Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Undarlega fjölbreyttir möguleikar í gæðavottun afurða í Evrópu
Fréttir 13. nóvember 2014

Undarlega fjölbreyttir möguleikar í gæðavottun afurða í Evrópu

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Sérstök gæðavottun vara frá landbúnaði hefur enn sem komið er ekki verið sérlega útbreidd hér á landi.

Margir telja ástæðuna einfaldlega vera þá að neytendur geti treyst og treysti íslenskum bændum og afurðastöðvum þeirra til þess að framleiða góðar vörur. Þá er vitað að bæði áburðar- og eiturefnanotkun íslenskra bænda er hverfandi miðað við það sem þekkt er erlendis.


Hér á landi eru þó til og í notkun allmörg gæðavottunarkerfi sem notuð eru um íslenskar landbúnaðarvörur s.s. Skráargatsmerkingar, vistvæn merking eða lífræn vottun svo dæmi séu tekin. Víða í Evrópu gengur markaðsstarf og markaðssetning landbúnaðarvara mjög mikið út á vottun og merk-ingar, en þegar kafað er aðeins dýpra í merkingarnar kemur í ljós að það er alls ekki auðvelt fyrir neytendur að átta sig á þeim.

Neytendur treysta merkjum

Á heimasíðu Evrópusambandsins, þar sem fjallað er um lífræna vottun afurða, kemur fram að yfir 70% íbúa sambandslandanna treysta vörum sem hafa lífræna vottun en 60% þeirra vilja sjá aukna skilvirkni í merkingum. Skýringin á þessu er sú að innan landa Evrópusambandsins eru í notkun mörg hundruð vottunarkerfi sem að hluta til votta lífrænar afurðir en einnig margs konar aðrar útfærslur við framleiðslu varanna! Við einfalda yfirferð vottunarkerfa komst greinarhöfundur að því að a.m.k. 300 ólík kerfi eru til í dag og sjálfsagt miklu fleiri – og það einungis hér í Evrópu!

Mörg kerfi kalla á svindl

Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til þess að sjá gallana við að hafa mörg og ólík kerfi til að votta landbúnaðarvörur, enda býður það hættunni heim varðandi svindl. Fyrir þremur árum kom einmitt upp slíkt mál í Evrópu, þar sem í ljós kom að „lífrænt“ vottaðar vörur frá Ítalíu voru einfaldlega hefðbundnar en höfðu fengið vottun af mafíunni þar í landi. Það tók lögregluna langan tíma að komast að þessu svindli, sem hafði staðið a.m.k. frá 2007–2011 og á þeim tíma hafði mafíunni tekist að selja 700 milljónir kílóa af vörum til margra landa þar sem fyrirtæki höfðu svo pakkað og selt áfram til neytenda. Eftir þetta hafa t.d. margir danskir neytendur sett almennan fyrirvara við vottaðar vörur frá Ítalíu svo dæmi sé tekið.

Neytendur treysta „sínum“ merkjum

Þegar horft er til vottunar vara, hvort heldur hún er lífræn, sk. umhverfisvæn, kolefnisjöfnuð eða hvað annað, þá hefur hvert land í Evrópu sitt eigið kerfi og sínar eigin áherslur. Svo virðist sem neytendur treysti í raun best þeim merkjum sem eiga uppruna sinn í heimalandi þeirra. Þetta er í raun vel skiljanlegt enda liggur ábyrgðin á vottuninni þá einnig á einhverjum sem stendur neytandanum nær en t.d. eftirlitsaðilanum á launaskrá mafíunnar í Ítalíu.

ESB reynir að samræma merkingar

Vegna allra þessara ólíku merkingakerfa hefur Evrópu­sambandið nú reynt að koma á samræmdri merkingu en það gengur afar hægt í raun. Þetta er þó talið nauðsynlegt skref í hinu frjálsa flæði vara innan landa Evrópusambandsins. Vörur sem hafa þetta græna merki eiga allar að uppfylla lágmarkskröfur ESB um lífræna vottun og eru vörurnar auk þess með kennitölu sem er að fullu rekjanleg.

Sameiginleg norræn merki

Norðurlöndin hafa alla tíð verið framarlega í vottun á vörum og er Skráargatsmerkið gott dæmi. Þetta vottunarkerfi var fundið upp í Svíþjóð fyrir meira en 20 árum og er nú í notkun bæði hér á landi, í Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Þetta merki hefur ekkert með lífræna framleiðslu að gera heldur vottar að viðkomandi vara innihaldi minna magn af fitu, salti og sykri og þar sem það á við meira af heilu korni og trefjum. Alls nær skilgreiningin fyrir Skráargatið yfir 25 flokka matvæla og er öllum matvælaframleiðendum frjálst að nota Skráargatið sér að kostnaðarlausu, en merktar vörur verða þá að uppfylla þau næringarviðmið sem gilda fyrir hvern flokk matvæla. Það eru stjórnvöld á Norðurlöndum sem sjá um skilgreiningarnar fyrir vöruflokka Skráargatsins og gera það í gegnum hið norræna samstarf.

