Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Skjáskot úr umfjöllun sjónvarpsstöðvarinnar SKY 27. febrúar 2017 um námuvinnslu barna í Kongó.
Skjáskot úr umfjöllun sjónvarpsstöðvarinnar SKY 27. febrúar 2017 um námuvinnslu barna í Kongó.
Fréttaskýring 31. október 2017

Skuggahliðar rafbílavæðingarinnar

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Notkun rafknúinna farartækja virðist vera mun rökréttari leið, ekki síst fyrir okkur Íslendinga, en notkun á farartækjum sem knúin eru dýru, innfluttu og mengandi eldsneyti. Hefur þetta m.a. borið á góma í máli frambjóðenda í komandi alþingiskosningum. Er samt allt eins fallegt í þessum efnum og reynt er  að segja okkur, eða á rafbílavæðingin líka sínar kolsvörtu skuggahliðar sem þola illa dagsljósið og fáir vilja tala um?

Á vefsíðu Amnesty International var birt athyglisverð grein þann 29. september síðastliðinn um skýrslu sem upphaflega kom út 2016 og var birt í TIME. Greinin fjallar um dökku hliðarnar á rafbílavæðingunni í heiminum þar sem flett er ofan af misnotkun á vinnuafli [The Dark Side of Electric Cars: Exploitative Labor Practices]. Í ljósi upplýsinga sem þar koma fram eru allir sem kaupa sér rafbíla í dag í raun að taka þátt í alvarlegri misnotkun á vinnuafli og vafasömum viðskiptaháttum í löndum þar sem hráefnið fyrir rafgeymana í fínu rafbílana er unnið. Sama má reyndar segja um okkur öll sem kaupum og notum snjallsímana góðu, þótt hlutfallslega fari tiltölulega lítið af kóbaltinu í framleiðslu á rafhlöðum í símana (ca 10 grömm) og fartölvurnar (ca  500 g) miðað við bílarafhlöðurnar (10 kg eða meira). Safnast þó er saman kemur.

Í skugga fjárhagslegra hagsmuna

Greinin er athygliverð, ekki síst í ljósi þeirrar áherslu sem margir stjórnmálamenn leggja nú á rafbílavæðingu, bæði á Íslandi og víðar um heim. Allt er það gert á þeim forsendum að þannig verði helst dregið úr losun kolefnis út í andrúmsloftið. Rafbílavæðingin snýst þó ekki bara um þau frómu markmið að bæta loftgæði, heldur snýst þetta ekki síður um þann blákalda veruleika sem felst í gríðarlegum fjárhagslegum hagsmunum sem þar eru á bakvið. Þar eru öfl sem nýta auðvitað sína fjármuni líka til að hafa áhrif sem víðast, m.a. með styrkjum inn í ótrúlegustu félagasamtök sem leiða umræðuna, slíkt er ekkert nýnæmi.

Höfundur greinarinnar er Mark Dummet, sem fæst við rannsóknir á brotum er varðar mannréttindi og vafasama viðskiptahætti fyrir Amnesty International. Hann starfaði áður sem fréttaritari hjá BBC. Hann hefur m.a. verið að skoða skuggahliðar olíuiðnaðarins í Nígeríu og kóbaltvinnslunnar í Kongó, en kóbalt er undirstöðuhráefni í rafgeymaframleiðslunni.

Í nafni minnkunar á kolefnismengun

Í greininni segir að nýlega hafi skosk yfirvöld kynnt áætlun um að fækka bensín- og dísilbílum fyrir 2032. Árið 2040 eiga einungis að vera rafdrifin ökutæki á vegunum um allt Bretland. Skipta á út bensínstöðvum fyrir rafhleðslustöðvar. Á sama tíma hefur hugsjónamaðurinn og frumkvöðullinn Elon Musk kynnt markaðssetningu á Tesla Model 3 rafbílnum sem hann vonast til að geti orðið fyrsti rafbíllinn í alvöru fjöldaframleiðslu á heimsmarkaði.  Það að skipta yfir í svokallaða græna orkugjafa hefur verið tekið fagnandi um allan heim. Borgir um allan heim, frá London til Delí á Indlandi, eru að kafna í mengun frá ökutækjum. Það að skipta yfir í rafknúin ökutæki mun sannarlega  auka loftgæði og minnka kolefnislosun í borgunum. Svo sem ekki vanþörf á þar sem óhófleg kolefnislosun er talin vera að komast á það stig að ekki verði aftur snúið. 

