Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Sigmar Jóhannsson, stofnandi Búminjasafnsins Lindabæ, Sæmundarhlíð í Skagafirði, vígreifur á þjóðbraut á einni uppgerðu dráttarvélinni, glæsilegum Massey Harris.
Sigmar Jóhannsson, stofnandi Búminjasafnsins Lindabæ, Sæmundarhlíð í Skagafirði, vígreifur á þjóðbraut á einni uppgerðu dráttarvélinni, glæsilegum Massey Harris.
Mynd / Aðsend
Líf og starf 2. júní 2025

Kjörgripir búnaðarsögu í hundraðavís

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Búminjasafnið Lindabæ á tíu ára afmæli nú í sumar. Safnið lætur gera upp sjaldgæfar, gamlar dráttarvélar og tæki sem tengjast þeim, t.d. sláttuvélar og skúffur, sem og aðra gamla búhluti.

Helga Stefánsdóttir og Sigmar Jóhannsson, forsprakkar Búminjasafnsins Lindabæ, Sæmundarhlíð í Skagafirði. Þau voru bændur á Sólheimum árin 1969 til 1999 og Sigmar var einnig landpóstur. Mynd / Aðsend

Búminjasafnið Lindabæ, Sæmundarhlíð Skagafirði, hefur til sýnis gamlar uppgerðar dráttarvélar og ýmsa muni tengda búskap.

Helga Stefánsdóttir og Sigmar Jóhannsson voru bændur í Sólheimum frá árinu 1969 til 1999, byggðu þá Lindabæ í landi Sólheima og snéru sér að öðrum störfum. Þau settu safnið á fót fyrir áratug og hafa unnið að því síðan. Vinir, kunningjar og fjölskyldumeðlimir hafa svo aðstoðað þegar þörf er á.

Safnið hefur til sýnis vélar, tæki og tól sem gjörbreyttu heyskaparaðferðum og vinnulagi bænda (t.d. mjaltavélar) á sl. öld. Þannig viðheldur safnið þekkingu á kaflaskilum í sögu landbúnaðar á Íslandi.

Sigmar hefur sagt að upphafið megi rekja til þess þegar komið var með Farmall Cub-dráttarvél á bæinn þegar hann var strákur, árið 1952. Þar með hafi áhugi hans á dráttarvélum kviknað. Sigmar byrjaði fyrir alvöru að safna dráttarvélum um 1990 þegar hann eignaðist Farmall Cub með sláttuvél sem einnig fylgdi plógur. Upp frá því fjölgaði dráttarvélum og öðrum búminjum. Búminjasafnið hóf svo starfsemi 28. júní 2015.

Margir munir og sumir fágætir

Sigmar varð fyrir svörum varðandi safnkost búminjasafnsins. „Ætli sýningargripirnir fari ekki að nálgast nokkur hundruð, þegar allt er talið. Dráttarvélarnar og mjaltatækjasýningin taka auðvitað mesta plássið, en gegnum árin hefur safninu áskotnast mikið af öðrum gömlum munum. Fyrir utan sláttuvélar, áburðardreifara og önnur dráttarvélaviðhengi er heilmikið af öðrum búmunum, s.s. brennijárn, rokkar, Lúðvíksherfi, hnífaherfi sem Fergusonfélagið gaf safninu, vogir, dósir undan matvörum og saumavél,“ segir hann.

Hann kveður yfir 30 uppgerðar og gangfærar dráttarvélar vera á safninu, sumar með sláttubúnaði eða ámoksturstækjum, og að auki séu um tíu aðrar gangfærar sem eftir er að gera upp. Ýmis önnur óuppgerð heyvinnutæki standi líka úti og bíði síns tíma.

Aðspurður hverjir séu merkilegustu safngripirnir segir Sigmar þá vera Leyland 154 frá árinu 1972, Fahr D180H frá 1957 og Nuffield 10/60 frá 1966.
„Þær eru líklega einu eintökin sem til eru gangfærar á landinu. Af þessum tilteknu Leyland og Nuffield komu bara tvær til landsins á sínum tíma. Á safninu eru líka ýmsir aðrir hlutir með langa sögu, ljábrýnsluvél sem er sennilega yfir 100 ára, ísasleði sem settur var aftan í hest, útvarp frá 1930 og bakstursjárn fyrir oblátur sem notað var við Miklabæjarkirkju, svo eitthvað sé nefnt,“ útskýrir hann.

Sigmar hefur einnig látið gera upp bíl, fagurgrænan rússneskan Moskvitch sem var sannkallaður ruslahaugur þegar hann tók bílinn til kostanna, ásamt Jóni félaga sínum í Miðhúsum, og gerði að glæsikerru.

Á Búminjasafninu Lindabæ eru á fimmta tug dráttarvéla, þar af 40 gangfærar og 30 þeirra uppgerðar. Á myndinni glittir sömuleiðis í fagurgrænan Moskvitch. Mynd / Aðsend

Rjómavöfflur með kaffinu

Móttökusal Búminjasafns Lindabæ er hægt að leigja utan hefðbundins opnunartíma fyrir veislur, fundi og aðra viðburði. Hann tekur um 80-100 manns í sæti. Yfir veturinn hefur gjarnan verið blásið til félagsvistar í Lindabæ fyrir sveitungana og einnig efnt til svonefnds kótilettukvölds, þar sem fólk hefur hópast saman og átt góða stund.

Á bilinu 500 til 700 gestir sækja safnið heim árlega en voru heldur fleiri fyrir covid. Auk sýningarinnar er jafnan hægt að kaupa kaffi og vöfflur á staðnum. Því er handagangur í öskjunni yfir sumartímann. „Við hjónin vinnum við safnið á opnunartíma á sumrin, en margir vinir og kunningjar aðstoða við að setja upp sýninguna á vorin og taka saman á haustin,“ segir Sigmar. Þau Helga eru fyrrverandi bændur, voru með kýr og kindur í 30 ár en hættu búskap árið 1999, sem fyrr segir.

„Safnið verður opið í sumar milli kl. 13 og 17, frá 10. júní til 20. ágúst. Alltaf heitt á könnunni og hægt að kaupa vöfflur með rjóma. Þrír hópar hafa komið fyrir formlega opnun í vor og hugsanlega verður hægt að taka á móti hópum eftir lokun eitthvað fram eftir hausti,“ segir Sigmar að endingu.

Safnið hlaut nýverið 800 þ.kr. styrk frá uppbyggingarsjóði.

80 þúsund gestir á síðasta ári
Líf og starf 8. júlí 2025

80 þúsund gestir á síðasta ári

Geosea, eða Sjóböðin á Húsavík, voru opnuð í lok sumars 2018. Í dag eru 12 ársve...

Lesið í fannir
Líf og starf 8. júlí 2025

Lesið í fannir

Kannski er ekkert sumarlegt að fjalla um fannir í júní. Og þó – þegar betur er a...

Greinandi og afhjúpandi rödd Ernaux
Líf og starf 7. júlí 2025

Greinandi og afhjúpandi rödd Ernaux

Enn af þýðingum og aftur kemur Þórhildur Ólafsdóttir við sögu hér í Hriflunni. F...

Kynning á íslenskum mat í Japan
Líf og starf 7. júlí 2025

Kynning á íslenskum mat í Japan

Íslandsstofa ásamt utanríkisþjónustunni og sendiráði Íslands í Japan skipulagði ...

17 impa slys
Líf og starf 7. júlí 2025

17 impa slys

Mikil umræða hefur orðið meðal íslenskra keppnisspilara síðustu vikur hvort drag...

Toga beint upp og mest fjórðung plöntunnar
Líf og starf 4. júlí 2025

Toga beint upp og mest fjórðung plöntunnar

Mikilvægt er að uppskera rabarbara á réttan hátt svo að rótin rotni ekki.

Feitur maður fótbrotnar
Líf og starf 3. júlí 2025

Feitur maður fótbrotnar

Eitt af svipmeiri stórbýlum landsins er Vallanes á Héraði, eða Vallanes á Völlum...

Góður bíll – punktur!
Líf og starf 3. júlí 2025

Góður bíll – punktur!

Að þessu sinni er tekinn fyrir hinn nýi Kia EV3 rafmagnsbíll. Þetta er fólksbíll...