Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Sauðfé hefur fækkað um nær 40% með tilheyrandi stórminnkun beitarálags
Fréttir 26. maí 2016

Sauðfé hefur fækkað um nær 40% með tilheyrandi stórminnkun beitarálags

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Miklar breytingar hafa orðið á íslenskum bústofni á síðustu 33 árum hvað fjölda dýra varðar samkvæmt nýjum tölum búnaðar­málaskrifstofu Matvæla­­stofnunar Íslands (MAST). Þannig hefur vetrarfóðruðu sauðfé fækkað um 307 þúsund, eða um 38,5%. Það þýðir að dregið hefur stórlega úr beitarálagi samfara aukinni uppgræðslu og aukningu gróðurþekju af völdum hlýnunar loftslags.

Búnaðarmálaskrifstofa Matvæla­­stofnunar Íslands er nú komin með allt utanumhald um búfjártölur á Íslandi en þar er unnið ötullega að endurbótum á allri tölfræði hvað þetta varðar. Þannig er ætlunin að talnagrunnurinn gefi sem sannasta mynd af stöðu dýraeldis á Íslandi sem nýtist síðan í hagtölugerð landsins. Samantekt búfjártalna í landbúnaðinum er þó iðulega gerð í samhengi við skýrslugerð bænda á hverju hausti. Í gegnum árin hefur þetta þó ekki verið raunin varðandi hross, þar sem þau voru einfaldlega ekki komin í hús að hausti. Því var oft verið að taka saman tölur um fjölda hrossa fram á vor. Vonast er til að talnaupplýsingar vegna hrossa komist í sama horf og varðandi aðra bústofna strax á þessu ári. Varðandi loðdýraeldið er þó vart að búast við raunhæfum samanburðartölum fyrr en undir áramót hverju sinni vegna eðlis greinarinnar.

Sauðfé hefur stórfækkað

Samkvæmt tölum búnaðarmálaskrifstofu MAST fækkaði sauðfé úr 794.097 í 487.001 á 33 ára tímabili á milli áranna 1982 og 2015. Það er fækkun upp á 307.096 kindur. Lömb eru ekki talin með í slíkum samanburðartölum vegna skamms lífaldurs. Venjan er því í talnasamanburði að tala um vetrarfóðraðar kindur.

Minna beitarálag samfara aukningu á gróðurþekju

Þessi fækkun sauðfjár þýðir jafnframt að beitarálag hefur snarminnkað á þessu tímabili samfara aukinni uppgræðslu og vaxandi gróðurþekju vegna hlýnunar loftslags. Þetta sýna m.a. lífmassakort National Oceanic and Atmospheric Administration (NOAA) og greiningar Náttúrufræðistofnunar Íslands á breytingum á lífmassa á landinu frá 1982 til 2010. Þar er tekið til aukningar lífmassa sem kíló á fermetra. Í samanburði við Rússland, Svíþjóð, Noreg, Finnland, Kanada, Grænland og Bandaríkin, var lífmassaaukning langmest á Íslandi og síðan kom Grænland. Var hún nær áttföld á Íslandi á við aukninguna í Bandaríkjunum, um og yfir fjórföld aukningin í Kanada, Finnlandi og Noregi. Þá var hún tæplega fjórföld aukningin í Rússlandi og ríflega þreföld aukningin í Svíþjóð.

Það er samt ekki þannig að aukningin sé jöfn og stöðug, því sum árin minnkar lífmassinn á ákveðnum svæðum eins og á Austurlandi á árunum 2000 til 2010, en í heildina er veruleg aukning. Aukningin var langmest á árunum 1982 til 1989 og síðan veruleg á árunum 1990 til 1999. Hlutfallslega meiri aukning á Íslandi en í mörgum öðrum löndum skýrist trúlega af því að staðan hafi áður verið lakari hér en annars staðar.

92 þúsund færri alifuglar

Alifuglar voru í fyrra taldir vera 416.779 árið 1982, en voru 324.721 árið 2015. Inni í þeim tölum eru varpfuglar, holdafuglar og eldis­ungar. Alifuglum hefur því fækkað á þessu tímabili um rúmlega 92 þúsund. Hafa verður fyrirvara á þessum tölum um alifugla þar sem þær geta verið mjög breytilegar milli ára vegna skamms lífaldurs kjúklinga og þá við hvaða tímasetningu talning er miðuð.

14 þúsund fleiri nautgripir

Nautgripum hefur aftur á móti fjölgað frá 1981, eða úr 60.611 í 74.444 gripi. Voru þeir því nærri 14 þúsund fleiri á síðasta hausti en fyrir 33 árum.

Nærri 15 þúsund fleiri hross

Hrossum hefur einnig fjölgað á þessu tímabili, eða úr 52.998 í 67.762. Hæstu tölur um hrossaeign landsmanna á þessu árabili hafa þó sýnt um eða yfir 70 þúsund hross.

Hafa verður þó sérstakan fyrirvara um tölur hrossa vegna vanhalda á upplýsingagjöf um hrossaeign og þá aðallega í þéttbýli. Sömuleiðis hefur ekki alltaf verið beitt sömu aðferðafræði við talningu á alifuglum sem og svínum.

Nær þúsund fleiri svín

Árið 1982 töldust vera 1.494 svín í landinu, en þau voru 3.518 árið 2015. Þar er eingöngu verið að tala um gyltur og gelti. Ef eldisgrísir og smágrísir eru hins vegar taldir með þá er talan um 36.556. Slíkt er þó ekki gert í samanburðartölum, þar sem afkvæmatalan getur verið mjög rokkandi milli ára.

Tæplega 50 þúsund loðdýr

Loðdýr voru talin vera 10.365 árið 1982. Þar var fjöldinn kominn í 48.038 dýr árið 2015. Þar er átt við læður og högna. Er þetta fjölgun um tæplega 38 þúsund dýr. Inni í þessum tölum eru minkar langflestir, en þar voru 39.773 læður og 7.920 högnar. Í heildartölunum fyrir síðasta ár eru einnig taldir upp 2 alirefir, 60 feldkanínur, 62 angórakanínur og 221 kjötkanína.

Minkabændur drógu heldur saman seglin í fyrra vegna lágs heimsmarkaðsverðs á skinnum. Hafa ber í huga að loðdýrabændur tala bara um ásettar læður og högna þegar rætt er um stærð greinarinnar, þar sem viðkoman og hvolpafjöldi getur verið mjög breytilegur frá ári til árs.

Skylt efni: Mast | Sauðfé | tölfræði

Svínaflensa í Rússlandi
Fréttir 27. september 2022

Svínaflensa í Rússlandi

Afríska svínaflensan greindist á stóru rússnesku svínabúi í lok sumars. ...

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...