Það eru þó ekki allir rafbílar með eins siðferðislega hreinan bakgrunn og framleiðendur vilja láta okkur halda. Þann málflutning hafa margir stjórnmálamenn stutt dyggilega og ganrýnislaust. Rannsókn Amnesty International sýna hins vegar að við vinnslu á kóbalti í námum í Afríku er óspart verið að nota börn ekki síður en fullorðna við stórhættulegar aðstæður. Allt er það gert til að tryggja hráefni fyrir stærstu bílaframleiðendur heims.

Um 60% af kóbaltframleiðslu heimsins kemur frá Kongó

Kóbalt er lykilhráefni í endur­hlaðanlegar lithium-ion rafhlöður sem notaðar eru í rafbílana og reyndar einnig í okkar ómissandi farsíma. Alls komu 66 þúsund af 123.000 tonna heimsframleiðslu árið 2016 frá Kongó (DCR) eða 49%. 

Þrátt fyrir að vera auðugt af dýrmætum jarðefnum þá er þetta eitt fátækasta ríki heims. Í ríkinu sem kennir sig svo mjög við lýðræði hefur viðgengist mikil spilling í þeirri elítu sem verið hefur við stjórn hverju sinni. Þá stöðu hafa ráðamenn varið fyrir íbúum landsins með vopnavaldi sem helstu vopnaframleiðsluríki heims hafa hagnast vel á. Mikið atvinnuleysi hefur verið í landinu og því hafa konur, karlar og börn neyðst til að vinna í námum landsins við léleg kjör til að reyna að hafa í sig og á.

Í úttekt Amnesty International kemur fram að samkvæmt upplýsingum yfirvalda í Kongó, þá komi um 20% af því kóbalti sem flutt er út frá landinu úr „handvinnslu“námum. Það er mun ódýrara kóbalt en fæst úr iðnaðarnámunum þar sem beitt er stórvirkum vinnuvélum. Ástæða verðmunarins er hversu léleg laun námufólkið, börn og fullorðnir karlmenn og konur, fær fyrir sína vinnu. Vegna sívaxandi eftirspurnar eftir kóbalti, m.a. vegna aukinnar rafbílavæðingar, þá er stöðugt verið að opna nýjar „handvinnslu“ kóbaltnámur í Kongó. Allt þetta hráefni endar hjá örfáum fyrirtækjum sem eru yfirgnæfandi á rafhlöðumarkaðnum. 

Allt niður í sjö ára börn í námuvinnslu

Í samvinnu við Congolese NGO, Afrewatch komst Amnesty International að því að börn allt niður í sjö ára gömul væru notuð til að vinna í kóbaltnámunum. Þar þurfa þau að anda að sér skaðlegum efnum. Var ekkert þeirra, né heldur fullorðið fólk sem starfaði með börnunum, með andlitsgrímur til að verjast innöndun á kóbaltryki. Það getur orsakað banvæna lungnasjúkdóma. Svipaða sögu segir SOMO, rannsóknarmiðstöð á starfsemi fjölþjóðlegra fyrirtækja. Þeir segja löggjöf í Kongó ekki  taka tillit til öryggis fólksins sem vinnur við námuvinnsluna. Beitti SOMO sér fyrir samvinnu í þessum efnum við „ábyrgðarmikil fyrirtæki í námuvinnslu fyrir rafeindaiðnaðinn“, Friends of the Earth og samtök um að stöðva vinnu barna.

