Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Karvel L. Karvelsson, framkvæmdastjóri RML og Árni Bragason landgræðslustjóri
Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Karvel L. Karvelsson, framkvæmdastjóri RML og Árni Bragason landgræðslustjóri
Mynd / Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
Fréttir 14. apríl 2020

Tækifæri til að ástunda umhverfisvænni og ábatasamari landbúnað

Höfundur: smh

Á morgunverðarfundi á Hótel Sögu, sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið bauð til í byrjun mars, var undirritaður samningur um verkefnið Lofts­lags­­vænn landbúnaður, sem er samstarfsverkefni stjórn­valda, Ráðgjafarmiðstöðvar land­búnaðar­ins (RML), Skógræktar­innar, Landgræðslunnar og Landssamtaka sauðfjárbænda um aðgerðir í loftslagsmálum.

Markmið verkefnisins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og vegna landnýtingar og auka kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri.

Yfirskrift fundarins var Landbún­aður, loftslag og náttúruvernd og hófst hann með erindi Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra. Hann sagði að í stjórnarsáttmálanum sé kveðið á um samstarf við sauðfjárbændur um kolefnisjöfnun greinarinnar. Ráðuneyti hans hafi leitt undirbúningsvinnu verkefnisins Loftslagsvænn landbúnaður í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Ráðgjafar­miðstöð landbúnaðarins, Skóg­ræktina og Landgræðsluna. Sagði hann að allar þessar stofnanir eigi það sammerkt að hafa mikil tengsl við bændur, hver á sínu sviði.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra flytur erindi sitt á morgunverðarfundinum. Mynd / Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Um 20 prósent losunar frá landbúnaði

„Losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði, þ.e. búfé og áburði, telur um 20% af þeirri losun sem fellur undir beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Ljóst er að frumkvæði bænda sjálfra og áhugi þeirra á loftslagsmálum hefur stuðlað að því að ákvæði þessu tengt ratar í stjórnarsáttmála. Þannig hafa búgreinar sett sér markmið um kolefnishlutleysi, en til þess þarf að vinna að samdrætti í losun og auka kolefnisbindingu,“ sagði ráðherra.

„Verkefnið byggir á heildstæðri ráðgjöf og fræðslu fyrir bændur. Jafnframt geta þeir sótt um að vinna með sitt eigið bú, greina losun, móta aðgerðaáætlun um hvernig megi draga úr losun og vinna að henni með aðstoð. Þessir bændur munu vonandi ryðja brautina fyrir aðra, þar sem lagt verður mat á árangur mismunandi aðgerða og hvernig gengur að framkvæma þær. Þetta verkefni er mikilvægt bæði landbúnaðinum til að fá reynslu og mat á mismunandi aðgerðum og einnig stjórnvöldum til að ná heildarárangri í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Enn sem komið er stendur þetta eingöngu sauðfjárbændum til boða, en ég hygg að hér sé komin ágætis fyrirmynd til að vinna með öllum búgreinum.“

Bætt í stuðning við landgræðslu- og skógræktarstarf

Guðmundur Ingi sagði að í tengslum við verkefnið yrði bætt við stuðning við landgræðslu- og skógræktarstarf. „Á sama tíma fer nú fram heildarstefnumörkun fyrir landgræðslu og skógrækt en í vinnslu eru stefnumarkandi áætlanir fyrir hvort tveggja á grundvelli nýrra laga. Þær ættu að skerpa á forgangsröðun í verkefnum ríkisins og draga fram samlegð í þeim verkefnum sem verið er að sinna. Ég bind miklar vonir við alla þessa vinnu.

Í stjórnarsáttmálanum er einnig kveðið á um það að samhliða nýrri kynslóð landbúnaðarsamninga verði innleiddir sérstakir aðlögunarsamningar um nýja starfsemi til sveita. Þar er hugmyndin að bændur geti byggt upp nýjar búgreinar eða haslað sér völl á öðrum sviðum en jafnframt að samningarnir séu tímabundnir, háðir skilyrðum um byggðafestu og verðmætasköpun og geti stuðlað að nýsköpun, náttúruvernd og nýjum áherslum í rannsóknum og menntun.

Mikil samlegð er á milli landbúnaðar og náttúruverndar þegar kemur að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, sem felur í sér mikil tækifæri til sóknar í sveitum landsins. Landbúnaður er háður náttúrulegum aðstæðum. Því felast töluverð umhverfisleg og efnahagsleg tækifæri í að bændur nýti sér möguleg samlegðaráhrif landbúnaðar og náttúruverndar til að stunda umhverfisvænan en jafnframt ábatasaman landbúnað á jörðum sínum,“ sagði Guðmundur Ingi.

Greiðslur fyrir þátttöku háðar skilyrðum

Borgar Páll Bragason, fagstjóri hjá RML, kynnti á fundinum þá undir­búningsvinnu sem hefur snúið að þeim. Hann segir að verkefnið feli í grundvallaratriðum í sér fræðslu og heildstæða ráðgjöf til bænda um samspil landbúnaðar og loftslagsmála. „Verkefnið felur í sér umsjón og stjórnun verkefnisins, mótun verklagsreglna fyrir verkefnið, mótun námsefnis, undirbúning og framkvæmd námskeiða og fræðslu, auglýsingar og mat á umsóknum um þátttöku í verkefninu, gerð samninga við þátttakendur, ráðgjöf til þátttakenda í verkefninu, mat á árangri og kynningu á framvindu og niðurstöðum verkefnisins.

„Greitt verður fyrir þátttöku í verkefninu, sem annars vegar eru tengdar gerð, framfylgd  og endurskoðun aðgerðaráætlunar fyrir hvert bú og hins vegar því hvort skýrsluhald þátttakenda teljist fullnægjandi samkvæmt þeim viðmiðum sem verða sett í verklagsreglum verkefnisins.

Ráðgjöfin mun felast í gerð aðgerða­áætlana fyrir ein­stök bú til að draga úr losun gróður­húsa­loft­tegunda. Ávinningurinn fyrir þátttakendur mun felast bæði í loftslagsvænni búskap fyrir búin en einnig verður hann fjárhagslegur. Til dæmis verður 50 þúsund króna niðurgreiðsla á efnagreiningakostnaði og allt að 600 þúsund króna greiðslur á ári vegna eigin vinnu við gerð aðgerðaáætlunarinnar og aðgerða sem miða að því að draga úr losun og auka kolefnisbindingu. Ekki má gleyma því að með bættu kolefnisspori fylgir betri búrekstur,“ segir Borgar Páll.

Námskeiðahald hefur verið í gangi í febrúar og mars á vegum RML, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og Framleiðni­sjóður landbúnaðarins hefur komið að fjármögnun þeirra. Þegar námskeiðahaldi er lokið verður auglýst eftir þátttöku búa. Fyrir þetta ár er gert ráð fyrir að 15 bú geti tekið þátt, en aðeins sauðfjárbú í gæðastýringu. 

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...