Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Heyskapur í Flatey í Hornafirði í sumar. Þar var mikil spretta og veðráttan eins og best verður á kosið.
Heyskapur í Flatey í Hornafirði í sumar. Þar var mikil spretta og veðráttan eins og best verður á kosið.
Mynd / Vilborg Rún Guðmundsdóttir
Fréttir 14. ágúst 2025

Víða metuppskera á heyi

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið ræddi við nokkra bændur víða um land sem voru allir sammála um að heyskapur hafi gengið vel og eiga þeir góðar birgðir af gróffóðri sem er jafnframt af miklum gæðum.

Jóhannes Kristjánsson, bústjóri Hvanneyrarbúsins, segir að samkvæmt hans bestu vitund hafi heyskapur á Hvanneyri aldrei byrjað jafnsnemma og í ár. „Við byrjuðum að slá fyrir kýrnar 26. maí og mig minnir að sá sláttur hafi klárast 8. júní,“ segir Jóhannes.

Í lok júní hafi tekið við vætutíð sem hélt áfram inn í júlí. „Þegar þurrkur kom var hann lélegur og ótryggur. Því var fyrsta háin ekki slegin fyrr en í kringum mánaðamótin júní-júlí. Það er hefðbundið að slá há á þessum tíma, en núna leið miklu lengri tími milli fyrsta og annars sláttar en venjulega. Að stærstum hluta voru gæðin þokkaleg þrátt fyrir þennan tíma sem leið.“

Jarðvegur var snemma heitur

Jóhannes skýtur á að uppskeran sé 50 til 60 prósent meiri en að jafnaði. „Það hefur verið miklu heitara í ár en í meðalári og það hafa skipst á sólar- og rigningarkaflar sem eru mjög góðir fyrir sprettuna. Þá gerði þessi hiti í maí það að verkum að jarðvegur var snemma orðinn heitur og næringarefnalosun frá jarðvegi er miklu meiri en í meðalári.

Sprettan er eiginlega til vandræða því að við erum komin með meira en nóg af heyi. Ef túnin fara kafloðin inn í veturinn verður sá gróður bara sina á næsta ári sem minnkar gæði heysins. Það er spurning hvað við gerum með þriðja sláttinn, því það verður ekki hey sem við þurfum. Kannski notum við ruddasláttuvél frekar en að hirða heyið og setja í plast.“

Aðspurður segir Jóhannes ekki hafa gefist tími til að slá engin á Hvanneyri. „Veðurfar var þannig að við náðum því ekki á réttum tíma, og eins og ég segi þá erum við komin með meira en nóg af heyi. Allur tíminn fór í annan heyskap. Ég geri ráð fyrir að hreinsa af þeim í haust þannig að þau geti verið nýtt næsta sumar.“ Jóhannes segir greinilegt að heyskapur gangi vel víða um land, því að það sé orðið erfitt að fá rúlluplast í þeim lit sem óskað er eftir. „Það er eitthvað til, en lítið af hvítu.“

Sjaldgæfur þriðji sláttur í Vesturbyggð

Jóhann Pétur Ágústsson, sauðfjárbóndi á Brjánslæk í Vesturbyggð, segist vera ánægður með uppskeru sumarsins. „Það er búið að vera hlýtt með smá vætuköflum, þannig að sprettan hefur verið mögnuð. Við náðum mjög góðum heyjum snemma sem nýtast fyrir sauðburð og annað. Allt hey sem við eigum er alveg sprekþurrt. Heyskapurinn var heldur fyrr en á undanförnum árum og háarslátturinn er búinn að vera mjög snemma,“ segir Jóhann.

