Starfsfólk LbhÍ og Hóla meðal ósáttustu starfsmanna ríkisins
Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Hólum eru meðal neðstu ríkisstofnana í niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar Sameykis. Skólarnir fá sérstaklega lágar einkunnir fyrir stjórnun og vinnuskilyrði.
Sameyki heldur utan um mælingar á Stofnun ársins en árlega leggur það könnun fyrir starfsfólk hinna ýmsu stofnana og starfsstöðva. Matið er byggt á níu þáttum á innra starfsumhverfi þeirra; trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjörum, vinnuskilyrðum, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar og ánægju, stolti og jafnrétti.
Óánægja meðal starfsmanna LbhÍ
Samkvæmt niðurstöðum mælinga fyrir árið 2024 fékk Landbúnaðarháskóli Íslands þriðju lægstu einkunn meðal stærri stofnana ríkisins. Þar af mælist skólinn neðstur fyrir stjórnun og næstneðstur í flokknum launakjör.
Á fundi sem haldinn var meðal starfsmanna LbhÍ í kjölfar slæmra niðurstaðna sömu mælingar í fyrra kom fram að starfsfólk upplifði að stjórnunarhættir skólans hefðu breyst mjög í átt til „toppstjórnunar“ á síðustu árum og að teymisvinna og ábyrgðardreifing væri í lágmarki. Einnig kom þar fram óánægja með hve hægt gengi að semja um laun og að lítið traust væri meðal starfsmanna að laun væru ákveðin af sanngirni.
Skólinn fær verri einkunn í ár en samkvæmt upplýsingum frá Ragnheiði I. Þórarinsdóttur, rektor LbhÍ, verða niðurstöðurnar ræddar innan skólans. „Við munum ræða niðurstöðurnar á framkvæmdastjórnarfundi og síðan fara yfir málið með starfsfólki,“ segir hún en boðað var til fundar með starfsfólki í gær, þann 5. mars, vegna niðurstöðu könnunarinnar.
Óásættanleg vinnuskilyrði í Hólaskóla
Háskólinn á Hólum hlaut næstlægstu einkunn meðal meðalstórra ríkisstofnana og fékk m.a. lægstu einkunn fyrir vinnuskilyrði og var næstlægst í flokki sem metur starfsanda.
Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor skólans, bendir á að fjöldi svarenda við skólann hafi aðeins verið 24 manns og vikmörk þar af leiðandi ansi há. „Það er ánægjulegt að sjá að starfsmenn upplifa meiri sveigjanleika og sjálfstæði í starfi í ár en í fyrra, sem eru atriði sem við höfum lagt áherslu á síðasta árið. Slæm upplifun starfsmanna af vinnuskilyrðum teljum við að samsvari þeirri óásættanlegu stöðu sem Háskólinn á Hólum hefur verið í síðastliðin ár varðandi húsnæði.“
Hólmfríður segir að stór hluti skólabyggingarinnar á Hólum hafi verið lokaður af vegna myglu í lok ársins 2023 en á sama tíma þurfti fiskeldis- og fiskalíffræðideild skólans að flytja úr húsnæði sínu á Sauðárkróki yfir til Hóla. „Við það hafa vinnuskilyrði klárlega versnað, þegar starfsmannafjöldi helst óbreyttur en fermetrafjöldi hefur snarminnkað. Enn fremur er skólabyggingin á Hólum orðin ansi gömul með úreltar lausnir hvað varðar lýsingu, loftgæði og hljóðvist og það endurspeglast í upplifun starfsmanna af vinnuskilyrðum. Vegna þessa hefur fjöldi starfsmanna færst yfir í að vinna sína vinnu að mestu í fjarvinnu, sem einnig hefur áhrif á starfsanda innan skólans.“
Berjast fyrir bættu húsnæði
Hólmfríður segir því gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld tryggi nýtt húsnæði undir starfsemi Háskólans á Hólum, með veitingu fjármagns í nýja aðalbyggingu, lagareldishús á Sauðárkróki og uppbyggingu hesthúsasvæðisins á Hólum. „Stjórnendur skólans hafa unnið ötullega að því að tryggja slíkar fjárveitingar síðastliðin ár og ýmsir áfangasigrar unnist, svo sem leyfi til áætlanagerðar og undirbúnings lagareldishúss á Sauðárkróki með fjárveitingu í fjárlögum 2025. Við munum halda áfram að berjast fyrir bættu húsnæði fyrir starfsmenn og þá sérstaklega með fjárveitingu fyrir nýrri aðalbyggingu eigi síðar en í fjárlögum 2026.“
Mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða
Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og fleiri stofnana og nær hún til um 35.000 manns á opinberum vinnumarkaði. Í ár tóku tæplega 17.400 manns þátt í könnuninni.
Niðurstöður könnunarinnar Stofnun ársins 2024 var tilkynnt á hátíð Sameykis þann 13. febrúar sl. en þær má einnig nálgast á vef félagsins. Þar segir að niðurstöður könnunarinnar veiti bæði mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir.
Tilgangur með vali á Stofnun ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri við stjórnun mannauðs. Þá nýtist könnunin stjórnendum til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi að því er fram kemur á vef Sameykis.
Skólarnir hluti af nýrri samstæðu
Starfshópur um hagræðingu í ríkisrekstri leggur til að Háskóli Íslands, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands ásamt tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum og Landsbókasafni verði að háskólasamstæðu. Samkvæmt tillögunni mun sameiningin koma til framkvæmda árið 2027. Þetta kom fram í kynningu starfshópsins þann 4. mars. „Aðalávinningurinn felst í öflugri stofnunum sem bjóða betri þjónustu á landsvísu og eru betur samkeppnishæfar á alþjóðavettvangi. Fjármagn sem sparast nýtist til aukinnar skilvirkni í fjármögnun háskólastigsins,“ segir í umsögn með tillögunni.