Kongó á sér vissulega blóðuga sögu í þessum efnum og má að sumu leyti líkja þessu við frásagnir um þrælkun innfæddra sem lýst er í bókinni King Leopold´s Ghost eftir Adam Hochschild. Þar er fjallað um Kongó sem var undir stjórn Leópolds II Belgíukonungs á árunum 1885 til 1906. Þar voru sjálfsögðustu mannréttindi gjörsamlega fótum troðin.

UNICEF telur að um 40 þúsund börn vinni í námunum

Auk erfiðisvinnu barna og fátæklinga í kóbaltnámunum í Kongó er algengt að námur falli saman og fólk sé þar grafið lifandi. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur áætlað að yfir 40.000 börn vinni í kóbaltnámum í sunnanverðu Kongó. Þau gætu þó verið mun fleiri þar sem engar opinberar skrár eru haldnar um þetta ódýra vinnuafl.

Endar hjá stærstu rafbílaframleiðendum heims

Með því að notast við gögn fyrirtækja komust rannsakendur Amnesty International að því að verulegur hluti af kóbaltinu sem flutt er út frá Kongó fari til kínverskra kaupenda og kóbaltbræðslufyrirtækja og síðan í gegnum rafhlöðuframleiðendur í Kína og Suður-Kóreu. Þær rafhlöður fara síðan að stórum hluta til stærstu rafbílaframleiðenda heims. 

Leiðbeinandi reglur OECD hafðar að engu

Þessi staða hefur verið mikið feimnismál í umræðunni um að auka vægi rafbíla til að stemma stigu við kolefnisútblæstri. Vegna þess gaf Efnahags- og þróunarsamvinnustofnunin (OECD) út leiðbeinandi reglur árið 2012 til fyrirtækja sem höndluðu með kóbalt frá Kongó og öðrum ríkjum þar sem mögulega er verið að fara illa með vinnuafl. Samkvæmt þeim reglum ættu rafbílaframleiðendur og rafhlöðuframleiðendur að geta sagt til um uppruna á því kóbalti sem notað er í rafgeymana eða rafhlöðurnar. Þá ættu þessi fyrirtæki að gera það opinbert hvort þeirra fjárfestingar í kóbaltvinnsluverksmiðjum byggðu á að á bak við þá vinnslu væri unnið að kostgæfni við að virða almenn mannréttindi og koma í veg fyrir misnotkun á fólki.

Það þarf svo sem enga lögspekinga til að sjá að þessi tilmæli eru algjörlega máttlaus. Þegar ekki er einu sinni hægt að segja til af öryggi um uppruna matvæla víða um heim, þá þarf örugglega ekki að búast við því að einhverjir farmar af kóbaltgrjóti hafi með sér vottorð um að það sé unnið í námum sem byggja vinnsluna m.a. á störfum barna.

Að sögn Mark Dummet hafði Amnesty International samband við marga af stærstu rafbílaframleiðendum heims og spurði út í hvort tilmælum OECD hafi verið fylgt. Ekki eitt einasta þeirra sagðist í raun hafa gert það.

Í Bandaríkjunum voru settar reglur árið 2010 um svokölluð umdeild steinefni eða „conflict minerals“, en þar er kóbalt undanskilið. Svipaðar reglur voru settar í Evrópusambandinu fyrr á þessu ári þar sem líka er horft framhjá kóbalti. Greinarhöfundur segir að það séu samt engar afsakanir fyrir ríkustu fyrirtæki heims að forðast áreiðanleikakannanir um með hvaða hætti vinnslan á kóbalti fari fram.

Síma- og tölvufyrirtækin sýna lit en bílaframleiðendur ekki

Mark Dummet segir að síðan skýrsla Amnesty International kom út 2016, þá hafi allavega náðst einhver árangur. Nokkur fyrirtæki, þar á meðal í Kína, hafa myndað það sem þau kalla frumkvæði um ábyrga kóbaltnotkun eða „Responsible Cobalt Initiative“. Er það gert til að hjálpa fyrirtækjum við að framkvæma áreiðanleikakannanir á uppruna kóbalts samkvæmt tilmælum OECD. Einnig að taka á málum er varða notkun á börnum sem vinnuafli í Kongó. Í þessu taka nú þátt leiðandi rafeindafyrirtæki eins og Apple, HP, Huawei, Sony og Samsung SDI. Þá er kóbaltbræðslu- og endurvinnslufyrirtækið Huayuo Cobalt þátttakandi í þessu starfi. Það fyrirtæki hefur einmitt keypt kóbalt frá handvinnslunámum. Enn sem komið er er þó enginn rafbílaframleiðandi í þessum hópi.

