Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Björn Halldórsson, bóndi á Akri í Vopnafirði, hefur látið af störfum sem formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda (SÍL) eftir nær 18 ára setu.
Björn Halldórsson, bóndi á Akri í Vopnafirði, hefur látið af störfum sem formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda (SÍL) eftir nær 18 ára setu.
Mynd / HKr.
Viðtal 14. mars 2018

Sjálfbærni í minkarækt er algjört lykilatriði í áframhaldandi uppbyggingu greinarinnar

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Björn Halldórsson, bóndi á Akri í Vopnafirði, lét af störfum sem formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda (SÍL) á nýafstöðnum aðalfundi eftir tæplega 18 ára setu. Við hans stöðu tók þá Einar E. Einarsson á Skörðugili í Skagafirði.
 
Í stjórn SÍL er nú auk Einars, þeir Björn Harðarson í Holti í Árnessýslu, sem er ritari, en hann sat líka í fyrri stjórn og Þorbjörn Sigurðsson í Ásgerði í Árnessýslu, sem er gjaldkeri. 
 
Björn Halldórsson hefur rekið minkabú í Engihlíð frá árinu 1984. Hann hætti þeim rekstri og felldi öll dýrin síðastliðið haust, en heldur áfram kúabúskap á jörðinni sem hann rekur ásamt mágkonu sinni og bróður. Þar eru um 50 til 60 kýr og mjólkurframleiðsla um 400 þúsund kg  af mjólk og dálítið nautaeldi. Auk þess eru þau með um 90 kindur og stunda skógrækt að auki. Afraksturinn af góðu árunum í minkaeldinu var nýttur til að byggja upp kúabúið sem kemur nú að góðum notum. 
 
Björn Halldórsson segist vonast til að ákveðið verði að spýta í lófana varðandi skógrækt á landsvísu enda orðin virkilega mikil þörf á slíku þar sem Íslandi ber að standa við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Menn eigi nú að nýta peningana þar fyrst og fremst til að planta eins miklu og hægt er, því ein áhrifaríkasta leiðin til að binda kolefni sé að rækta fleiri tré. 
 
Það er fleira matur en feitt kjöt og leður er heldur ekki bara framleitt úr skinnum spendýra. Hér eru Árni V. Kristjánsson, framkvæmdastjóri Samtaka íslenskra loðdýrabænda, Björn Halldórsson og  Skarphéðinn Pétursson, loðdýrabóndi úr Svarfaðardal, að skoða grip úr laxaroði í hönnunarhúsi í Kaupmannahöfn. Þess má geta að Skarphéðinn lét af störfum í stjórn Síl um leið og Björn. Mynd / HKr. 
 
Segir ekki alveg skilið við félaga sína í loðdýraræktinni
 
Björn sagði í samtali við Bænda­blaðið á þessum tímamótum að hann væri þó ekki alveg búinn að segja skilið við félaga sína í minkaræktinni, því hann var fulltrúi þeirra á nýafstöðnu búnaðarþingi og verður einnig fulltrúi minkabænda á ársþingi Bændasamtaka Íslands 2019. 
 
„Ég er búinn að vera formaður Landssamtaka loðdýrabænda í tæp 18 ár, en þar byrjaði ég í september árið 2000. Kjörtímabilin eru því orðin sex, en kosið er í þessa stöðu á þriggja ára fresti.“
 
Björn segist aldrei hafa verið refabóndi en fyrstu afskipti hans af mink hafi verið þegar hann var í búvísindanámi. 
 
„Þá var boðið upp á nám í loðdýrarækt sem valgrein sem Magnús Jónsson, fyrrverandi rektor á Hvanneyri, kenndi ásamt Sigurjóni Bláfeld. Ég heillaðist alveg af þessu og þá sérstaklega minknum. Mér fannst það spennandi tilhugsun að vinna með þessi dýr og rækta. Síðan fór ég að kenna  við Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal í þrjú ár. Þar kenndi ég bóklega hlutann af loðdýraræktinni, en Álfheiður Marínósdóttir sá um verklega hlutann. Þá var nýbúið að flytja inn mink og ref til Hóla.   
 
