Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Börn þurfa ekki að vera há í loftinu til að gera nokkurt gagn. Sá siður að senda börn í sveit er, samkvæmt rannsóknum, enn við lýði, en mjög hefur þó dregið úr því.
Börn þurfa ekki að vera há í loftinu til að gera nokkurt gagn. Sá siður að senda börn í sveit er, samkvæmt rannsóknum, enn við lýði, en mjög hefur þó dregið úr því.
Mynd / sá
Líf og starf 20. maí 2025

„Óvenju efnilegur af kaupstaðarbarni að vera“

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Alsiða var að senda börn úr þéttbýli í sveit á sumrin hér áður fyrr og eitthvað er um það enn.

Um 40 prósent þeirra sem voru 18 ára eða eldri árið 2016 höfðu farið á sveitaheimili til vinnu. Í viðtölum við uppkomið fólk sem sent hafði verið í sveit kom fram að margir hefðu átt ágæta dvöl og upplifað frelsi þrátt fyrir langan vinnudag.

Jónína Einarsdóttir, prófessor emerita í mannfræði, og Geir Gunnlaugsson, prófessor emeritus í hnattrænni heilsu og barnalæknir, rannsökuðu fyrir fáeinum árum, ásamt fleiri fræðimönnum, sveitadvöl barna á Íslandi. Kom þá í ljós að um það bil tveir af hverjum fimm núlifandi Íslendingum höfðu verið sendir í sveit á sumrin. Fimmtungur barna ólst upp í sveit en tveir fimmtu hlutar barna fóru aldrei í sveit. Þó vildi helmingur þeirra fara en ekki fékkst pláss.

Niðurstöður rannsóknarinnar komu út á tveimur stórfróðlegum bókum árið 2019: Send í sveit: Þetta var í þjóðarsálinni, og Send í sveit: Súrt, saltað og heimabakað. Þar er líka að finna frásagnir barna sem dvöldu í sveit, bændafólksins sem hafði þau og horft til tímans frá lokum 19. aldar til líðandi stundar.

Leitt er að því getum að sveitunum hafi verið falið uppeldishlutverk við að ala upp þéttbýlisbörn, með því að kenna þeim að vinna, þrífast í reglufestu, umgangast dýr og læra að meta náttúruna. Vagga íslenskrar menningar var oft sögð vera til sveita, þar væri íslenskan fegurst töluð og af því skyldu börnin læra.

Staðreynd sé að í kjölfar þess að vistafestan leystist upp um aldamótin 1900 hafi orðið töluverður skortur á vinnandi höndum til sveita. Þar hafi börn og unglingar að nokkru leyti komið í staðinn. Sömuleiðis fengu húsmæður í þéttbýli oft vinnu á sumrin og þá vantaði pössun fyrir börnin sem stundum var leyst með því að senda þau í sveit. Yfirleitt hafi ekki verið um eiginleg laun fyrir vinnuna að ræða utan uppihalds en börnin fengu stundum kartöflupoka með heim, eða máttu eiga lamb.

Sveitadvöl sem félagslegt úrræði

Hervör Alma Árnadóttir, dósent við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, rannsakaði úrræðið „sumardvöl í sveit“ sem félagsmálayfirvöld í Reykjavík hafa boðið fjölskyldum sem búa við félagslega erfiðleika fyrir börn sín, allt frá lokum sjöunda áratugarins fram til dagsins í dag. Í umfjöllun á vef Háskóla Íslands frá 2019 segir að niðurstöður rannsókna bendi til að oft hafi tekist vel til með sumardvalir barna í sveitum, þótt í einhverjum tilvika hafi svo ekki verið og börnunum liðið illa.

Fram kemur og að árið 1971 hafi 144 börn verið send til sveitardvalar frá borginni en þau verið 10 árið 2018, og alltaf fleiri drengir en stúlkur. Haft er eftir Hervöru Ölmu að skýrt hafi komið fram í viðtölum rannsakenda við fólk til sveita að það hefði saknað þeirra tíma þegar „venjuleg börn“ komu í sveitina. Fyrrum hafi börn oft verið send í sveit á vegum borgarinnar vegna fátæktar heima fyrir, en það hafi síðar þróast í börn með hegðunarerfiðleika. Allt frá því fyrir aldamótin 1900 hafi þótt hollt öllum börnum að fara í sveit, en ekki síst „vandræðabörnum“ og þeim sem væru alin upp við „erfiðar aðstæður“.

