Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Queen's háskólinn í Belfast var stofnaður 1908.
Queen's háskólinn í Belfast var stofnaður 1908.
Á faglegum nótum 16. mars 2017

Skordýradeild verður stofnuð á fundi EAAP í Tallin í sumar

Höfundur: Ólafur R. Dýrmundsson
Búfjárræktarsamband Evrópu (EAAP) var stofnað 1949 og hefur Ísland átt aðild að því nærri frá upphafi.
 
Nú eru 34 lönd aðilar að sambandinu, þar af nokkur utan Evrópu, en af aðildarlöndunum eru 26 í Evrópusambandinu.  Einstaklingsaðild er einnig heimil og kom fram á fundinum í Belfast 29. ágúst–2. september 2016 að einstakir félagar væru orðnir 2.331 að tölu. 
 
Ég er enn einn fárra Íslendinga með slíka aðild en sem tengiliður búfjárræktarsambandsins við BÍ um áratuga skeið, allt til starfsloka fyrir tveimur árum,  og sem stjórnarmaður í sambandinu um árabil, hvatti ég og hvet enn til virkrar þátttöku í EAAP. 
 
Þar sem ég hef skrifað reglubundið pistla um búfjárræktarsambandið um 40 ára skeið, fyrst í Frey og síðan í Bbl., held ég enn uppteknum hætti því að íslenskir búvísindamenn, dýralæknar o.fl. geta haft gagn að þeirri margvíslegu faglegu þjónustu sem Búfjárræktarsamband Evrópu veitir, einkum með ráðstefnuhaldi  og útgáfustarfsemi.
 
Blómlegur landbúnaður er stundaður á Norður-Írlandi. 
 
Belfast góður fundarstaður
 
Eftir að friður komst á á Norður- Írlandi er Belfast, með um 300.000 íbúa, orðin eftirsótt ráðstefnuborg. Þar hefur lengi verið miðstöð kennslu og rannsókna í þágu landbúnaðar, einkum í Queen´s University, blómlegur og fjölbreyttur búskapur er stundaður á Norður-Írlandi og með bættum samgöngum er auðveldara en áður að komast í kynni við þessa frændur okkar. Er þá annaðhvort flogið til George Best-flugvallar, sem er nánast í borginni, eða til Aldergrove-flugvallar skammt  norðvestan við Belfast, nánar tiltekið við Neagh-vatn, stærsta stöðuvatn á Bretlandseyjum. 
 
Hitabeltisgróðurhús í glæsilegum grasagarði skammt frá háskólanum.
 
Ráðstefnan var haldin í Waterfront-miðstöðinni, hinni ágætustu vistarveru við Lagan-ána, og hýsti byggingin vel hina 1.200 þátttakendur. Nokkuð handan við ána er stutt í skipasmíðastöð Harland and Wolff sem byggði stórskipið Titanic fyrir rúmri öld og  þaðan er örstutt í Titanic Belfast, glæsilega sýningarhöll þar sem sögu Titanic er gerð góð skil með ljóslifandi  og ógleymanlegum hætti. Þangað fóru flestir þátttakendur og einnig í ráðhús borgarinnar sem, líkt og háskólinn, er í gamalli glæsilegri byggingu. 
 
Vel tekið í ráðhúsinu
 
Ég náði þar tali af borgarstjóranum því að mig langaði til að óska honum til hamingju með framfarirnar sem friðurinn hefur fært Belfast en ég hafði komið þangað 52 árum áður, þegar loft var lævi blandið vegna innbyrðis átaka og ofbeldis. Hann tók kveðju minni alúðlega, sagðist lítið verða var við Íslendinga í heimsókn í ráðhúsinu en þeir væru alltaf velkomnir. 
 
Þetta var ánægjuleg stund fyrir okkur ráðstefnugesti en þaðan var haldið á gamlan matarmarkað, St. George´s Market, þar sem allir fengu að borða og drekka að vild. Þar voru með okkur margir bændur og höfðu nokkrir þeirra sett upp ágæta búfjársýningu í enda hússins þar sem einkum gaf að líta vel ræktaða og hirta nautgripi og sauðfé.
 