Byrjaði í minkaræktinni 1984
 
Árið 1984 flytjum við austur á Vopnafjörð og þá byrja ég strax um haustið með mink og var síðan í minkarækt þar til haustið 2017. Þannig að árin í þessari grein urðu akkúrat 33.“
 
Stofninum skipt út vegna veirusýkingar
 
„Á þessum árum var verið að ljúka niðurskurði á sýktum stofni minka á Íslandi sem hafði verið fluttur inn frá Noregi á árunum 1968 til 1969. Sá stofn var allur sýktur af plasmacytosis, sem er veirusjúkdómur sem  skyldur er riðuveiki og er ólæknandi. Árið 1982 var fluttur inn nýr ósýktur stofn frá Danmörku og síðan af og til þar til reglu var komið á innflutninginn 2002. Eftir það hafa verið flutt inn dýr á hverju ári. 
 
Það tókst alveg ótrúlega vel að hreinsa okkur af pestinni og skipta út stofninum. Síðan hafa ekki komið upp nema örfá tilvik og þá vegna smits frá villtum mink.
 
Það þurfti að taka allt í gegn á sýktu búunum. Þar var allt sótthreinsað, einhverju af innréttingum skipt út og skipt um jarðveg. Var þetta gríðarlega umfangsmikið verkefni, en lukkaðist vel. Ég held að það sé á engan logið þótt Eggerti Gunnarssyni dýralækni sé þakkað fyrir hans þátt í því verkefni. Hann stýrði því meira og minna hvað faglegu hliðina snerti og gerði það afskaplega vel. Eggert á því heiður skilið fyrir baráttu sína við að útrýma þessum sjúkdómi og kenna bændum að verjast smiti,“ segir Björn.
 
Erfiður veirusjúkdómur
 
Sjúkdómurinn mink plasmacytosis, sem stundum er líka nefndur „Aleutian disease“, barst til landsins með mink sem fluttur var til landsins frá Noregi. Hann veldur fósturláti hjá minkum og þekkist einnig í frettum og öðrum dýrum af marðarætt. Talið er að sjúkdómurinn hafi borist til Noregs með dýrum sem flutt voru frá Kanada, en Norðmenn voru upphafsmenn að minkarækt sem húsdýrarækt í Evrópu. Leituðu Norðmenn í smiðju Kanadamanna sem voru fyrstir í heiminum til að halda mink. Það var á Prince Edward eyju, í St Lawrensflóa í austurhluta Kanada upp úr miðri nítjándu öld. Þar var minkurinn lokaður af á eyjunni og dýrin veidd á haustin vegna skinnanna.
 
Upp úr aldamótunum 1900 var fluttur minkur til Noregs og urðu norskir bændur fljótt mjög öflugir í ræktun á mink og ref. Þaðan breiddist loðdýraræktin svo út til annarra Evrópulanda.
 
Íslendingar hafa leitað í smiðju Dana
 
Bestum árangri í minkaræktinni hafa Danir þó náð og þangað hafa íslenskir minkabændur sótt sín eldisdýr í fjölda ára. Segir Björn að Danir hafi verið mjög skipulagðir í sinni rækt strax frá upphafi og séu nú öflugastir á heimsvísu hvað gæðaframleiðslu varðar. Þá hafa þeir einnig verið í forystu með strangar aðbúnaðarreglur sem aðrar þjóðir eins og Íslendingar hafa verið að fylgja eftir. Nú standa íslenskir minkabændur einmitt á tímamótum hvað varðar innleiðingu á nýjum og rýmri búrum í minkaeldinu að hætti Dana. Danir höfðu þegar fyrir nokkrum árum lokið að mestu við að skipta út gömlum galvaníseruðum vírbúrum fyrir ný endingarbetri og stærri búr með ryðfríu stálneti. Það er mjög kostnaðarsöm aðgerð. Sú endurnýjun hittir nú á versta tíma fyrir íslenska loðdýrarækt vegna mikils verðfalls á skinnum samhliða hækkandi launakostnaði og háu gengi krónunnar. Það er samt yfirlýst stefna yfirvalda að standa við bakið á loðdýraræktinni hér á landi. Vonast Björn því til að minkabændur komist yfir þennan erfiða hjalla þótt fimm bændur hafi hætt í greininni í haust og þar á meðal hann sjálfur. 
 