Vakin er athygli á að rannsóknir á þeim sið að senda börn í sveit séu mikilvægar, til að skoða hvaða áhrif það hefur haft á einstaklingana, fjölskyldur í þéttbýli og til sveita og þjóðina sem heild, þar sem „gríðarlega stór hluti hennar fluttist úr sveit í borg á örfáum áratugum með miklu samfélagslegu umróti“. Ekki var óalgengt að neikvæð viðhorf væru til lífs í þéttbýli áður fyrr á árunum en hins vegar jákvæð gagnvart sveitalífi. Kaupstaðarbörnin voru stundum borin saman við sveitabörnin og báru þá stundum lægri hlut. „Hann er óvenju efnilegur af kaupstaðarbarni að vera“ var t.d. haft eftir bónda fyrir norðan.

Börn í réttum í Breiðdal 1963. Tveir af hverjum fimm núlifandi Íslendingum voru sendir í sveit á sumrin. Fimmtungur barna ólst upp í sveit en tveir fimmtu hlutar barna fóru aldrei í sveit. Mynd / George P. L. Walker

Lærðu að vinna

Börn voru oft í sveit sumrunum saman, frá sauðburði og fram yfir göngur, en líka oft skemur. Skólaárið var enda lengi vel stillt eftir réttum og sauðburði. Fyrir örfáum áratugum var það einfaldlega fasti í þjóðarsálinni að þéttbýlisbörn hefðu ákaflega gott af að fara í sveit á sumrin. Þar yrðu þau „að manni“ og „lærðu að vinna“.

Þau unnu t.d. í sauðburði, stungu út úr húsunum, voru í heyskap, ráku kýrnar, mjólkuðu, keyrðu dráttarvélar og tóku þátt í göngum að hausti. Þau lærðu að borða súran og saltaðan mat og drekka molakaffi. Verkaskipting var oft milli kynjanna og börnin sinntu störfum í samræmi við viðurkennda verkaskiptingu á hverjum tíma. Lítið var um samband heim, nema einstöku símhringingar og kannski meira til að athuga hjá bændum hvernig börnin stæðu sig. Eitthvað var um bréfaskriftir.

Stundum urðu slys, jafnvel banaslys, einkum eftir að sveitir vélvæddust, t.d. þegar krakkar voru látnir aka dráttarvélum, enda öryggismenning með öðrum hætti en nú er. Sömuleiðis höfðu breyttar reglur um vinnu og öryggi barna sitt að segja.

Velta má fyrir sér hverjar tilfinningar barna sem voru að fara í fyrsta sinn á jafnvel ókunnan sveitabæ voru. Var þetta í fyrsta skipti sem þau voru að fara á ókunnugan stað? Voru þau kvíðin eða fundu til eftirvæntingar? Voru þau að fara að eigin frumkvæði?

Sveitirnar höfðu sumpart það hlutverk að ala upp þéttbýlisbörn; með því að kenna þeim að vinna, þrífast í reglufestu, umgangast dýr og læra að meta náttúruna. Mynd / Vefur Mannfræðifélags Íslands

Fjölbreytt störf

Í Sarpi, menningarsögulegu gagnasafni Þjóðminjasafnsins, má finna fjölmargar spurningar tengdar sumardvöl í sveit, og svör við þeim, frá fólki á ýmsum aldri. Kona fædd árið 1966, sem var í sveit á eyju í ótilgreindum fjórðungi sumrin 1974– 9, var kúasmali, tók þátt í heyskap, reytti arfa í rófugarði, hamfletti lunda, fór í lundaveiðar, dúntekju, hreinsaði æðardún, tíndi kríuegg og passaði yngri börn á bænum. Hún sagði dvölina hafa verið ánægjulegt sambland af leik og störfum.

Karl fæddur 1943 var í sveit sumrin 1950–57 á Suðurlandi: „Þess var gætt (af móður) að góður útifatnaður væri með, góðir gúmmískór, helst nýir, stígvél í fjósið og rigninguna, regnkápa og nóg af sokkum! ... Brottför auðveld, afar mikil tilhlökkun alla tíð, ekkert vol og víl. ... Ég beið eftir vorinu/sauðburðinum, próflokum! Grenjaði þangað til búið var að tryggja sumardvöl. ... Sækja kýrnar, reka kýrnar, moka flórinn, sækja hesta, raka/rifja, bera á túnin á vorin, teyma hross við alls kyns vinnu á túnum, heim með bagga af engjum. Setja niður kartöflur, stinga upp,“ segir hann í svörum sínum.

