Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Karólína Elísabetardóttir.
Karólína Elísabetardóttir.
Mynd / Aðsend
Fréttir 21. október 2021

Segir stutt í að hægt sé að rækta upp ónæmt sauðfé

Höfundur: smh - HKr.

Karólína Elísabetardóttur, sauð­fjár­bóndi í Hvammshlíð í Skaga­byggð, segir að lausnin til að rækta upp verndandi arfgerðareiginleika í sauðfé gegn riðu sé innan seilingar. Samstarf hennar við þýska, enska og ítalska vísindamenn með aðkomu riðusérfræðings á Keldum og ráðunauts frá Ráðgjafar­miðstöð landbúnaðarins, hefur skilað þeim árangri að arfgerðin T137 hefur fundist í tveimur kindum í sömu fjölskyldunni á bæ á Norðurlandi vestra.

„Kindurnar tvær með T137 fundust á Sveinsstöðum í Þingi, rétt við Vatnsdalshóla. Þórður Pálsson frá Matvælastofnun benti mér á þessa hjörð í vor, sem er mjög stutt frá gamla riðusvæðinu í Vatnsdal. Þar hefur samt aldrei komið upp riða – sem er sérstakt. Það var sem sagt í kindinni Þoku sem arfgerðin fannst fyrst og áfram er leitað í fjölskyldu hennar,“ segir Karólína.

Sigurður Sigurðarson dýralæknir segir í grein í Bænda­blaðinu í dag (bls. 40) að leit að arfgerðum í fé, sem verji gegn riðu, sé vissulega af hinu góða. Hins vegar sé óraunhæft að fullyrða, eins og gert hafi verið að undanförnu, að hægt sé að útrýma riðuveiki á 10 árum við aðstæður sem hér eru. Hann segir fullyrðingar líka rangar um að niðurskurður á riðusvæðum hafi engu skilað og vísar í gögn því til staðfestingar.

Þá segir Sæmundur Sveinsson, fagstjóri erfðarannsókna hjá Matís, í viðtali á bls. 8, að það séu að minnsta kosti þrjú sæti í riðugeninu Prnp sem hafa áhrif á næmi sauðfjár gagnvart riðu. „Hinn eiginlegi verndandi eiginleiki í sæti 171 hefur aldrei fundist hér á landi, þrátt fyrir umtalsverða leit,“ segir Sæmundur, en nú á bæta við arfgerðagreiningum á þessum þekkta verndandi breytileika í samstarfsverkefni Matís og Keldna. 

Segir málið furðu einfalt

Karólína segir að arfgerðin T137 hafi í umfangsmiklum rannsóknum á Ítalíu reynst eins verndandi og önnur þekkt verndandi arfgerð – sæti 171 arfgerð R eða ARR – sem notast er við í Evrópu við að byggja upp þolna sauðfjárstofna.

„Ég veit að sumum þykir þetta full bjartsýnt, að lýsa því yfir að lausnin sé handan við hornið. Ég skil vel að embættisfólk og fólk í opinberum stofnunum, eins og vísindamenn, stigi varlega til jarðar,“ segir Karólína. Hún bætir við að allt bendi samt til þess að „kerfið“, sem hefur erlendis virkað vel síðustu 20 ár til að rækta upp stofn með vernd gegn riðu, verði fljótlega hægt að yfirfæra á Ísland. 

„Þótt það hljómi ólíklega við fyrstu sýn þá er málið í rauninni furðu einfalt – ef það er tekið tillit til aðferðarfræðinnar í öðrum löndum. Það þarf bara að leita að arfgerðinni með opnum huga og skipulegum hætti – hefja svo markvissa ræktun út frá þeim gripum sem finnast með arfgerðina,“ segir hún.

Til að vera hundrað prósent viss, sé auk þess á döfinni að prófa gildi aðferðarinnar, para saman ólíka íslenska riðustofna og þessa „nýju“ arfgerð – sem þarf þá að sanna verndargildi sitt.

Fyrsta kynslóðin strax vel varin

Karólína segir að ítölsku rannsóknirnar bendi til þess að T137 virki jafnvel í arfblendnu formi – ólíkt ARR sem þarf helst að koma arfhreint fyrir til að virka fullkomlega verndandi. „Ef þetta verður staðfest mun það flýta mikið fyrir, því fyrsta kynslóðin væri strax vel varin.“

Vegna þess hversu arfgerðin er mjög sjaldgæf í dag yrði þess vegna að passa upp á að koma í veg fyrir skyldleikaræktun. „Mikilvægast er auðvitað fyrst að rækta upp þolinn stofn á „upphafssvæði“ riðu í Skagafirði og Húnavatnssýslum og hinum varnarhólfum þar sem riða hafði komið upp áður. En á meðan fyrirkomulagið með líflambasölusvæðin er enn notað, þar sem líflömb eru seld til riðusvæða, er ekki síður mikilvægt að hafa verndandi arfgerðina einnig þar.“

Arfgerðin T137 hafði fundist í rannsóknum á Keldum sem meðal annarra Stefanía Þorgeirsdóttir stóð að á tíunda áratugnum.

„Núverandi leit eftir þessari arfgerð byggist að hluta til á upplýsingum frá þeim tíma; hún fannst á Núpsstað í Skaftárhreppi og á Enni í Hofshreppi ásamt nokkrum riðubæjum – sem koma eðlilega ekki lengur til greina sem mögulegur grunnur,“ segir Karólína. Þær Karólína og Stefanía Þorgeirsdóttir, riðusérfræðingur á Keldum, hafa í samstarfi við bændur sem þekkja til rakið afkomendur gömlu T137-kindanna á bæina Hvol og Sandfell.

„Því miður er arfgerðin greinilega dáin út á Hvoli, en niðurstöðurnar frá Sandfelli eru væntanlegar í næstu viku,“ segir Karólína.

Hún vonast til að finna fleiri einstaklinga með arfgerðina annars staðar á landinu í haust, í samstarfi við Eyþór Einarsson frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.

Rannsóknin er fjármögnuð af þróunarsjóði sauðfjárræktar og þeim stofnunum erlendis sem taka þátt í henni, meðal annars Justus-Liebig-háskólanum í Giessen og Friedrich-Loeffler-Institut í Greifswald í Þýskalandi. Ef allt gengur að óskum eiga helstu niðurstöðurnar að liggja fyrir í kringum áramótin 2022–2023. – Sjá einnig frétt á bls. 8 í nýju Bændablaði

Skylt efni: riða | riða í sauðfé

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...

Réttalistinn 2024
29. ágúst 2024

Réttalistinn 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Göngur og góður reiðtúr
13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Bændur selja Búsæld
13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Gerum okkur dagamun
13. september 2024

Gerum okkur dagamun