„Almennt hefur gengið mjög vel að heyja hér í sveitinni,“ segir hann. Samkvæmt Jóhanni er einn sveitungi búinn að slá sum túnin þrisvar sem er frekar sjaldgæft á þessu svæði. „Þetta er allt annað en í fyrra þegar við gátum ekki slegið hluta af túnunum þar sem vatnið hafði safnast í tjarnir.“

Birgðir út næsta ár

Hákon Bjarki Harðarson, kúa- og geitabóndi á Svertingsstöðum í Eyjafirði, segir kúabændur í sinni sveit hafa byrjað að heyja upp úr 5. júní. „Það var algjör metuppskera og gæðin heilt yfir góð. Ég er búinn að vera bóndi í tíu ár og við höfum aldrei fengið svona uppskeru áður. Úr fyrstu tveimur umferðunum erum við komin í yfir fjörutíu rúllur á hektarann, en í öllum þremur umferðunum í fyrra fengum við innan við þrjátíu,“ segir Hákon. Veðráttan hafi hins vegar ekki verið nógu skemmtileg þar sem flesta daga voru einhverjar skúrir. Erfitt hafi því verið að þurrka hey. Þetta sé hins vegar betra en í fyrra þegar mikill kuldi fylgdi votviðrinu.

„Þetta hefur þá þýðingu að menn eiga það miklar heybirgðir næsta árið að þeir geta leyft sér að fara meira út í jarðrækt og kornrækt. Ég er til að mynda kominn með birgðir fram undir lok ársins 2026. Ef það kemur aftur svona sumar á næsta ári getum við lent í vandræðum, því við höfum ekkert pláss fyrir allt þetta hey. Við ætlum því í aukna kornrækt næsta sumar,“ segir Hákon.

Skólabókardæmi um kjöraðstæður

„Þetta var algjör draumur,“ segir Birgir Freyr Ragnarsson, bústjóri kúabúsins í Flatey í Hornafirði, aðspurður um hvernig heyskapur hafi gengið í sumar. „Heyskapur getur bæði verið skemmtilegur og leiðinlegur. Í ár var hann mjög skemmtilegur á meðan síðustu tveimur sumrum hafa fylgt meiri áskoranir. Það voraði snemma og veðráttan var góð.“ Gæði uppskerunnar séu jafnframt mikil og tókst að slá allt kúahey rétt fyrir skrið.

„Uppskeran í fyrsta slætti var álíka mikil og báðum í fyrra – eða því sem næst,“ segir Birgir. „Það var oft rigning og fimmtán stiga hiti og svo kom í kjölfarið glampandi sól og tuttugu stiga hiti,“ útskýrir Birgir og tekur fram að veðráttan hafi eiginlega verið eins og skólabókardæmi um kjöraðstæður fyrir grasrækt. „Aðalheyskapurinn var 20. til 25. júní, sem er eins og vant er hérna. Við vorum samt tveimur til þremur vikum fyrr en í fyrra. Annar sláttur hófst um verslunarmannahelgina og klárast væntanlega núna um helgina. Í fyrra og hitteðfyrra vorum við að braska við hána í september. Ég er fullur bjartsýni og hlakka til að gefa allt þetta hey sem við eigum,“ segir Birgir.

Kúvending frá því í fyrra

Hafsteinn Jónsson er holdanautabóndi í Akurey í Landeyjum. Hann ræktar jafnframt hey á Stórólfsvöllum og í Gunnarsholti til útflutnings til Færeyja. „Þetta fór snemma af stað í ár en það vantaði aðeins upp á sprettuna í byrjun vegna þurrviðris í maí og júní. Það sem var slegið snemma var ekki af miklu magni, en af góðum gæðum. Yfir mitt sumarið var tíðarfarið svolítið að stríða okkur með stuttum þurrkum á meðan það kom óhemjumikið magn af heyi.

Fyrsti slátturinn hófst upp úr miðjum júní. Við erum einnig búin með annan slátt og túnin halda áfram að spretta. Það getur verið að ég taki þriðja slátt af einhverju sem þarf að skafa af. Við erum komin með meira en nóg magn af heyi og víðast hvar er feikna uppskera. Ég sé víða að það er hafinn þriðji sláttur hjá þeim sem slógu fyrst. Þetta er alveg kúvending frá því í fyrra, en þá var kalt og túnin sein að taka við sér,“ segir Hafsteinn.

Skylt efni: heyskapur

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...

Úthlutun í fyrsta sinn
Fréttir 28. nóvember 2025

Úthlutun í fyrsta sinn

Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögun...