Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Svín – beikon og varahlutir
Á faglegum nótum 19. apríl 2016

Svín – beikon og varahlutir

Höfundur: Vilmundur Hansen

Svínakjöt er í fjórða sæti yfir mest framleiddu landbúnaðarafurð í heimi. Fjöldi svína í heiminum er um einn milljarður. Þar af eru um 29 þúsund á Íslandi. Þrátt fyrir að svín séu sögð sóðaleg og gráðug eru þau talin með greindari skepnum.

Vegna erfðafræðilegrar líkingar manna og svína eru bundnar miklar vonir við eldi þeirra sem varahlutir til líffæraflutninga úr svínum í menn.

Samkvæmt áætlun FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, var fjöldi svína í heiminum árið 2014 rúmlega 986 milljón dýr en var 849 milljón gripir árið 1990. Áætlanir FAO gera ráð fyrir að fjöldi svína verði vel yfir milljarður dýra árið 2030.

Langmestur var fjöldinn í Kína árið 2014, um 471 milljón dýr, næstmest var af svínum í Bandaríkjunum, tæplega 68 milljón, í Brasilíu var áætlaður fjöldi þeirra 38 milljón og í Þýskalandi rúmlega 28 milljón árið 2014. Í kjölfarið fylgdu svo lönd eins og Víetnam, Spánn, Rússland, Mexíkó, Burma og Frakkland með tæp 27 milljón og niður í 13 milljón svín.

Áætluð framleiðsla á svínakjöti í Kína árið 2016 er 56,5 milljón tonn, 11,3 milljón tonn í Bandaríkjunum og 3,5 milljón tonn í Brasilíu.

Samanlagður fjöldi svína í löndum Evrópusambandsins er um 150 milljón dýr sem gefa af sér tæp 23 milljón tonn af kjöti. Evrópusambandið er stærsti útflytjandi svínakjöts í heiminum og flytur mest til landa í Austur-Asíu og Kína. Bandríkin eru í öðru sæti þegar kemur að útflutningi í svínakjöti, Kanada í því fjórða og Kína því fimmta.

Japan, Rússland, Hong Kong, Suður-Kórea og Mexíkó eru aftur á móti þau lönd sem flytja inn mest af svínakjöti.

Ættkvíslin Sus

Latneskt heiti villisvína er Sus scrofa en eldissvín kallast S. scrofa domesticus eða S. domesticus. Uppruni eldissvína er rakinn til svína sem einu sinn voru villt í Evrópu og Asíu.

Nokkrar tegundir svína teljast til ættkvíslarinnar Sus, auk þess sem margar tegundir eru útdauðar og þekkjast aðeins af steingervingum sem aðallega hafa fundist í Kína. S. ahoenobarbus, †S. australis. S. barbatur, †S. bijiashanensis, †S. falconeri, †S. houi, †S. hysudricus, †S. jiaoshanensis, †S. liuchengensis, †S. lydekkeri og  †S. offecinalis. Tegundirnar S. bucculentus, S. cebifrons, S. celebensis eru stundum nefndar vörtusvín. Auk þess er til ein villt tegund dvergsvína sem kallast S. salvanius.

Með nýjustu erfðatækni hefur kínversku fyrirtæki tekist að framleiða það sem þeir kalla míkró-svín, eða smásvín, og er hugmyndin að setja þau á markað sem gæludýr fljótlega. Dvergsvínin verða 15 kíló að þyngd og þykja ekki síður krúttleg en kjölturakkar.

Ræktunarkyn skipta hundruðum

Villisvín eru harðgerð og í eina tíð var útbreiðsla þeirra um alla Evrópu og Asíu og norðanverða Síberíu, Afríku, Indland og Japan. Svín bárust til Ástralíu, Norður- og Suður-Ameríku með landnemum frá Evrópu á tímum landafundanna.

Ræktunarkyn svína skipta hundruðum og eru mismunandi að lit, bleik, svört, rauð, svört og hvít og þrílit og heita nöfnum eins og Aksai Black Pied, Ba Xuyen, Bangur, Hampshire, Red Wattle, Tokyo-X og Urzhum svo dæmi séu nefnd.

