Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Fanney Lilja Vignisdóttir og Bjarni Heiðar Halldórsson búa á Bifröst með börnum sínum. Bjarni vildi bæta við sig menntun en áður starfaði hann sem rekstrarstjóri hjá Domino's. Fanney er lærður einkaþjálfari og starfar á sveitahótelinu á Hraunsnefi. 
Fanney Lilja Vignisdóttir og Bjarni Heiðar Halldórsson búa á Bifröst með börnum sínum. Bjarni vildi bæta við sig menntun en áður starfaði hann sem rekstrarstjóri hjá Domino's. Fanney er lærður einkaþjálfari og starfar á sveitahótelinu á Hraunsnefi. 
Mynd / Bifröst
Líf og starf 13. ágúst 2020

Búseta á Bifröst

Höfundur: GRJ

Löng hefð er fyrir skólastarfi á Bifröst í Borgarfirði en sögu þess má rekja allt aftur til ársins 1955 þegar Samvinnuskólinn var fluttur að Hreðavatni. Árið 1988 hóf skólinn að bjóða upp á nám á háskóla­stigi og brátt hófst mikil uppbygging á staðnum, mikið var byggt og nemendur skólans bjuggu víða um Borgarfjörð. Síðustu ár hefur fólki fækkað mjög á Bifröst þó að nemendum við skólann hafi fjölgað. Breytingin er sú að nú stunda fleiri fjarnám en áður var og segja má að styrkur skólans felist í öflugu og kraftmiklu fjar­námi með vinnuhelgum inni á milli sem jafnan fara fram á Bifröst.

Nýr rektor tekur við búi

Margrét Jónsdóttir Njarðvík.

Skagfirðingurinn Vilhjálmur Egils­son, sem stýrt hefur Háskól­anum á Bifröst allt frá 2013, lætur nú af störfum. Undir hans stjórn hefur rekstur skólans tekið miklum stakkaskiptum og sterkt fjarnám orðið aðalsmerki hans. Við keflinu á Bifröst tekur Margrét Jónsdóttir Njarðvík, sem er dóttir hjónanna Kristínar Njarðvík og Jóns Bergþórssonar. Hún er því Borgfirðingur í föðurætt en faðir hennar var frá Fljótstungu í Hvítársíðu. Margrét segist vera full tilhlökkunar og telur ekki skorta tækifæri á Bifröst. „Skólahald stendur vel um þessar mundir, námið er vandað og markmið mitt er að gera góðan skóla enn betri. Ég legg áherslu á að efla búsetu á Bifröst og tel mikilvægt að fjölga hér íbúum. Þegar mest var bjuggu yfir sex hundruð manns á staðnum, nú eru íbúarnir rétt ríflega tvö hundruð.“

Margrét segir það vissulega tímanna tákn að nú séu flestir nemendur skólans í fjarnámi, „hins vegar er það svo að fjarnám og staðnám geta farið ágætlega saman, hér er ekki um tvær andstæður að ræða. Þó að námið á Bifröst sé byggt upp með fjarnámssniði er það góður kostur að búa á staðnum, stunda nám í öflugu lærdómssamfélagi þar sem vinnuaðstæður eru góðar, finna stuðning annarra nemenda og eiga greiðan aðgang að kennurum.“

Öflugt lærdómssamfélag

„Í stað þess að tala um fjarnám og staðnám tel ég nærtækara að tala um nám,“ segir Margrét.

„Fyrirlestrar eru aðgengilegir á netinu og þeir nemendur sem búa á staðnum verða hluti af öflugu lærdóms­samfélagi þar sem nemendur fá vinnuaðstöðu í skólanum.“

Þá áformar Margrét að bjóða reglu­lega upp á fyrirlestra fyrir bæði nemendur og starfsfólk þar sem sjónum er beint að hinum ýmsu við­fangs­efnum, meginmarkmiðið sé að skapa líflegt samfélag þar sem öflugt menningar­auðmagn verði límið sem haldi námssamfélaginu saman.

