Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Þessi mynd er úr einu af fjósunum í Vallens gård-búinu sem er stærsta mjaltaþjónabú á Norðurlöndum með 18 mjaltaþjóna. Þetta er hefðbundið legubásafjós með þremur legubásaröðum.
Þessi mynd er úr einu af fjósunum í Vallens gård-búinu sem er stærsta mjaltaþjónabú á Norðurlöndum með 18 mjaltaþjóna. Þetta er hefðbundið legubásafjós með þremur legubásaröðum.
Mynd / Helge Kroman
Á faglegum nótum 15. janúar 2018

Stærsta mjaltaþjónabú Norðurlanda

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Skammt frá sænska bænum Ljusdal í Hälsingland voru nú í byrjun vetrar teknir í notkun 18 nýir Lely mjaltaþjónar. Kúabú þetta, Vallens gård, varð þar með stærsta mjaltaþjónabú Norðurlanda. 
 
Vallens gård er rekið sem hlutafélag og er í eigu feðganna Jan-Erik Hansson og Henrik Rosenqvist.
 
Hröð uppbygging
 
Uppbygging Vallens gård hefur verið hreint ótrúlega hröð síðustu tvo áratugi en um aldamótin síðustu var kúabúið þegar nokkuð stórt á sænskan mælikvarða, með 140 Holstein mjólkurkýr. Síðan þá hefur búið stækkað jafnt og þétt og frá árinu 2006 hefur nánast verið tekin ný bygging í notkun á búinu á hverju ári fram til dagsins í dag! Nú er kúabúið með nærri tífalt fleiri gripi en fyrir tuttugu árum og velta búsins hefur aukist um rúmlega hálfan milljarð íslenskra króna á þessum sama tíma. Til búsins heyra svo 800 hektarar af skógi auk korn- og grasframleiðslu á 1.200 hekturum sem bæði eru í eigu búsins og í leigu.
 
Sáu tækifæri í lægðinni
 
Árið 2015 var kúabúið komið með 750 mjólkurkýr og voru þær mjólkaðar í hefðbundnum hraðútgangs mjaltabás með 40 tækjum. Mikill tími fór í mjaltir, eða um 18 klukkustundir á dag. Á búinu var á annan tug starfsmanna og sá hluti þeirra um mjaltirnar. Þegar afurðastöðvaverðið víða í Evrópu, og víðar í heiminum, tók dýfu um mitt árið 2015 tóku feðgarnir Jan-Erik og Henrik ákvörðun um að skipta mjaltatækninni út og hætta í hefðbundnum mjöltum og skipta yfir í mjaltaþjóna.
 
Þetta er nokkuð óvenjulegt og sér í lagi ef litið er til Svíþjóðar þar sem kúabúum hefur verið að fækka verulega undanfarið, lítið verið um fjárfestingar og mjólkurframleiðslan átt í vök að verjast.
 
Aðspurðir að því af hverju ákvörðunin hafi verið tekin á þessum tíma segir Jan-Erik að hafi maður bolmagn til að fjárfesta á annað borð sé langbest að gera það þegar fáir aðrir fjárfesta. Þá séu söluaðilar mun viljugri til að gefa afslætti og góða þjónustu. Þetta sé í raun hluti af fjárfestingastefnu Vallens gård, að fjárfesta helst ekki nema á niðursveiflutímum. Afurðastöðvaverðið sveiflist reglulega upp og niður og best sé að fjárfesta þegar verðið sé á niðurleið svo fjárfestingin sé tilbúin þegar verðið er á uppleið á ný. Þetta virðist hafa gengið allvel eftir hjá þeim, enda hefur afurðaverðið verið nokkuð hátt það sem af er vetri.
 
Rúmt ár leið
 
Eftir góðan undirbúning og að fengnum tilboðum gengu þeir vorið 2016 að tilboði frá mjaltaþjónaframleiðandanum Lely og pöntuðu 18 mjaltaþjóna! Svo var þegar hafist handa við að undirbúa komu mjaltaþjónanna, en reiknað var með því að búið gæti tekið við mjaltaþjónunum sumarið 2017. Framkvæmdin dróst reyndar aðeins á langinn og fram í byrjun vetrar. Það var því rúmt ár sem leið frá því að ákvörðun var tekin og gengið frá pöntun, þar til kúabúið tók fjárfestinguna í notkun.
 
Á þessum tíma var kúabúið þegar búið að byggja upp þrjú samsíða legubásafjós fyrir mjólkandi kýr og í hverju þeirra voru rétt rúmlega 300 legubásar, þ.e. pláss fyrir 900 mjólkandi. Auk þess var á búinu aðstaða fyrir geldkýr, uppeldi og burðaraðstaða. Hvert þessara legubásafjósa var með tveimur aðskildum kúahópum enda fjósin með miðstæðum fóðurgangi og þrjár legubásaraðir á hvora hönd. Það lá því beint við að byggja sérstaka tengibyggingu við endann á þessum þremur samsíða fjósum og í þessari tengibyggingu, sem ein og sér er 1.500 fermetrar að stærð, var svo mjaltaþjónunum komið fyrir. Hver þeirra mun því, nú í fyrstu a.m.k., sinna um 50 kúm og eru þrír saman með einn kúahóp upp á um 150 mjólkandi kýr. Til að taka svo við allri mjólk búsins hefur verið komið fyrir tveimur sílótönkum og tekur hver þeirra 40 þúsund lítra af mjólk. Stærstu tankbílar Arla, sem búið leggur inn mjólk hjá, taka 38 þúsund lítra og má því segja að hér sé gert ráð fyrir að bíllinn komi tómur og fari fullur í hvert skipti.
 
