Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Skoðun 4. október 2018

Sagan um hráa kjötið

Höfundur: Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Hinn 14. nóvember 2017 kvað EFTA dómstóllinn upp dóm um að ákvæði íslenskra laga og reglugerðar um leyfisskyldu vegna innflutnings á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólkurvörum væru ekki í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Umrætt leyfisveitingakerfi felur í sér að óheimilt er að flytja inn fyrrgreindar vörur nema með heimild Matvælastofnunar. Slík heimild er ekki veitt nema að lagt sé fram vottorð sem m.a. staðfestir að vörurnar hafi verið geymdar við a.m.k. -18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu.

Undanfarna mánuði hafa íslensk stjórnvöld lagt áherslu á að bregðast við þessari niðurstöðu. Við þá vinnu og í almennri umræðu um næstu skref er mikilvægt að forsaga málsins sé ljós en hún er í meginatriðum eftirfarandi.

1994-2001
Við gildistöku EES-samningsins hinn 1. janúar 1994 var Ísland undanþegið reglum 1. viðauka samningsins varðandi dýra- og plöntuheilbrigði. Hinn 1. janúar 1997 tóku gildi endurskoðaðar reglur á þessu sviði sem leiddu til þess að Ísland hefði að óbreyttu talist þriðja ríki varðandi útflutning á sjávarafurðum til Evrópusambandsins. Það hefði kallað á umfangsmiklar sýnatökur og kostnað. Slík breyting hefði haft verulega skaðleg áhrif á útflutning íslenskra matvæla og því var ákveðið að hefja viðræður um endurskoðun á undanþágu Íslands frá 1. viðauka. Þeim viðræðum lauk með því að Ísland gekkst undir þær gerðir sem vörðuðu sjávarafurðir en hélt undanþágu sinni varðandi búfjárafurðir.

2002-2007
Í febrúar 2002 tók ný matvælalöggjöf Evrópusambandsins gildi en hún fól m.a. í sér að sá aðskilnaður sem áður var milli mismunandi framleiðslugreina, þ.m.t. búfjárafurða og sjávarafurða, var felldur úr gildi. Framkvæmdastjórn ESB fór fram á að Ísland tæki þessa löggjöf upp með heildstæðum hætti í EES-samninginn þar sem ekki væri lengur unnt að innleiða þessar reglur þannig að þær tækju einungis til sjávarafurða.

Ríkisstjórn Íslands samþykkti hinn 18. október 2005 að hafnar yrðu viðræður um mögulega upptöku hinnar nýju matvælalöggjafar ESB. Eitt helsta markmið löggjafarinnar er að dýraheilbrigðiseftirlit eigi sér einungis stað innan upprunaríkis, þ.e. þaðan sem viðkomandi dýr eða vara kemur frá. Þetta var ekki í samræmi við gildandi löggjöf á Íslandi þar sem fyrrgreint leyfisveitingakerfi fól í sér eftirlit á áfangastað. Skilyrði Evrópusambandsins í þeim viðræðum var að undanþága Íslands varðandi búfjárafurðir yrði endurskoðuð og leyfisveitingakerfið þannig fellt niður.

Hinn 2. júní 2006 samþykkti ríkisstjórnin  drög að samkomulagi þar sem gert var ráð fyrir að taka upp hinar nýju reglur og fella niður leyfisveitingakerfið.  Sumarið 2007 náðist endanlegt samkomulag í þessum viðræðum. Í því fólst m.a. að endurskoðuð matvælalöggjöf Evrópusambandsins yrði tekin upp í 1. viðauka við EES-samninginn og staða Íslands sem hluti af hinum innri markaði var þannig tryggð. Þá fékk Ísland sérstaklega 18 mánaða frest til þess að innleiða þann hluta sem snéri að búfjárafurðum og afnema þannig leyfisveitingakerfið. Ríkisstjórnin veitti hinn 22. október 2007 heimild fyrir því að samþykkja ákvörðun EES-nefndarinnar sem var í samræmi við  samkomulagið.

