Vaxandi ferðaþjónusta á nyrsta byggða bóli landsins
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Fuglalífið, og þá sérstaklega lundarnir, miðnætursólin og heimskautsbaugurinn er það sem dregur flesta út í Grímsey. Grímsey er nyrsta byggða ból Íslands, eini staðurinn þar sem heimskautsbaugurinn sker landið og þar er að finna lítið og samheldið samfélag sem vekur forvitni gesta,“ segir María Helena Tryggvadóttir, verkefnastjóri ferðamála hjá Akureyrarstofu.
Sveitarfélögin Grímsey og Akureyri sameinuðust árið 2009. Verulegur vöxtur hefur verið í ferðaþjónustu í Grímsey undanfarið, æ fleiri skemmtiferðaskip leggja leið sína þangað og farþegar þeirra skoða sig um á eyjunni á meðan staldrað er við, en að auki koma ferðalangar ýmist með áætlunarflugi eða ferju út í eyju.
Áhuginn vex
María Helena segir að Grímseyingar taki auknum straumi ferðafólks fagnandi og bjóði upp á nýja þjónustu og afþreyingu sem ekki var áður fyrir hendi.
„Við finnum það að áhugi bæði einstaklinga og ferðaskrifstofa á eyjunni í norðri hefur aukist til muna hin síðari ár. Fyrirspurnir eru talsvert fleiri en áður hefur verið. Þessi áhugi fer heldur ekki framhjá heimamönnum sem verða varir við síaukinn áhuga umheimsins á þeirra heimkynnum,“ segir hún.
Fleiri skemmtiferðaskip
Nú í sumar boðuðu alls 33 skemmtiferðaskip komu sína til Grímseyjar, mun fleiri en áður, sem dæmi komu 11 slík skip þangað árið 2016. Flogið er til Grímseyjar þrisvar í viku yfir veturinn en daglega yfir hásumarið. Flugfarþegum hefur þó fækkað, sem María Helena segir að rekja megi til þess að dregið hafi verið úr framboði á flugi hluta úr sumri, það sé slæmt í ljósi hins vaxandi áhuga ferðafólks á að komast þangað.
Áætlunarferja siglir til Grímseyjar allt árið, þrjár ferðir í viku yfir veturinn, en í fyrrasumar var bætt við ferðum og voru þá í boði fimm ferðir í viku og hefur svo einnig verið nú í sumar. „Farþegum með ferjunni hefur fjölgað um 1.500 manns undanfarin ár, eða á tímabilinu frá árinu 2015 til ársins 2017,“ segir hún og bætir við að til viðbótar bjóðist nú einnig útsýnisflug frá Akureyri til Grímseyjar með viðkomu í eyjunni.
Æ meiri afþreying í boði
María Helena segir að aukinn straumur ferðamanna hafi hleypt lífi í ferðaþjónustuna í Grímsey. Nefnir hún sem dæmi að hjólaleiga sé fyrir hendi, afþreyingarfyrirtækið Artic Trip bjóði upp á gönguferðir með leiðsögn, köfun með lunda, siglingar og ýmislegt fleira. Í boði eru einnig ferðir með gömlum Akureyrarstrætó sem mælst hafa vel fyrir meðal ferðalanga. Auk þessa eru í eyjunni veitingastaðurinn Krían, verslun, gjafavöruverslun og kaffihúsið Gullsól. Nýtt tjaldsvæði var opnað við sundlaugina en einnig eru gistiheimili fyrir hendi í eynni. Allar upplýsingar um afþreyingu og það sem hægt er að taka sér fyrir hendur í Grímsey er að finna á heimasíðunni www.grimsey.is.
Nýtt kennileiti vekur athygli
Á liðnu hausti, 2017, var vígt nýtt kennileiti fyrir heimskautsbauginn, „Hringur og kúla“ /“Orbis et Globus“, sem marga fýsir að sjá. Því til viðbótar voru settir upp þrír aldamótasteinar til að merkja staðsetningu baugsins þegar hann fyrst kom inn á Grímsey árið 1717, annar steinn gefur til kynna hvar baugurinn lá árið 1817 og sá þriðji árið 1917. Nýja kennileitið verður fært reglulega til að gefa til kynna staðsetningu heimskautsbaugsins hverju sinni. Verkið var fært í fyrsta sinn í byrjun sumars á hátíðinni Sumarsólstöður sem efnt var til í júní síðastliðnum.