Kona fædd 1973 var í sveit sumarið 1988 og segir: „Ég var eitt sumar í sveit, það var sumarið 1988 og þá var ég á fimmtánda ári. Fólkið sem ég dvaldist hjá var mér óskylt og ókunnugt. ... Ég þekkti á þessum tíma ekki aðra sem farið höfðu í sveit, en það tíðkaðist að bændur auglýstu eftir börnum eða unglingum til sveitavinnu á vorin. ... Ég veit þó dæmi þess að krakkar gáfust upp á sveitadvölinni og fóru heim fyrr en til stóð. Ég held að það hafi mest bara verið af heimþrá og þeim ekki líkað að vera í sveitinni. ...

Sveitastörfin voru að jafnaði nokkuð kynbundin, alla vega þar sem ég var. Strákar keyrðu traktora, báru bagga, gerðu við girðingar og fleira. Stelpur (og yngri börn) ráku kýrnar, rökuðu, hjálpuðu til í eldhúsi og við þrif o.s.frv. Þannig var yfirleitt ráðin alla vega ein stelpa og einn strákur til að hjálpa til við þessi mismunandi störf. En þar sem þannig hittist á að strákur sem ráðinn hafði verið á bæinn gafst upp á dvölinni áður en ég kom, þá fékk ég að vinna öll möguleg störf, bæði „stráka“- og „stelpu“-störf. Ég var sérstaklega ánægð með þetta og taldi mig heppna að þessu leyti,“ segir hún í svörum sínum við spurningum Þjóðminjasafnsins.

Sumardvölin styttri en áður

Enn fara börn og ungmenni í sveit og má í því samhengi minnast á nýlega smáauglýsingu í Bændablaðinu, þar sem stúlka á 16. aldursári leitar að vinnu í sveit frá júnílokum til miðs ágúst. Hún sé vön sveitavinnu og ýmsum gegningum kringum börn og dýr.

Börn eru þó líklega í styttri sumardvöl en áður var, m.a. vegna lengingar skólaársins. Sá siður að senda börn í sveit er, samkvæmt rannsóknum, enn við lýði og runninn af sömu rótum og áður. Það hefur þó minnkað til muna frá því sem áður var. Verkin eru svipuð en dvalartíminn styttri. Oft er um að ræða fjölskyldutengsl en stundum fara börnin til ókunnugs fólks. Þau eru með tilkomu internetsins ekki einangruð í sveitadvölinni eins og var. Þau eru einnig vanari framandi kringumstæðum en áður var, vegna aukinna ferðalaga og hnattrænnar upplýsingahraðbrautar samfélagsmiðlanna.

Þýskar heimsbókmenntir
Líf og starf 3. desember 2025

Þýskar heimsbókmenntir

Hætt er við að ýmsar fréttnæmar útgáfur verði undir í jólabókaflóðinu nú sem fyr...

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi
Líf og starf 3. desember 2025

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi

Yngsti meðlimur karlakórsins Heimis í Skagafirði er Fjölnir Þeyr Marinósson sem ...

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum
Líf og starf 3. desember 2025

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum

Hugmyndasmiðir er verkefni sem miðar að því að kenna börnum að verða frumkvöðlar...

Jólakötturinn í Freyvangi
Líf og starf 3. desember 2025

Jólakötturinn í Freyvangi

Það ættu allir að eiga sinn stað í tilverunni, sama hversu skrítnar skrúfur þeir...

Dagur, Björn og Lenka best á Skákþingi Garðabæjar
Líf og starf 3. desember 2025

Dagur, Björn og Lenka best á Skákþingi Garðabæjar

Skákþingi Garðabæjar lauk á dögunum en mótshaldarinn, Taflfélag Garðabæjar, á um...

Mögnuð vörn í beinni
Líf og starf 1. desember 2025

Mögnuð vörn í beinni

Gaman hefur verið að fylgjast með viðtökum íslenskra briddsunnenda gagnvart nýju...

Sefar sorgir annarra en glímir við eigin skugga
Líf og starf 28. nóvember 2025

Sefar sorgir annarra en glímir við eigin skugga

Út er komin skáldsagan Sálnasafnarinn eftir Þór Tulinius.

Blóðþyrst kona vill barnakjöt
Líf og starf 27. nóvember 2025

Blóðþyrst kona vill barnakjöt

Grýlu er fyrst getið á miðöldum en sú Grýla sem við þekkjum stingur upp sínum lú...