Aðeins þrjú uppboðshús eftir á heimsvísu
 
Björn segir að þegar best lét hafi verið fjögur skinnauppboðshús á Norðurlöndunum. Þau voru hjá Kobenhagen Fur í Danmörku, í Osló í Noregi, í Stokkhólmi í Svíþjóð og í Helskinki í Finnlandi. Þar að auki voru uppboðshús í Leningrad í Rússlandi, Seattle í Bandaríkjunum, Toronto í Kanada og stærsta uppboðshúsið var á sínum tíma Hudson Bay í London. Nú eru aðeins þrjú uppboðshús eftir í heiminum, þ.e. í Danmörku, í Finnlandi og í Toronto í Kanada. Af þessum húsum er Kopenhagen Fur langsamlega stærst og þar selja íslenskir loðdýrabændur öll sín skinn. 
 
Dýravelferð og sjálfbærni eru lykilatriði í evrópskri skinnaframleiðslu
 
Þótt Danir séu leiðandi í loðdýrarækt og sölu á skinnum þá eru Kínverjar líka mikilvirkir minkaskinnsframleiðendur. Þar er regluverkið þó ekki í samræmi við kröfur sem þekkjast í Evrópu, m.a. hvað varðar dýravelferð, og þess vegna selur ekkert uppboðshúsanna skinn frá kínverskum bændum. Kínverjar hafa aftur á móti verið öflugir kaupendur á gæðaskinnum frá Evrópu en talið er að offramleiðsla á skinnum á árunum 2013 og 2014 hafi leitt til ofmettunar á markaði sem enn sér ekki fyrir endann á. 
 
„Frá árinu 2020 munu uppboðshúsin svo ekki selja neitt nema vottuð skinn hvað varðar dýravelferð og aðbúnað búanna samkvæmt evrópskum reglum. Það gildir bæði um ref og mink.“
 
– Nú hefur verð á skinnum verið í lægð, er eitthvað í sjónmáli að úr því rætist á næstunni?
„Það er þó nokkuð í land ennþá að þau lönd sem eru með hæstan framleiðslukostnað séu að fá nægilega hátt verð. Það er hins vegar þannig að á undanförnum tæpum áratug hafa samkeppnisskilyrði versnað mikið í Norður- og Vestur-Evrópu í samanburði við Suður- og Austur-Evrópu. Það er að segja launakostnaður, orkukostnaður og fóðurkostnaður hefur hækkað mjög mikið sem og raunar allur annar framleiðslukostnaður. Verðið eins og það er fyrir skinn í dag hefði dugað okkur á Íslandi ágætlega fyrir tíu árum síðan. Jafnvel þótt við séum með jafn fíflalega skráð gengi nú og raunin er þar sem það er um 20% of hátt. Nú vantar okkur talsvert upp á til að ná endum saman og þar vega vinnulaunin á öllum stigum framleiðslunnar þyngst. Við þurfum að umreikna okkar kostnað í dollara þar sem tekjurnar eru í þeirri mynt. Þar erum við á síðustu þrem til fjórum árum að taka á okkur um 50% hækkun á launum.“ 
 
