Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Hér klýfur Sigríður Sigurfinnsdóttir, skógarbóndi í Hrosshaga í Biskupstungum, eldivið. Hjá henni standa Björn Bjarndal Jónsson, verkefnisstjóri afurða- og markaðsmála hjá Skógræktinni, Björgvin Eggertsson hjá starfs- og endurmenntunardeild LbhÍ og Ólafur
Hér klýfur Sigríður Sigurfinnsdóttir, skógarbóndi í Hrosshaga í Biskupstungum, eldivið. Hjá henni standa Björn Bjarndal Jónsson, verkefnisstjóri afurða- og markaðsmála hjá Skógræktinni, Björgvin Eggertsson hjá starfs- og endurmenntunardeild LbhÍ og Ólafur
Mynd / Pétur Halldórsson
Fræðsluhornið 4. júlí 2017

Skógur er fróðleiksbrunnur

Höfundur: Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Skógræktarinnar
Mannkynið á skógum að þakka tilvist sína. Áður en skógar tóku að vaxa á jörðinni var magn koltvísýrings í lofthjúpi jarðar fimmtán sinnum meira en nú og við þær aðstæður hefði stór hluti þeirra lífvera sem nú lifa á jörðinni ekki getað þrifist. Skógarnir bundu kolefnið og lofthjúpurinn breyttist. Skógarnir voru auðvitað ekki einir að verki því allar ljóstillífandi lífverur svo sem gróður á landi og þörungar í sjó áttu sinn þátt í að búa í haginn fyrir okkur mennina.
 
Að ganga inn í skóg er eins og að ganga inn í alfræðiorðabók. Í skóginum eru að verki öfl sem ekki verða skýrð nema með þekkingu eðlisfræðinnar, efnafræðinnar, jarðfræðinnar, líffræðinnar og annarra náttúruvísinda. Það er kraftaverki líkast að hátt tré geti sogið upp vatn í sínar efstu greinar og lauf. Undraveröld sveppa og örvera býr í jarðveginum og er ómissandi þáttur í að skógurinn geti þrifist. Í árhringjum trjánna má lesa veðurfarssöguna en hringirnir minna okkur líka á sögulega viðburði, samspil manns og náttúru og að trén eru langlífar plöntur sem vinna verk sín hljóðlega en ákveðið. 
 
Skógurinn gefur
 
Ekki er víst að allir hafi hugleitt hversu margar fæðutegundir eru sprottnar upp í skógum heimsins eða tíndar af trjám. Ávextir og ber, hnetur, olíur, krydd, rætur, grænmeti og auðvitað dýrategundir sem þrífast í skógi. Margvísleg lyf og hollustuefni eiga uppruna sinn í skóginum líka. Svo hefur verið sýnt fram á að skógur á landi stuðlar að auknu lífi í ám, vötnum og sjó með því að losa nauðsynleg næringarefni eins og nefnt var í þarsíðasta tölublaði Bændablaðsins.
 
Olíuhagkerfið eða jarðefna­hagkerfið er að renna sitt skeið. Það hófst með iðnbyltingunni en hefur nú náð hámarki. Nú vinnur mannkynið að því að koma sér út úr þeim vítahring að nota kol, olíu og gas sem orkugjafa. Nýting jarðefnaeldsneytis er einstefnunýting. Teknar eru auðlindir sem myndast hafa á milljónum ára. Þeim er brennt á einu augabragði og eftir situr aukið magn koltvísýrings í lofthjúpnum sem veldur því að jörðin hitnar. Í stað einstefnu þurfum við hringrásir. Lífhagkerfið tekur við af jarðefnahagkerfinu og það er byggt á hringrásum.
 
Eldiviður er dæmi um hringrás. Viðurinn er tekinn í skóginum og gefur hita þegar hann brennur í eldavél eða kynditæki. Upp stígur koltvísýringur rétt eins og þegar olía, kol eða gas brennur. Munurinn er hins vegar sá að ef jafnmikill skógur vex upp aftur og sá sem felldur var eykst ekki magn koltvísýrings í andrúmsloftinu við brennslu trjáviðar. Þannig er kolefnishringrás skógarins. En þetta er ekki eina hringrásin í skóginum. Skógur er öflugt vistkerfi sem kemur sér upp næringarefnaforða. Næringarefnin nýtast aftur og aftur og með skynsamlegri nýtingu skógarins gengur ekki á næringarefnaforða hans. Skógur er því eins konar eilífðarvél en auðvitað er það orka sólarinnar sem drífur vélina áfram.
 
Hringrásir vatns eru sömuleiðis að verki í skóginum. Skógur dregur bæði úr hættunni á þurrkum og flóðum. Hann hægir á rennsli vatns og vatnið nýtist því lífkerfinu mun betur en á illa grónu landi þar sem það rennur hindrunarlaust. Vatnið gufar upp af skóginum og skóglendi heimsins er eitt af því sem drífur úrkomukerfi jarðarinnar áfram. Uppstreymi yfir skógunum veldur því að rakt loft kemur inn af hafi og hvort tveggja veldur úrkomu sem fóðrar vatnavistkerfi á landi og vökvar gróðurinn. Skógar búa til ár og læki.
 
