ár verður áhugavert!

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Undanfarin ár hefur heimsmarkaðsverð mjólkurvara sveiflast nokkuð mikið og fyrir vikið hafa afkomutölur kúabúa víða um heim verið afar ólíkar á milli ára.

Þessi óstöðugleiki á heimsmarkaðinum er ekki nýr af nálinni og flest afurðafyrirtæki sem selja hluta af framleiðslu sinni á heimsmarkaðsverðum eru orðin vön því að takast á við sveiflur. Oftast felst það þó í því að verð til bænda annaðhvort lækkar ört eða hækkar og því má segja að sveiflujöfnun afurðafélaga felist í raun fyrst og fremst í því hve vel kúabændurnir, sem leggja inn mjólk hjá viðkomandi afurðafyrirtæki, eru í stakk búnir að takast á við tímabil með lágu afurðastöðvaverði sem og hvernig þeim gengur að nýta vel tímabilið þegar afurðastöðvaverðið er hátt.

GDT – Global Dairy Trade

Það er oft talað um „heimsmarkaðsverð“ mjólkurvara og „meðalstuðul“ heimsmarkaðsverðs mjólkurvara en í raun er ekki til neitt eitt „heimsmarkaðsverð“. Mjólkurvörur ganga kaupum og sölum á milli landa á frjálsum markaði svo í raun er ekki beint hægt að tala um heimsmarkaðsverð. Það er þó einn uppboðsmarkaður sem flestir líta til og það er markaðurinn sem kallast GDT eða Global Dairy Trade. Þetta er alþjóðlegur viðskiptavettvangur sem gegnir lykilhlutverki í að ákvarða viðmiðunarverð fyrir mjólkurvörur um allan heim. Á þessum uppboðsmarkaði bjóða flest af stærstu afurðafyrirtækjum heims fram sekkja- eða gámavöru, þ.e. grunnhráefni fyrir fullvinnslu á mjólkurvörum. Þar eru t.d. boðnir stórir blokkostar til sölu, smjör, margar gerðir af mjólkurdufti og þ.h. Helsti kostur þessa markaðar er að hann er mjög opinn svo bæði kaupendur og seljendur geta auðveldlega fylgst með þróuninni.

Þessi markaður er virkur u.þ.b. tvisvar í mánuði og í kjölfar hvers uppboðs eru niðurstöðurnar sendar út og er oftast litið á niðurstöður markaðarins sem leiðandi fyrir aðra markaði með mjólkurvörur.

Þróun heimsmarkaðsverðsins

Síðustu 10 ár hefur heimsmarkaðsverðið verið á nokkuð óvenjulegu ferðalagi. Árið 2015 var verðið mjög lágt, eftir að kvótakerfi Evrópu sambandsins var lagt af í apríl það ár, en markaðurinn tók þó fljótt við sér og var meðalstuðull heimsmarkaðsverðsins í kringum 1000 í allmörg ár. Þessi staða gaf bændum fyrirsjáanleika og stöðugleika. Síðan upp úr heimsfaraldrinum árið 2020 fór verðið jafnt og þétt upp á við og náði hæstu hæðum árið 2022 en féll síðan hratt niður á einu ári. Þetta gerðist í kjölfar offramleiðslu, sem var nokkuð fyrirséð eftir hátt verð á markaði. Síðan um mitt árið 2023 hafði meðalverðið verið á nokkuð góðu skriði upp á við og var staðan slík að margir bændur, víða um heim, juku framleiðsluna til að ná í hluta af verðhækkuninni til sín. Stóraukin framleiðsla á mjólk skilaði svo því að síðastliðið vor fór verðið að fara niður á við á ný og sér raunar ekki fyrir endann á því eins og sjá má af meðfylgjandi línuriti um þróunina.

Eins og markaðurinn virðist hegða sér nú orðið, má ætla að það verði áfram sveiflur á þessum markaði og ekki er ólíklegt að tveggja til þriggja ára sveiflur verði ráðandi.