Sama lögmál í loðdýrarækt og í sauðfjárrækt
 
„Þetta er nákvæmlega það sama og aðrar útflutningsgreinar og þar með matvælaframleiðendur á Íslandi eru að glíma við. Það er m.a. ein af skýringunum á því hvað sláturkostnaður hefur hækkað mikið í sauðfjárslátrun. Laun annarra sem vinna við þá framleiðslu hefur líka hækkað mikið. Neytendur vilja hins vegar borga sem minnst til að eiga sem mestan afgang, m.a. til að eiga fyrir utanlandsferðum. Þeir geta svo líka fengið innflutta vöru fyrir sáralítinn pening vegna hás gengis krónunnar. Sá eini sem ekki fær hagstæðari kjör er bóndinn, sem er neyddur til að taka á sig mikla tekjuskerðingu til að mæta auknum kostnaði af launahækkunum annarra í virðiskeðjunni. Þetta er sá veruleiki sem við þurfum líka að glíma við í loðdýraræktinni.“
 
Skýringin á lágu skinnaverði er fyrst og fremst offramleiðsla
 
Björn segir að barátta dýraverndunarsinna gagnvart loðdýraræktinni skýri ekki nema að mjög litlu leyti, ef nokkru, það lága verð sem nú er á skinnum. Það sé fyrst og fremst heimsmarkaðsverð sem er lágt vegna langvarandi offramboðs. 
 
Á árunum 2010, 2011, 2012 og 2013 var gríðarlega mikil offramleiðsla á skinnum í heiminum. Á árinu 2012 komu rúmlega 80 milljónir skinna til sölu hjá uppboðshúsunum og 87 milljónir skinna árið 2013 en á árunum 2007 og 2008 var framleiðslan um 50 milljónir minkaskinna. Á þessum árum voru öll skinn seld fyrir mjög hátt verð. Það skýrðist helst af því að markaðurinn í Kína var að opnast. Þá var á hverju ári verið að opna fjölmargar verslunarmiðstöðvar í Kína með kannski 200–600 búðum sem seldu eingöngu pelsa. Ég man t.d. að á febrúaruppboði 2013 voru seld um 7 milljónir skinna í Kaupmannahöfn en það var nokkurn veginn sá fjöldi skinna sem á sama tíma fór til að fylla lager í einu nýju vöruhúsi í Kína. Þetta leiddi til þess að mikið safnaðist upp af skinnavöru sem var nánast öll eins vegna þess að á þeim tíma var nær engin tískuþróun í gangi í skinnavöru í Kína. Þeir vildu einfaldlega eignast pelsa eins og þeir höfðu séð myndir af frá Evrópu. Mikið af þessum pelsum eru ennþá til sölu í kínverskum verslunum því Kínverjar vilja nú kaupa sér annars konar pelsa, þ.e.  samkvæmt nýjustu tísku, sem oft eru úr lituðum skinnum. Jafnvel úr skinnum með rökuðum eða klipptum hárum. Í slíkri vöru er nú fín sala og ágætis afkoma hjá þeim sem stíla inn á þann markað. Aftur á móti er sáralítil hreyfing á vörum úr skinnum sem framleidd voru fyrir sex til sjö árum. Því er verkefnið nú að reyna að aðstoða verslanir við að koma þeirri vöru í verð. Því er nú hægt að fá í Kína flotta slíka pelsa fyrir um 5.000 danskar krónur sem þykir lítið.
 
Nú er gert ráð fyrir að á heimsmarkaði á þessu ári komi til sölu hjá uppboðshúsum um 45 milljónir skinna, eða um helmingur þess sem var þegar framleiðslan var í hámarki.“
 
Björn telur því að markaðurinn muni hægt og bítandi rétta úr kútnum og að skinnaverð fari að hækka. Því sé þetta spurning um  hvort mönnum verði hjálpað til að þrauka yfir þennan erfiða tíma til að verja þau verðmæti sem felast í greininni. 
 
-En það heyrist samt utan úr heimi að mikill áróður sé fyrir að skipta úr náttúrulegum loðskinnum yfir í skinn sem búin eru til úr gerviefnum, þ.e. plastefnum. Mun það ekki eyðileggja grunninn fyrir loðdýraeldinu?
 
