Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Steikt lamba rib-eye
Matarkrókurinn 14. september 2023

Steikt lamba rib-eye

Höfundur: Hafliði Halldórsson

Haustið er komið og með því göngur og réttir í sveitum landsins og meðfylgjandi sauðfjársláturtíð. Þess vegna má hvetja lesendur til að sækja sér ferskt lamb nú á næstu vikum og njóta á meðan lambakjötið fæst ferskt.

Þess má geta að ferskt lambakjöt rýrnar mun minna við eldun en það sem hefur frosið. Munurinn er allt að 15% minni rýrnun samkvæmt nokkurra ára gamalli rannsókn Matís, þessi munur skilar sér í safaríkari niðurstöðu sem gleður flesta. Við notum að þessu sinni svokallaðan framhryggjarvöðva sem flestir kalla „rib-eye“, en sem fyrr þá má nota uppskriftina til viðmiðunar og velja annan vöðva henti hann betur.

Notið svo endilega kjöthitamæli því það er eina örugga leiðin til að ná bestu mögulegu niðurstöðu!

Fæstir þekkja sólrót, en hún er afar bragðgott rótargrænmeti sem einnig kallast ætifíflar, en fleiri þekkja þá undir dönskuslettunni „jarðskokkar“. Plantan á uppruna sinn í Norður-Ameríku en er nú ræktuð víða um heim.

Stutt íslensk sumur hafa komið í veg fyrir að plantan hafi verið ræktuð hérlendis í einhverju magni, en ræktun í gróðurhúsum ætti að skila árangri.

Nánar má fræðast um þessa ágætu matjurt í fróðlegri samantekt Vilmundar Hansen, sem birtist í Bændablaðinu 7. febrúar 2020 og má finna við leit á vefnum.

Best er að byrja á meðlætinu og sósunni, og enda á því að steikja kjötið.

Steikt lamba rib-eye

800 g lamba rib-eye
3 msk. olía

100 g smjör
4-5 hvítlauksgeirar,
kramdir 3-4 timjan-kvistar

Salt
Nýmulinn svartur pipar

Látið kjötið ná stofuhita áður en þið hefjist handa við matreiðsluna. Þerrið bitana, saltið vandlega og brúnið vandlega í olíu á vel heitri pönnu. Þegar þið hafið snúið kjötinu er smjöri, hvítlauk og timjan bætt í.

Ausið smjörinu með matskeið yfir kjötið á meðan þið ljúkið við að brúna steikurnar. Færið í ofnskúffu, piprið og eldið í ofni í 10-15 mínútur, eða þar til kjarnhiti nær 58 °C.

Takið úr ofninum og látið hvíla í a.m.k. 10 mínútur áður en þið skerið í kjötið og berið fram.

Kartöflumús

3 bökunarkartöflur
1 rósmarín-stilkur
3 dl rjómi
50 g smjör
Salt

Skrælið kartöflur og skerið í jafnstóra bita, setjið í pott með rósmarín og sjóðið þar til eru mjúkar. Sigtið vatnið frá, hendið rósmarín kvistinum og maukið kartöflurnar í gegnum sigti eða til þess gerða kartöflupressu.

Sjóðið rjóma í víðum potti á hægum hita þar til hann hefur soðið niður um helming. Blandið kartöflum saman við rjómann, bætið smjörinu saman við og smakkið til með salti.

Ofnbökuð sólrót

300 grömm sólrót
2 msk. olía
20 g smjör
Salt

Setjið sólrótina í vatn og skrúbbið af henni lausan jarðveg og sand. Yfirborðið er oftast frekar ójafnt og þess vegna þarf að þrífa hana vel. Skerið í tvennt og setjið í eldfast form, kryddið og veltið upp úr olíunni, bætið smjöri við og eldið í 160 °C heitum ofni í 20-30 mínútur eða þar til eru mjúkar.

Gufusteiktur blaðlaukur

2 blaðlaukar
3 msk. olía
20 g smjör
4 msk. sojasósa
1 dl vatn

Skerið græna hluta blaðlauksins frá og skerið rótarendann af. Eftir stendur hvíti hluti blaðlauksins og við eldum hann í heilu lagi.

Brúnið vandlega á vægum hita í olíu og smjöri.

Færið í eldfast mót og bætið sojasósu við ásamt vatni, lokið mótinu með álpappír og eldið á 120 °C í 30 mínútur, eða þar til laukurinn er mjúkur í gegn.

Skerið í 4-5 cm langa skammta áður en þið berið fram.

Soðsósa

1 hvítur laukur
3 hvítlauksrif
3 msk. skírt smjör
2-3 stilkar timían
3 msk. rauðvínsedik
150 ml rauðvín
200 ml lambabeinaseyði
200 ml nautabeinaseyði
50 g kalt smjör
Sjávarsaltflögur
Nýmulinn svartur pipar

Skrælið og saxið lauk og hvítlauk, setjið í víðan pott á meðalhita ásamt timjan og svitið í smjöri. Ath. að laukurinn má ekki brúnast! Setjið rauðvínsedik í pottinn og sjóðið niður, því næst rauðvíni og sjóðið niður um helming. Þá er bæði lambabeinaseyði og nautabeinaseyði bætt í og soðið niður um helming.

Sigtið sósuna yfir í annan pott, rétt áður en sósan er borin fram er smjörinu pískað saman við og sósan smökkuð til með salti, nýmuldum pipar og e.t.v. ögn af ediki.

Skylt efni: lambakjöt

Stórkarlasteik
Matarkrókurinn 5. júlí 2024

Stórkarlasteik

Nú fara jafnvel eldavélafælnustu karlpungar landsins að taka sér stöðu við grill...

Reykt svín og remúlaði
Matarkrókurinn 6. júní 2024

Reykt svín og remúlaði

Munurinn á heitreyktum og kaldreyktum mat er heilmikill.

Eitthvað ofan á brauð
Matarkrókurinn 10. maí 2024

Eitthvað ofan á brauð

Ef smjör er ekki eitt af sjö undrum veraldar þá hlýtur það að vera númer átta. N...

Hryggur um páskana
Matarkrókurinn 26. mars 2024

Hryggur um páskana

Það er nánast samofið páskunum að borða lambakjöt af einhverju tagi. Læri, hrygg...

Rasmus og Sven gera bollur
Matarkrókurinn 18. mars 2024

Rasmus og Sven gera bollur

Hakkréttir eru fín leið til að metta marga og vinsæll valkostur á heimilum lands...

Tvistað við ofurstann
Matarkrókurinn 4. mars 2024

Tvistað við ofurstann

Djúpsteiktur kjúklingur, sem flestir þekkja í gegnum ofursta nokkurn frá Kentuck...

Reykt ýsa, blaðlaukur og kartöflur
Matarkrókurinn 19. febrúar 2024

Reykt ýsa, blaðlaukur og kartöflur

Hvernig passar blaðlaukur, reykt ýsa og kartöflur saman? Jú barasta prýðilega, t...

Boli & brokkólí
Matarkrókurinn 31. janúar 2024

Boli & brokkólí

Nautakjöt og brokkólí er klassískur asísk-amerískur réttur sem á sennilega ættir...