2008
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði í tvígang fram frumvarp á Alþingi á árinu 2008 með það að markmiði að leiða matvælalöggjöf ESB í lög. Þau frumvörp voru í samræmi við það samkomulag sem íslensk stjórnvöld höfðu gert við ESB og sameiginlega EES-nefndin hafði samþykkt. Í því fólst að innleiða matvælalöggjöf ESB í íslensk lög og afnema þannig séríslenska leyfisveitingakerfið. Frumvörpin voru ekki útrædd á Alþingi og urðu ekki að lögum.

2009
Í október 2009 lagði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram sambærilegt frumvarp sem þó hafði tekið nokkrum breytingum. Þeim er þannig lýst í greinargerð með frumvarpinu: “Frumvarp þetta er í samræmi við efnisákvæði ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar að öðru leyti en því að innflutningsbann á hráu kjöti og hráum eggjum skv. 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, helst og er ekki afnumið.” Frumvarpið var samþykkt á Alþingi hinn 18. desember 2009 og hefur leyfisveitingakerfið verið óbreytt síðan þá. Með þeirri samþykkt staðfesti Alþingi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um innleiðingu matvælalöggjafar ESB og við gildistöku laganna 1. mars 2010 hófst fyrrgreindur 18 mánaða aðlögunarfrestur íslenskra stjórnvalda að matvælalöggjöf ESB.


2011-2017
Undir lok árs 2011 sendu Samtök verslunar og þjónustu kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem kvartað var yfir innflutningsbanni á hráu kjöti. Með rökstuddu áliti hinn 8. október 2014 komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum og skorað var á íslensk stjórnvöld að lagfæra löggjöfina í samræmi við þær skuldbindingar. ESA vísaði málinu til EFTA dómstólsins 30. janúar 2017. Í dóminum sem kveðinn var upp 14. nóvember sama ár er vísað til fyrrgreinds markmiðs matvælalöggjafar Evrópusambandsins um eftirlit innan upprunaríkis. Þá kemur fram að löggjöf sem kveður á um dýraheilbrigðiseftirlit í ríki áfangastaðar í öðrum tilvikum en þeim sem tilskipunin heimilaði sérstaklega væri því ósamrýmanleg löggjöfinni. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að íslenska leyfisveitingakerfið væri ekki í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Staða málsins í dag
Eftir allt sem á undan er gengið er staðan sú að EFTA dómstólinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum með því að viðhalda leyfisveitingakerfinu. Íslensk stjórnvöld hafa ekkert val um annað en að bregðast við þeirri niðurstöðu enda miklir þjóðhagslegir hagsmunir í húfi að staða Íslands sem hluti af hinum innri markaði sé tryggð. Reglur þær, sem deilt var um í þessu máli, tryggja að flytja megi út íslenskar landbúnaðar- og sjávarafurðir án kostnaðarsams og tímafreks eftirlits á viðtökustað. Í því felast mikil verðmæti en árið 2016 nam heildarútflutningur íslenskra landbúnaðar- og sjávarafurða til markaða innan Evrópusambandsins um 176 milljörðum króna.

Í ljósi þessa hafa stjórnvöld frá því dómurinn var kveðinn upp lagt ríka áherslu á að vinna að úrlausn þessa máls. Þannig má geta þess að íslensk stjórnvöld sendu í júlí sl. inn umsókn um viðbótartryggingar til Eftirlitsstofnunar EFTA. Slíkar tryggingar, sem önnur norðurlönd hafa þegar fengið, munu gera stjórnvöldum kleift að krefjast ákveðinna vottorða um að tilteknar afurðir séu lausar við salmonellu. Þá er unnið að fjölmörgum aðgerðum, m.a. varðandi kampýlóbakter.

Loks má geta þess að íslensk stjórnvöld hafa hafið viðræður við bæði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnun EFTA varðandi næstu skref stjórnvalda í málinu. Á þeirri vegferð legg ég áherslu á að við stöndum við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist en tryggjum á sama tíma öryggi matvæla og vernd búfjárstofna.
 

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...