Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Kolefni í formi sitkagrenis og í formi mýrar í Svartagilshvammi í Haukadal.
Kolefni í formi sitkagrenis og í formi mýrar í Svartagilshvammi í Haukadal.
Fréttir 12. febrúar 2018

Umræðan um loftslagsmál hefur oft og tíðum einkennst af upphlaupum og upphrópunum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Framlög til skógræktar á Íslandi náðu hámarki 2005 en hafa dregist saman síðan þá miðað við verðlag. Meiri mælingar vantar um bindingu CO2 við endurheimt votlendis. Að sögn skógræktarstjóra er mikið talað á Íslandi um aðgerðir til að binda CO2 úr andrúmsloftinu en lítið sé um aðgerðir.

Þröstur Eysteinsson skógræktar­stjóri segir að framlög til skógræktar hafi náð raunhámarki miðað við verðlag árið 2005.

„Á fjárlögum fengu Skógrækt ríkisins og fimm landshlutaverkefni í skógrækt, nú sameinuð í eina stofnun, Skógræktina, úthlutað fé til skógræktar. Landshlutaverkefnin fengu aukningu ár frá ári til 2005 en eftir það stóð krónutalan í stað til 2009 í ákveðnu hámarki. Árið 2010 var framlagið skorið niður og aftur 2011 og 2012 og eftir það hafa framlögin að mestu staðið í stað. Reyndar er samdráttur í ár um þrjátíu milljónir frá síðasta ári.“

Mikið talað um loftslagsmál en minna um aðgerðir

„Að mínu mati er þetta þvert á alla umræðu um loftslagsmál og yfirlýsingar um nauðsyn og skyldu okkar til að binda CO2 samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Það er mikið talað um loftslagsmálin en lítið sem ekkert verið gert í að auka CO2 bindingu hér á landi, hvorki með skógrækt né öðru.

Tökum sem dæmi umræðuna um endurheimt votlendis sem hefur farið mjög hátt undanfarið. Framlög til málaflokksins sem fara í gegnum Landgræðsluna voru á síðasta ári 20 milljónir og ekki hægt að gera mikið fyrir þá upphæð.“

Endurheimt votlendis eða skógrækt

Talsverð umræða hefur verið um hvort sé betra þegar kemur að bókhaldinu í sambandi við kolefnisjöfnun að endurheimta votlendi með því að fylla upp í skurði eða taka landið undir skógrækt.

Þröstur segir að hann líti ekki svo á að þetta tvennt sé í samkeppni. „Hitt er svo annað mál að ég tel að umræðan þurfi að komast á skynsamlegri nótur en hún hefur stundum verið. Ef við ætlum að nota LULUCF flokkinn í loftslagssamningnum, það er að segja Landnotkun og breytingar á landnotkun og skógrækt, þá þarf að skapast um það rétt og eðlileg umræða, sem því miður hefur á köflum ekki verið.“

Stokkið á loftslagsmálin

„Umræðan hefur oft og tíðum einkennst af upphlaupum og upphrópunum. Allir stökkva á eitthvað sem er í tísku en ekki hitt. Eiginlega klassísk íslensk umræða sem felst í kjaftagangi fram og til baka þar sem hinir og þessir sem hafa ef til vill takmarkaða þekkingu á viðfangsefninu segja eitt og annað og talandi í kross, misskiljandi hver annan og stundum viljandi, sem sagt umræða sem er ekki að skila neinu og er hreint kjaftæði.

Staðan er sú að hugsanlega gæti skógrækt skilað betri árangri þegar kemur að kolefnisjöfnun en endurheimt votlendis, sem er þó hugsanlega ódýrari aðgerð, en við hreinlega vitum það ekki vegna þess að við höfum ekki samanburðinn.

Hins vegar er það mín skoðun að við eigum að nota allar mögulegar leiðir til að binda koltvísýring úr andrúmsloftinu, skógrækt, landgræðslu, endurheimt votlendis og breytingar á hvernig við notum land til beitar búfjár. Við eigum að vinna saman að þessu öllu,“ segir Þröstur.

Skógræktun aflar gagna um CO2 bindingu

„Skógrækt hefur verið með í þessari alþjóðlegu mynd alveg frá upphafi, eða frá því að loftslagssamningurinn var gerður. Frá Kyoto-bókuninni hefur þurft að gera grein fyrir bindingu og losun frá skógum og skógrækt. Við hjá skógræktinni höfum aflað þessara talna til að hafa það bókhald á hreinu. Það sama á ekki við um votlendi, framræst land, beitiland eða land í landgræðslumeðferð vegna þess að það þurfti ekki að gera slíkt frá upphafi. Af þeirri ástæðu hafa minni rannsóknir átt sér stað á þess konar landi hér.

Skógræktin hefur bent á að ef Íslendingar sem þjóð ætla að nota endurheimt votlendis, almenna landgræðslu, vinnu á beitilandi eins og bændur græða landið eða annað við kolefnisjöfnun, eru gerðar kröfur um tölur um losun og bindingu frá því landi alveg eins og frá skógrækt.“

Að sögn Þrastar er nauðsynlegt, til að koma umræðunni á rökrænan grunn, að sambærilegar rannsóknir eigi sér stað á endurheimt votlendis eins og gerðar hafa verið í skógrækt.