2025 byrjaði vel

Þegar horft er heilt yfir heimsmarkaðinn eru aðstæðurnar auðvitað afar ólíkar á milli landa og heimsálfa. Þó er ákveðinn rauður þráður sem liggur á milli flestra landa þegar horft er til verðþróunar á afurðastöðvaverði, þó með nokkrum undantekningum eins og á Íslandi. En sé horft á heimsmyndina í víðum skilningi þá fór árið í ár í raun vel af stað, þegar horft er til meðal afurðastöðvaverðs. Verð til bænda í mörgum löndum hækkaði framan af árinu og verð út til neytenda sömuleiðis. Þetta leiddi svo til aukinnar samkeppni og samhliða áframhaldandi aukningu á mjólkurframleiðslu tóku sum fyrirtæki í sölu mjólkurafurða upp á því að lækka verð á mjólkurdufti í sölu. Þetta er ein leið þeirra til að takast á við offramleiðslu, þ.e. að framleiða mjólkurduft og til að geta selt duftið reyndist nauðsynlegt að lækka verðið. Þessi þróun varð einnig skýr á uppboðsmarkaði GDT. Lækkandi verð afurða leiddi svo eðlilega til þess að verð til bænda lækkaði einnig. Þróunin gekk raunar hratt yfir og undir haust voru helstu markaðsvörur á heimsmarkaði á nokkuð hraðri niðurleið þegar horft er til verðs þeirra og hefur sú þróun haldið nokkuð jafnt og þétt áfram.

10 ára þróun GDT stuðulsins.

Af hverju ræður mjólkurduft?

Skýringin á því að mjólkurduft er mjög ráðandi þáttur í verðákvörðunum á afurðastöðvaverði til bænda, er sú staðreynd að mjólkurduft er sú mjólkurvara sem best er að geyma og flytja án kostnaðar við kælingu bæði milli og innan landa. Það er því mjög víða notað við framleiðslu mjólkurvara, enda getur mjólkurduft verið grunnvara í flestar gerðir mjólkurvara. Það er því útreiknað „lítraverð“ mjólkur, út frá mjólkurdufti, sem í raun er það viðmið sem er notað í ótal löndum þegar afurðastöðvaverð er reiknað. Afurðafyrirtækin reikna einfaldlega út hvað mjólkurlítrinn myndi kosta, ef notað væri mjólkurduft keypt á markaði, og setja það verð sem afurðastöðvaverðið. Þetta er auðvitað ekki algild reikniaðferð og það kemur fyrir að verð til bænda er eitthvað hærra en reiknað lítraverð út frá mjólkurdufti, en oftast er þó ekki langt þarna á milli enda verður rekstur afurðastöðvarinnar óhagstæður ef verðbilið verður of mikið.

Mjólkurduft er einnig mjög næmt fyrir verðbreytingum á heimsmarkaði og getur verð mjólkurdufts breyst í raun ótrúlega hratt á skömmum tíma, séu aðstæðurnar slíkar. Þegar framboð mjólkurvara eykst umfram eftirspurn verður eðlilega þrýstingur á framleiðendur að bregðast við stöðunni, og þá oftast með verðlækkunum. Slíkar lækkanir fara svo þráðbeint yfir til bænda og því færist verðið til bænda upp eða niður í nokkuð góðum takti við stöðuna á markaðinum. Þetta er þó ekki skilvirkara ferli en svo að oftast líða 2–3 mánuðir á milli þess að verð á markaði lækkar og verð til bænda lækkar. Að sama skapi tekur lengri tíma fyrir bændur að fá hærra afurðastöðvaverð þegar verð á markaði hækkar.

2026?

Það sem er svolítið sérstakt við árið 2025, sem svo hefur áhrif á árið 2026 þegar horft er til verðþróunar, er að markaðurinn í ár hegðaði sér ekki eins og stórir aðilar á markaðinum höfðu spáð fyrir um. Flestir höfðu spáð nokkuð rólegu ári þegar kæmi að verðbreytingum og meira að segja virtir greiningaraðilar eins og hinn þekkti hollenski landbúnaðarbanki Rabobank þurfti nýverið að breyta ekki nema nokkurra mánaða gamalli mjólkurframleiðsluspá sinni. Þetta segir í raun allt sem segja þarf, að markaðurinn er í einhverju ójafnvægi og alls ófyrirséð hvernig þróunin verður. Nýjustu tölur frá fyrrihluta þessa mánaðar benda til þess að verðþróunin sem nú er í gangi haldi áfram á komandi ári, þ.e. að afurðastöðvaverð til bænda víða um heim muni halda áfram að lækka á fyrstu mánuðum ársins. Þó er því spáð að jafnvægi náist á ný um mitt komandi ár. Þá sé „hringnum“ í raun lokað og geti bændur þá farið að undirbúa sig undir næstu sveiflu á markaðinum með því að leggja vel fyrir með hækkandi afurðastöðvaverði á ný, til þess að eiga fyrir mögulegum hallarekstri þegar harðnar aftur á dalnum í framtíðinni.

Skylt efni: mjólkurduft

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...