Hafa má í huga í þessu sambandi að leiðbeinandi reglur OECD eru langt frá því að geta talist mjög afgerandi í afstöðu til vafasamrar námuvinnslu.

Á sama tíma hafa stjórnvöld í Kongó gefið það út að ætlunin sé að taka á vandanum er varðar nýtingu á vinnuafli barna í námuvinnslu. Ekki er þó gert ráð fyrir að því verði hætt fyrr en 2025 og hafa stjórnvöld óskað eftir alþjóðlegri aðstoð við að hrinda því í framkvæmd.

Mark Dummet segir að rafbílaiðnaðurinn  verði að skilja að krafan fari vaxandi um að gagnsæi ríki gagnvart misnotkun á fólki og mannréttindabrotum. Hann segir að sér hafi margsinnis verið sagt af forsvarsmönnum ólíkra fjölþjóðlegra fyrirtækja hversu erfitt það sé að kortleggja framleiðslukeðjuna á kóbalti. Fyrirtæki sem vilji sýna einhverja ábyrgð hljóti þó að átta sig á þeirri miklu áhættu sem stafar af því að nota börn sem vinnuafl í slíkri framleiðslu. Þeir ættu því að sýna viðleitni til að minnsta kosti að reyna að gera sér grein fyrir hverjir það eru sem eru að framleiða kóbaltið sem þeir nota. Einnig við hvaða aðstæður það er framleitt.

Apple reið á vaðið við að nafngreina birgja

Fyrr á þessu ári varð Apple fyrst fyrirtækja til að nafngreina þeirra birgja varðandi uppruna á kóbalti. Það sýnir að þetta er hægt og Dummet spyr: „Hvaða bílaframleiðandi mun vinna kapphlaupið til að gera hið sama?“

Segir Mark Dummet að nú sé farið að heyrast frá fyrirtækjum að þau vilji hætta með öllu að kaupa kóbalt frá handvinnslunámum í Kongó. Þau telja þó jafnframt að þetta geti haft neikvæð áhrif í samfélögum sem reiði sig á námuvinnsluna.

Dummet segir að fyrirtæki sem grætt hafi á vinnu barna ættu ekki að leyfa sér horfa fram hjá vandamálinu sem nú sé búið að upplýsa. Lausnin felist í að koma reglum á handvinnslunámurnar og tryggja öryggi þess fólks sem þar starfar. Þá ætti að senda börnin í skóla í stað þess að senda þau í námurnar.

Ríkisstjórnir um allan heim setji lög um upprunavottun hráefnis

„Ríkisstjórnir um allan heim ættu að setja lög sem skylda fyrirtæki til að kanna og gefa út opinberlega upplýsingar um hvaðan þau fái sitt hráefni. Viljayfirlýsingar eru ekki nóg.

Þetta á ekki að þurfa að vera val á milli tveggja slæmra kosta. Við verðum að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og rafbílar eru óaðskiljanlegur hluti af grænni framtíðarsýn.

Rafbílaframleiðendur sem eru í fararbroddi á markaðnum verða að gjörbreyta sínum venjum og tryggja að þeirra hlutverk í orkubyltingunni sé raunverulega byggt á hreinleika og sanngirni. Græn framtíð sem reist er á baki misnotaðra barna í Kongó er engin framför,“ segir Mark Dummet í grein sinni. 

Skylt efni: rafbílar | kóbolt | Kóngó

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...

Réttalistinn 2024
29. ágúst 2024

Réttalistinn 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Gerum okkur dagamun
13. september 2024

Gerum okkur dagamun

Göngur og góður reiðtúr
13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Bændur selja Búsæld
13. september 2024

Bændur selja Búsæld