„Nei, það mun ekki gerast. Það verður alltaf munur á gerviefni og náttúrulegu efni sem framleitt er með sjálfbærum hætti. Það kemur fram í endingartíma, áferð og mengunarfótspori. Þeir sem kynnst hafa raunverulegum pels úr náttúrulegu skinni sjá auðveldlega muninn á gæðunum. Það fólk sættir sig ekki við gerviefni. Gerviefnin geta út af fyrir sig verið ágæt ef mönnum finnst það allt í lagi að nota jarðolíu til að framleiða föt utan á sig. Einnig ef fólk sættir sig við að skilja eftir það spor í vistkerfinu sem hlýst m.a af örplasti sem nú dreifist um öll heimsins höf. Það er því mjög langt í það að gerviefnin geti komið í staðinn fyrir það besta í náttúrulegum afurðum.“
 
Nælon var efst á lista yfir sjálfbært hráefni til fatagerðar
 
Björn segir að mikið sé nú horft til þess að framleiðsla af öllu tagi sé sjálfbær gagnvart náttúrunni. Það eigi líka við varðandi framleiðslu á loðskinnum. Nú sé í gangi mjög stórt evrópskt verkefni undir stjórn Evrópusamtaka loðdýraframleiðenda. Þar er verið að reikna nákvæmlega út kolefnissporið við framleiðslu á loðskinnum. Því er stjórnað af Hollendingi sem hefur verið að gera það sama varðandi lambaskinn. 
 
Ég hitti þennan mann í fyrra og hann sagði mér að það hafi verið ótrúlegur slagur gegn því sem hann var að gera. Hann hafi verið að hitta stóra framleiðendur á íþrótta- og tískuvörum sem voru farnir að hugsa mikið um sjálfbærni þeirra hráefna sem þeir notuðu. Þá hitti hann fólk sem var með lista um sjálfbærni ýmissa efna frá ráðgjafarfyrirtækjum. Þar var hráefnum raðað eftir sjálfbærnimati ráðgjafarfyrirtækjanna. Þessi maður komst í þessa lista og þar var nælon í efsta sæti hvað sjálfbærni varðaði og náttúruleg ull í neðsta sæti.   
 
Ég var svo á ráðstefnu í Ungverjalandi þar sem þetta var til umræðu og þar kom í ljós hvernig í pottinn var búið. Þar var kona frá Þýskalandi sem sýndi okkur tölvupóstsamskipti hennar við ráðgjafarfyrirtæki sem var að selja ráðgjöf til fataframleiðenda um hversu mikil sjálfbærni hráefnisins sem þeir notuðu væri. Þessi kona var að selja skinn og gat fengið það fært upp um þó nokkra flokka á listanum ef hún keypti bara auka ráðgjöf af þessu fyrirtæki.
 
Þetta dæmi sýnir að menn eru að kaupa stimplana sem til þarf. Manni fallast eiginlega hendur við að sjá þetta því maður veit að peningamátturinn er svo ofboðslega mikill hjá þessum stóru aðilum sem eru að framleiða og selja gerviefnin. Þeirra hagsmunir eru svo gríðarlegir að einhverjir örfáir milljarðar evra í sölu loðskinna segir ekki neitt miðað við þá gríðarlegu fjármuni sem eru í olíu- og gerviefnaiðnaðinum. Við þetta þurfum við að berjast og það er bratt fjall að klífa.“ 
 
Sjálfbær framleiðsla er algjört lykilatriði
 
„Það þýðir ekkert að gefast upp því sjálfbær framleiðsla er algjört lykilatriði ef við ætlum ekki að eyðileggja okkar náttúru. 
 
