Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Jón Skúlason, bóndi á Gemlufalli, segir að líklega gætu þau selt alla sína framleiðslu beint frá býli.
Jón Skúlason, bóndi á Gemlufalli, segir að líklega gætu þau selt alla sína framleiðslu beint frá býli.
Mynd / smh
Fréttir 9. júlí 2018

Það er mikilvægt að geta markað sér sérstöðu hér

Höfundur: Sigurður Már Harðarson
Bærinn Gemlufall stendur við norðanverðan Dýrafjörð og vegurinn um Gemlufallsheiði gengur upp af honum. Þar eru úthagar fyrir sauðféð á bænum og hafa bændurnir, Elsa María Thompson og Jón Skúlason, látið kortleggja beitarlandið í tengslum við verkefnið Rektu mig til beitilands.
 
Verkefnið er samstarfsverkefni Gemlufallsbúsins, Húsavíkurbúsins á Ströndum, Beint frá býli, Iceland fish export, Snerpu ehf. og Náttúrustofu Vestfjarða. Markmið þess er að hafa möguleika á því að rekja vöru þannig að hægt sé að sýna fram á uppruna hennar og hvaða leið hún hefur farið í gegnum virðiskeðjuna. Með þessari aðferð er hægt að velja sér kjöt eftir beitilandi.  
 
Of mikil aukavinna hjá afurðastöðinni
 
Jón Skúlason segir að verkefnið sé mjög áhugavert en því miður hafi það strandað, um stundarsakir í það minnsta, vegna þess að forsvarsmönnum sláturhússins á Hvammstanga hafi þótt það of mikil aukavinna að merka kjötið þeirra sérstaklega með upprunavottuninni. „Það er ekki skemmtilegt að vera stoppaður af svona því við héldum að það væri allt klárt. Ég hef hins vegar átt í góðum samskiptum við þá á Hvammstanga og verið þar í viðskiptum þannig að ég vona að það verði viðhorfsbreyting hjá þeim. Magnús Freyr Jónsson, fyrrverandi sláturhússtjóri á Hvammstanga, hafði gefið okkur vonir um að það væri hægt að koma á samstarfi um að við gætum auðkennt afurðir okkar með þessum upprunamerkjum. Varðandi sölu þá höfðum við hugsað okkur að koma á samstarfi við veitingastaði hér í nágrenni við okkur og jafnvel í búðir en verkefnið var ekki komið á það stig þegar það lagðist í dvala.“
 
 
Mikil varnarbarátta sauðfjárbænda á Vestfjörðum
 
„Það eru um þrjú ár síðan strandaði á þessu þannig að ég veit ekki hvernig tekið yrði í þetta núna ef við reyndum að setja þetta í gang aftur. Við erum ekkert hætt við þátttöku í verkefninu sem okkur finnst mjög sniðugt á allan hátt. Fólk virðist hafa alltaf meiri og meiri áhuga á uppruna matvörunnar sem það vill neyta og þá er verkefni eins og þetta mjög gott. Ég held að það sé mjög jákvætt fyrir sauðfjárbændur á svæði sem er er í mikilli varnarbaráttu eins og hér á Vestfjörðum – sem þykir vera eitt hreinasta svæði Evrópu – að geta markað sér sérstöðu með þessum hætti og markaðssett út á það. Við erum nokkuð langt úr alfaraleið og því vantar kannski meiri hvata til að koma sér upp kjötvinnslu og auka heimasöluna, þó við höfum vissulega spáð í það. Hann er svo stuttur ferðamannatíminn hér á Vestfjörðum,“ segir Jón. 
 
Hann segir að þau hafi reyndar selt afurðirnar frá sér út um allt land – og í raun selt meira frá þessu svæði hér en innan þess. „Það er bæði í gegnum kunningsskap og eins í gegnum vef Beint frá býli. Við gætum selt miklu meira beint frá býli – ég býst við að gætum selt alla okkar framleiðslu þannig. Við ætlum að skoða það betur og sjá hvernig málin þróast – til dæmis hvað verður með afurðaverð í haust.“
 
Ferðaþjónustan gefur meira en sauðfjárbúskapurinn 
 
Jón og Elsa María eru með blandaðan búskap; rúmlega 20 kýr og um 250 fjár í vetur. Elsa María er útivinnandi, hefur verið leikskólastjóri á Þingeyri til margra ára og tók sér árs frí til að klára nám við Háskóla Íslands. Hún er að fara að taka við nýju starfi á Ísafirði í ágúst. 
 
