Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Ágúst H. Bjarnason grasafræðingur.
Ágúst H. Bjarnason grasafræðingur.
Fréttir 18. október 2018

Grundvallarrit um mosa

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í bókinni Mosar á Íslandi fjallar Ágúst H. Bjarnason um gerð og byggingu mosa, skiptingu þeirra í fylkingar. Í bókinni eru greining­ar­lyklar að öllum tegund­um mosa sem vaxa hér á landi og lýsing hvernig skal standa að þurrkun þeirra og varðveislu. 250 tegundum er lýst í bókinni og ljósmyndir eru af 230 tegundum af rúmlega 600 tegundum sem rætt er um.

„Bókin er afrakstur af áhugamáli mínu í herrans mörg ár,“ segir Ágúst, „og nokkurs konar samantekt á því og mest unnin um kvöld og helgar.“ Ágúst gefur bókina út sjálfur í þúsund eintökum og segir að einn af kostunum við það sé að hann hafi getað haldið zetunni. „Það var eina stafsetningarreglan sem ég lærði í skóla og hef ekki getað gleymt henni ennþá.“

 

Doktor í plöntuvistfræði

Ágúst er doktor í plöntuvistfræði og kenndi líf- og lífefnafræði við Menntaskólann við Sund í fjörutíu ár. Hann er meðal annars höfundur bókanna Íslensk flóra með litmyndum, Almenn vistfræði og Leiðbeiningar um plöntusöfnun auk þess sem Ágúst var ritstjóri Stóru garðabókarinnar.

Engin þörf fyrir grasafræðing

„Það var á vormánuðum 1968 sem ég kynntist mosum að einhverju marki í grasafræðinámi í Uppsölum. Óhætt er að segja, að ég hafi heillast af þeim frá fyrstu stundu. Síðar sótti ég ýmis námskeið í mosafræðum, meðal annars hjá Olle Mårtensson og Erik Sjögren. Á þeim árum var ég staðráðinn í því að leggja fyrir mig gróðurfræði með aðaláherslu á mosa. Hér heima hlaut það dræmar undirtektir og mér bent á að einn maður ynni nú í mosum og ekki væri þörf á liðsinni annarra.

Um þær mundir var talið að flóra landsins væri betur þekkt en flestra annarra landa í Evrópu, einnig var nýlokið við að kortleggja gróður á hálendinu. Á þessum tíma þóttust menn hafa í fullu tré við uppblástur, og ekkert fyki út í hafsauga lengur, því að nú væri grætt upp með tilbúnum áburði og grasfræi, og dreift úr flugvélum. Það væru því harla lítil not fyrir grasafræðing á næstu árum. Síðan æxlaðist það svo að ég hvarf að kennslu og grasafræðin, sem átti að verða lífsviðurværi mitt, varð að áhugamáli.“

Barnamosa þekkja margir úr mýrlendi, en það eru blaðmosar, sem geta drukkið í sig allt að tuttugu falda þyngd sína af vatni. Þeir geta verið grænir, gulgrænir, brúnleitir eða rauðir. – Myndin er af rauðbura, Sphagnum warnstorfii, sem er allalgengur um land allt. 

Rúmlega 600 tegundir af mosa

Ágúst segir að á Íslandi finnist 604 tegundir af mosum sem skiptast í þrjár fylkingar, blaðmosa, flatmosa og hornmosa.

„Reyndar er alltaf spurning hvað skal teljast tegund eða undirtegund og því ekki hægt að segja alveg nákvæmlega hvað tegundirnar eru margar. Ég reyndi eftir megni að taka inn allar tegundir sem ég vissi um en frétti af fjórum nýjum eftir að bókin var komin í prentun. 

Ég hef ferðast mikið um landið og á þeim ferðalögum hef ég safnað mosum og síðan hef ég unnið að greiningu þeirra yfir vetrarmánuðina og smám saman safnast efni í sarpinn. Síðan verður að sjálfsögðu að endurskoða greiningarnar í samræmi við það nýjasta sem er að gerast í fræðunum. Ég veit til dæmis núna um tvær ættkvíslir sem ég fjalla um í bókinni sem búið er að endurskoða.

Undanfarin ár hefur orðið gríðarlegur vöxtur í mosafræði víða um heim og satt best að segja ótrúlega mikill.”

Ágúst tók mikið af myndunum í bókinni sjálfur auk þess sem hann leitaði til annarra myndasmiða.
„Ég leitaði til Íslendinga sem ég veit að hafa verið að taka mosamyndir og fékk dágott safn, auk þess sem sænskur vinur minn, Tomas Hallingbäck, sem hefur ferðast mikið um Ísland og tekið myndir af mosum, bauð mér aðgang að sínu safni.“

Flatmosar eru ýmist með stöngul og blöð eða mynda þal. Hér er mynd af þaltegund, flaganistli, Riccia sorocarpa, sem er nokkuð algeng um landið vestanvert í flögum og á hverasvæðum.

 

Hvað eru mosar?

„Mosar eru fjölfrumungar sem ljóstillífa, það er frumbjarga vefplöntur sem eru komnar af grænþörungum fyrir nokkur hundruð milljón árum. Mosar eiga margt sameiginlegt með æðaplöntum eða háplöntum nema að þeir hafa ekki leiðslukerfi eða hvorki sáld- né viðaræðar. Frjóvgun mosa verður að fara fram í vatni og það veldur því að mosar geta lítið vaxið á hæðina því um leið og þeir eru komnir í ákveðna hæð verður vindþurrkun í toppnum sem kemur í veg fyrir frjóvgun.“

Ágúst segir að þrátt fyrir að mosar séu ekki hátt skrifaðir hér á landi og mosavaxið land talið lítils virði sé sú hugsun byggð á misskilningi.