Sjálfbær búfjárframleiðsla
 
Meginþema ráðstefnunnar að þessu sinni var sjálfbær matvælaframleiðsla þar sem búfjárrækt gegnir lykilhlutverki. Dagskráin var mjög fjölbreytt, erindi vel flutt, veggspjöld með ágætum og ýmiss konar kynningar opinberra stofnana og fyrirtækja stöðugt í gangi.  Ljóst var hve undirbúningsnefndin sem Breska búfjárræktarfélagið (British Society of Animal Science) myndaði hafði unnið vel í góðu samstarfi við stjórn og starfsfólk búfjárræktarsambandsins. Var allur aðbúnaður með því besta sem ég hef kynnst á slíkum ráðstefnum.  Þetta kom mér reyndar ekki á óvart þar sem ég hef lengi verið félagi í BSAS og er enn að hitta gamla félaga sem ég kynntist eftir námsár mín í Aberystwyth í Wales 1966–1972, en það er önnur saga. 
 
Á kynbótasviðinu var mikið fjallað um erfðamengisúrval sem ryður sér til rúms, velferð búfjár í hinum ýmsu framleiðslukerfum var gerð góð skil og brýn vandamál sem tengjast loftslagsbreytingum og útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá jórturdýrum fengu töluverða umfjöllun. Í yfirlitserindi sem dr. Philippe Chemineau frá Frakklandi, fráfarandi forseti stjórnar Búfjárræktarsambands Evrópu, flutti var lögð áhersla á þörf fyrir aukna búfjárframleiðslu í samræmi við óskir neytenda og í sem bestri sátt við umhverfið. Fæðuöryggi skyldi í heiðri haft og taldi hann að búvísindamenn, dýralækna og aðra sem vinna með bændum í Evrópu vel í stakk búna til að gæta þess með þeim.
 
Þess ber að geta að dagskráin og yfirlit allra erinda og veggspjalda birtist í sérstakri prentútgáfu, Book of Abstracts no. 22 (2016), og er hægt að komast í vefútgáfu af henni í www.eaap2016.org.
 
Töluvert efni frá Íslandi
 
Að þessu sinni var þátttaka Íslendinga með betra móti og töluvert af faglegu, íslensku efni var kynnt, bæði í erindum og á veggspjöldum, mest í hrossadeildinni. Var það á sviði hrossaræktar (dr. Elsa Albertsdóttir og Heiðrún Sigurðardóttir), hestatengdrar ferðaþjónustu (Ingibjörg Sigurðardóttir og Runólfur Steinþórsson) og um kynþroska hesta (dr. Ólafur R. Dýrmundsson, Gunnar Gauti Gunnarsson og Ingimar Sveinsson). Þá lagði sá sem þetta ritar einnig fram efni í sauðfjár- og geitfjárdeild um varðveislu og nýtingu íslenska geitfjárkynsins og tók þátt í skemmtilegum umræðum í hrossadeild um framtíð og varðveislu hrossakynja. Þeim stýrði prófessor Juha Kantanen frá Finnlandi sem er mér og fleirum hér á landi kunnur vegna starfs við verndum erfðaefnis búfjár. 
 
Greindi Juha frá því að nú væru þekkt 905 hrossakyn í heiminum. Erfðagreining hefði farið fram á 36 þessara kynja, sumir erfðahóparnir væru mjög litlir og varðveisla kynja og margvíslegir eiginleikar þeirra væri brýnt viðfangsefni. Þarna væri veruleg eyðing erfðaefnis í gangi og hafa skyldi í huga að búið væri að útrýma 87 hrossakynjum eftir því sem best er vitað.
 
Vert er að geta þess að hrossadeildin ætlar að halda áfram umfjöllun um varðveislu erfðaefnis hrossakynja á ráðstefnunni á þessu ári.
 
Athyglisvert Evrópuverkefni í sauðfjár- og geitfjárframleiðslu
 
Á hinum árlegu ráðstefnum Búfjárræktarsambands Evrópu nota stofnanir, fyrirtæki og fjölþjóðleg verkefni margvísleg tækifæri sem gefast til kynningar. 
 
Ég nefni hér aðeins eitt Evrópuverkefni, sem 34 aðilar, þar með Búfjárræktarsambandið sjálft, í sex ESB-löndum taka þátt í og beinist að sjálfbærri þróun í sauðfjár- og geitfjárframleiðslu. Ber verkefnið heitið iSAGE , því var hleypt af stokkunum í mars 2016 og skal því lokið 2020 en Aristótelusarháskóli í Þessalóniku í Grikklandi er samræmingaraðili verk­efnisins. Megináhersla er lögð á aukna hagkvæmni framleiðslunnar, að gera miklar kröfur til dýravelferðar, taka tillit til umhverfisbreytinga og stuðla að verndum auðlinda svo sem beitar. Þá er lögð áhersla á tillit til óska neytenda svo og til þjóðfélagslegra viðhorfa í hverju landi en þess verði jafnframt gætt að bændur hafi starfsgrundvöll og sveitabyggðir fái að viðhaldast og dafna með sjálfbærum hætti. Þarna verður m.a. tekið tillit til loftslagsbreytinga en af þeim stafar veruleg ógn, sérstaklega vegna þurrka.
 
Framtíðarsýn – ný verkefni á næstu ráðstefnu
 
Næsta ráðstefna Búfjárræktar­sambands Evrópu, sú 68., verður haldin í Tallin í Eistlandi dagana 28. ágúst–1. september 2017 og er undirbúningur nú í fullum gangi. Hægt er að fá upplýsingar um hana á vefsíðunni www.eaap2017.org.
 
Eftir því sem næst verður komist má reikna með góðri dagskrá og móttökum í Tallin en í Eistlandi er stundaður fjölþættur búskapur, þar með eru þar verulegar framfarir í lífrænni landbúnaðarframleiðslu. Hér nefni ég aðeins tvo væntanlega dagskrárþætti sem trúlega munu vekja töluverða athygli:
 
Nákvæmnisbúfjárrækt 
 
Um er að ræða umfjöllun um þá búskaparhætti sem á enskri tungu hafa verið nefndir „Precision Livestock Farming“ og hafa þróast út frá „Precision Agriculture“ og átti þá fyrst einkum við nytjajurtarækt og akuryrkju. Þetta er í sjálfu sér ekki ákjósanleg þýðing  á hugtakinu en í stuttu máli má segja að með ýmiss konar hátæknibúnaði og tölvustýringarkerfum er leitast við að nýta betur aðföng svo sem við áburðardreifingu og fóðurgjöf. Þá er reynt að spara vinnuafl og létta störf, nýta róbóta þar sem því verður við komið, koma upp eftirliti með útskolun áburðarefna, einkum köfnunarefnis og stuðla að góðri og hagkvæmri ákvarðanatöku á sveitabýlum. 
 
Um þetta efni hefur verið fjallað töluvert á ráðstefnum sambandsins um árabil. Á ráðstefnunni í Tallin í sumar verður sérstök allsherjardagskrá um þetta efni einn morguninn með erindum frá bæði Evrópu og Bandaríkjunum. Annað verður ekki í gangi í hinum ýmsu deildum á þeim tíma þannig að allir eiga að geta hlýtt á erindin sem sýnir hve mikil áhersla er lögð á efnið.
 
En meira kemur til því að svokallaður „Framtíðarhópur“ hefur m.a. gert þá tillögu til sambandsstjórnarinnar að stofnuð verði ný deild innan sambandsins sem setji framvegis upp dagskrár ár hvert fyrir nákvæmnisbúfjárrækt. Þannig á að gera þennan lið varanlegan vegna mikilvægis hans.
Sú deild verður sennilega stofnuð í Tallin í sumar.
 
Skordýraframleiðsla
 
Á seinni árum hafa skapast miklar umræður í heiminum um leiðir til að auka framleiðslu fóðurs og matvæla, einkum próteins, með hagkvæmum og umhverfisvænum hætti. Hafa nokkur erindi verið flutt um þetta efni á ráðstefnum sambandsins. En nú á að taka þetta efni fastari tökum að tillögu „Framtíðarnefndarinnar“ þannig að reikna má með að ný skordýradeild verði stofnuð hjá EAAP í Tallin í sumar.
 
Fyrir nokkrum árum hefði slíkt þótt saga til næsta bæjar en staðreyndin er sú að töluverð þróun er í eflingu skordýraræktar í heiminum sem lið í hagkvæmri  áburðar-, fóður- og matvælaframleiðslu. Nýta megi hráefni á borð við ýmiss konar plöntuleifar til að framleiða  lífrænan áburð, og er reiknað með að hagkvæm nýting á landi og vatni með hjálp skordýra stuðli ekki aðeins að framleiðslu á prótein- og vítamínríku fóðri og matvælum heldur geti nýting skordýra verið liður í mótvægisaðgerðum landbúnaðar gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þannig megi m.a. draga úr framleiðslu nautakjöts sem veldur miklu umhverfisálagi. Búfjárræktarsambandið hyggst leggja áherslu á framleiðslu fóðurs með skordýrum fyrsta kastið en beita sér einnig fyrir rannsóknum, atvinnusköpun og vinnslu með þessum nýstárlega hætti á fæðu úr skordýrum til manneldis. 
 