Búreksturinn hefur verið nokkuð stöðugur og þau hafa bara haldið honum í því horfi sem húsin leyfa. Þau eru einnig með ferðaþjónustu, taka á móti ferðahópum sem þau bjóða í súpu og svo eru þau með snoturt hús í hlaðinu sem þau leigja út. „Við tökum á móti um 12 hópum í sumar sem við bjóðum í súpu til okkar. Það er þá ýmist kjöt- eða fiskisúpa sem við eldum. Það er einn tiltekinn ferðaþjónustuaðili sem hefur boðið upp á fastar heimsóknir til okkar fyrir erlendu ferðahópana. Á meðan að borðhaldið stendur yfir er sýnd heimildarmyndin Síðasti bóndinn í dalnum eftir Sigurð Grímsson um Sigurjón á Lokinhömrum,“ segir Jón.
 
Þetta snotra hús í hlaðinu á Gemlufalli leigja þau Jón og Elsa út. Handan Dýrafjarðar er útsýni í suður til Þingeyrar.
Þetta snotra hús í hlaðinu á Gemlufalli leigja þau Jón og Elsa út. Handan Dýrafjarðar er útsýni í suður til Þingeyrar.
 
Jón segir að ástandið í sauðfjárræktinni í landinu sé ekki beint upplífgandi og til marks um það hafi þau fengið töluvert meira fjárhagslega út úr ferðaþjónustunni á síðasta ári en þeim 400 lömbum sem þau lögðu inn í sláturhúsið. „Þetta er auðvitað þrælavinna, sérstaklega á þessum árstíma,“ segir Jón en blaðamaður var í heimsókn hjá honum í kuldatíð á sauðburði. „Við ætlum hins vegar að halda okkar striki og sjá hvernig þetta þróast.
 
Bændum fer nokkuð ört fækkandi í sveitunum sem liggja næst Dýrafirði, bæði sauðfjárbændum og kúabændum fækkar. Tveir kúabændur eru eftir í Dýrafirði, tveir í Önundarfirði, einn í Súgandafirði, einn í Bolungarvík og einn í Álftafirði – það er engin nýliðun. Eitt sauðfjárbú í Dýrafirði var lagt niður á síðasta ári og það á eftir að koma í ljós hvernig þetta verður í haust. Bændur eldast og það er enginn til að taka við.“ 
 
Þurfa velvilja afurðastöðvanna og samstarf til að verkefnið komist almennilega af stað
 
Hulda Birna Albertsdóttir, umhverfisskipulagsfræðingur hjá Náttúrustofu Vestfjarða, hefur haft umsjón með verkefninu rekjanleiki.is. Hún segir að staðan á verkefninu sé þannig að vegna fjárstuðnings frá uppbyggingarsjóði Vestfjarða, sem fékkst í fyrra og nær til þriggja ára, sé ætlunin að koma 15 bæjum til viðbótar inn í verkefnið. 
 
„Við ætlum líka að markaðssetja merkið og vörurnar undir formerkjum rekjanleikans. Þessir bæir sem eru komnir inn eru formlegir þátttakendur í verkefninu en við höfum ekki alveg lokið vinnunni við merkingar og þess háttar. 
Vefurinn var stofnaður 2015 og við leggjum aðaláherslu á að koma sveitabæjum á Vestfjörðum inn í verkefnið fyrir styrkinn sem við fengum frá uppbyggingasjóði. Við viljum svo auðvitað útvíkka þann hring um allt land ef möguleiki verður á því,“ segir Hulda Birna. 
 
Hafdís Sturlaugsdóttir, bóndi í Húsavík á Ströndum, og Hulda Birna Albertsdóttir frá Náttúrustofu Vestfjarða með sauðfjárafurðir Húsavíkurbúsins vel upprunamerktar í Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík.  Mynd / úr einkasafni
 
Einblínum núna á merkingar heima á bæjum
 
„Við sjáum það fyrir okkur að hægt verði að merkja vörur í sláturhúsum en þau sláturhús sem við höfum rætt við hingað til hafa ekki gefið kost á því að það verði hægt í nánustu framtíð. Við höfum því ákveðið að reyna að einblína núna á þá aðila sem taka heim til sín og geta þá merkt sínar vörur þar og selt. Við höfum samt ekki gefist upp á sláturhúsunum og hyggjumst reyna að vinna með þeim í framtíðinni við að koma rekjanleikanum þangað,“ segir Hulda Birna. 
 
