Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Texel-holdakynið er m.a þekkt fyrir mikla burðarhjálp.
Texel-holdakynið er m.a þekkt fyrir mikla burðarhjálp.
Á faglegum nótum 20. desember 2017

Vaxtarlag sauðfjár og burðarerfiðleikar

Höfundur: Ólafur Dýrmundsson
Í byrjun ágúst 2016 var höfundi boðið að flytja erindi um íslenska sauðfjárrækt á ráðstefnu sem Sauðfjárræktarsamband Lettlands (LAAA) efndi til í Rujiene, 160 km norður af höfuðborginni Riga, skammt frá landamærunum að Eistlandi.
 
Í Lettlandi, líkt og í hinum Eystrasaltsríkjunum, eru mörg sauðfjárbúin komin með lífræna vottun. Erlendu gestirnir auk mín voru frá Færeyjum, Danmörku, Noregi, Finnlandi, Þýskalandi og Bretlandi.
 
Ráðstefnan var vel skipulögð og ánægjuleg en þar var m.a. fjallað um kosti og galla hinna ýmsu fjárkynja í norðanverðri Evrópu.
 
Burðarerfiðleikar
 
Á meðal umræðuefnanna voru burðarerfiðleikar (dystocia) sem geta m.a. tengst notkun þaulræktaðra holdahrúta en víða er nú lögð áhersla á að gera sauðburð auðveldari og  draga úr fyrirhöfn og kostnaði. Var einkum vikið að þrem  þáttum sem geta skipt miklu máli þegar  leitast er við að halda burðarerfiðleikum í lágmarki, þ.e.a.s. bætt velferð ánna, minni vinna og streyta fjárhirðis á sauðburði og  minni dýralækniskostnaðar sem tengist burðarhjálp, lyfjanotkun og keisaraskurði. 
 
Burðarerfiðleikar eru greinilega mismiklir eftir sauðfjárkynjum en auk erfðaþáttarins þarf að taka tillit til umhverfistengdra þátta svo sem fóðrunar, heilsufars, útivistar og innistöðu, einkum á seinni hluta meðgöngutíma. Þá getur frjósemi haft veruleg áhrif því að oft eru erfiðir burðir tengdir einlembingsfæðingum. Einnig má nefna aldur áa þar sem gemlingar og ær sem eru að bera í fyrsta skipti lenda frekar í burðarnauð en eldri ær. 
 
Víða erlendis, þar sem blendingsrækt með ólík fjárkyn er stunduð við framleiðslu sláturlamba, geta komið  fram burðarerfiðleikar, sérstaklega þegar notaðir eru hrútar af  stórvaxnari holdakynjum  á ær af smávaxnari kynjum. Best er þó að alhæfa ekki um þessi efni. Oft er reynsla hvers bónda notadrýgst og gefur ganglegar vísbendingar um hvernig best er að draga úr tíðni erfiðra fæðinga og burðarhjálpar á vorin.
 
Charollais-kynið – auðveldari burður
 
Kynning þeirra  Jonathan and Carrol Barber frá Bretlandi á Charollais fjárkyninu vakti mikla athygli á ráðstefnunni í Rujiene. Upprunalega er um franskt kyn að ræða frá Saone et Loire svæðinu, því sama og þekkt er fyrir ræktun Charolais holdanautgripa. Þetta fé var fyrst flutt til Bretlandseyja fyrir 40 árum og eru hrútar af því nú mikið notaðir við framleiðslu blendingslamba til slátrunar með sama hætti og  t.d. breska kynið Suffolk og hollenska kynið Texel. 
 
Líkt og þau kyn er Charollais þaulræktað holdakyn en við mótun þess á 19. öld komu við sögu bæði frönsk og bresk fjárkyn. Hrútarnir gefa væn, þéttvaxin og vöðvamikil föll , án þess að vera of feit. 
Það sem hefur aukið  vinsældir kynsins  samanborið við önnur slík er þó sá eiginleiki að ær sem fá við Charollais hrútum eiga auðveldara með burð og mun minna er um burðarerfiðleika en t.d. þegar hinir holdmiklu Texel hrútar koma við sögu.  Rétt er að geta þess að bæði kynin eru ágætlega frjósöm og allt er kollótt.
 
Kynbótasjónarmið
 
En hugum nánar að vaxtarlaginu sem þau Jonathan og Carrol töldu mikilvægt þegar kemur að erfiðleikum við burð.
 
Dálítið má glöggva sig á meðfylgjandi myndum hve vaxtarlagið á Charollais  og Texel er frábrugðið, einkum frambyggingin. Texel er kubbslegt og kassalaga  fé með miklar útlögur en Charollais féð hefur ekki eins breiðar herðar og framparturinn er sívalari. Með því að leggja mikla áherslu á fleygmyndaðar herðar til að draga úr burðarerfiðleikum segjast ræktendur Charollais fjár hafa mótað nokkra sérstöðu í samanburði við önnur þaulræktuð holdakyn. 
 
Þannig er ljóst að vaxtarlag er  erfðaeiginleiki sem getur skipt máli þegar leitast er við að draga úr burðarerfiðleikum áa. Dæmi um slíkt eru rannsóknaniðurstöður sem  dr. Cathy M. Dwyer og samstarfsfólks í Landbúnaðarháskólanum í Edinborg kynntu 2012. 
 
