Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Avókat, avóköt – lárpera, sigurpungur, smjöraldin?
Á faglegum nótum 30. janúar 2015

Avókat, avóköt – lárpera, sigurpungur, smjöraldin?

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Fyrstu kynni sem Evrópumenn höfðu af avókatávextinum var á fyrstu áratugum eftir landtöku Spánverja í Mexíkó. Spænski landkönnuðurinn og sæfarinn Fernández de Enciso getur þeirra í samantekt um ferðir sínar um löndin við Karíbahaf. Sú samantekt var prentuð og gefin út árið 1519.

Elstu heimildir um avóköt eru samt fundur ríflega tólf þúsund ára gamalla avókatasteina í mannvistarleifum sem komu fram við uppgröft í helli í Púeblahéraði í suðaustanverðu Mexíkó. Avóköt mega því teljast með í fyrsta hópi þeirra nytjaplantna sem mannkynið hefur tileinkað sér og þróað að þörfum sínum og kröfum.

Íslenskt heiti

Nafnið avókat, ft. avóköt, mun vera komið úr máli Nahuatl-fólksins líkt og heitin tómatur og súkkulaði og er því fyllilega hæft tökuorð í íslensku eins og það er í öðrum Evrópumálum. Merking heitisins kemur úr nahuatl-málinu „a wakat“ sem þýðir eiginlega „eðaleista“ – eða jafnvel, svo gripið sé til götustrákamáls, „sigurpungur“. Reynt hefur verið að klína íslenska heitinu „lárpera“ á þennan eðalávöxt og það á sennilega ætt að rekja til þeirrar germönsku málhreinsunarstefnu sem vinsæl var rétt fyrir og um miðbik síðustu aldar, upptekið eftir þýskunnar „Laurbirne“. Það orð stóð stutt við í þýskum orðasöfnum eftir að velgengni Þriðja ríkisins seig í valinn. Nú segja þýskir „Avocado“ fullum fetum og skammast sín ekkert fyrir það. Líklega væri „smjöraldin“ betra nafn ef við endilega viljum íslenska öll heiti.

Frá tímum risaeðlnanna

Avókatættkvíslin, Persea, er af lárviðarætt og til hennar teljast um 150 tegundir, flestar dreifðar um hina heittempruðu regnskóga Mið- og Suður-Ameríku. Aðeins eina tegund er að finna á dreifðu svæði við strönd Vestur-Afríku og út til Kanaríeyja. Afganginn, um 80 tegundir, má svo finna Í A- og SA-Asíu. Allar hafa þær nokkuð stór aldin og stór fræ, sem bendir til að þróun þeirra hafi orðið snemma í gróðurfarssögunni, á þeim tíma þegar grasbítar voru stærri en þeir eru í dag, jafnvel risaeðlur. Engin tegundanna hefur samt eins stór aldin og sjálft avókattréð, Persea americana. Margir grasafræðingar telja það vera algjöra ræktunartegund sem þróuð hefur verið með úrvali og kynbótum í þúsundir ára. Sú ályktun er dregin af því að þegar fræjunum er sáð spretta upp margvíslegar arfgerðir, oft mjög ólíkar þótt fræin hafi öll komið af sama tré. Einnig er sjaldgæft að finna það „villt“ nema sem eftirhreytur í horfnum mannabyggðum.

Vöxtur og blómgun

Avókattréð er dálítið forneskjulegt í vaxtarlaginu, þybbið með þykkum greinum og stórum, leðurkenndum laufblöðum. Blómin eru fremur smá og óásjáleg með smáum, gulleitum krónublöðum. Blómin eru tvíkynja, en þegar blómin springa út eru það bara frævurnar sem eru virkar fyrst um sinn og taka við frjódufti frá nærliggjandi trjám. Fræflarnir fara ekki í gang fyrr en frævurnar eru búnar að ljúka sér af. Með þessu móti er komið í veg fyrir sjálffrævun. Og ekki þykir þeim þetta nóg, því sum trjánna blómgast bara á morgnana en önnur bara á kvöldin.
Morgungerðin opnast á morgnana og höfða til fiðrilda og kólíbrífugla með því að vera aðeins stærri. Hin gerðin opnast á kvöldin og stólar á næturfiðrildi og leðurblökur sem frjóbera. Þau eru ekki eins stór og áberandi en bæta það upp með sætari ilmi og þéttari samsetningu blómasafans.

Ræktun og loftslag

Ræktun á avókattrjám er bundin við heittempruð lönd. Ef næturhiti fer niður fyrir 18°C um blómgunartímann ná blómin ekki að frjóvgast. Þá verður engin uppskera það árið. Trén þurfa frjótt land með jöfnum jarðvegsraka. Upprunalega eru þau regnskógartré. Kjörhiti er milli 25–30°C að degi til en nætur mega vera nokkrum gráðum svalari. Fyrir heimsmarkaðinn eru avóköt einkum ræktuð í löndum þar sem ódýrt landrými er í boði og launagreiðslur í lægri kantinum. Ræktuninni hefur víða verið lagt til ámælis að vegna hennar gengur á upprunalega skóga í heittempraða beltinu. En einnig er nokkur avókatrækt við norðanvert Miðjarðarhaf og í Ísrael. Þaðan fáum við oftast avóköt í verslunum á okkar svæði. Og eins frá Suður-Afríku.


Blómgun og þroski

Frá blómgun að uppskeru líða oftast um fimmtán til átján mánuðir. Afbrigðin eða yrkin eru ótalmörg og mismunandi. Til eru avókattré sem bera aldin sem eru um tvö og hálft kíló að þyngd. En þau eru sjaldséð á heimsmarkaðinum. Venjulega eru avókötin á stærð við gæsaregg eða ögn stærri. Þau geta staðið fullvaxin um nokkra hríð á trjánum. Þroski aldinkjötsins hefst ekki fyrr en búið er að tína aldinin af þeim. Það er gert þegar kominn er fölur litur á aldinstilkinn sem heldur þeim á trjánum. En í stórræktun eru aldinin kæld niður til að tefja þroskunina. Í kæli geymast þau í 40 til 60 daga áður en þau eru tekin fram á söluborð. Þar tekur þroskinn við og geymsluþolið verður þá fremur lítið, í hæsta lagi tveir til þrír dagar við stofuhita. Við innkaup á avókötum úti í búð þarf að gæta þess að þau séu orðin mjúk við aldinfestið, en ekki lin og alls ekki mega vera komnir í þau svartir, innfallnir dílar.

Þrungin hollustu

Avóköt eru meðal hollustu matvæla sem mannkyninu hefur hlotnast. Þau eru þrungin snefilefnum og hollum fitusýrum, andoxunarefnum og allt hvað þetta nú heitir sem er svo gott fyrir kroppinn. Í flestum löndum eru avóköt notuð sem grænmeti í margvíslega ósoðna rétti. Oftast niðurskorin eða marin með ögn af sítrónusafa eða víni til að koma í veg fyrir að aldinkjötið sortni. Hin fræga, mexíkóska guacamole-sósa t.d. inniheldur avókat sem uppistöðu. Hana er einfalt að gera. En svo er líka hægt að spæna avókötin í sig með skeið, krydda kannski með dálitlum sítrónusafa og salti. Og hvað er betra undirlag fyrir rækjusalat en að bera það fram í hálfum avókötum? Avóköt eru líka sögð góð til að bæla slæm kólesteról í blóði sérhvers manns. Hálft avókat á hverjum degi er sagt að sé álíka góður stíflulosari fyrir æðakerfið og vítissódi er fyrir niðurföllin á baðherberginu.

Skylt efni: Garðyrkja | ræktun | avakadó

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...