„Ég vonast til þess að staðurinn eflist, íbúum fjölgi en síðast en ekki síst að sá mikli fjöldi fjarnema sem stundar nám við skólann fái tækifæri til að mæta á öflugar og árangursríkar vinnuhelgar. Þeir sem það vilja eiga að fá tækifæri til að dveljast í frítíma sínum á Bifröst, eiga möguleika á að taka með sér fjölskylduna og verða nokkurs konar farfuglar á staðnum. Gamla góða Bifrastarandann er hægt að höndla hvort sem menn eru í fjar- eða staðnámi. Eðlilegra er að tala um nám sem rammað er inn af sterku lærdómssamfélagi. Birkiilminn í hrauninu má líka fanga í gegnum öfluga netfyrirlestra.“

Einn mikilvægur kostur við það að búa á Bifröst er hagstætt húsnæði og ekki spillir fyrir falleg náttúran í hrauninu sem strax á fyrsta degi nær að valdefla alla þá sem komast í tæri við hana. Margrét áréttar í lokin að staðurinn sé í raun ósvikið náttúrulegt leikhús þar sem hraunið og kjarrið leggja til litina, lyktina og leiktjöldin.

Fyrir samfélagið í Borgarfirði skiptir miklu máli að öflugt samfélag sé til staðar á Bifröst,“ segir Guðrún Sigurjónsdóttir, bóndi á Glitstöðum. 

Borgarfjörður – miðstöð háskólanáms og símenntunar

Nágrönnum Bifrastar í Norður­ár­dalnum líst vel á áform Margrétar um eflingu búsetu á staðnum. Á Glit­stöðum í Norðurárdal býr Guðrún Sigurjónsdóttir ásamt fjölskyldu sinni. Þau búa með kýr og kind­ur og reka litla ferðaþjónustu sam­hliða búskapnum. Guðrún fagnar mjög sýn Margrétar og áformum hennar um að efla byggðina á Bifröst enda mikilvægt að þar þrífist fjölskyldu­vænt námssamfélag.

„Fyrir samfélagið í Borgarfirði skiptir miklu máli að öflugt samfélag sé til staðar á Bifröst,“ segir Guðrún. „Það treystir ekki síst innviðina þegar kemur að rekstri leik- og grunnskóla. Skól­inn er mikilvæg stoð í atvinnulífi hér í héraðinu og ég bind vonir við það að skólinn eflist og bjóði sem fyrr upp á nám sem treyst geti búsetu í hinni dreifðu byggð. Í því sambandi vil ég nefna að nám til löggilts bókara ætti vel heima á Bifröst en einn­ig þyrfti að mennta fólk til starfa innan ferðaþjónustunnar. Mikilvægt er að efla tengslin milli Bifrastar og næsta umhverfis og treysta enn frekar grundvöll Borgarfjarðar sem mið­stöðvar háskólanáms og sím­ennt­unar.“

Fjölskyldvænt samfélag

Fyrir réttum þremur árum ákváðu Bjarni Heiðar Halldórsson og Fanney Lilja Vignisdóttir að flytjast á Bifröst en áður bjuggu þau í Ósló. Bjarni starfaði sem rekstrarstjóri hjá Domino's en Fanney er lærður einkaþjálfari. Taugin var römm og heim vildu þau, vildu að börnin fengju tækifæri til að alast upp á Íslandi.

„Ég vildi líka afla mér mennt­unar,“ segir Bjarni, „ég hafði unnið hjá sama fyrirtæki frá því ég var 17 ára, í hartnær 14 ár, að mestu án skólamenntunar en sérfræðingur í öllu sem viðkom Domino's. Ef ég ætlaði einhvern tíma að starfa við eitthvað annað eða fara út í eigin rekstur þá þurfti ég á meiri menntun að halda.“

Um líkt leyti og ungu hjónin fluttust heim var eldri bróðir Bjarna að ljúki námi á Bifröst og þau sáu hversu vel staðurinn fóstraði hann og fjölskyldu hans. „Staðurinn var paradís fyrir börnin og námið uppfyllti allar væntingar bróður míns. Ekki spillti að leigan á Bifröst var mjög hagstæð og enginn var heldur biðlistinn í leikskólann.“