Orðsifjar svínaheitisins

Íslenska heitið á svínafjölskyldu er göltur, gylta og grís. Á ensku er samheiti svína fearh eða pig en uppruni þess orðs er óþekktur. Á lágþýsku er heitið bigge. Enska heitið á gyltu er sow og af sama uppruna og saxneska heitið su, hollenska nafnið zeug, norska heitið syr og sýr á íslensku. Á sanskrít kallast villigyltur sakarah, hys á grísku, svinija á slavnesku og sivens á lettnesku.

Lágfætt klaufdýr

Svín eru ferfætt klaufdýr með tvær stórar og tvær litlar tær á hverjum fæti. Stóru tærnar snúa fram en þær minni aftur. Þau eru stuttfætt, lágvaxin en geta orðið tæpir tveir metrar að lengd. Þyngd fullvaxinna svína er mismunandi eftir ræktunarkynjum. 50 til 350 kíló. Svín eru alætur.

Húðin er þakin fáum, stuttum en stífum hárum sem kallast burstar og voru vinsæl í pensla sem mörg helstu meistaraverk myndlistarsögunnar eru máluð með. Svínshár hafa líka verið notuð í tannbursta.

Svín eru félagslynd dýr og sögð með afbrigðum greind. Þau hafa stóran haus og langt og sterkt trýni sem þau nota til að róta í jarðvegi með í leit að fæðu eins og ormum, skordýrum og rótum. Lyktarskynið í trýninu er gott og hafa svín verið þjálfuð til að þefa uppi trufflusveppi eða jarðkeppi sem vaxa neðanjarðar og eru dýrustu sveppirnir á markaði. Lyktin af trufflusveppum er sögð líkjast lyktinni af kynhormón galta og það sé ástæða þess að svín finna hana auðveldlega.

Lungu svína eru lítil miðað við stærð þeirra og þau veik fyrir lungnasjúkdómum og lungnabólgu.

Sjónsvið svína er vítt, um 310° en píri þau augun þrengja þau sjónsviðið í 50° en sjá þannig lengra frá sér. Svín greina liti en ekki er vitað hversu nákvæm litasjón þeirra er.

Í kjafti fulltennts svíns eru 44 tennur. Jaxlarnir eru sterkir og vel til þess gerðir að mylja hvers kyns fæðu. Vígtennur galta geta orðið mjög stórar og nota þeir þær óspart gegn hver öðrum þegar barist er um völd í svínahjörð eða gyltur sem beiða og tilbúnar að taka fang. 

Sagt er að fullnæging svína standi í allt að hálftíma en skal sú fullyrðing tekin með fyrirvara vegna þekkingarleysis höfundar á reynsluheimi svína.


Þegar svínin gefa frá sér hljóð kallast það hrín eða rýt.

Átta til tuttugu grísir í goti

Gyltur ná kynþroska við þriggja til tólf mánaða aldurs og hafa egglos á 18 til 24 daga fresti. Meðgangan er á bilinu 112 til 120 dagar en 114 dagar, plús eða mínus einn dagur, er algengast. Gyltur eiga 8 til 12 og sum kyn rúmlega 20 grísi í goti sem eru frá 400 til 800 grömm að þyngd við got sem oftast gengur hratt og vel fyrir sig. Gyltur hafa 14 spena og yfirleitt eru allir grísirnir á spena í einu á 50 til 60 mínútna fresti og þær verja afkvæmi sín af mikilli hörku.

Menn og svín

Erfðamengi svína og manna er að mörgu leyti svipað og geta svín borið í sér margs konar sjúkdóma og sníkjudýr sem hæglega geta borist í menn og valdið sýkingum. Inflúensur og fleiri sjúkdómar sem herja á menn geta einnig verið eldissvínum skeinuhættir.

Talið er að H1N1 vírusinn sem veldur svínaflensu hafi valdið dauða tæplega tuttugu þúsund manna í 214 löndum á síðustu árum. Fyrstu alvarlegu tilfelli faraldursins komu upp í Mexíkó og Bandaríkjunum sumarið 2009.

Vegna líkindanna milli þessara tveggja spendýra eru svín mikið notuð við rannsóknir á lyfjum sem ætluð eru mönnum. Miklar vonir eru bundnar við ræktun svína sem varahlutir til líffæraflutninga í menn og hafa slíkar ígræðslur í sumum tilfellum tekist ágætlega.