„Landgræðsla ríkisins er að vinna að þessum rannsóknum. Eftir því sem þeim vindur fram verður hægt að tala um endurheimt votlendis á sama grunni og skógrækt hvað varðar CO2 bindingu. Þá fyrst verður hægt að velja aðgerðir með tilliti til árangurs og skilvirkni. Rétt er þó að taka fram að rannsóknirnar og vöktunin þurfa að fara fram samfara aðgerðum og því þarf að byrja á nokkrum endurheimtarverkefnum á mismunandi stöðum til að ná að fanga breytileikann í árangri.“

Meðaltalsbinding CO2 á hektara í skógrækt

Þröstur segir að binding CO2 í skógrækt hér á landi sé breytileg frá ári til árs vegna mæliaðferðanna sem notaðar eru.

„Nýjasta talan í ræktuðum skógum á Íslandi er 7,7 tonn CO2 nettómeðalbinding á hektara á ári og er þá búið að draga losunina frá.

Stór hluti af mælingunum er til að ná utan um breytileikann, sem er gríðarlegur og allt frá því að vera svolítil losun og upp í að vera heilmikil binding upp á tugi tonna CO2 á hektara í sumum skógum í einstökum árum.

Einnig er munur á milli landgerða og trjátegunda þegar kemur að bindingu og losun CO2. Það sem skiptir aftur á móti mestu máli er mismunurinn á losun og bindingu, það er að segja nettóútkoman.“

Að sögn Þrastar er ekki hægt að flokka tré í lauf- eða barrtré með tilliti til CO2 bindingar.
„Lauftré eru til dæmis bæði íslensk birki og alaskaösp sem vex tíu sinnum hraðar. Breytileiki milli landgerða hefur einnig að segja þegar kemur að bindingu einstaka tegunda. Land sem er mest í framboði til skógræktar hér á landi er rýrt, fyrrverandi beitiland, mólendi eða rofið land. Í þess konar landi vex lerki og stafafura best og eru tegundirnar sem binda hvað mest við slíkar aðstæður.

Birki vex hægt og bindur hægar en finnst á víðáttumiklum svæðum og heildarbinding í birki er því talsverð.

Í frjósömu framræstu landi er hægt að ná miklum vexti með alaskaösp og sitkagreni og því mikilli bindingu. Hins vegar á sama tíma ef það á að vera skynsemi í ákvarðanatöku á að horfa á slíkt land og spyrja sig hvort eigi að nota landið til ræktunar, beitar, skógræktar eða endurheimtar votlendi.

Niðurstaðan fer svo eftir markmiði landeigandans og legu landsins því sums staðar er betra að bleyta upp land en annars staðar, sums staðar er landið þegar blautt og því lítið gagn í að fylla upp í skurðina, sums staðar er skógrækt besti kosturinn.

Eins og staðan er í dag er ekki búið að fanga þennan breytileika sem óhjákvæmilega verður við endurheimt votlendis og það þarf nokkurra ára rannsóknir til að geta rætt um málið af skynsemi og svo raunhæft sé að bera saman möguleikana.“

Úthlutun fjár til skógræktar

Framlög ríkisins til skógræktar á fjárlögum er í grófum dráttum skipt í tvennt. Annars vegar rekstrarfé og hins vegar framlag til skógræktar á lögbýlum.

Að sögn Þrastar sér Skógræktin um að úthluta framlaginu til skógræktar á lögbýlum samkvæmt lögum um landshlutaverkefni í skógrækt frá 2006.

„Landshlutaverkefnin, sem voru fimm, og Skógrækt ríkisins voru sameinuð í eitt árið 2016 og síðan þá höfum við verið að samræma reglur um úthlutun fjármagns. Lögin eru góð sem slík en ná ekki til allra smáatriðanna og þess vegna höfðu reglur um hvernig ákveðin verkefni voru styrkt þróast á mismunandi hátt á milli landshlutaverkefnanna og núna erum við að vinna í að samræma reglurnar í samstarfi við Landssamband skógareigenda.“

Stefna í skógrækt á Íslandi

Aðspurður um heildarstefnu um skógrækt á Íslandi segir Þröstur að Skógrækt ríkisins hafi farið í þá vinnu samkvæmt bréfi frá landbúnaðarráðherra fyrir um tíu árum. „Sú vinna tók tíma og árið 2013 kom út skýrsla sem heitir Skógrækt á tuttugustu og fyrstu öld og þar kemur fram hvað við viljum leggja áherslu á í skógrækt. 

Á meðan skýrslan var í vinnslu urðu ráðherraskipti og nýi ráðherrann vildi ekki gera neitt meira með skýrsluna og ekki leggja hana fyrir Alþingi og fá samþykkta sem þingsályktun. Pólitískur vilji hans var ekki til þess. Þar með er skýrslan orðin að innanhússplaggi hjá Skógræktinni sem við fylgjum og vinnum eftir án þess að vinnan hafi náð lengra sem stefna stjórnvalda í skógrækt. Í dag endurspeglast formleg stefna stjórnvalda því í lögum um skógrækt og landshlutaverkefni í skógrækt.

Í skýrslunni er lögð áhersla á fimm meginþætti í skógrækt á Íslandi. Uppbygging skógarauðlinda, skógarnytjar, verðmæta- og nýsköpun, samfélag, aðgengi og heilsu, umhverfisgæði og líffjölbreytni og loftslagsbreytingar,“ segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri. 

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...

Réttalistinn 2024
29. ágúst 2024

Réttalistinn 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Göngur og góður reiðtúr
13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Bændur selja Búsæld
13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Gerum okkur dagamun
13. september 2024

Gerum okkur dagamun