Þær sýndu að í skoskum fjárhjörðum megi ná töluverðum árangri með markvissri  skráningu burðarhjálpar og úrvali þar sem arfgengið  0.26 hafi mældist fyrir 11.000 lamba gagnasafn. Í sauðfjárrækt víða um lönd  er vaxandi áhersla lögð á að ær beri sem mest án hjálpar (easy-care), bæði vegna hagkvæmnissjónarmiða og krafna um bætta velferð fjárins, eins og áður var vikið að.
 
Hugleiðingar um íslenska féð
 
Miðað við önnur fjárkyn hefur íslenska féð verið þekkt fyrir lága tíðni burðarerfiðleika þar sem slíkur samanburður er þekktur, einkum í Norður-Ameríku og á Bretlandseyjum, aðallega eftir 1990. Þarna liggja þó ekki neinar samanburðarrannsóknir að baki, eingöngu reynsla og álit fjárbænda.  
 
Líkt og erlendis er þessi eiginleiki vel metinn hér á landi og nú á dögum þegar fjárbændur og búvísindamenn beggja vegna Atlantshafs sýna útflutningi íslensk fjár vaxandi áhuga af ýmsum ástæðum er vert að hafa þetta í huga. Þeir eru ekki aðeins að leita eftir harðgeru og frjósömu fé með mikla litafjölbreytni heldur einnig  holdafé með það í huga að nota þaulræktaða íslenska hrúta við blendingsrækt líkt og Charollais og Texel. 
 
Þetta endurspeglar þær miklu breytingar á vaxtarlagi o.fl. eiginleikum sem tengjast vöðvamiklum og fitusnauðum skrokkum, einkum eftir að ómsjármælingar  hófust hér á landi fyrir nær 30 árum. 
 
Vaxtarlag íslenskra úrvalshrúta
 
Af lýsingum á úrvalshrútum í hinum víðlesnu og vinsælu hrútaskrám sauðfjársæðingastöðvanna má m.a. sjá að margir þeirra hrúta hafa mikla frambyggingu. 
 
Lýsingar á borð við; „háls sver og herðar breiðar og vel holdfylltar“, – „háls stuttur og vel tengdur við mjög holdmiklar herðar“, – „breiðar og miklar herðar, breiða  bringu og miklar útlögur“, – „mikil vídd og góð lögun er í framparti“, – „mjög breiðvaxinn og bolvíður hrútur“, gefa þetta vel til kynna. 
 
Þá hlýtur að vakna sú hugleiðing hvort eða hvernig þetta vaxtarlag frambyggingarinnar sé farið  að leiða til aukinnar  tíðni erfiðra burða og burðarhjálpar. Einnig er spurningin hvort hugsanlega komi fram breytingar á mjaðmargrind áa við ræktun mjög þéttvaxins holdafjár. Aftur er mér hugsað til Texel og alþekktrar burðarnauðar í því kyni. Þar er vel þekkt kryppa á baki vegna mikillar vöðvasöfnunar en slíkt var þekkt í Stramma 83-833 og afkvæmum hans og í Hrútaskrá 2017-2018 kemur fram á bls. 36 að sæðingahrútur honum óskyldur, Magni 13-944, sé með vott af kryppu. 
 
Sú spurning hlýtur þá einnig að vakna hvort eða hvernig þessi bakholdaeiginleiki tengist bæði beina- og vöðvabyggingu í afturhluta ánna og þar með eiginleikum þeirra til að bera með náttúrulegum hætti, án hjálpar. Hvort er holdaféð okkar að líkjast Texel eða Charollais hvað vaxtarlag varðar?
 
Charollais-holdakynið er m.a. þekkt fyrir auðveldan burð.
 
Skráning burðarhjálpar í skýrsluhaldinu
 
Út frá framangreindum hugleiðingum er við hæfi að bera lof á þá nýbreytni í sauðfjárskýrsluhaldinu að gefa kost á skráningu vegna burðarhjálpar, allt frá smávægilegri eða lítilli hjálp til erfiðra fæðinga og keisaraskurða.  Þar með er unnt að skrá ástæður burðarhjálpar, svo sem hvort ærin sé þröng. 
 
Eins og áður var vikið að, út frá umræðum á ráðstefnunni í Rujiene og rannsóknum í Skotlandi,  ættu að safnast mjög gagnlegar upplýsingar frá fjölda íslenskra fjárbúa á næstu árum sem skapa  grundvöll til rannsókna á umfangi burðarhjálpar og þar með hugsanlegra tengsla þess vandamáls við ákveðna hrúta. Þá má reikna með að aukin holdanautarækt kalli á nánari skoðun á burðarerfiðleikum í kúm.
 
Vegna þess hve ég tel skráningu burðarhjálpar áa í skýrsluhaldinu mikilvæga legg ég til að hún verði ekki lengur valfrjáls heldur skylda.
 
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson
Höfundurinn er áhugamaður um náttúrulegan burð, án hjálpar.  Hann er fulltrúi Dýraverndarsambands Íslands í Fagráði um velferð dýra.
Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...