Gáttin – upphaf námsins

Bjarni hóf nám í Háskólagáttinni sem hann telur einhvern besta undirbúning sem hægt er að hugsa sér fyrir háskólanám. Að því námi loknu taldi hann sig vel í stakk búinn til að takast á við nám í háskóla. „Í gáttinni náði ég í fyrsta sinn á ævinni góðum tökum á stærðfræðinni en líkt og hjá mörgum sem hverfa frá námi var stærðfræðin ástæða þess að ég hvarf úr skóla á sínum tíma. Nú er svo komið að allir þeir áfangar sem lúta að tölum eru í uppáhaldi hjá mér og ég hef meðal annars sinnt starfi aðstoðarkennara í stærðfræði.“

Í upphafi óttuðust þau að Fanney fengi ekki vinnu í nágrenninu. Sá ótti reyndist þó með öllu ástæðulaus því að í fyrstu vikunni á Bifröst fékk hún tvö atvinnutilboð og starfar nú á sveitahótelinu á Hraunsnefi.

Náttúran er engu lík á Bifröst í Borgarfirði – sannkallað náttúruleikhús!

 

Lífið og námið á Bifröst

Líkt og heyra má á þeim hjónum er lífið á Bifröst ljúft. Ekki spillir heldur að leikskólinn er góður. Hann er fámennur og samfélagið í kringum hann náið og gott. Ekki spillir heldur að umhverfið á svæðinu er einstaklega barnvænt og öruggt í alla staði enda eru allir bara sendir út að leika sér eins og tíðkaðist forðum.

Íbúðirnar á Bifröst eru líka ótrúlega vel úr garði gerðar og til í öllum stærðum og gerðum. Innifalið í leigunni er internet, hiti og rafmagn. Ekki spillir heldur að gæludýrahald er leyfilegt á staðnum og því létu þau hjón gamlan draum rætast og fengu sér Labradorhund.

Þegar Bjarni hóf nám á Bifröst var skólahaldið í vaxandi mæli að færast yfir í fjarnám. Það hindraði hann ekki í að búa á svæðinu. „Ég er þeirrar skoðunar,“ segir Bjarni, „að þeir sem búa á staðnum standi betur að vígi en hinn dæmigerði fjarnemi. Staðarbúar mynda sterk tengsl og samheldnin er mikil. Þótt ekki séu formlegir tímar í kennslustofu í skólanum þá hittast nemendur á tilsettum tíma hvern dag og hafa sína vinnuaðstöðu í skólanum enda er tækjakostur þar mjög góður. Nemendur horfa saman á fyrirlestra, ræða málin og læra saman. Á Bifröst er gott námssamfélag, nemendafélagið hefur þar sérstakt hús til umráða og heldur uppi ótrúlega góðu félagslífi. Alltaf er eitthvað um að vera.“

Að endingu áréttuðu þau Bjarni og Fanney að á Bifröst sé gott að búa. „Hér er góð líkams­ræktar­aðstaða með heitum pottum og gufubaði, náttúran er líka hreint út sagt mögnuð með fossa og fjöll í bakgarðinum og umhverfið kallar eiginlega á mann í létt skokk eða göngutúr með hundinn.“ Bjarni og Fanney taka heilshugar undir orð Margrétar um að umhverfið á Bifröst sé svo sannarlega ósvikið náttúruleikhús.

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...

Vættafundur á Eyjabökkum
Líf og starf 10. júlí 2024

Vættafundur á Eyjabökkum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Oddbjörgu Sigfúsdóttur.

Sumarkveðja
Líf og starf 10. júlí 2024

Sumarkveðja

Nú þegar lífið kviknar með sumrinu og golan leikur við kinn, skulum við gleðjast...

Himbrimi
Líf og starf 9. júlí 2024

Himbrimi

Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðav...

Sumarsveiflan 2024
Líf og starf 8. júlí 2024

Sumarsveiflan 2024

Áherslur tískunnar fara nokkuð vítt og breitt þetta árið en nú þegar er farið að...

Dugur og elja ofar öllu
Líf og starf 8. júlí 2024

Dugur og elja ofar öllu

Eitt þeirra mætu kvenfélaga sem hér á landi sitja er Kvenfélag Hringsins sem hef...