„Mosi er nauðsynlegur í náttúrunni sem eitt gróðurlag og þar sem þetta lag er ekki til staðar verndar það ekki jarðveginn og hann berskjaldaður fyrir regni og vindum. Í mosalaginu er gríðarlega mikið smádýralíf og fyrir ekki svo mörgum árum uppgötvaðist að í laginu lifa gerlar sem binda nitur andrúmsloftsins á sama hátt og gerlar sem lifa í sambýli við belgjurtir eins og til dæmis lúpínu. Í birkiskógi þar sem er þykkt mosalag er mikið af nitri skógarins upprunnið í mosalaginu. Það að eyða mosa eins og gerist við mikla sauðfjárbeit er því ein leið til að rústa gróðursamfélögum,“ segir Ágúst.

Rannsóknir á mosa

Að sögn Ágústs er hann ekki sá fyrsti sem fæst við rannsóknir á mosa hér á landi.

„Daninn August Hessebo skrifaði gagnmerka grein um íslenska mosa árið 1916, Bergþór Jóhannsson safnaði og greindi mikið af mosum og færði inn á kort og skrifaði um þá og ég hef gengið í þeirra verk og notfært mér þau. Helgi Hallgrímsson byrjaði að fást við mosa upp úr 1950 og hann var einna fyrstur manna til að gefa mosum íslensk nöfn og grunnurinn að nöfnum og nafnagift mosa í dag.“

Að greina mosa

„Ég undrast oft hvers vegna áhugi á mosum sé jafnlítill og raun ber vitni hér á landi. Í flestum öðrum löndum eru hópar áhugamanna, sem safna og greina mosa í tómstundum líkt og aðrir safna frímerkjum en mér finnst stundum eins og hérlendis ríki rótgróin óbeit og áhugaleysi á mosum og mosavöxnu landi.
Það að greina mosa til tegunda eru í sjálfu sér engin vísindi heldur frekar þjálfun og ekki eins erfitt og oft hefur verið haldið fram. Sannleikurinn er sá að það er tiltölulega auðvelt að greina flestar tegundir þó svo að í sumum tilfellum þurfi stækkunargler eða jafnvel smásjá. Ég tel að það sé flestum fært að þekkja um helming mosategundanna í sundur með stækkunargleri.

Reyndar er það svo að þekking á plöntum almennt hefur farið mikið aftur hér á landi undanfarna áratugi og ég skil stundum ekki hvað fólk talar oft um plöntur af mikilli vanþekkingu. Sjálfur tel ég að það sé allt of lítið fjallað um plöntur í skólum og reyndar náttúrufræði í heild. Það var til dæmis ekki í tísku lengi vel að læra að þekkja tegundir og þótti gamaldags.

Í bókinni er að finna greiningalykla að öllum tegundum en fyrir þá sem nenna ekki að leggjast yfir þá er mikið að myndum sem ætti að hjálpa við að komast ansi nærri um hver tegundin er.“

Næg verkefni fram undan 

„Ha,“ segir Ágúst þegar hann er spurður hvað sé næsta skref hjá honum eftir að hafa lokið þessari bók.
„Þú segir nokkuð. Ætli ég snúi mér ekki næst að bókinni sem ég hef alltaf ætlað mér að skrifa því í sjálfu sér ætlaði ég mér aldrei að skrifa bók um mosa. Ég ætlaði mér upphaflega að skrifa bók um gróðursamfélög enda löngu kominn tími til enda lítið sem ekkert verið skrifað um þau frá því að bók Steindórs Steindórssonar, Gróður á Íslandi, kom út árið 1961.

Ég á líka í fórum mínum handrit að bók um gróður- og grasnytjar sem hefur setið á hakanum og ég gæti hugsanleg dustað rykið af því,“ segir Ágúst H. Bjarnason grasafræðingur. 

Matartengdar örverur 3% af þarmaflórunni
Fréttir 5. nóvember 2024

Matartengdar örverur 3% af þarmaflórunni

Matís tekur þátt í Evrópuverkefni um skráningu örvera í matvælum og framleiðsluu...

Melrakki rannsakaður í krók og kring
Fréttir 4. nóvember 2024

Melrakki rannsakaður í krók og kring

Nú stendur yfir rannsókn á stofngerð íslensku tófunnar og stöðu hennar á þremur ...

Samvinna fremur en samkeppni
Fréttir 4. nóvember 2024

Samvinna fremur en samkeppni

Rétt neðan við afleggjara Landeyjahafnarvegar stendur reisulegt hús með gömlu ís...

Vörður staðinn um lífríki Látrabjargs
Fréttir 1. nóvember 2024

Vörður staðinn um lífríki Látrabjargs

Staðfest hefur verið stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Látrabjarg. Markmið henn...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 1. nóvember 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Verður forstjóri til áramóta
Fréttir 31. október 2024

Verður forstjóri til áramóta

Auður H. Ingólfsdóttir, sem gegnt hefur starfi sviðsstjóra loftslagsmála og hrin...

Samvinna ungra bænda
Fréttir 31. október 2024

Samvinna ungra bænda

Stjórnir ungbændahreyfinga á öllum Norðurlöndunum eiga í stöðugum samskiptum til...

Vilja reisa mannvirki
Fréttir 30. október 2024

Vilja reisa mannvirki

Linde Gas ehf. hefur óskað eftir deiliskipulagsbreytingu á lóð sinni á Hæðarenda...