Skógur er tilbúin skólastofa þar sem læra má um lífið og tilveruna. Hér ræðir Ólafur Oddsson við þátttakendur á undirbúningsnámskeiði í skógarfræðslu sem haldið var í lok maí í Ólaskógi í Kjós. Mynd / Pétur Halldórsson
 
Úr trjám er hægt að framleiða allt sem nú er framleitt úr jarðolíu. Tækninni fleygir fram í þessum efnum og nú er farið að framleiða ýmiss konar plastefni úr beðmi sem líka er kallað tréni eða sellulósi. Beðmi er fjölsykra sem veitir plöntumfrumum styrk. Þessa fjölsykru má brjóta niður og framleiða ótal efni til ýmiss konar framleiðslu. Timbur er nefnilega ekki bara smíðaviður eða eldsneyti. Úr timbri má búa til líklegasta og ólíklegasta iðnvarning en það má líka nota í framleiðslu á dýrafóðri með hjálp örvera, lyf og margt fleira mætti nefna. Ef við viljum nota áfram bíla og vélar með sprengihreyflum getum við búið til hefðbundið bensín eða díselolíu úr viði ellegar etanól sem sömuleiðis má brenna í hefðbundnum vélum. Það er endurnýjanlegt eldsneyti. Möguleikarnir eru óþrjótandi.
 
Á þessu sést að afurðir úr skógi snerta alla þætti daglegs lífs, orkuna sem við þörfnumst, matinn sem við borðum og vörurnar sem við kaupum. Þar með er skógurinn líka uppspretta lærdóms og þekkingar. Skógræktin vill auka skógarfræðslu, hvetja til skógartengds útináms í skólum landsins og efna til skógarnámskeiða fyrir fólk á öllum aldri eða viðburða sem tengja fólk við skóginn og upplýsa um gildi hans. Fyrir því starfi fer Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktarinnar.
 
Nám í skógarleiðsögn
 
Með vaxandi skógum vantar okkur skógarleiðsögumenn og liður í fræðslustarfi Skógræktarinnar  er að þróa nám í skógarleiðsögn. Slíkt nám getur til dæmis nýst skógarbændum vel. Skógarleiðsögn með fræðslu og upplifun er ein tegund skógarnytja. Með því að bjóða upp á fræðslu og upplifun í skógi sínum getur bóndinn fengið arð af skóginum löngu áður en farið er að uppskera úr honum timbur. 
 
Fróðlegar gönguferðir þar sem bóndinn segir sögu skógar síns og útskýrir hvernig hann er hugsaður getur verið góð viðbót við ferðaþjónustuna. Ekki spillir fyrir ef gestirnir læra að tálga, fá tilsögn í skógarumhirðu, tína sveppi og ber, lyfta trjábolum eða hita kaffi og baka brauð yfir eldi svo nokkuð sé nefnt. Slíkt væri nýsköpun í ferðaþjónustu.
 
Skógurinn er fullur af undrum náttúrunnar og í honum búa ótal tækifæri til athafna, skoðunar, verkefna, undrunar og upplifunar en líka til slökunar og endurnæringar. Skógur er fróðleiksbrunnur.
 
Pétur Halldórsson
kynningarstjóri Skógræktarinnar

Skylt efni: skógur | Skógrækt

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar
Fréttir 27. nóvember 2021

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar

Samkvæmt heimildum Bændablaðsins mun þingmaður Vinstri grænna vera með ráðuneyti...

Bitbein um áburðarnotkun
Fréttir 26. nóvember 2021

Bitbein um áburðarnotkun

Lífrænir bændur í Danmörku geta nýtt sér húsdýraáburð frá ólífrænum búum í meira...

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega
Fréttir 26. nóvember 2021

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega

Í síðasta Bændablaði var greint frá því að samkvæmt könnun sem kynnt var af Euro...

Kolefnissporið kortlagt
Fréttir 26. nóvember 2021

Kolefnissporið kortlagt

Skútustaðahreppur hefur samið við nýsköpunarfyrirtækið Greenfo um að kortleggja ...

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki
Fréttir 25. nóvember 2021

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki

Vetnisvæðing, sem nú er rekin áfram af mikilli ákefð hjá öllum stærstu iðnríkjum...

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama
Fréttir 25. nóvember 2021

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama

Norðmenn hafa upplifað spreng­ingu í uppsetningu vindorkustöðva á undanförnum ár...

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn
Fréttir 24. nóvember 2021

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn

Fyrirtækið Ver lausnir í Garðabæ hefur verið að vinna að athyglisverðu verkefni ...

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts
Fréttir 24. nóvember 2021

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts

Nýr upplýsingabæklingur hefur verið gefinn út undir merkjum Íslensks gæðanauts. ...