Kjötið rakið til beitilandsins
 
„Með verkefninu er lagt upp með að neytandinn geti rakið sitt kjöt beint til beitilandsins og þannig séð hvernig sitt kjöt hefur verið „kryddað á fæti“. Við höfum ýmsar rannsóknir fyrir okkur sem styðja það að bragðmunur er á milli kjöts eftir því í hvernig gróðurlendi sauðféð gengur og þar má til dæmis nefna hvannarlömbin hjá Höllu í Ytri-Fagradal.
Það er búið að hanna merkingar á á afurðirnar bæði fyrir Húsavík og Gemlufall og eitthvað af hinum búunum. Verkefnið hefur ekki almennilega farið í gang og náð því að hægt sé að selja afurðirnar upprunamerktar úti í búð, nema hjá þeim í Húsavík. Bændurnir þar merkja vörurnar sjálfir, enda taka þeir talsvert af skrokkum heim þar sem þeir eru með kjötvinnslu. Vörurnar þeirra eru seldar á veitingahúsi og í Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík.  
Við höfum ekki gefist upp á sláturhúsunum ennþá, svo það er enn í vinnslu. Við höfum ekki farið á formlegan fund með neinum en höfum rætt við tvo.“ 
 
Neytendur horfa æ meira á uppruna matvæla
 
Að sögn Huldu Birnu er rekjanleiki matvæla alltaf að verða vinsælli meðal fólks. „Það vill sjá hvaðan fæðan kemur og með okkar rekjanleika er það hægur leikur. Þar getur fólk skannað vöruna í búð eða þegar heim er komið og fer þar strax inn á heimasíðu búsins sem kjötið kemur frá og fær allar þær upplýsingar sem hvert bú vill gefa neytandanum. 
 
Þetta gefur einnig bændum möguleika á metnaðarfyllri ræktun og markaðssetningu á sinni vöru og að auglýsa alla þá kosti sem þeirra bú hefur. 
Fólki finnst einnig gaman að geta tengt vörur við bakgrunn þeirra með því að sjá myndir af lífinu á bænum, kindunum og ræktarlandinu,“ segir Hulda Birna.
Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á vefnum rekjanleiki.is. 
 
Á vefnum rekjanleiki.is kemur fram að talið sé hægt að finna bragðmun á lambakjöti eftir því hvar lambið gengur og það fari eftir gróðurlendum. Hér hafa afréttir Gemlufalls verið kortlagðar og reiknuð út prósenta hvers gróðurlendis innan þeirra. Með því er reiknað út hlutfall á því hvernig gróður lambinu hefur mest verið beitt á og hægt að segja að hægt sé að velja sér kjöt eftir  gróðurlendunum. Ef til dæmis þú vilt mikið lyng- og berjabragð af lambakjötinu er best að velja kjöt af lambi sem hefur gengið í landi með háu hlutfalli lyngmóa.
Um Gemlufall segir: „Sumarhagar eru allt á milli fjalls og fjöru, dalir og fjalllendi eru upp af bænum. Það er vitað að mestu leyti hvar ærnar ganga í sumarhögum, enda vanafastar á sína föstu sumarbeit. Ærnar velja sitt beitiland sjálfar, það er að segja að þær eru ekki fluttar á beitilandið heldur ganga þær með lömbin frjálst um hagana.“
 
 

6 myndir:

Mest aukning í svínakjöti
Fréttir 11. október 2024

Mest aukning í svínakjöti

Samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands jókst innlend kjötframleiðsla um þrjú...

Um 30% samdráttur á hverja framleidda einingu
Fréttir 11. október 2024

Um 30% samdráttur á hverja framleidda einingu

Bændasamtök Íslands hafa lagt umsögn sína um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum inn ...

Vambir liðnar undir lok
Fréttir 11. október 2024

Vambir liðnar undir lok

Ekki fást lengur vambir með slátri frá SS. Neytendur sakna þeirra.

Beint: Dagur landbúnaðar á Suðurlandi
Fréttir 11. október 2024

Beint: Dagur landbúnaðar á Suðurlandi

Bændasamtök Íslands og Samtök fyrirtækja í landbúnaði standa fyrir málþingi á Hó...

Stýrihópur greiðir úr misfellum
Fréttir 11. október 2024

Stýrihópur greiðir úr misfellum

Fyrir liggur að matvælaeftirlit hér á landi er óskilvirkt og nýr stýrihópur hefu...

Arfgerðargreindir gripir standast ekki villupróf
Fréttir 10. október 2024

Arfgerðargreindir gripir standast ekki villupróf

Mikill gangur hefur verið í arfgerðargreiningum í sauðfé frá áramótum.

Upplýsa þarf um smithættu af vanelduðum hamborgurum
Fréttir 10. október 2024

Upplýsa þarf um smithættu af vanelduðum hamborgurum

Tvær nýlegar hópsýkingar hafa orðið í Noregi sem raktar voru til hamborgarakjöts...

Afkomutjón blasir við
Fréttir 10. október 2024

Afkomutjón blasir við

Forsendur ylræktar bresta augljóslega ef ekki er tryggt aðgengi að grunnþáttum f...