Þar verðum við líka að taka til hendi varðandi þætti eins og sútun minkaskinna. Við verðum að horfast í augu við að hún hefur ekki verið sjálfbær fram að þessu frekar en önnur sútun. Þar eru menn samt að þróa góða hluti. Nú telja menn sig sjá fram á að geta notað eingöngu til sútunar hráefni sem ekki valda neinum umhverfisskaða. Þannig að sútunin sem slík verði sjálfbær. Ég sá skinn sem voru sútuð með þessari aðferð. Þar voru sérfræðingar sem sögðu að sútun skinna með þessari aðferð gæti náð sömu gæðum og skinn sem sútuð eru með kemískum efnum. Þetta er því mjög stórt skref við að gera alla þætti varðandi skinnaframleiðsluna sjálfbæra. Það er bara spurning um hversu langan tíma tekur að innleiða nýjar aðferðir. Það mun hjálpa þar til ef aðrir framleiðendur skinna og leðurs taka líka upp þessar aðferðir. Þetta er vissulega seinvirkara og þar af leiðandi dýrara vinnsluferli, en á móti kemur að það skaðar ekki náttúruna og jörðin endist mannkyninu því aðeins lengur.“
 
Sjálfbærni var ekki á dagskrá fyrir 15 árum
 
Björn segir að framleiðendur minkaskinna hafi lengi stefnt að aukinni sjálfbærni greinarinnar í sátt við náttúruna. 
 
„Á þeim tíma sem ég hef starfað í þessu hefur gríðarlega mikið gerst í þessa átt. Fyrir 18 árum var enginn að tala um sjálfbærni af nokkru tagi. Ekki heldur fyrir 15 árum. Það var trúlega fyrst fyrir um 10 árum að þeir fyrstu fóru að tala af alvöru um sjálfbærni greinarinnar. Allavega að menn yrðu að fara að huga að þessum málum. Síðan hefur mikið gerst. Það er búið að gera mikið átak í meðferð og umgengni við dýrin. Hvernig farið er með úrgang frá dýrunum og nú er verið að sýna fram á að menn séu á réttri leið. Bæði að menn séu að stunda þessa grein með velferð dýranna í huga á eldistímanum og á vistvænni hátt. 
 
Stóru tískuhúsin eru t.d. mjög ánægð með þetta velferðarkerfi sem er að fara í gang í loðdýraræktinni. Það kostar vissulega mikla fjármuni, m.a. vegna stækkunar á búrum. Ég tel nokkuð öruggt að margir muni hætta vegna aukins kostnaðar og að framleiðslan t.d. í Frakklandi leggist af vegna þess.
 
Hér á landi eru menn búnir að gera áætlanir um hvernig að þessu verði staðið og hvernig framkvæmdir verði fjármagnaðar. Þetta kemur vissulega á versta tíma um leið og skinnaverð er lágt. Hefðum við fengið þetta verkefni 2013, þá hefði þetta ekki verið mikið mál fyrir greinina. Núna er þetta mikið mál þar sem rekstraraðilar eru að fara inn í fimmta árið í röð með taprekstur.“  
 
Stækkun búra er hrein pólitísk ákvörðun
 
– Af hverju þarf að stækka búrin, eru dýrin orðin svona mikið stærri, eða hvað?
 
„Á bak við þessa kröfu er ekkert annað en hrein pólitísk ákvörðun. Það viðurkenna allir sem að þessu koma að það eru samt engar rannsóknir sem styðja rökin fyrir þessari ákvörðun.“
 
Það er greinilegt að Björn veit mæta vel hvað er í raun á bak við þá pólitísku ákvörðun sem þarna hefur verið tekin. Hann er þó ekki tilbúinn að tjá sig um það opinberlega, en samt er alveg ljóst að danskir framleiðendur og danska uppboðshúsið eru afgerandi og ráðandi öfl í þessum heimi. Þeir geta því auðveldlega með harðri stefnumótun í greininni haft áhrif til að útiloka þá aðila sem ekki vilja fylgja almennum skilningi um dýravelferð og sinna t.d. ekki reglum um fjölda dýra í búrum. Það skiptir síðan augljóslega miklu máli gagnvart almenningsálitinu að rekstrarsóðarnir fái ekki að komast upp með að eyðileggja orðspor greinarinnar í heild.  
 
Eins og fram hefur komið, er vitað að danskir minkabændur eru flestir ef ekki allir þegar búnir að stíga þessi dýravelferðarskref fyrir nokkru. Þeir eru því komnir í afar sterka samkeppnisstöðu á heimsmarkaði gagnvart öðrum framleiðendum. 
 