Með frjálsa umferð
 
Líkt og algengast er í dag þá er aðstaðan skipulögð þannig að umferð kúnna er frjáls, þ.e. þær geta sjálfar valið hvort eða hvenær þær fara í mjaltaþjóninn. Eins og alltaf er þá þarf að sækja nokkrar kýr í mjaltir og er vinnuaðstaðan fyrir það afar heppileg með sérstaka biðstíu við mjaltaþjónana sem er með sjálfvirkum hliðum og eftir að hún er tóm, þ.e. búið að mjólka biðkýrnar, opnast stían fyrir allar aðrar kýr. Þá eru þeir mjaltaþjónar sem sinna hverjum hópi kúa samtengdir þannig að ef kýr kemur inn í mjaltir og á t.d. að fara í sæðingu eða einhverja athugun þá vinna mjaltaþjónarnir saman og senda kúna inn í eina sameiginlega biðstíu. Þetta er gert með sérstökum tengihliðum sem eru á milli allra þriggja mjaltaþjónanna og virkar þannig að þeir eru staðsettir hver við endann á öðrum og ef t.d. kýr kemur inn í mjaltaþjóninn lengst til hægri og á að fara í biðstíu sem er lengst til vinstri þá er hún send út úr mjaltaþjóninum til hægri og inn í mjaltaþjóninn í miðjunni og svo áfram inn í mjaltaþjóninn lengst til vinstri og þar út í biðstíu. Þetta er afar heppilegt kerfi sem er nú orðið víða í notkun og sparar mikla vinnu.
 
Hagkvæmni stærðarinnar
 
Vallens gård er í dag með um tvö þúsund nautgripi og 750 mjólkandi en stefnt er að því að fjölga kúnum upp í 900 á komandi árum. Nautgripahluti búsins velti árið 2017 um 725 milljónum króna en þeir feðgar eru einnig í skógrækt og skilaði timbur- og kurlframleiðsla búsins um 120 milljónum íslenskra króna í veltu í fyrra. Þegar búið hefur náð að fjölga kúnum má reikna með því að velta búsins verði í kringum einn milljarð íslenskra króna og aðspurður um mikilvægi stærðarinnar sagði Jan-Erik að það fylgi því ótvíræður kostur að vera með umfangsmikinn rekstur. Þeir feðgar geti í krafti stærðarinnar gert afar hagstæða innkaupasamninga. Sem dæmi má nefna að búið kaupir í dag kjarnfóður fyrir um 100 milljónir króna á ári svo dagljóst er að búið er eftirsóknarverður viðskiptavinur kjarnfóðursalans.
 
Þrír meginþættir borga fjárfestinguna
 
Að sögn Jan-Erik áætla þeir feðgar að þessi nýja fjárfesting skili sér á grundvelli þriggja megin þátta: með bættu heilbrigði gripanna, auknum afurðum og lægri launakostnaði. Búið er í dag með 15 manns í vinnu, 11 sem vinni með gripina og 4 sem eru vélamenn, auk þeirra Jan-Erik og Henrik og er ekki áætlað að bæta við mannskapinn þrátt fyrir að kúnum muni fjölga og afurðirnar aukast. Nú þegar, nokkrum mánuðum eftir að mjaltaþjónarnir voru teknir í notkun, segir Jan-Erik að allt bendi til þess að áætlun þeirra gangi upp og að það muni ekki taka mörg ár fyrir fjárfestinguna að skila sér. Þannig hafi t.d. dagleg mjólkurframleiðsla aukist úr 33 kílóum mjólkur á dag á hverja kú í 37 kíló við það að skipta um mjaltatæknina enda eru kýrnar nú mjólkaðar tæplega þrisvar á dag að jafnaði í stað tvisvar.
Mikilvægast að horfa í kostnaðinn
 
En hvernig er hægt að byggja svona hratt upp á tiltölulega fáum árum? Jú, með því að horfa alltaf í kostnaðinn, segir Jan-Erik. Maður eigi ekki að horfa á tekjur búsins heldur kostnaðarhliðina og vera sífellt að leita að leiðum til þess að spara. Með því móti næst aukin framlegð og hagkvæmni. Í hvert skipti sem afurðastöðvaverðið hefur lækkað hafa þeir feðgar lækkað markvisst kostnað á sama tíma til þess að mæta lækkuninni. Þá er afar mikilvægt að gera sér vel grein fyrir því að örfáar krónur til eða frá geta skipt sköpum fyrir afkomu búsins. T.d. þá kaupi búið inn um 400 tonn af áburði árlega og ef tonnið hækkar um 1 þúsund krónur eru strax horfnar 400 þúsund krónur út úr rekstrinum.

7 myndir:

Skylt efni: mjaltaþjónabú

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...

Heitt vatn óskast
Fréttir 19. júní 2024

Heitt vatn óskast

Bláskógaveita, sem er í eigu sveitarfélagsins Bláskógabyggð, hefur óskað eftir t...

Minni innflutningur og meiri framleiðsla
Fréttir 19. júní 2024

Minni innflutningur og meiri framleiðsla

Um 300 tonn af nautakjöti voru flutt inn á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2024.