Félagsgerð og hegðun villtra svína líkist meira hegðun villtra hunda og lítilla ættbálka manna en nautgripa og sauðfjár. Þrátt fyrir að goggunarröðin í svínahjörðum sé mikil sækjast svín eftir nærveru annarra svína og liggja oft saman í hnapp. Villt svín búa sér til eins konar hreiður á jörðinni sem þau grafa upp með trýninu og liggja í. Gyltur búa iðulega til slík hreiður fyrir got.

Mörg þúsund ára ræktunarsaga

Fornleifarannsóknir benda til að villtum svínum hafi verið smalað saman og nýtt til matar í Tígrisdalnum í austanverðu Tyrklandi og í Sýrlandi 13.000 árum fyrir upphaf okkar tímatals. Leifar um nytjar á svínum á Kýpur eru taldar vera frá 11.400 fyrir Krist. Minjar svínanytjar frá svipuðum tíma hafa fundist á Indlandi. Í Kína hafa fundist mörg þúsund ára gömul haughús með svínaskít sem bendir til þess að hann hafi verið notaður sem áburður.

Rannsóknir benda til að svínahald hafi hafist sjálfstætt um svipað leyti í Kína og Evrópu fyrir fimm til sjö þúsund árum.

Í dag eru svín aðallega ræktuð vegna kjötsins, beikon, kótelettur, purusteik, pylsur og hamborgarhrygginn um jólin. Svínasulta er búin til úr hausnum, lifrarpylsa úr lifrinni og slátur í blóðinu. Gyltumjólk er sögð orkumikil og svínafita er notuð í snyrtivörur og húðkrem. Þurrkuð eða reykt eyru og limir svína eru notuð í hunda­nammi sem flutt er til landsins. Húðir og bein voru áður notuð í skildi og vopn.

Grís eru víða haldnir sem gæludýr á meðan þau eru lítil og viðráðanleg.

Bókmenntir, trú og þjóðtrú

Svín eru oft notuð á neikvæðan hátt í líkingamáli og sem dæmi um græðgi, ofát, sóðaskap og hroka eða til að lýsa auð- og stjórnmálamönnum. Nægir þar að nefna svínið Napoleon í bók Georgs Orwell, Animal Farm. Samlíkingin er á engan hátt sanngjörn þar sem svín eru talin með greindari skepnum og ástæða þess að þau velta sér upp úr drullu er til að kæla sig þar sem svín hafa fáa svitakirtla.

Frægasta sjónvarpsgylta allra tíma er örugglega frumskinkan Miss Piggy úr Prúðuleikurunum.

Svín eru eitt af tólf dýrum í kínverska stjörnudýrahringnum en eru á bannmatseðli gyðinga, múslima og sjöunda dags aðventista. Í Ódysseifskviðu er áhöfn Hómer breytt í svín með göldrum og í mið-evrópskri þjóðtrú er sagt að svín hræðist spegilmynd sína. Í Þýskalandi eru svín tákn um heppni.

Sjómenn trúðu því víða að þar sem svín eru með klaufa eins og djöfullinn og hrædd við vatn væri voðinn vís ef þau væru höfð til sjós eða nefnd á sjó.

Í Egyptalandi til forna tengdust svín guðinum Set sem keppti við Hórus um yfirráð yfir sólinni og þar sem Set varð undir í baráttunni var svínahirðum meinaður aðgangur að musterum sem minnipokamenn. Egyptum þóttu svín ekki nógu fín til að fórna þeim fyrir sólguðinn og fórnuðu þeim þess í stað tunglinu og drykkjuboltanum Dýónísos til dýrðar. Gyltur þóttu góð fórnargjöf fyrir móður- og akurgyðjuna Demeter í grískri goðafræði auk þess sem svínum var fórnað á altari Afródítu gyðju ástar og fegurðar.

Ein birtingarmynd hindúaguðsins Vishnu er mannslíki með fjórar hendur og galtarhaus sem á að hafa lyft jörðinni upp úr frumhafinu með vígtönnunum við sköpun heimsins. Í búddisma er sagt að gyðjan Marisa aki um á vagni sem dreginn er af svínum og í norrænni goðafræði dregur gölturinn Gullinbursti vagn frjósemisgoðsins Freys eftir himinskautum.

Í Eddukvæðum Snorra Sturlu­sonar segir að aldrei sé svo mikill mannfjöldi í Valhöll að ekki endist þeim öllum kjötið af geltinum Sæhrími sem er soðinn á hverjum degi en stendur heill að kvöldi.

Winston Churchill, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sagði einu sinni að hann væri hrifinn af svínum. „Hundar líta upp til okkar, kettir líta niður á okkur en svín umgangast okkur sem jafningja.“

Fyrsta flugferð svíns

Fyrsta flugferð svíns sem vitað er um átti sér stað í Kent á Englandi 4. nóvember 1909. Brabazon lávarður af Tara festi tágakörfu við tvívængju sína, setti grís í körfuna og tók síðan á loft. Eftir á sagðist lávarðurinn hafa með uppátækinu viljað afsannað að svín gætu ekki flogið.

Svín á Íslandi

Landnámsmenn fluttu með sér svín til landsins sem eru alls ólík þeim svínum sem ræktuð eru á Íslandi í dag. Fyrstu svínin voru harðgerð en mögur og líklega lifað á útigangi og vetrarbeit í skóglendi fyrstu áratugina.

Mörg gömul örnefni benda til að svínahald hafi verið talsverð á landinu fyrst eftir landnám og má þar nefna Svínafell, Svínadal, Svínasand, Svínaskóg, Galtarholt, Galtalæk, Galtarfell, Grísatungu og Sýrlæk.

Í Landnánu segir að Steinólfur lági í Saurbæ hafi tapað þremur svínum. Svínin fundust tveimur árum seinna í Svínadal og voru þá orðin þrjátíu. Svipaða sögu en ýktari er einnig að finna í Landnámu þegar segir að Ingimundur gamli hafi týnt tíu svínum sem voru orðin að hundr­að þegar þau fundust tveimur árum seinna. Landnámsmaðurinn Helgi magri á að hafa sett tvær gyltur og einn gölt á land við Galtarhamra í Eyjafirði sem á þremur árum fjölgaði í sjötíu. Sé frásögn Landnámu tekin trúanlega voru svínin sem landnámsmenn fluttu með sér bæði frjósöm og döfnuðu vel.

Samkvæmt Eyrbyggju breytti Katla hin brögðótta syni sínum í túngölt, en það nefndust svín sem haldið var heima, til að fela hann fyrir óvildarmönnum sínum. Heimasvín voru einnig kölluð töðusvín. Í Grágás er lagt bann við að reka svín á afrétt og í Jónsbók segir að bannað sé að beita svínum á annarra manna land og beita skuli uslagjaldi komist þau á engi eða akur annarra og spilli þeim.

Bein úr svínum hafa fundist við fornleifauppgröft á nokkrum býlum frá þjóðveldisöld hér á landi. Talið er að svín landnámsmanna hafi dáið út eftir að veður tók að kólna á miðöldum.

Oddur Einarsson biskup segir í Íslandslýsingu sinni frá 17. öld að svín séu sjaldgæf á landinu og öld síðar tekur Niels Horrebod í sama streng í Frásagnir um Ísland. Í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar sem kom út í Kaupmannahöfn 1772 segir að engin svín séu á Íslandi fyrir utan þau sem kaupmenn flytji með sér.

Svínarækt hefst að nýju hér á landi með dönskum kaupmönnum. Þegar líða fer á 19. öldina fjölgar þeim í stærri kaupstöðum. Sláturfélag Suðurlands gerði tilraun með svínarækt 1908, henni var hætt 1920 en hófst aftur nokkrum árum seinna.

Fyrstu árin eftir að svínarækt hófst aftur hér á landi gekk erfiðlega að byggja greinina upp. Svínabú fá og fá dýr á hverju búi. Staða greinarinnar eflist á sjöunda áratug síðustu aldar samhliða því að neysla á svínakjöti jókst. Svínaræktarfélag Íslands var stofnað 1976 og hefur meðal annars staðið fyrir innflutningi á erfðaefni og kynbótum í greininni.

Fjöldi svína á Íslandi

Fjöldi svína á Íslandi árið 2014 var tæp 29 þúsund dýr en þau voru um 4 þúsund árið 2006. Framleiðsla á svínakjöti á Íslandi árið 2015 var 6.800 tonn auk þess sem flutt voru inn 598 tonn af svínakjöti það ár.

Meðalneysla á svínakjöti á íbúa á Íslandi það ár var 21 kíló. Framleiðslan 2004 var rúm 5.700 tonn og meðalneyslan rétt tæp 19 kíló.

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...