Svanurinn og blómið

Annað sameiginlegt norrænt merki er hið þekkta svansmerki, sem finna má á ýmsum vörum hér á landi. Þetta merki táknar að varan er umhverfisvæn, þ.e. hefur ekki þekkt skaðleg áhrif á umhverfið. Þetta merki er einungis notað á Norðurlöndunum en innan Evrópusambandsins er til sambærilegt merki sem oftast er bara kallað „Blómið“. Það merki hefur í raun sömu merkingu og „Svanurinn“ og má sjá víða á vörum en einnig þjónustu s.s. á tjaldsvæðum svo dæmi sé tekið. Neytendur eiga að geta treyst því að þar sem þessi merki sjást, þá hafi viðkomandi söluaðili fengið vottun á vöru sína eða þjónustu.

Ótal önnur merki

Innan Norðurlandanna má finna ótal önnur vottunarkerfi og merkingar bæði á matvörum og öðrum vörum. Þannig notar t.d. Coop-verslunarkeðjan merkið „Änglamark“ yfir vörur sem geta verið lífrænt framleiddar (þ.e. sé um matvöru að ræða) en einnig um vörur sem einungis eru framleiddar með vistvænum efnum eða eru t.d. ekki ofnæmisvaldandi. Annað dæmi má nefna eins og þekkt skrásett norræn vörumerki. Á bak við slík merki er þá oftast skilgreining á gæðum sem viðkomandi vara þarf að uppfylla, en oftar en ekki er þá um vörumerki einstaks framleiðanda að ræða.

Verður varla einfalt

Margar stórar verslunarkeðjur eru byrjaðar að móta sína eigin umhverfisstefnu og nota eigin merk-ingar í stað þess að nota opinberar merkingar, líklega þar sem oft er það ódýrari og einfaldari leið. Þá læðist að manni sá grunur einnig að sumar þessara merkinga séu í raun settar á vöruna til þess að bæta ímyndina e.t.v. án þess að innistæða sé fyrir slíku. Til þess að tryggja að svo sé ekki, er vandséð annað en að merkingakerfið þurfi að vera á vegum opinbers aðila eða í það minnsta aðila sem heyrir undir opinbert eftirlit. Það er sú leið sem farin var í Danmörku á sínum tíma með lífræna vottun og virðist það hafa gefið góða raun enda hvergi hærra hlutfall lífrænna vara í innkaupakörfum neytenda í heiminum.

Snorri Sigurðsson
sns@vfl.dk
Nautgriparæktarsviði
Þekkingarsetri landbúnaðarins í
Danmörku

4 myndir:

Íslenskir verðlaunahestar í útlöndum
Fréttir 4. desember 2023

Íslenskir verðlaunahestar í útlöndum

Sjö stóðhestar, fæddir á Íslandi en staðsettir erlendis, uppfylltu viðurkenningu...

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum
Fréttir 4. desember 2023

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum

Bændasamtök Íslands senda frá sér í næstu viku aðgerðaráætlun með umfjöllun um a...

Heitt vatn finnst á Ströndum
Fréttir 1. desember 2023

Heitt vatn finnst á Ströndum

Heitt vatn fannst nýlega við borun á Drangsnesi á Ströndum.

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki
Fréttir 1. desember 2023

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki

Tímamót eru í baráttunni gegn riðuveiki í sauðfé með nýrri nálgun stjórnvalda þa...

Birgðir kindakjöts aldrei minni
Fréttir 1. desember 2023

Birgðir kindakjöts aldrei minni

Birgðir kindakjöts í lok ágústmánaðar hafa aldrei verið minni en á þessu ári.

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið
Fréttir 30. nóvember 2023

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið

Í umræðum á Alþingi á mánudaginn um riðuveiki í sauðfé og bætur vegna niðurskurð...

Sala sýklalyfja dregst saman
Fréttir 30. nóvember 2023

Sala sýklalyfja dregst saman

Sala sýklalyfja fyrir búfé og eldisfiska í Evrópu dróst saman um 12,7% milli ára...

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið
Fréttir 30. nóvember 2023

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið

Í nýlegri skýrslu Ráðgjafar­miðstöðvar land­búnaðarins um rekstrarafkomu nautakj...