Ljóst er að skilyrðin sem sett hafa verið í greininni um dýravelferð og stærð búra munu ná til allra framleiðenda sem selja skinn hjá þeim fáu uppboðshúsum sem eftir eru. Því fleiri sem gefast upp vegna  kostnaðar, þeim mun fljótar mun skinnamarkaðurinn líka ná jafnvægi. Þá munu þeir sem þegar hafa farið í gegnum kostnaðarsamar breytingar auðvitað standa með pálmann í höndunum.  
 
Bjartsýnn á framtíð greinarinnar
 
Björn er þrátt fyrir allt bjartsýnn á framtíð minkaræktar á Íslandi.
 
„Ég er ekki í minnsta vafa um að pels verður áfram vinsæll. Það er mörg þúsund ára hefð á bak við notkun skinna til að klæða fólk á norðurhveli jarðar, allt frá nyrstu byggðum og niður í Kákasusfjöll. Það er ekkert sem bendir til að það sé að breytast. Ég er sannfærður um að skinnaverð mun rétta sig af, þar er bara spurning um að lifa af erfiða tíma.“
 
Ísland hefur alltaf verið hlynnt loðdýrarækt
 
Nú eru yfirvöld á Íslandi búin að gefa út mjög skýr skilaboð og skýrari en í nokkru öðru landi um að þeim hugnist að hafa hér loðdýrarækt. Það var samþykkt að setja peninga í að aðstoða menn við að komast í gegnum erfiðleika. Í framhaldi af því tók Byggðastofnun ákvörðun um að hjálpa bændum að fjármagna það sem upp á vantaði. Það eru líka mjög skýr skilaboð til bænda sem í þessari grein starfa. Ef bankarnir skilja ekki þau skilaboð, þá eru þeir sennilega á enn verri stað en ég hélt. 
 
Það er bara eitt land í Evrópu sem er pólitískt grænt hvað varðar afstöðu pólitíkurinnar til loðdýraræktar og þannig hefur það alltaf verið. Allan þann tíma sem ég hef verið formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda, þá er Ísland eina landið sem hefur verið algjörlega grænt í pólitískri afstöðu til greinarinnar. Sennilega er Úkraína þó líka að komast á þennan stað núna. Þar er mikill vilji fyrir því að byggja upp loðdýrarækt.“
 
Pólitískt umrót í Noregi þjappar bændum saman
 
– Nú hafa stjórnvöld í Noregi lýst andstöðu við greinina, mun það ekki hafa áhrif hér?
 
„Það er því miður búið að vera mikið basl í greininni í Noregi í mörg ár. Loðdýraræktin hefur staðið svolítið ein í norskum landbúnaði. Þessar yfirlýsingar stjórnvalda, þ.e. eins lítils stjórmálaflokks, hafa gert það að verkum að norskur landbúnaður hefur slegið skjaldborg um loðdýraræktina. Menn hafa áttað sig á því að ef loðdýraræktin verður slegin af þá er bara spurningin hvaða grein verður látin falla næst. Það er ljóst að ef „dýraverndunarsinnar“ innan stórra gæsalappa, vinna þennan slag, þá fá þeir vind í seglin til að ganga enn lengra. Norski landbúnaðurinn er búinn að átta sig á því og sameinaður er hann mjög sterkur. Þar, líkt og hér, byggist talsvert stór hluti hinna dreifðu byggða algjörlega á landbúnaði og sjávarútvegi. 
 
Ólíkt því sem hér hefur oft verið hefur ríkt meiri almennur og pólitískur skilningur fyrir því í Noregi að það þurfi að styðja landbúnaðinn kröftuglega út frá byggðasjónarmiðum. Án landbúnaðarins hrynja byggðirnar. Hér á landi vantar talsvert á að allir sem eru í landsmálapólitík skilji þetta samhengi hlutanna,“ segir Björn Halldórsson. 

9 myndir:

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt