Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Sigurður Sævar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ístex.
Sigurður Sævar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ístex.
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 19. október 2018

Aukin verðmætasköpun og sókn í ullarframleiðslu

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Sigurður Sævar Gunnarsson, fram­kvæmdastjóri Ístex, segir að unnið hafi verið að breytingum á flokkun ullar í samráði við bændur til að auka verðmætasköpun í ullarvinnslu. Þá sér í lagi til að mæta þörf á jafnara hráefni og auka sérstöðu lakari flokka í augum viðskiptavina.
 
Sigurður segist þó vilja taka það fram að langflestir bændur skila af sér góðri og vel flokkaðri ull. Hins vegar megi alltaf gera betur til að auka verðmætin fyrir bændur. 
 
 
Staða ullarmarkaða
 
„Í íslenska lopann er notuð betri ullin, eins og H-Lamb, H-2-Lamb og H-1 flokkur. Lakari flokkar eins og H-2 og M-2 eru aðallega seldir erlendis, þá aðallega í gólfteppaband. Undanfarin 5 ár hefur aukist talsvert framboð af nýsjálenskri ull og af ódýrum gerviefnum, m.a. vegna lágs olíuverðs. Margir framleiðendur á gólfteppabandi hafa fylgt þessari þróun, þar sem framleiðsla verður ódýrari og jafnari. Þegar þessir aðilar fá ullarballa með mjög góðri ull í einu horni og lélegri ull í öðru þá vilja þeir alltaf miða verð við lakari hlutann sökum óvissu. Ístex hf. fjárfesti í ullarblöndunarklefum, sem voru settir upp síðastliðinn vetur, til að fá jafnara og betra hráefni. Þessi áhersla á aukin gæði hefur skilað því að trú á íslenska ull hefur aftur aukist, engin kvörtun hefur borist og fleiri vilja prófa ullina. Íslenska ullin þykir gefa gólfteppabandi meiri styrk miðað við aðrar ullargerðir,“ segir Sigurður  
 
Nú er tími til að undirbúa sókn 
 
„Það eru nokkrir þættir sem gefa ástæðu til að ullarverð fari hægt og sígandi að hækka á erlendum ullarmörkuðum, m.a. vegna hækkandi olíuverðs. Þess vegna viljum við í samstarfi við bændur finna leiðir til að auka sérstöðu íslensku ullarinnar og finna aukin verðmæti í lakari ullarflokkunum og greina betur á milli flokka. Þess vegna leggur Ístex til að nokkrar breytingar á ullarflokkum verði prófaðar. Nú ætlum við að bjóða bændum að bæta við sérflokk fyrir grófa ull af lærum, kvið og þess háttar. Þessi flokkur kallast H-3-H og er tilraunaflokkur. Þannig að gamli flokkurinn, H-2-H, batnar í gæðum og hækkar í verði.“
 
H-3-H hvítt – haustrúin ull
 
„H-3-H er ætlaður fyrir hvíta haustull sem er gróf og/eða gölluð. Læraull, kviðull og ull af jöðrum H-1-H og H-2-H reyfa skal nú setja í H-3-H. Langtíma markmiðið með þessum flokk er að auka mýkt íslensku ullarinnar bæði í fyrsta og öðrum flokk. Þumalputtaregla segir að 2 mikron mýkri ull er um 20% verðmætari. Þetta er tilraun er vert er að láta reyna á.“ 
 
Vetrarull – Hvítt snoð
 
Á vorin hefur heilsársull og snoð verið sett saman undir einn flokk H-2-V. Nú breytist það þannig að snoðið fer sér og heilsársullin sér, fyrir hvít reyfi. 
 
„Snoðið verður sér flokkur einfaldlega vegna þess að það hentar viðskiptavinunum betur. Þeir vilja fá þetta hvort í sínu lagi. Þessi ull hefur í gegnum tíðina verið erfið í þvotti og blönduð við heilsársull. Nú hefur fundist beinn markaður fyrir svona stutt hár, en þetta er fallegt og mjúkt efni eftir þvott.“ 
 
Vetrarull – Hvít heilsársull
 
„Gæði á þessari ull hafa aukist talsvert eftir að snoðið var tekið úr og blöndunarklefunum var bætt við á Blönduósi. Þetta þykir m.a. sterk og góð ull í gólfteppaband.“ 
 
Mislit M-2-Lamb
 
„Til þess að auka verðmæti M-2 flokksins þá bjóðum við bændum nú að flokka mislita lambsull í M-2-Lamb sem áður hefði farið beint í M-2. Lambsull er fínni en önnur ull í M-2 og eru ýmis tækifæri með þann flokk. Þarna er örugglega hægt að bæta í.
 
Með þessum breytingum eigum við að geta hækkað meðalverðið og náð betri nýtingu. Þetta ætti ekki að vera flókið því menn eru með þetta aðskilið þegar verið er að rýja.“
 
Sigurður segir að þó mislita ullin sé verðminnst, þá sé nú í gangi töluverð þróunarvinna í kringum þann flokk. 
 
„Við höfum keypt 99% af allri ull og þvoum. Okkar bestu flokkar sem við getum notað er 1. flokkur og lambsull. Annað er of gróft. Það höfum við að hluta verið að selja úr landi sem hráull í teppaframleiðslu. Sá markaður hefur verið mjög erfiður og lágt verð fyrir ullina. Það hefur þó aðeins verið að hækka, en það tengist dálítið sveiflum í olíuverði og framleiðslu á Nýja-Sjálandi. Síðan hefur krónan verið að síga líka.“ 
 
Með hækkandi gengi krónu minnkaði innanlandssalan á lopa
 
Varðandi sölu á lopa segir Sigurður að það hafi orðið mikil aukning á sölu hér innanlands til 2014 og 2015. Þá hafi gengið farið að hækka og innflutningur að lækka og innanlandssalan á lopa dróst saman. Segir hann að slíkar sveiflur hafi ekki sést í sölunni erlendis. Þar hafi verið jöfn og stöðug 10% aukning ár eftir ár. 
 
„Sá markaður sem hefur verið með mestu aukninguna er Svíþjóð. Síðan eru Danmörk, Þýskaland og Bandaríkin stærstu vaxtarsprotarnir.“ 
 
Sagði Sigurður að aukin eftir­spurn erlendis hafi kallað á meiri vinnu hjá Ístex. 
 
„Við bættum við okkur fólki í spunaverksmiðjunni í sumar. Nú erum við byrjuð að vinna á dag- og kvöldvöktum. Það eru 43 skráðir á launaskrá hjá okkur og talan fer upp í 53 yfir veturinn þegar við bætum við mannskap á þvottastöðinni.“
 
Verið að búa til skýringarmyndband
 
Sigurður segir að verið sé að vinna að myndböndum, appi og heimasíðu til að aðstoða bændur við meðhöndlun og flokkun ullar. Þá séu bændur hvattir til að hika ekki við að hafa samband við Ístex til að fá nánari útskýringar um hvernig megi auka gæði íslenskrar ullar. 
 
„Þá er verið að taka upp kerfi sem gefur bændum fyrr og betri upplýsingar ef breyting er gerð á flokkun ullar við þvott á Blönduósi. Innleggjendur eru hvattir til að hafa allar upplýsingar á Bændatorgi eins réttar og kostur er. Þannig má tryggja að allt ferlið gangi sem greiðast,“ segir Sigurður. 
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...