Evrópusambandið mun vera byrjað að huga að þessum málum en þau fá ekki neinn forgang þar enn sem komið er. Mér er kunnugt um að lífræni geirinn í álfunni er farinn að gefa skordýraframleiðslu gaum og þá helst vegna öflunar lífræns áburðar og próteinríks fóðurs fyrir lífrænt vottaða alifuglarækt. Enn skortir þó reglur um slíka framleiðslu.
 
Mikil útgáfustarfsemi
 
Búfjárræktarsamband Evrópu hefur ætíð staðið að ýmiss konar útgáfustarfsemi; vísindaritum, ráðstefnuritum og bókum auk fréttabréfs, EAAP Newsletter, sem nýlega fékk heitið EAAP Flash-e-News og berst öllum félögum mánaðarlega með rafrænum hætti. Þá er vefsíðan www.eaap.org öllum opin.
 
 Flaggskipið er vísindaritið ANIMAL sem EAAP gefur út í samvinnu við Breska búfjárræktarfélagið og Frönsku landbúnaðarrannsóknastofnunina (INRA). Það  fagnar nú 10 ára afmæli og hefur náð háum gæðastuðli miðað við önnur slík rit í heiminum. Þá er rétt að nefna ritin Advances in Animal Biosciences og Animal Frontiers en það síðastnefnda gefur EAAP út í samvinnu við landbúnaðarvísindafélög í Bandaríkjunum og Kanada.
 
Nýr stjórnarformaður – vaxandi starfsemi
 
Nú er nýr stjórnarformaður tekinn við af dr. Philippe Chemineau, dr. Matthias Gauly frá Þýskalandi. Framkvæmdastjóri sem fyrr er dr. Andrea Rosati frá Ítalíu en skrifstofa EAAP er í Rómarborg. Þeim sem vilja kynna sér kosti einstaklingsaðildar (individual membership), sem er endurgjaldslaus, er bent á að hafa samband við Eleanora Azzaro í eaap@eaap.org.
 
Nú er mikil gróska í búfjárræktarsambandinu og tel ég þangað mikið að sækja, nú sem fyrr.
 
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson,
fyrrverandi landsráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, nú sjálfstætt starfandi búvísindamaður. Hann hóf þátttöku í starfsemi Búfjárræktarsambands Evrópu fyrir rúmlega 40 árum eftir kynningu og hvatningu frá dr. Halldóri Pálssyni búnaðarmálastjóra.
Starfshópur um stofnun þjóðgarðs
Fréttir 9. september 2024

Starfshópur um stofnun þjóðgarðs

Drífa Hjartardóttir hefur verið skipuð formaður starfshóps sem á að undirbúa og ...

Atrenna að minni losun landbúnaðar
Fréttir 6. september 2024

Atrenna að minni losun landbúnaðar

Í uppfærðri aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, sem kynnt var í vor og e...

Verkefnisstjórn loftslagsaðgerða
Fréttir 6. september 2024

Verkefnisstjórn loftslagsaðgerða

Ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var kynnt um miðjan júní. Nýlega var skipuð ve...

Nýr hornsteinn lagður að Sögu
Fréttir 5. september 2024

Nýr hornsteinn lagður að Sögu

Lagður var nýr hornsteinn að húsinu sem lengst af gekk undir nafninu Bændahöllin...

Upplýsingasíða um riðuvarnir
Fréttir 5. september 2024

Upplýsingasíða um riðuvarnir

Karólína Elísabetardóttir í Hvammshlíð, frumkvöðull í riðumálum, hefur tekið sam...

Hálfíslenskur bóndi á lífrænu búi
Fréttir 5. september 2024

Hálfíslenskur bóndi á lífrænu búi

Á ferð sinni um Jótland hitti Magnús Halldórsson, umsjónarmaður Vísnahorns Bænda...

Viðfangsefnin spanna alla virðiskeðjuna
Fréttir 5. september 2024

Viðfangsefnin spanna alla virðiskeðjuna

Matís gaf Grænmetisbókina út í sumar, sem er heildstætt vefrit um margar hliðar ...

Óviðjafnanleg fágun
Fréttir 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...

Brögðóttur Aðalsteinn
10. september 2024

Brögðóttur Aðalsteinn

Heimsframleiðslan 37 milljarða virði
10. september 2024

Heimsframleiðslan 37 milljarða virði

Manstu vorið?
10. september 2024

Manstu vorið?

Berjaflóra Íslendinga
10. september 2024

Berjaflóra Íslendinga

Af hverju lífræni dagurinn?
10. september 2024

Af hverju lífræni dagurinn?